Miðvikudagur, 3. maí 2017
Eitt orð: Gæluverkefni
Þá á að skjóta enn einu gæluverkefninu í gang, og í þetta skipti verður það eilífðarverkefni með óendanlegum verðmiða.
En gott og vel, hluti má skoða og ræða og allt það. Í Álaborg var svipuð umræða í gangi á sínum tíma.
Í borginni búa um 112 þúsund manns, en í sveitarfélaginu öllu um 210 þúsund manns. Sem sagt, svipaðar tölur og gilda um höfuðborgarsvæðið.
Norðan við Álaborg er flugvöllur sem fer stækkandi.
Í Álaborg er þröngur miðbær sem krefst lagni að komast í, sérstaklega um helgar, en utan við miðbæinn er stærri verslunarkjarni. Í Álaborg er stór spítali en verið er að byggja annan. Í Álaborg er víðfeðmt og fjölmennt háskólasvæði.
Sem sagt, svipuð lýsing og gæti gilt um Reykjavík.
Umræða um léttlest (d. letbane) var komin á flug í Álaborg á sínum tíma. Menn gerðu áætlanir og fengu sérfræðinga til að reikna og teikna. Svo komu í ljós kostnaðartölur og sveitarfélagið fór á hnén við fætur ríkisvaldsins til að betla. Sem betur fer kom ekkert út úr því. Verkefnið var sett á ís.
Í kjölfarið gerðist... ekkert. Strætó keyrir ennþá. Enginn kvartar yfir því. Enginn.
Kannski lærðu Danir af reynslu ríkisrekstursins á venjulegum lestum? Það hefur vægast sagt verið saga klúðurs, seinkana, ásakana og fjárútláta.
Það er mikilvægt að þetta léttlestartal á höfuðborgarsvæðinu verði slegið af borðinu sem fyrst. Það sem vantar er betri nýting á vegunum, en þeir eru troðfullir tvisvar á dag og greiðir á öðrum tímum. Það þarf að selja vegakerfið og leyfa einkaaðilum að búa til eðlilega hvata til vegalagningar og verðlagningar á veganotkun. Það þarf að afnema skatta á eldsneyti og farartæki og færa fé úr hirslum ríkis og sveitarfélaga og í hendur einstaklinga og fyrirtækja.
Enn eitt meingallað kerfi, sem byrjar með lúðrablæstri en endar í niðurníðslu eins og vegakerfi Reykjavíkur, er engin lausn. Milljarður settur í lestarspor er milljarður tekinn af viðhaldi vega og öryggisráðstöfunum á þeim. Og strætó verður auðvitað vanræktur þótt enginn láti sjá sig í léttlestunum.
En það er erfitt að drepa gæluverkefni. Í stað eins sem er drepið skjóta gjarnan þrjú önnur upp kollinum. Það þýðir samt að menn verða bara að berja þau niður þrisvar sinnum hraðar.
Milljarðatugir í borgarlínu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvernig ætlar þú að koma á samkeppni á einkavæddum vegum? Það væri tilvalið fyri fjárfesta að kaupa 100 metra vegspotta og setja upp tollhlið.
Jonas Kr (IP-tala skráð) 3.5.2017 kl. 14:39
Bústaðarvegurinn og Miklabrautin eru nú þegar í ákveðinni samkeppni. Það er bara enginn hvati til að skara fram úr í þeirri samkeppni.
Geir Ágústsson, 3.5.2017 kl. 18:39
Svo er vegur líka í einskonar samkeppni við sjálfan sig og aðra samgöngumiðla. Er hann ófær öðrum en vel búnum bílum sem koma sjaldan? Er hann svo dýr að hann fær bara örfáar stórar rútur? Er hann svo ódýr og ofnotaður að viðhald er miklu meira en veggjöld geta staðið undir? Eru menn byrjaðir að fljúga til að komast hjá því að nota veginn, eða keyra krókaleiðir um aðra vegi? Fara menn aðrar leiðir því aðstaða er betri, t.d. til að hvíla sig? Eru siglingafyrirtæki byrjuð að spretta upp og hirða viðskiptin? Er samkeppnisaðili byrjaður að leggja annan veg á sömu leið?
Ég veit að mörgum finnst samkeppni almennt vera til ama, en skoða um leið alla tilboðsbæklinga matvöruverslananna í hverri viku. Það er samt óþarfi að hindra hana.
Geir Ágústsson, 4.5.2017 kl. 04:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.