Hvernig á að gera eitthvað dýrt ódýrt?

Það hefur lengi vafist fyrir stjórnmálamönnum og ákveðnum tegundum hagfræðinga hvernig á að gera eitthvað dýrt ódýrt. 

Sumir hafa lagt til að koma á algjörri ríkiseinokun. Það tryggi stærðarhagkvæmni sem skili sér í lægra verði. 

Sumir hafa lagt til að veita niðurgreiðslum til rekstursins og þá venjulega til ákveðinna útvalinna aðila. Vonin er sú að það leiði til lækkunar á verðlagi.

Sumir hafa lagt til beinan ríkisrekstur sem er fjármagnaður með blöndu af skattfé og sértekjum svokölluðum, eða eingöngu með skattfé. Þannig megi tryggja ákveðið aðhald. Ekki sé endilega fjárfest í rándýrri tækni af nýjustu gerð en það tryggt að einhvers konar rekstur sé í boði fyrir þá sem þurfa á honum að halda á mjög hóflegu verði og með notkun biðraða til að stilla af eftirspurn.

En þá segja sumir: Hvað með að koma ríkisvaldinu algjörlega út úr rekstrinum - bæði afskiptum af honum og fjármögnun - og lækka frekar skatta og fækka aðgangshindrandi reglum og búa til algjörlega frjálsan markað? 

Fáránlegt! hrópa þá sumir. Hvernig á mýgrútur einkaaðila að sinna svona litlum markaði? Það er einfaldlega of dýrt að koma sér upp nauðsynlegum búnaði. Einkaaðilar hugsa bara til skemmri tíma og blóðmjólka markaðinn áður en þeir leggja upp laupana. Einkaaðilar kunna ekki að lesa öryggisleiðbeiningar, tengja fjarskiptabúnað, grafa leiðslur í jörðu og hella malbiki á jörðina.

En ég spyr á móti: Hafa menn ekki lært neitt af reynslunni?


mbl.is Innanlandsflugið allt að tvöfalt dýrara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hafa menn ekki lært neitt af reynslunni? Lek þök og skakkir veggir, malbik sem hleðst utan á dekk og lakk bíla og kjötlausar kjötlokur eru lítil dæmi úr ótæmandi brunni vörusvika einkaaðila. Því miður er það rétt að of margir einkaaðilar hugsa bara til skemmri tíma og blóðmjólka markaðinn áður en þeir leggja upp laupana. Væri einkaaðilum treistandi mætti ræða annað fyrirkomulag. Meðan svo er ekki þurfum við að búa við kostnaðarsamt eftirlit og reglur.

Gústi (IP-tala skráð) 30.1.2018 kl. 11:22

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Eru flest þök ekki þétt og flestir veggir beinir? 

Það er einmitt helsti styrkleiki hins frjálsa markaðar að þeir lélegur eru vinsaðir út hratt og örugglega. Eftirlitsaðilar og opinberar stofnanir (t.d. menningarstofnanir) fá meira fé úr vösum skattgreiðenda eftir því sem verr gengur. 

Geir Ágústsson, 30.1.2018 kl. 11:37

3 identicon

Flest þök eru þétt og flestir veggir beinir, bílstjórar almennt ekki fullir og læknar með nám í faginu. Þökk sé eftirliti og reglum.

Það er einmitt helsti veikleiki hins algerlega frjálsa markaðar að þeir lélegu eru ekki vinsaðir út hratt og örugglega. Það er aðeins þar sem eftirlitsaðilar og opinberar stofnanir eru sterkar í sínu hlutverki sem markaðurinn starfar eftir settum reglum með lágmarksskaða fyrir almenning og þeir lélegu eru vinsaðir út hratt og örugglega.

Dæmi um hinn algerlega frjálsa markað er markaðurinn með ólögleg fíkniefni og framleiðsla þeirra. Þar er ekkert eftirlit og ekkert reglugerðarfargan til að fara eftir. En þú veist líka ekki hvað þú ert að kaupa. þeir lélegu eru ekki vinsaðir út hratt og örugglega og gallaðar vörur eiga greiðan aðgang að markaðinum.

Gústi (IP-tala skráð) 30.1.2018 kl. 13:23

4 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Gústi,það á að rækta eiturlyf hér undir eftirliti,en ekkert eftirlit með innanlandsflugvélum, gömlum vélum sem margir vilja ekki fara uppí einu sinni.Flapsar sem virka ekki þegar á þarf að halda og eru þess vegna ekki notaðar annarstaðar en hér. Laun hafa hækkað um75% svo allir hafa ráð á áð nota öruggustu flugvél sem völ er á í innanlandsflugi.

Cal.50. CTRES!

Eyjólfur Jónsson, 30.1.2018 kl. 13:55

5 identicon

Lek þök, skakkir veggir og malbik sem hleðst utan á dekk.

Jamm, þetta gerist á þeim tíma þar sem regluverk hins opinbera hefur aldrei verið meira íþyngjandi. 

Malbikið er tilkomið vegna krafna hins opinbera, Vegagerðarinnar, um "umhverfisvæn" íblöndunarefni. Niðurstaðan er handónýt blanda.

Heilu húsaraðirnar, með lek þök og skakka veggi, eru tilkominn vegna þess að alvöru iðnaðarmenn koma varla lengur að byggingum á Íslandi, heldur er byggingabransinn kominn í hendur á byggingafélögum, sem styðjast nær eingöngu við ómenntað erlent vinnuafl.

Ástæðan er þríþætt:

1. Skattlagning er komin út í rugl, og þar með útseld vinna fagmanna. Því leitast byggingaraðilar við að ráða ódýrt vinnuafl, og það er hvergi ódýrara en einmitt frá austur Evrópu.
2. Eftirlit byggingayfirvalda snýst um að skoða hvort skráðir aðilar að verki séu með "réttu" vottanir Mannvirkajstofnunar, og hvort innskilaðar teikningar séu í réttu broti. Eftirlit með réttindum vinnuafls á byggingarstað er ekkert, og eftirlit með byggingunum sjálfum er í skötulíki.
3. Engar hömlur eru settar á fyrirtæki við frekari byggingaframkvæmdir, jafnvel þó svo að þau séu í bullandi málaferlum vegna fyrri fúskverka.

Byggingamenn sem bjóða upp á fagmenn í hvert verkeru ekki lengur samkeppnishæfir, af því að hið opinbera hefur stillt regluverkinu þannig upp.

En rétt er það, að eftirlitskerfið er rándýrt, en það er ekki til að bæta framleiðsluna, heldur til að fóðra kerfið sjálft. 

Það er nákvæmlega það opinbera sem er að fokka upp fagmennsku við framkvæmdir á Íslandi.

Hilmar (IP-tala skráð) 30.1.2018 kl. 16:49

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég hef það reyndar frá fyrstu hendi í malbikinu að Vegagerðin sé sífellt að rugla í uppskriftinni. Einu sinni blönduðu þeir meira að segja lýsi í malbikið með þeim afleiðingum að mávar röðuðu sér á vegina og reyndu að ná í bragð. Ég veit ekki hvort það sé enn gert í dag. 

Annars er ágæt þumalputtaregla þessi: Þeim mun meira sem reglugerðarbáknið er, með tilheyrandi eftirliti, því minni er persónuleg ábyrgð og þar með hvati til að gera frekar vel en gera löglega. 

Í mínum "bransa" eru opinberir eftirlitsaðilar mjög lítill og ómerkilegur hluti vinnunnar. Miklu frekar þarf að uppfylla staðla kúnnans og óháðra vottunaraðila. 

Geir Ágústsson, 30.1.2018 kl. 20:51

7 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er fáránlegt að halda því fram að ef ekki væri fyrir opinbert eftirlit væri flest ónýtt. Eftirlitið bætir í raun og veru sáralitlu við og oft eru áhrifin jafnvel neikvæð. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þegar eftirlitið er til staðar treystir fólk á að það virki, en svo virkar það ákaflega oft bara alls ekki.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.1.2018 kl. 23:01

8 identicon

Það er enginn að halda því fram að ef ekki væri fyrir opinbert eftirlit væri flest ónýtt. En hvað er ásættanlegt að mörg hús hrynji, salmonella í mörgum kjúklingum eða mikið af lyfjum séu rangt blönduð?

Menn kvarta helst yfir því að eftirlitið mætti vera meira, sé oft það lítið að það virki illa. Að betra sé að hafa ekkert eftirlit en eftirlit sem fólk treystir en virkar ekki 100%. Það mætti þá eins hætta að mæla hraðaakstur og hvort bílstjórar séu drukknir, við náum aldrei öllum.

Geir heldur að hann fengi að starfa sem verkfræðingur án vottunar frá opinberri stofnun og að staðlar kúnnans og óháðra vottunaraðila séu eitthvað annað, betra og ódýrara en staðlar sem bundnir eru í reglugerðir. En kúnninn og óháði vottunaraðilinn sækja staðlana sem Geir þarf að uppfylla í reglugerðir þó Geir sé sjálfur ekki með eftirlitsaðila á öxlinni dags daglega.

Það er einnig ágæt þumalputtaregla að Þeim mun minna sem reglugerðarbáknið er, með tilheyrandi skorti á eftirliti, því minni persónuleg ábyrgð er tekin og enginn hvati til að gera vel eða löglega. Dópsalar endurgreiða ekki gallaða vöru og taka enga ábyrgð á dauðsföllum, enda ekkert reglugerðarbákn eða eftirlit að þvælast fyrir þeim.

Gústi (IP-tala skráð) 31.1.2018 kl. 00:12

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Eftirlit er ekki slæmt í sjálfu sér. Opinbert eftirlit hefur samt ákveðna ókosti:

Það er framkvæmt af aðilum í stöðu ríkiseinokunar sem er gert að starfa samkvæmt reglum sem eru kannski og kannski ekki heppilegar eða nauðsynlegar eða viðeigandi til að tryggja að hið eftirlitsskylda starfi á heilnæman og heiðarlegan hátt.

Starfsmenn eftirlitsins missa ekki vinnuna ef eftirlit þeirra reynist gagnslaust eða jafnvel skaðlegt.

Reglurnar sem opinberir eftirlitsaðilar eru settar af fólki sem er kannski og kannski ekki með djúpstæða þekkingu á þeirri starfssemi sem þeir setja reglurnar um.

Ég þekki mann sem reyndi einu sinni að innrétta fiskbúð í Reykjavík. Sú framkvæmd kostaði hann miklu meira en hann áætlaði sem meðal annars stafaði að því að tveir mismunandi opinberir aðilar gátu ekki ákveðið sig hvar hann ætti að setja ræsi. 

Var þetta alltaf svona á Íslandi? Ég held ekki. Ég held að oftrúin á opinbert eftirlit sé nýtt fyrirbæri, kannski innblásið af pappírsframleiðslu reglugerða í Brussel. Þó skal ég ekki segja. 

Helgi í Góu orðaði ágætlega hið nútímalega eftirlitsbatterí þegar hann sagði:

"Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin."

Eru einhver kynslóðaskipti að eiga sér stað? Er það mín kynslóð sem vill leysa af hyggjuvit þeirra hugvitssömu með stöðlum frá Brussel?

Þess má geta að ég er ekki með vottun frá neinum opinberum aðila þótt ég starfi sem vélaverkfræðingur og hanna hluti sem þurfa að þola ansi margt en ef það klikkar verða meiriháttar umhverfisslys. Þó er ég með brautskráningarpappíra frá Háskóla Íslands. 

Geir Ágústsson, 31.1.2018 kl. 05:04

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Annars skil ég illa þessa samlíkingu við eiturlyfjaiðnaðinn. Honum er þrýst eins djúpt í neðanjarðarhagkerfið og hægt er. Vissulega gat ég á sínum tíma vitað hver seldi góðan landa og hver seldi slæman, en markaðsaðhaldið er eðli máli samkvæmt mun daufara í heimi þar sem helst má ekki sjást til sólar. 

Geir Ágústsson, 31.1.2018 kl. 05:05

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Hvað sem öllu líður er ljóst að ætli menn að stilla af framboð og eftirspurn er sennilega best fyrir alla að ríkisvaldið komi sér úr veginum. 

Geir Ágústsson, 31.1.2018 kl. 07:11

12 identicon

Brautskráningarpappírar frá Háskóla Íslands eru vottun frá opinberum aðila. Hafir þú ekki tekið prófin aftur hjá vinnuveitenda þá hefur hann tekið þá vottun góða og gilda. Án þeirrar vottunar hefðir þú sennilega ekki komið báðum fótum inn fyrir dyrnar áður en þér hefði verið snúið við. Annars gæti hver sem er búið til skrautlegt skjal og titlað sig verkfræðing eða lækni.

Einkaaðilar sjá einnig um eftirlit eftir reglum sem hið opinbera setur, bifreiðaskoðanir til dæmis. Þar virðast menn komast upp með að veita bílum sem detta í sundur á næstu gatnamótum skoðun án þess að vera reknir.

Breytingar á húsnæði geta kallað á að farið sé eftir byggingareglugerðum, verra ef brotinn er veggur og húsið hrynur. Fiskur telst víst matvæli og fiskbúð þarf því að uppfylla viðeigandi heilbrigðisreglur. Og svo eru reglur um verslunarhúsnæði. Að einhverstaðar einhverntíman hafi einhverjar þessara reglna stangast á kemur ekki á óvart. En það eru ekki rök fyrir afnámi reglugerða og eftirlits.

"Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin." Hér áður gátu menn opnað og selt berklasmitaða mjólk og salmonellu kjúklinga með lekt klósett yfir búðarborðinu. Ekki eru það gáfuleg rök fyrir afnámi reglugerða og eftirlits að hér áður fyrr var auðveldara að leggja almenning í hættu.

Eiturlyfjaiðnaðurinn er ekki bundinn af þeim reglugerðum og því eftirliti sem þú vilt afnema. Það að hann flokkist sem neðanjarðarhagkerfi skiptir ekki máli í þessu samhengi. Hann er dæmi um gæði þeirrar vöru sem þá stendur til boða. Markaðsaðhaldið er ekkert, sama hvaða hagkerfi um er að ræða, vegna þess að án eftirlitsstofnanna þá eru allar merkingar á vörunni marklausar. Hætti görótt blandan að seljast sem grænar pillur þá er bara að breyta um lögun og lit. Sé frostlögur í tómatsósunni og kúnnarnir verða veikir og hætta að kaupa þá er bara skipt um miða og hókus pókus Heinz. Simsalabimm og tréspíri verður fínasti Borgfirski landi og hveitipillur úr bílskúr í Breiðholtinu Þýskt krabbameinslyf frá Bayer. Töfrar markaðar án eftirlits.

Gústi (IP-tala skráð) 31.1.2018 kl. 09:56

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Ónefnt er það eftirlit sem felst í eftirfarandi:

Að krakkinn bendi á að keisarinn er nakinn (þótt almenningur hafi meira og minna fylgt leiðbeiningum sérfræðinganna í höllinni og dáðst að ósýnilegum fötunum).

Geir Ágústsson, 31.1.2018 kl. 10:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband