Það sem vantar í íslenska fjölmiðlaflóru

Íslensk fjölmiðlaflóra er frekar einsleit. Kannski er það óumflýjanlegt á litlum markaði: Ekki er ráðrúm til að framkvæma ítarlega rannsóknarblaðamennsku á hverri einustu innantómu yfirlýsingu alltof margra stjórnmálamanna. 

Þó er einsleitnin oft alveg yfirdrifin og þá má velta því fyrir sér hvers vegna.

Ég er með kenningu:

Blaðamenn eru oftar en ekki mjög klárir einstaklingar. Þetta er fólk sem fylgist með umræðunni og telur sig vera vel með á nótunum. Það kann yfirleitt að setja sig inn í málin og skrifa læsilegan texta.

Um leið er þetta klára fólk af þeirri sannfæringu að það sé upplýstara en almenningur almennt og í betri aðstöðu en aðrir til að segja hvað virkar vel og hvað virkar illa í samfélaginu, og hvað þarf að gera til að láta það sem virkar illa virka vel. Það telur sig vita hvernig ríkisvaldið getur reist girðingar svo hjörðin sem almenningur er fari sér ekki að voða. Það telur sig vita hvernig skattkerfið á að vera skrúfað saman (þeir ríku eigi að borga meira og allt það).

Með öðrum orðum: Blaðamenn eru flestir sjálfumglaðir vinstrimenn.

Þessi kenning útskýrir að hluta einsleitnina í fjölmiðlaflórunni en ekki hvers vegna sjálfumglaðir vinstrimenn fylla flest sæti ritstjórna og blaðamanna. Hvar eru hógværu hægrimennirnir, sem vilja bara að fólk fái sem mesti svigrúm til að leita hamingjunnar á eigin vegum?

Þeir hægrimenn leita kannski ekki í blaðamennskuna. Þeir vilja láta hendur standa fram úr ermum, og framleiða verðmæti með hæfileikum sínum og getu. Þeir nenna ekki að básúna í sífellu skoðunum sínum yfir hausamótum annarra í gegnum hlutdræga fréttasmíði. Þeir ná sér í verðmætaskapandi menntun eða þjálfun og hefjast handa. Blaðamennska er fyrir þeim innantómt gaul úr tómri tunnu, og það blasir líka við að það er engin sérstök eftirspurn eftir kröftum þeirra hjá fjölmiðlunum.

Það er kannski af þessari ástæðu að flestir íslenskir fjölmiðlar eru hálfdauðar skeljar sem lifa af eigin fé eigenda þeirra. Þeir eru allir að eltast við sama markhópinn og sjá einfaldlega ekki aðra mögulega viðskiptavini.

Eftir að Vefþjóðviljinn fór í nánast algjöran dvala hefur vantað aðhald frá hægri í íslenska fjölmiðlaflóru. Þar er óplægður akur. Ætlar enginn að sækja á hann?


mbl.is Uppsagnir hjá DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í þessu samhengi langar mig að minnast á Bændablaðið. Þar er ekkert innantómt gaul. Þar eru góðar og vandaðar greinar sem varða land og þjóð.Þar er ekki níddur skórinn af nokkrum manni. Mér er sérstaklega í minni umfjöllun blaðsins um umfang og yfirbyggingu lífeyrissjóðanna sl. sumar. Þótt Bændablaðið komi aðeins út á tveggja vikna fresti þá dugar það vel tilumhugsunar fram að næsta blaði.

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 5.2.2019 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband