Konur og karlar gera það sem þau vilja

Það er alltaf gaman að vinna þar sem er góð blanda af konum og körlum. Ég hef unnið á vinnustöðum þar sem karlar voru í meirihluta (100% starfsmanna), konur voru í meirihluta (allir í kringum mig konur nema ég) og blönduðum vinnustöðum. Blandaður hópur getur af sér skemmtilegasta vinnuumhverfið að mínu mati þótt vissulega skapist ákveðin stemming á hreinum karlastöðum, og sömuleiðis á hreinum konustöðum.

Menn hafa samt komist að einu: Konur og karlar vinna þar sem þau vilja. 

Þetta virðist sérstaklega eiga við í samfélögum þar sem engar kynbundnar hindranir eru til staðar, t.d. Norðurlöndunum. Karlar sem vilja kenna á leikskóla geta það. Konur sem vilja binda járn á byggingalóðum geta það. 

Það sem hefur komið rannsakendum á óvart er að þegar engar kynbundnar fyrirstöður eru til staðar þá ýkjast kynjahlutföllin í átt til einsleitni í mörgum greinum. Langflestir kennarar og hjúkrunarfræðingar eru kvenkyns. Langflestir iðnaðarmenn eru karlar. Þetta er niðurstaðan af algjörlega opnu kerfi menntunar og starfsvals. 

Óbein niðurstaða er svo auðvitað sú að heildarlaun karla eru hærri en kvenna (sem má ekki rugla saman við þá kröfu margra að fólki sé borgað sömu laun fyrir sömu vinnu að teknu tilliti til allskonar þátta, sem er allt önnur umræða). Karlar að jafnaði sækja í erfiði, áhættu, langa vinnudaga og kapphlaup við laun og titla. Konur sækja að jafnaði í jafnvægi á milli einkalífs og vinnu, fyrirsjáanleika og öryggi.

Margir hamast í konum vegna þessa. Talað er niður til þeirra fyrir að velja ekki á sama hátt og karlar - almennt - að vinna eins og skepnur til að uppskera há laun og fína titla. 

Það er samt ekki við neinn annan að sakast en þann sem velur eitthvað eitt en ekki annað og uppsker eftir því. 

Kannski vantar fleiri iðnmenntaðar konur eða hjúkrunarfræðimenntaða karlmenn. Kannski ekki. Hver á að ráða ef ekki einstaklingarnir sjálfir sem standa frammi fyrir vali á námi og starfi?


mbl.is „Ég er stolt af því að vera fyrsta kon­an“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband