Mánudagur, 11. júní 2018
Meirihlutahefðin
Á Íslandi mynda flokkar yfirleitt einhvers konar meirihluta að loknum kosningum. Oft eru þetta brothættir meirihlutar og stundum fær maður á tilfinninguna að innan þeirra séu menn helst sammála um það að hafa völdin. Málefnin koma svo í öðru sæti. Reynslan gefur jafnvel til kynna að innan brothættra meirihluta verði menn eingöngu sammála um útgjaldatillögur en aldrei um lækkun útgjalda eða róttæka breytingu forgangsatriða í opinberum rekstri.
Svona er þetta ekki alls staðar. Í Danmörku er t.d. svolítil hefð fyrir minnihlutastjórnum. Slíkar stjórnir þurfa að semja við alla flokka í öllum málum. Til að ná í gegn máli X þarf atkvæði flokka A og B, en í máli Y er betra að fá atkvæði flokka B og C.
En er eitthvað betra en annað? Auðvitað er starfhæfur og samstíga meirihluti skilvirkasta leiðin. Brothættir meirihlutar eru hins vegar slæmir. Af hverju er þá aldrei hugleitt að koma á minnihlutastjórn? Er það af því allir flokkar vilja fá sína formannsstöðu í nefnd eða sinn ráðherra í ríkisstjórn? Eða af því forráðamenn flokkanna hafa megna óbeit á öllum hinum flokkunum?
Í Reykjavík stefnir nú í mjög blandað bandalag einlæglega ósammála flokka sem hafa þurft tvær vikur til að pússa sig saman. Niðurstaðan verður væntanlega útvatnað skjal. Sjáum hvað setur. Kannski hefði verið betra að koma á minnihlutastjórn stærsta flokksins eða Samfylkingarinnar. Þá yrði erfiðara fyrir flokk borgarstjóra að skýla sér á bak við aðra og skauta framhjá ábyrgð.
Meirihluti líklega kynntur í vikunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.