Laugardagur, 26. janúar 2019
Bretar gætu leyft bognar agúrkur
Aðild að ESB fylgja ýmis réttindi en líka töluvert af kvöðum.
ESB vill til dæmis að agúrkur séu beinar því það á að gera flutningsaðilum kleift að troða fleiri ágúrkum í sama kassa. Bretar gætu óskað eftir bognum agúrkum.
ESB heimilar Norðmönnum að gera hitt og þetta innan ESB í gegnum EES-samninginn. Bretar gætu hent þeim úr landi þegar þeir eru lausir við ESB.
En munu Bretar leggja það á sig að láta sveigja beinar ágúrkur og henda Norðmönnum úr landi?
Flest ríki heims standa utan við ESB. Er almenna reglan sú að Norðmönnum sé meinað að vinna þar?
Einu sinni var ekki til ESB. Þar til nýlega var bara til tiltölulega lítið ESB sem náði fyrst og fremst til Vestur-Evrópu. Af hverju á allt að fara til fjandans þegar stórt ESB verður aðeins minna?
Kannski missa Bretar vitið þegar taumurinn frá Brussel rofnar. Þeir henda Norðmönnum úr landi, setja upp viðskiptahindranir, hætta að kaupa þýska bíla og íslenskan fisk, heimila bognar agúrkur og tala bara við enskumælandi þjóðir.
Kannski ekki.
Kannski opna þeir á frjáls viðskipti og opna augun fyrir heiminum, leyfa Norðmönnum að vinna í landinu og borða bæði bognar og beinar agúrkur. Finnst engum það líklegt?
Gæti verið vísað úr landi eftir Brexit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:16 | Facebook
Athugasemdir
Það er of mikið vesen á bretum út af þessu. Auðvitað hefði verið mest vit í því hjá þeim að taka svons "no deal exit," því það hefði teksið stystan tíma, og allt þeirra vesen væri löngu liðið hjá núna.
En nei.
Það eru stórfyrirtæki þarna með hagsmuni. Eins og gerist.
Ásgrímur Hartmannsson, 26.1.2019 kl. 20:47
ESB er alveg sama hvort agúrkur séu beinar eða bognar. En þetta er gamall brandari um banana sem varð að fake news þegar ljóst var að fjöldi fólks var nægjanlega heimskur til að trúa honum og formæla ESB fyrir afskiptasemina. Bretar geta því eftir sem áður notið agúrkna og banana, beinna eða boginna.
Flest ríki heims standa utan við ESB. Almenna reglan er sú að Norðmönnum er meinað að vinna þar. Nær öll ríki heims setja verulegar hindranir og takmarkanir á atvinnuþátttöku útlendinga. Þeir þurfa sérstök atvinnuleyfi sem venjulega veita þeim heimildir í nokkra mánuði. Og til dæmis ef Breti vill vinna hér á Íslandi eftir útgöngu þá þarf hann fyrst að fá vinnu og síðan þarf vinnuveitandi að sækja um atvinnuleyfi. Séu stjórnvöld og verkalýðsfélög samþykk þá er atvinnuleyfið gefið út til 6 mánaða og þá má Bretinn fyrst koma til landsins. Hann fær síðan ekki framlengingu eftir 6 mánuðina, en hann getur farið úr landi og vinnuveitandi aftur sótt um atvinnuleyfi. Atvinnuleyfið er bundið vinnuveitenda og vilji Bretinn skipta um vinnu þá þarf hann að yfirgefa landið og næsti vinnuveitandi að sækja um annað atvinnuleyfi.
Hvort Bretar setji upp viðskiptahindranir, hætti að kaupa þýska bíla og íslenskan fisk, banni bognar agúrkur og tali bara við enskumælandi þjóðir verður þeirra ákvörðun. Kannski opna þeir á frjáls viðskipti og opna augun fyrir heiminum, leyfa Norðmönnum, Rússum og Kínverjum að vinna í landinu og borða áfram bæði bognar og beinar agúrkur. Þeir ákveða það og hvað þeir ákveða er eitthvað sem hægt er að veðja um.
En hvort innflutningur á Breskum vörum verði heimilaður til ESB veltur á því að þeir framleiði, merki og fái vörurnar vottaðar eftir reglum ESB. Hvaða tolla og gjöld ESB leggur á vörurnar fer eftir reglum ESB. Bresk fyrirtæki sem starfa á ESB svæðinu þurfa að breyta skráningu og greiða skatta til ESB ríkis en ekki Bretlands. Og hvort Bretar fái að vinna eða búa innan ESB verður háð tímabundnum leyfum. Hvernig ESB afgreiðir vörur, starfsemi, þjónustu og búsetu þeirra sem ekki eru hluti af ESB er löngu ákveðið og ekkert þar sem vefst fyrir mönnum.
Allt fer ekki til fjandans hjá ESB þegar stórt ESB verður aðeins minna. En hvernig ástandið verður hjá Bretum þegar þeir verða ekki lengur hluti af hinu stóra ESB, áhrifalausir og utangáttar, er annað mál.
Vagn (IP-tala skráð) 27.1.2019 kl. 04:03
Það skemmtilega við þessa frétt er að hún er um nákvæmlega ekki neitt. Bara móðursýkislegur spuni brexitanstæðinga sem eru farnir að fálma eftir stráum því tíminn er úti. Rúmur mánuður eftir.
Bretar eru ekki í Schengen og hafa aldrei verið og því breytir útgangan engu fyrir norsku áróðusfrussuna og engin réttindi á henni brotin né af henni tekin. Að mbl. skuli yfirleitt birta svona kjaftæði athugasemdalaust er eiginlega skandall.
Önnur frétt í dag segir að bretar þurfi að fjölga í landamæragæslunni vegna útgöngunnar, sem er sama kjaftæðið. Þarna breytist landamæragæsla nánast ekki neitt. Samt eru spunaekkifréttir brexitandstæðinga og esb sinna birtar án fyrirstöðu, sama hversu augljós dellan er.
Jón Steinar Ragnarsson, 27.1.2019 kl. 05:26
Hvernig rökstyður þú það Jón Steinar að landamæragæsla breytist ekki neitt þegar Bretland yfirgefur Innri markað ESB (sem við erum aðilar að) og tollabandalagið? Þetta þýðir að allir tækni- og heilbrigðisstaðlar verða ógildir. Þetta gildir um matvæli og lyf t.d. Bretland var leiðandi í innleiðingu nýrra lyfja í Evrópu. Þessu hafa þeir tapað. Viðurkenning starfsleyfa fellur úr gildi, líka fyrir vörubílsstjóra og flugstjóra. Bretar geta nú sett nýja tolla og innleitt staðla sem ekki samrýmast Evrópustöðlum. Þeir geta leyft flutning á hormónakjöti og kjúklingum sem hafa verið baðaðir upp úr klóri. Hvort tveggja leyft í Bandaríkjunum. Evrópa ver sig gegn slíku með tollvörðum og heilbrigðiseftirliti. Þess vegna er núna alls staðar verið að ráða þúsundir tollvarða, líka í Bretlandi.
Sæmundur G. Halldórsson , 27.1.2019 kl. 12:18
Það versta sem gerist við brotthvarf Bretlands úr ESB er að það verður eins og Sviss eða Færeyjar. Ekki veit ég hvaða böl þessi ríki kalla yfir íbúa ESB í dag en það verður ekki verra í tilviki Bretlands.
Geir Ágústsson, 27.1.2019 kl. 13:10
No deal Brexit endar ekki með stöðu Sviss eða Færeyja! Það þýðir að Bretar þurfa að byrja á núlli og öll viðskipti verða samkvæmt WTO skilyrðum sem eru lægsti samnefnari. M.ö.o. verstu hugsanlegu kostir. Sviss er Efta ríki. Efta hefur gert tugi viðskiptasamninga. Bretar verða hvorki í ESB né í Efta. Eftir að svissneskir kjósendur felldu EES 1993 í kosningu hafa hundruð sérfræðinga setið við að semja tvíhliða samninga við ESB. Slíkir samningar teljast nú í hundruðum! Þeir gengu auk þess í Schengen. Þegar upp er staðið hefur Sviss svipaða stöðu og við og Norðmenn. Færeyjar eru síðan hluti danska ríkisins og Færeyingar danskir ríkisborgarar og þar með EBS borgarar! Hins vegar standa þeir sem sjálfstjórnarsvæði utan við ESB og tollabandalagið. En þeir senda mestan fiskinn til Hanstholm og Esbjerg og ég veit ekki betur en hann fari þaðan sem dönsk ESB vara.
Sæmundur G. Halldórsson , 27.1.2019 kl. 18:24
Nú finnst mér grunsamlegt hvað fólk hefur miklar áhyggjur af Bretum - andstæðum okkar í þorskastríðunum og þjóðin sem setti hryðjuverkalög á Íslendinga fyrir litlum áratug síðan.
Halda menn að þeir hætti að kaupa af okkur fisk?
Áhyggjur manna ættu frekar að beinast að því sem verður eftir af ESB: Bretar hætta að taka við tugþúsundum ólöglegra innflytjenda sem fara þá hvert? Þeir gætu keypt færri þýska bíla og annað frá ESB (Bretar kaupa miklu meira frá ESB en ESB frá Bretum) og hver á þá að kaupa þá bíla?
"No deal Brexit" er ESB að pissa í eigin skó og ég er viss um að þegar taugaveiklunin er gengin yfir þá flýti ESB sér að gera eins marga viðskiptasamninga við Breta og þeir geta, þ.e. ef Bretar eru ekki of uppteknir við að gera fríverslunarsamninga við aðra heimshluta (því það munu þeir flýta sér að gera þegar þeir eru lausir við utanríkisstefnu ESB).
Geir Ágústsson, 28.1.2019 kl. 08:44
Áhyggjur??? Það að leiðrétta misskilning þinn, rangfærslur, draumóra og þvælu og benda á hvað muni ske eru ekki áhyggjur. Greinilega batnar lesskilningur þinn ekkert með aldrinum.
Vagn (IP-tala skráð) 28.1.2019 kl. 20:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.