Já og nei

Það liggur fyrir að Laugavegur og raunar fleiri svæði miðbæjarins lokist fyrir bílaumferð. Göngugötur eru mjög í tísku og ferðamenn eru hrifnir af þeim, sem og mæður í fæðingarorlofi sem vilja rölta um á dögum þar sem veðrið heimilar slíkt. Í ráðhúsinu sitja menn ofan á sínum bílastæðakjallara og finnst voðalega notalegt að skjótast í pulsu í hádeginu án þess að þurfa rekast á bíl. 

Þetta þýðir að þeir sem reka fyrirtæki í miðbænum í dag þurfa að gera nýjar áætlanir. Mörg fyrirtæki hafa nú þegar flúið miðbæinn og á opnari svæði í nágrannasveitarfélögunum. Sú tilhneiging heldur áfram. Önnur hafa þrýst á yfirvöld að byggja bílastæðahús- eða kjallara fyrir sína skjólstæðinga, svo sem Harpan sem fær dýrustu bílastæði landsins til ráðstöfunar. Fyrirtæki sem liggja fjarri bílastæðahúsum og sjá ekki fram á að fá slík, og geta um leið ekki treyst á að þeirra viðskiptavinir geti gengið í hálku í mótvindi upp brekku, þurfa einfaldlega að fara.

Allt í þessum heimi er undirorpið breytingum. Stundum gýs eldfjall. Stundum er götu lokað. Stundum er skattur hækkaður. Stundum breytist smekkur neytenda. Eigendur fyrirtækja geta vonast til að hafa áhrif á sumt en ekki allt. Og ef tískan meðal stjórnmálamanna með bílastæði undir vinnustað sínum bendir á göngugötur þá eiga fyrirtæki ekki séns. Þau þurfa að flýja eða skipta út kúnnahóp sínum.


mbl.is Aldrei hlustað á okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekkert nýtt að Dagur og hans hirð hlusti ekki.

Hlusta meira að segja ekki á kjósendur, sem jú greiða laun þeirra.

Meirihluti kjósenda, kaus burt Borgarlínu, kaus burtu Dag,en ekkert hlustað.

Kaupmenn sleppa bara vel miðað við kjósendur.

Birgir Gudjonsson (IP-tala skráð) 19.9.2018 kl. 07:03

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 71% Reykvíkinga eru ánægðir með göngugöturnar í miðbæ Reykjavíkur, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu.

Meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur og allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykktu nú í haust að gera hluta Laugavegar að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni.

Sautján þúsund manns ganga eða hjóla í Bankastrætinu og á neðsta hluta Laugavegarins að meðaltali á degi hverjum, eða 6,2 milljónir manna á ári.

Þriðjungur Reykvíkinga býr vestan Kringlumýrarbrautar og þar eru langflest hótel, gistiheimili og veitingastaðir á höfuðborgarsvæðinu, að eigin ósk.

Og þar vilja flestir Reykvíkingar búa samkvæmt skoðanakönnunum.

Undirritaður gisti á fínu og dýru hóteli við göngugötu í gamla miðbænum í Tallinn í Eistlandi, Vanalinn, þar sem bílaumferð er óleyfileg, einnig leigubíla, þannig að ég varð að ganga síðasta spölinn að hótelinu.

Og hálft síðastliðið ár leigði ég íbúð við langa göngugötu í miðborg Búdapest, þar sem bílaumferð er einnig óleyfileg, nema snemma á morgnana til að koma vörum til allra veitingahúsanna, verslananna og hótelanna sem eru við götuna.

Þorsteinn Briem, 19.9.2018 kl. 07:51

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

11.2.2015:

"Marg­falt dýr­ara er að leggja í bíla­stæðahús­um í miðborg­um höfuðborga annarra landa á Norður­lönd­un­um en í Reykja­vík.

Í Osló er það frá þris­var og hálf­um sinn­um til sjö sinn­um dýr­ara en hér, jafn­vel þó miðað sé við fyr­ir­hugaða hækk­un á gjald­skrá bíla­stæðahúsa Reykja­vík­ur­borg­ar."

Margfalt ódýrara að leggja bílum í bílastæðahúsum í Reykjavík en miðborgum annarra Norðurlanda

Þorsteinn Briem, 19.9.2018 kl. 07:54

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

23.9.2013:

"Þeir sem eiga er­indi í miðbæ­inn virðast síður vilja leggja bíl­um sín­um í bíla­stæðahús­um miðborg­ar­inn­ar ef marka má mynd­ir sem ljós­mynd­ari Morg­un­blaðsins náði síðdeg­is í gær.

Á meðan bíla­stæðapl­an við Tryggvagötu, ná­lægt Toll­hús­inu, var þétt­setið og bíl­arn­ir hring­sóluðu um í leit að stæði var aðeins einn bíll inni í bíla­húsi Kola­ports­ins við Kalkofns­veg.

Svo vildi til að það var bíll frá embætti toll­stjóra."

"Bíl­stæðin við Tryggvagötu voru full og mörg­um bíl­um var lagt ólög­lega."

Tómt bílastæðahús en troðið bílastæði

Þorsteinn Briem, 19.9.2018 kl. 07:55

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Eins og ég segi, allt er breytingum háð. Kaffihús og lundabúðir og hótel ýta í burtu fataverslunum, úrsmiðum og öðrum smásölum. Ferðamenn, opinberir starfsmenn og mæður í fæðingarorlofi koma í stað eldra fólks og fólks með einhver erindi. Því þannig er það í útlendum en veðursælli borgum á suðrænum slóðum eða í meginlandsloftslagi. 

Menn skulu bara átta sig á því að þetta getur verið sársaukafull breyting fyrir marga og gæti leitt til einhæfara mannlífs í miðbænum. 

Geir Ágústsson, 19.9.2018 kl. 07:57

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

15.5.2015:

"Meðan á framkvæmdunum stendur fækkar bílastæðum í Miðbænum en að þeim loknum innan þriggja ára er gert ráð fyrir að um eitt þúsund bílastæði verði í bílakjallara undir svæðinu."

Byggingaframkvæmdir við Tollhúsið (ekki rétt mynd með fréttinni)

Þorsteinn Briem, 19.9.2018 kl. 07:58

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

29.6.2015:

"Lengsta mögulega vegalengd sem fólk þarf að ganga frá bíl sínum til að komast í alla verslun og þjónustu á Laugaveginum í miðbæ Reykjavíkur er 350 metrar þegar lagt er í bílastæðahúsi, sem jafngildir um þriggja mínútna gangi miðað við meðalgönguhraða.

Þetta kemur fram í úttekt sem Andri Gunnar Lyngberg arkitekt hjá Trípólí arkitektum og Björn Teitsson upplýsingafulltrúi unnu."

Þorsteinn Briem, 19.9.2018 kl. 07:59

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Mikið er gott að það eru til rannsóknir. Engu að síður flýja stofnanir og fyrirtæki út úr miðbænum og fólk hættir að heimsækja verslanirnar. Hvað veldur?

Það er líka flott að menn telji fjölda vegfarenda. Ég veit af leik sem margir Íslendingar leika þegar þeir fara í miðbæinn: "Finndu einhvern sem er ekki túristi." Þetta er erfiður leikur.

En það er sama hvernig þessu er snúið og velt: Menn eru að herða að þeim miðbæ sem mörgum finnst svo aðlaðandi, og reyna að búa til einhvern annan miðbæ.

Og það mun auðvitað takast. Það á enginn roð í stjórnvöld þegar þeim er alvara. En það verða afleiðingar fyrir marga og jafnvel söknuður fyrir aðra. Það er ekki hægt að breyta miðbænum og halda honum.

Geir Ágústsson, 19.9.2018 kl. 10:12

9 identicon

Hvað er málið með þennan drepleiðinlega Steina Bríem? þessar færslur hjá honum er eins og illkynja krabbamein í bloggum annara, líklega vegna þess að engin nennir að lesa bloggið hans

Wilfred (IP-tala skráð) 19.9.2018 kl. 11:15

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Gæti kannski verið að þau 71% sem eru hlynnt lokun gatna séu að mestu leyti fólk sem aldrei kemur í miðbæinn nema kannski á menningarnótt? Hefur einhverjum dottið í hug að kanna afstöðu þeirra sem búa í úthverfum en leitast enn við að versla í miðbænum? Það er líklegt að hún sé talsvert önnur.

Þetta er eflaust ástæðan fyrir því að Laugavegurinn er að verða eins og Rue de Rivoli í Paris þar sem enginn kemur nema túristar, því þar er ekkert að finna nema minjagripaverslanir.

Með lokun gatna í borg þar sem er yfirleitt leiðindaveður deyr miðbærinn.

Þorsteinn Siglaugsson, 19.9.2018 kl. 13:47

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Blaðamenn virðast alveg heillaðir af þessu bílleysi öllu saman. Kannski er ástæðan einmitt sú að þeir fara voðalega lítið niður í bæ nema til að drekka öl um helgar eða á hinar ýmsu skrúðgöngur. 

Og það er réttilega bent á það að það er orðið eitthvað fátt að sækja í miðbæinn fyrir hinn venjulega Íslending. Yfirbyggðar verslunarmiðstöðvar hafa tekið við hinu daglega amstri, jafnvel þótt margir (þar á meðal ég) þoli ekki loftið í slíkum geymum.

Geir Ágústsson, 20.9.2018 kl. 06:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband