Eru allir viðskiptablaðamenn milljónamæringar?

Ég var staddur á flugvelli í gær og sá þar auglýsingu frá viðskiptablaði hér í landi. Auglýsingin var eitthvað á þá leið að ef þú vilt vita meira um hvað er á seyði á mörkuðum, vernda eigur þínar, fjárfesta betur og þess háttar þá ættir þú að gerast áskrifandi.

Mér varð þá hugsað: Eru allir viðskiptablaðamenn milljónamæringar?

Þeir hafa aðgang að mikið af gögnum og vinna við að greina þau gögn rétt. Þeir komast í tæri við álit helstu spekinga. Þeir gera ekki annað, frá morgni til kvölds, en að spá í hegðun markaða, greina orsakir og afleiðingar og setja sig djúpt inn í undirliggjandi hneigðir.

Þeir hljóta allir því að vera milljónamæringar. 

En það eru þeir ekki. Og þeir þykjast ekki vera það. Þeir segja fréttir og vita ekki meira um viðfangsefni fréttanna á morgun en veðurfréttamaðurinn þótt auðvitað byggi þeir upp reynslu og þekkingu sem hjálpar þeim að giska á samspil ýmissa þátta. 

Hins vegar er til önnur stétt sem lítur öllu stærra á sig. Það eru stjórnmálamenn. Þeir þykjast geta séð atburði í framtíðinni fyrir sér. Þeir þykjast geta sett lög og reglur sem hafa svo fyrirsjáanlegar afleiðingar að það þarf ekkert að efast um að öll vandamál leysist á morgun. 

Stjórnmálamenn setja sig á háan hest. Þeir eru með minni þekkingu á viðfangsefnum sínum en viðskiptablaðamennirnir en telja sig um leið geta spáð fyrir um framtíðina með óyggjandi hætti. Þeir eru með lélegri forsendur en viðskiptablaðamenn til að greina atburðarrásir hagkerfis og samfélags en hika samt ekki við að troða afskiptasömum armi ríkisvaldsins djúpt ofan í kok allra sem flækjast fyrir framtíðaráformum þeirra. 

Ef allir viðskiptablaðamenn eru ekki milljónamæringar hvernig stendur þá á því að við umberum afskiptasemi stjórnmálamanna? Það ætti að blasa við að það skiptir engu máli hversu mikla þekkingu, reynslu, sérhæfingu og menntun viðkomandi hefur - frjálst samfélag er hvort í senn ófyrirsjáanlegt og aðlögunarhæft. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband