Stríð til að verjast stríði

Ástandið í Sýrlandi er skelfilegt. Þar berjast vígahópar, hermenn og jafnvel óbreyttir borgarar hvern við annan. Vopnin sem barist er með koma úr öllum heimshornum. Sum koma frá Rússum, önnur frá Bandaríkjamönnum, og sum eru keypt á svörtum markaði. Trúarbrögð, menningarheimar og ríkisstjórnir eru brædd í einum stórum suðupotti og allir vilja eitthvað.

Hvernig í ósköpunum á að vinda ofan af þessu?

Sumir telja að rétta lausnin sé að senda vopn eða hermenn eða bæði á svæðið til að taka afstöðu með sumum og gegn öðrum. Sumir vilja stjórnarskipti. Sumir vilja sjálfstæði. Sumir vilja ný trúarbrögð. Sumir vilja bara fá að ráða.

Það er því óljóst hvað er hægt að gera. 

Við vitum samt ýmislegt um það sem virkar ekki.

Það sem virkar ekki er að þröngva mismunandi hópum saman innan sömu landamæra. Kúrdar vilja hvorki tilheyra Tyrklandi, Sýrlandi, Íran eða Írak. Þeir vilja sín eigin landamæri. Margir íbúar Sýrlands vilja ekki tilheyra Sýrlandi. Þeir vilja sín eigin sjálfsstjórnarsvæði. Það væri því ráð að byrja setjast niður með viðeigandi ríkisstjórnum og fá þau til að gefa eftir eitthvað af yfirráðasvæðum sínum sem þær virðast ekki hafa nein yfirráð yfir samt sem áður.

Það sem virkar ekki er að gefa aðila A þungavopn til að berja á aðila B, sem fær sín eigin þungavopn annars staðar frá. Aðsend vopn úr öllum áttum knýja bara stríðið áfram. Miklu frekar ætti umheimurinn að verða sammála um að það sem vantar ekki til að stöðva átökin eru fleiri vopn.

Flóttamenn þurfa líka athvarf, og því nær heimaslóðunum því betra. Í stað þess að einblína á að bjarga siglandi flóttamönnum á að gefa þeim þann valkost að flýja á nálægari slóðir þar sem aðbúnaður er sómasamlegur. Fé til flóttamannahjálpar á að veita til að byggja upp athvarf sem næst átökunum sem flúið er frá sem er um leið á öruggu og vernduðu svæði. 

Ástandið í Sýrlandi er skelfilegt og flókið. Þótt við vitum kannski ekki hvernig á að laga það strax vitum við ýmislegt um það sem virkar ekki. Hvernig væri að hætta því og einbeita sér að því sem virkar? 


mbl.is Fimm milljóna múrinn rofinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband