Laugardagur, 26. maí 2007
Á Ísland að sækja um aðild að Bandaríkjunum?
Af mörgum slæmum hugmyndum sem heyrst hafa í íslenskri dægurmálaumræðu er möguleg innganga Íslands í Bandaríkin Norður-Ameríku líklega ekki sú versta. Röksemdir fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu má til dæmis auðveldlega heimfæra á aðild að Bandaríkjunum. Tökum nokkur dæmi.
Innri markaður Bandaríkjanna er gríðarstór og mun stærri, ríkari og fjölbreyttari en sá í Evrópusambandinu. Bandaríkin eru ríkasta land í heimi og innan þeirra eru fáar hömlur á verslun, viðskipti og fólks- og fjármagnsflutninga.
Ríki Bandaríkjanna njóta mikillar sjálfsstjórnar á mörgum sviðum, svo sem í skattamálum, og mikil og virk samkeppni er um íbúa, fjármagn og fyrirtæki milli a.m.k. flestra þeirra.
Flest ríki Bandaríkjanna eru mun ríkari en ríki Vestur-Evrópu (langflest Evrópuríki eru fátæk miðað við langflest þeirra bandarísku) og því freistandi að ætla að Ísland gæti fengið mjög mikið út úr þéttum og óhindruðum viðskiptatengslum við þau.
Auður Bandaríkjamanna ýtir undir mikla lyst þeirra á dýrum hágæðavarningi. Íslendingar eru að niðurgreiða framleiðslu á bragðgóðu kjöti af dýrum sem hlaupa frjáls um villtar lendur og hafa varla nýtt hina stóru, bragðgóðu og villtu fuglastofna sína að neinu ráði, ef innanlandsneysla er undanskilin. Afurðir af þessu tagi seljast fyrir stórfé í bandarískum lúxusverslunum. Ef viðskiptahömlur við Bandaríkin væru úr sögunni er ljóst að gríðarleg sóknarfæri muni myndast fyrir hinar hreinu náttúruafurðir Íslendinga.
Smáríkjum innan Bandaríkjanna vegnar almennt mjög vel, og oft mun betur en hinum víðfeðmu ríkjum þar sem sundurleitni samfélaga og togstreita bæja og sveita skapar þversagnir sem stjórnmálamenn ráða illa við. Smáríki Bandaríkjanna geta auðveldlega aðlagast breyttum kröfum og þörfum og halda sér þannig vel með í samkeppni um vinnuafl, fjárfestingar og fyrirtæki.
Í Bandaríkjunum er minnihlutahópum veitt mikið svigrúm frá afskiptasemi stjórnvalda. Indíánar hafa í seinni tíð náð að lögsækja stór landsvæði af ríkinu og njóta mikillar sjálfsstjórnar á þeim (t.d. hafa þeir leyfi til að reka spilavíti og græða þannig vel á því að öðrum er bannað að gera hið sama). Hvalveiðar indíaána eru umbornar í svo miklum mæli að Bandaríkin eru stærsta hvalveiðiþjóð heims á sama tíma og þeir berjast hart gegn því að aðrir en þeirra eigið fólk fái að veiða hvali. Sterkari sérhagsmunahyggja er vandfundin innan Evrópusambandsins þrátt fyrir mikinn vilja þess til að hygla minnihlutahópum.
Bandaríkjamenn eyða stórfé í að styrkja landbúnað sinn og stunda offramleiðslu á korni, kjöti og fjölmörgum öðrum afurðum. Þeir sem hafa mikinn áhuga á stórum styrkjakerfum með greiðum aðgangi geta því litið hýrum augum til Bandaríkjanna.
Dollarinn er sterkur og alþjóðlegur gjaldmiðill og viðmiðunargjaldmiðill í fjölmörgum viðskiptum. Verðbólga hefur verið með lægsta móti í Bandaríkjunum undanfarin ár og hagvöxtur töluvert meiri en í Evrópusambandinu og því ekki fyrir neinu að kvíða að renna inn í hagkerfi landsins.
Í stuttu máli, ef boðið væri upp á aðildarumræður við Bandaríkin er ljóst að mörg kunnugleg rök eru fyrir því að sækja um inngöngu. Ég veit samt ekki hvað það skiptir miklu máli. Er spennandi tilhugsun að gera Ísland að fylki í stórríki? Hvaða ávinning er úr því að hafa? Er samkeppni um evrópskt skattfé okkur mikilvæg eða er betra að leggja áherslu á að opna og frelsa eigið hagkerfi og þéna pening á hinum frjálsa markaði án alþjóðlegs yfirstjórnunarvalds?
Íslendingar hafa aðgang að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn. Íslendingar þurfa sennilega ekki að útiloka möguleikann á NAFTA-aðild. Fríverslunarsamningar eru gerðir sem aldrei fyrr. Látum því aðildarviðræður Íslands að Bandaríkjunum eða Evrópusambandinu eiga sig. Í rígbundinni aðild liggja hagsmunir Íslendinga ekki.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Facebook
Athugasemdir
Heyrðu ég ákvað bara að bregða á það ráð að leita eftir greinum hjá flokksbræðrum þínum eða systrum um þetta mál og fann þessa líka ágætis grein á Deiglunni. Þetta er líka eiginlega svar við síðustu athugasemd þinni í þarsíðustu færslu. Þegar ég segi að það sé hægt að fá meira með aðild heldur en það kostar í peningum, þá er ég ekki bara að tala um að fá peninga, hvað þá skattpeninga annarra, í staðinn. En hér er greinin http://www.deiglan.com/index.php?itemid=9954
hee (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 15:56
Ég þakka ábendinguna. Rök Pawel eiga samt ekki við um Ísland og hafa t.d. ekki virkað fyrir t.d. Tyrkland og lönd eins og Hvíta-Rússland og Rússland halda áfram að vera gjörspillt, auk þess sem fjárls för verkafólks frá nýju aðildarlöndunum hefur verið stöðvuð í langflestum gömlu aðildarríkjanna af ótta við að hún valdi arfaslöppum atvinnumarkaði vandræðum.
Punktur Pawels er ekki rangur fyrir ákveðin ríki, en rökum hans má líkja við að lokka fátækan mann í fangelsi svo hann komist í ókeypis mat og sturtuaðstöðu.
Geir Ágústsson, 26.5.2007 kl. 18:59
"Dollarinn er sterkur"
Kanasleikja!!
Ein spurning: Styður þú að vopnalöggjöf á Íslandi verði frjáls eins og í Bandaríkunum?
Árni Richard (IP-tala skráð) 26.5.2007 kl. 19:25
Ég sagði bara eitthvað sem tengist mynt annarra en Íslendinga. Greyið krónan er alltaf slæm þegar hún er slæm, eða ekki eins góð og annað þegar hún er góð.
Ég bý til nýja færslu um vopnalöggjöf ef ske kynni að ESB-umræðan bæti við sig hérna. Mér finnst nefninlega ekkert leiðinlegra en margar samsíða umræður í einni línu.
Geir Ágústsson, 26.5.2007 kl. 19:40
Bandaríkin er land og það er ekki í boði að sækja um aðild að nokkru landi í heiminum, svo þessi hugmynd er ein sú heimskulegast sem hægt er að fá.
Árni Richard (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 06:16
Það er svo gersamlega út úr kortinu að líkja ESB við fangelsi að það sæmir þér ekki. Með þessum málflutningi minnir þú mig reyndar á floksbróður þinn hann Hjört á sveiflan.blog.is
hee (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 19:10
Honum Geir er alveg sama um staðreyndir. Hann er bara Sjálfstæðismaður og Kanasleikja og það er það eina sem við getum treyst á. Svo velur hann staðreyndir og útilokar aðrar eftir hentugleika.
Ekki hefur hann minnst orði á allt það fjármagn sem Bush og félagar hafa eytt í stríðsrekstur (sem er btw opinber rekstur) og ekki hefur hann lesið sér til um hræsni Bush í fríverslun (en hann hefur með ýmsum hætti lokað Bandaríkin fyrir utanaðkomandi samkeppni til varnar vinum sínum í ýmsum atvinnugeirum).
Ekki minnist hann á fríverslunarsamninga sem ESB hefur gert, eða þá að reifa kosti tollabandalagsins. Hann býr sjálfur í ESB og nýtur þess að geta pantað af netinu tollsfrjálst frá mörgum löndum. En á Íslandi þar sem FLOKKURINN hans hefur verið við völd í allt of mörg ár er hægt að panta tollfrjálst til Vestmannaeyja en ekki lengra.
Árni Richard (IP-tala skráð) 27.5.2007 kl. 22:10
Hildur, rök Pawel fyrir aðild eru marklaus fyrir Íslendinga. Á Íslandi mælist spilling ein sú minnsta í heiminum og ýmis mannréttindi þau mestu. Samanburðir Íslands og Búlgaríu er því lítið annað en áhugaverð hugaræfing.
Af hverju þarf Ísland að ganga í eitthvað til að fella niður tolla sína og viðskiptahindranir?
Þið hljótið að fatta að hugaræfingin "aðild að Bandaríkjunum" var ekki meint sem annað en endurvinnsla á rökum ESB-sinna fyrir aðild að ESB. Þeir sem vilja fara í leikinn "hey, sjáðu hvað Bandaríkin eru vond!" mega auðvitað gera það hvar og hvenær sem er, en hugaræfingin var stendur.
Minni loks á að öll viðskipti milli Íslands og Færeyja eru svo að segja hindrunarlaus!
Geir Ágústsson, 28.5.2007 kl. 10:24
Ég fatta alveg að þetta er ekki meint í fullri alvöru með aðild að Bandaríkjunum, en það breytir því samt ekki að þetta er ekki raunhæft dæmi og þaðan af síður sambærilegt við Evrópusambandið. Og þó svo að Búlgaría hafi aðra hagsmuni en Ísland þá er samt margt við ESB sem freistar. Ekki bara innri markaðurinn heldur líka Myntbandalagið, möguleiki á að hafa áhrif á þau EES lög sem við tökum upp, aukið samstarf við aðrar Evrópuþjóðir á sviði menntunar, vísinda, þróunarstarfs og svo framvegis.
Ég ítreka að það að líkja ESB við fangelsi er fáránlegt. Og þó. Kannski gætu Íranar sagt að aðild að Alþjóða kjarnorkumálastofnuninni líktist fangelsi...
hee (IP-tala skráð) 28.5.2007 kl. 19:13
Tveimur spurningum mínum, þess sem efast um aðild og aðildarviðræður við ESB, er áberandi ósvarað:
- Af hverju þarf Ísland að ganga í eitthvað til að fella niður tolla og viðskiptahaftir? Það hefur gengið of hægt hingað til, en ef það eru rök fyrir aðild að ESB - þ.e. ef Íslendingar vilja lægri tolla og minni viðskiptahaftir - af hverju ekki bara að gera það?! Just do it!
- Þeir sem vilja nota evru geta vel gert það (og pund og dollar og ég veit ekki hvað). Mörg fyrirtæki eru byrjuð á því og það er ekkert því til fyrirstöðu að bankar bjóði upp á evrukort og annað ef viðskiptavinir lýsa eftir vilja til að fá svoleiðis.
Innri markaður ESB er ekki lokaðri en svo að Ísland þarf bara að afnema þær lokanir sem eru til staðar, og geta líka komið sér inn á innri markað NAFTA í krafti ESB-leysis síns, og Kína auðvitað sem ESB er skíthrætt við. ESB lokar að vísu á virðisaukaskattfrelsið fyrir ekki-aðildarþjóðir en ef Ísland afnemur sinn þá er það smámál miðað við margt annað.
Ég bara skil ekki af hverju íbúðin er ekki máluð án þess að vera meðlimur í Félagi málara!
Hvað á ESB að pína okkur til að gera sem við getum ekki gert sjálf og viljum gera? (Þaðan kemur fangelsisdæmið mitt sem e.t.v. var fullgróft ef því á að beita á allskonar annað.)
Geir Ágústsson, 28.5.2007 kl. 19:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.