Aðskilnaður ríkis og banka mikilvægur

Sumir hafa lengi þulið upp að aðskilnaður viðskiptabanka- og fjárfestingabanka sé einhvers konar lausn á öllum heimsins vandamálum, a.m.k. þeim er tengjast fjármálakerfinu. Sumir segja að vandræði bankakerfisins hafi byrjað þegar hin svokallaða Glass-Steagall löggjöf var afnumin með undirskrift þáverandi forseta Bill Clinton. 

Svo einfalt er málið ekki.

Það er enn einfaldara.

Vandamál fjármálakerfisins eiga rót sína í starfsemi seðlabanka og ríkiseinokunar á peningaútgáfu. Þessum ríkisafskiptum fylgir heill frumskógur af lögum og reglum sem eiga að koma í veg fyrir að spilaborg hins opinbera hrynji. Um leið er innistæðueigendum sagt að þeir þurfi ekki að veita bönkum sínum neitt aðhald - allar innistæður eru jú tryggðar, af hinu opinbera! Risastórir múrar eru reistir fyrir þá sem vilja stofna til samkeppnisreksturs við stóru bankana. Bara það að fylgja lögunum kostar fúlgur fjár þótt ekki sé einu sinni búið að opna fyrir viðskiptavinum. 

Þetta skrímsli þarf að aflífa. Ríkið á ekki að prenta peninga frekar en bækur og ekki að ákveða vaxtastig frekar en verð á nærfötum. Stjórnmálamenn eiga ekki að skipta sér af framleiðslu peninga frekar en bifreiða. Það þarf að aðskilja ríkisvaldið og efnahaginn. Ef það á að vera ríkisvald á annað borð þá á það að halda sig við fyrirfram skilgreind verkefni sem eru fjármögnuð með hóflegri og gegnsærri skattheimtu. Peningaframleiðslan er bara önnur leið til að féfletta fólk á föstum tekjum og þá sem voga sér að leggja fyrir til framtíðar. Slíka rányrkju þarf að stöðva.

Kæru ráðherrar og þingmenn, leggið niður Seðlabanka Íslands. Það bað enginn um þessa ófreskju og það mun enginn sakna hennar nema þeir sem nota hana til að auðgast án þess að framleiða varning eða þjónustu í staðinn. 


mbl.is Allt annað bankaumhverfi en 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hverjir hafa haldið því fram að aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarbanka sé "lausn á öllum heimsins vandamálum"? Ég man ekki eftir að hafa séð eða heyrt slík ummæli frá neinum málsmetandi aðilum hér á landi. Vissulega er nauðsynlegt skref að skilja þessar ólíku tegundir fjármálastarfsemi í sundur en það er langt frá því að vera eina skrefið sem þarf að taka.

Þú vísar til Glass-Steagall löggjafarinnar í Bandaríkjunum, sem lagði bann við samsuðu viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi frá 1936-1999. Vert er að hafa í huga að allan þann tíma kom aldrei upp alvarleg fjármálakrísa í Bandaríkjunum, nema einmitt í þeim tilvikum sem lögin voru sniðgengin. Hvort sú fjármálakrísa sem hefur geysað eftir afnám þeirra hefði orðið hvort sem lögin hefðu verið í gildi eða ekki, skal því ósagt látið, þar sem engin lög geta hindrað að menn með einbeittan vilja brjóti þau.

En þú segir að vandamálið sé ekki svona einfalt heldur "enn einfaldara" og að það felist í því sem þú kallar "ríkiseinokun á peningaútgáfu". Þessi framsetning er því miður röng og afar villandi, þar sem það er alls engin ríkiseinokun á peningaútgáfu en í því felst einmitt vandinn.

Sjá hagtölur Seðlabanka Íslands: Bankakerfi - Peningamagn

Í apríl síðastliðnum nam heildarpeningamagn í umferð 1.740.781 milljörðum króna á breiðasta mælikvarða (M4). Af því peningamagni eru aðeins 112.736 eða um 6,5% milljarðar gefnir út af ríkinu (M0), annars vegar í formi seðla og myntar og hins vegar í formi innlána fjármálafyrirtækja hjá seðlabankanum. Það er undarleg og röng skilgreining að 6,5% hlutdeild jafngildi einokun. Því miður virðistu hafa snúið staðreyndunum alveg á hvolf, því hin 93,5 prósentin eru gefin út af hlutafélögum (bönkum) og það er sá hluti peningamagnsins sem hefur þanist mest út og valdið þannig mestallri þeirri verðbólgu og rýrnun sem orðið hefur á verðgildi gjaldmiðilsins. Þessar hagtölur seðlabankans ná óslitið aftur til ársins 1993 en frá þeim tíma hefur peningamagnið rúmlega tífaldast og fyrir vikið hefur vísitala neysluverðs hækkað á sama tíma margfalt meira en ella og verðmæti gjaldmiðilsins rýrnað sem því nemur.

Þú segir að peningaframleiðslan sé bara önnur leið til að féfletta fólk á föstum tekjum og þá sem voga sér að leggja fyrir til framtíðar og slíka rányrkju þurfi að stöðva. Það er alveg hárrétt, en þá þarf líka að stöðva hana á þeim stöðum þar sem megnið af henni fer raunverulega fram, frekar en að beina sjónum eitthvað annað á grundvelli ranghugmynda sem hafa fyrst og fremst þau áhrif að rugla umræðuna og gera hana ómarkvissa.

Í raun og veru er það ekki vandamál að ríkið gefi út peninga, ekki frekar en það er vandamál að vatnsveitan útvegi okkur vatn eða að vegagerðin sjái um að leggja vegi og viðhalda þeim. Það er hins vegar vandamál þegar gróðasækin einkafyrirtæki hafa vald til að gefa út peninga, því þá má ganga út frá því sem vísu að þau muni misnota það vald í sína eigin þágu frekar en í þágu heildarhagsmuna samfélagsins, eins og hefur einmitt gerst. Lausnin á þessu vandamáli er alls ekki sú að ríkið hætti að gefa út peninga sem myndi jafngilda því að öll peningaútgáfa yrði á höndum einkafyrirtækja, heldur þvert á móti þarf að taka það vald úr höndum einkafyrirtækjanna. Að því loknu væri svo allrar skoðunar vert hvort ríkið eigi að hætta að gefa út (meiri) peninga, enda er engin þörf á því a.m.k. ekki í bili þar sem það er nú þegar alltof mikið af þeim í umferð hvort sem er. Með því að stöðva alla peningaútgáfu og fastsetja peningamagn í umferð, yrði tryggt að enginn, hvorki ríkið né einkaaðilar, gætu rýrt verðgildi gjaldmiðilsins með offramleiðslu á peningum og tilheyrandi verðbólgu. Því markmiði verður þó ekki náð með því að einblína aðeins á 6,5% vandamálsins.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.6.2017 kl. 17:18

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Leiðrétting:

"...112.736 eða um 6,5% milljarðar..."

Átti auðvitað að vera:

"...112.736 milljarðar eða um 6,5%..."

:)

Guðmundur Ásgeirsson, 13.6.2017 kl. 17:20

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Guðmundur,

Þetta var svo safarík athugasemd að ég verð líklega lengi að melta hana. Aðalpunkturinn er samt sá að í brotaforðakerfi þar sem ríkisvaldið heldur úti lögeyri er búið að klippa á það markaðsaðhald sem peningar ættu að njóta alveg eins og tannkrem og dekkjaverkstæðaþjónusta. Þessi umrædd 6,5% eru margfölduð með umboði og blessun ríkisins. 

Ímyndaðu þér einkaaðila sem gæfi út peninga á gullfæti og segði hreinskilninslega við alla viðskiptavini sína: Ef allir kúnnar okkar kæmu að sækja peningana sína núna gætum við bara brugðist við 1/10 af beiðnunum.

Slíkur einkaaðili væri fyrir löngu kominn á hausinn, jafnvel áður en forðinn hans væri kominn undir 90% af innistæðunum. 

En leyfðu mér að melta þessa safaríku athugasemd lengur. 

Geir Ágústsson, 14.6.2017 kl. 06:14

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég tala nú ekki um fatahreinsun sem lánaði 90% af fötunum sem kæmu inn til annarra kúnna í von um að sá sem bað um upphaflegu hreinsunina festist í umferð í nokkra daga.

Geir Ágústsson, 14.6.2017 kl. 06:15

5 identicon

Þessi ríkisbatterí eru öll tengd og það þarf að leggja þau öll niður á endanum.

Innistæðutryggingar á að sjálfsögu að byrja að minnka og á endanum leggja niður algjörlega. Þá myndu innistæðueigendur svo sannarlega grandskoða bankana sem þeir eiga viðskipti við, nú eða bara geyma sitt sparifé mestmegnis í gulli eða Bitcoin ef þeir treysta ekki bönkunum.

En slík gjaldmiðlasamkeppni er ómöguleg nema virðisaukaskattur, tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur eru allir lagðir niður hvað varðar flutning fjármagns á milli mismunandi gjaldmiðla.

Þetta snýst um einstaklingsfrelsi. Að sjálfsögðu eiga menn að geta stofnað banka með 1/2, 1/10, 1/100 eða 1/1000 brotaforða. Með því að banna þetta er bara verið að bæta við enn einu ríkisbatteríinu.

Hættið alltaf að "banna" þetta og "leyfa" hitt eins og þið vitið hvað er best fyrir alla aðra. Látið fólk í friði. Er það of mikið um að biðja?

SR (IP-tala skráð) 14.6.2017 kl. 09:18

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Geir.

Þú ert á réttum slóðum með að brotaforðakerfið sé hið raunverulega vandamál, fremur en peningaprentunarvald ríkisins. Orðið brotaforði er þýðing á enska hugtakinu "fractional reserve" sem er reyndar mjög villandi vegna þess að það er í raun hvorugt (hvorki "fractional" né "reserve"). Með því er vísað til þeirrar kenningar að bankar séu aðeins milliliðir sem taki við innlánum í formi reiðufjár og láni svo aftur þann hluta (brot-) þess sem þeim sé ekki skylt að halda eftir (í brotaforða) til þess að geta afgreitt úttektir viðskiptavina og afleiðingin sé einhverskonar "peningamargfaldari". Þessi kenning er aftur á móti röng eins og hefur verið staðfest m.a. í peningamálaskýrslu Englandsbanka og nýlegri skýrslu frá þýska seðlabankanum, auk þess sem vísa má til skrifa Ólafs Margeirssonar hagfræðings.

Quarterly Bulletin 2014 Q1 | Bank of England

Deutsche Bundesbank - Topics - How money is created

Hvenær deyr peningamargfaldarinn? « Ólafur Margeirsson

Vandamálið er aftur á móti miklu verra heldur en ef kenningin um peningamargfaldarann og banka sem hreina milliliði væri sönn. Staðreyndin er nefninlega sú að bankar taka ekki við innlánum og endurlána þau heldur er ferlið akkúrat öfugt því þegar bankar veita útlán þá búa þeir einfaldlega til innstæðu á bankareikningi lántakandans, og hún fer svo í umferð eins og hverjir aðrir nýjir peningar. Með öðrum orðum, búa bankar til peninga (í formi innstæðna), með útlánum, án þess að nota til þess neitt reiðufé sem neinn hefur á neinum tímapunkti lagt inn í bankann. Fyrir vikið geta bankar "prentað" (framleitt) eins mikið af peningum (í formi innstæðna) eins og þeim sýnist. Með því skapa þeir verðbólgu og stela kaupmætti af almenningi í formi vaxta og verðbóta af engu nema tilbúningum, en það er í raun ekkert annað en skattlagning á samfélagið. Samt hefur Alþingi aldrei sett nein lög sem leyfa öðrum en ríkinu að skattleggja almenning og kjósendur hafa heldur aldrei verið spurðir að því hvort þeir vilji að notast sé við þessa tegund peningakerfis eða einhverja aðra. Eina leiðin til að færa rök fyrir því að þetta sé ekki ólöglegt er að halda því fram að rafkrónurnar sem bankarnir framleiða með útlánum séu alls ekki lögeyrir heldur eitthvað allt annað, sem er reyndar nákvæmlega það sem Seðlabanki Ísland hefur gert í svari sínu við fyrirspurn þessa efnis. Sú skýring er samt þversögn því lögeyrir í reynd er hvaðeina það sem ríkið samþykkir að taka við til greiðslu skatta.

SR.

Hugmyndin um "gjaldmiðlasamkeppni" hljómar skemmtilega en getur því miður ekki virkað í neinu ríki í skilningi þess orðs af þeirri einföldu ástæðu að skatta þarf að greiða í lögeyri. Sú eftirspurn sem það tryggir lögeyrinum geta aðrir gjaldmiðlar aldrei keppt við til lengri tíma. Hliðargjaldmiðlar geta þó skotið upp kollinum og náð einhverri útbreiðslu en þeir geta aldrei náð yfirburðum yfir lögeyrinum í slíku umhverfi. Afnám lögeyris væri heldur engin lausn á þessu því þá væri ekki hægt að innheimta neina skatta og einfaldlega skilgreiningaratriði að þá væri ekkert ríki heldur. Þess vegna er lögeyrir óhjákvæmilegur í einni eða annarri mynd.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.6.2017 kl. 02:30

7 identicon

Það er rétt að skattheimta ríkisins í tilteknum

gjaldmiðli eykur virði hans en annars væri raunin.

"Afnám lögeyris væri heldur engin lausn á þessu því þá væri ekki hægt að innheimta neina skatta"

Af hverju segirðu það? Gjaldmiðilinn sem ríkir notar við skattheimtu getur verið hver sem er. Ríkið þarf ekki endilega að framleiða hann. Það eru dæmi um ríki sem innheimtu skatta í eðalmálmum. Íslenska ríkið í dag gæti t.d. vel beðið þegna sína um að greiða skatta í bandarískum dollurum, evrum eða Bitcoin.

SR (IP-tala skráð) 16.6.2017 kl. 10:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband