Laugardagur, 22. desember 2018
Góð byrjun
Höfum eitt á hreinu: Ríkisvaldið í flestum vestrænum ríkjum er alltof stórt, fyrirferðarmikið, afskiptasamt og þrúgandi.
Allt sem ríkisvaldið gerir er annaðhvort óþarfi eða gæti verið gert betur af einkafyrirtækjum í samkeppnisrekstri. Þá meina ég allt.
Einokun leiðir alltaf til stöðnunar og rýrnunar á þjónustu sem um leið hækkar í verði. Gildir einu hvort sú einokun er á ríkisrekstri eða einkarekstri.
Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Um leið og einhver boðar ríkiseinokun á einhverju er viðkomandi að berjast fyrir stöðnun og sérhagsmunum. Þegar einkafyrirtækjum er beint eða óbeint bannað að bjóða í viðskipti (hvort sem það er skósala eða skurðaðgerð) er verið að sveipa stöðnun verndarhjúp.
Ef ég hefði aðgang að Bandaríkjaforseta myndi ég segja við hann: Taktu eftir því hvaða ríkisstofnanir loka og hvaða afleiðingar það hefur. Hugleiddu leiðir til að einkavæða þá þjónustu sem einhver saknar en leggja hina niður. Þú gætir minnkað ríkisvaldið um tugi prósenta á mjög skömmum tíma og leist úr læðingi mikla orku frá einstaklingum sem fá meira svigrúm.
Góð byrjun, ekki satt?
Hluta alríkisstofnana lokað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er bara bull. Þegar einkalæknastofa keppir við ríkisrekna heilsugæslu þá borgar ríkið jafn mikið en til viðbótar þá er sjúklingurinn rukkaður um væna fúlgu til að einkabusinessinn geti borgað sér arð ofan á góðar tekjur.
Þar af leiðir þá skaðast almenningur á einkarekstri almenningsþjónustu.
Hvernig geturðu verið svona blindur Geir að gera frjálshyggju að trúarbrögðum?
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 22.12.2018 kl. 15:25
Það sem þú lýsir er engin frjálshyggja. Dæmi um heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem starfar frjáls eru td gleraugnaverslanir og lýtalæknar.
Geir Ágústsson, 22.12.2018 kl. 16:42
Rétt aðferð af einkavæðingu er mjög góð.
T.d. eins og vegagerðin gerir, útboð á vegaframkvæmdum. Sama væri hægt að gera í heilbrigðiskerfinu, það eru biðraðir í ákveðnar aðgerðir, fara með þær í útboð og taka þeim tilboðum sem eru hagstæðari en áætlun gerir ráð fyrir.
Hér er dæmi um bæjarfélag í atlanta georgia fylki í bandaríkjunum sem er með mjög fáa starfsmenn, þeir bjóða alla þjónustu út og meta gætði þjónustunnar, ef menn eru ekki að standa sig þá er samningum sagt upp og boðið út aftur.
https://www.nytimes.com/2012/06/24/business/a-georgia-town-takes-the-peoples-business-private.html
emil (IP-tala skráð) 22.12.2018 kl. 19:35
Engin braggamál þar?
Geir Ágústsson, 22.12.2018 kl. 19:44
Hugsið ykkur bara að ríkið ákveði einn daginn að það þurfi að koma að sjóntækjaviðskiptum á Íslandi með það að markmiði að tryggja öllum "bestu fáanlegu sjóntæki óháð efnahag".
Við tæki auðvitað skrifræði, og slagur um niðurgreiðslur. Allir vilja nú fá dýrustu mögulegu sjóntækin: Þynnt gler, glampafrítt, rispufrítt, óbrjótanlegt. Biðraðir fara að myndast. Framboðið yrði einsleitara. Gleraugnaverslanir sæju allar niðurgreiðslurnar flæða í vasa viðskiptavina sinna og hækka verðið. Nýir gleraugnasalar kæmust ekki inn á markaðinn því allskyns reglur og skilyrði væru nú sett til að hægja á útflæðinu úr ríkissjóði. Sérhæfðir aðilar sem framkvæma leiser-aðgerðir á augum yrðu að hálf-opinberum stofnunum sem treysta fyrst og fremst á opinberar niðurgreiðslur.
Markaðurinn yrði lagður í rúst.
Flestar aðrar tegundir heilbrigðisþjónustu eru nú þegar í rúst. Menn plástra kerfið með hálfgerðum útboðum hér og þar, sem er fylgt eftir með allskyns skilyrðum, en kostnaðurinn helst áfram að blásast út og fólk kemst ekki ennþá til heimilislæknis nema bíða í marga mánuði.
Það þarf að koma stjórnmálamönnum út úr þessu. Séu einhverjir sem hafa ekki efni á einhverju nauðsynlegu gætu góðhjartaðir einstaklingar stigið inn og veitt frjáls framlög sem sérhæfðir aðilar sjá um að deila út (t.d. Rauði krossinn, Mæðrastyrksnefnd eða álíka). Það þarf ekki möppudýr hins opinbera hérna til að ráðstafa peningum okkar, tíma og áhuga.
Einkavæðum allt.
Geir Ágústsson, 23.12.2018 kl. 07:56
Því einfaldara því betra. Það væri t.d. hægt að taka upp flatan 10% skatt og leggja niður skattaframtöl. Þetta væri svipuð upphæð og kemur inn í ríkiskassann miðað við núverandi kerfi. Donald Trump segir að besta fyrir fólkið sé Beautiful paycheck. Því miður virðist ekki hægt að breyta neinu til hins betra sama hversu vitlausir hlutirnir eru.
Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 23.12.2018 kl. 10:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.