Hindranir eða ekki hindranir

Yfirleitt er talað um að það þurfi að gera fríverslunarsamninga við hin og þessi ríki til að koma á fríverslun. Þetta er misskilningur. Fríverslunarsamningar ganga yfirleitt út á einhverjar tollalækkanir en oftar en ekki eru í þeim fyrirvarar og tollar falla yfirleitt ekki niður á öllu sem gengur kaupum og sölum.

Þá segja menn að það gangi ekki að leggja niður tolla einhliða. Það sé ósanngjarnt. Þá geti eitt ríki náð samkeppnisforskoti á annað með því að geta flutt ódýrt út en leyfi engum að flytja ódýrt inn.

En af hverju eiga allir að grýta höfnina sína eða pissa í skóinn sinn þótt einhverjir geri það? Að hindra frjáls viðskipti er slæmt fyrir þann sem gerir það. Að leyfa þau er gott fyrir þann sem gerir það. Nú má vel vera að íslenskir lopapeysuprjónarar komi illa úr samkeppni við kínverska verksmiðjuframleiðslu á lopapeysum. Það er samt skammtímavandamál fyrir lítinn hóp. Neytendur eiga að fá að ráða því hvaða vara stendur uppi sem sigurvegari, ekki framleiðendur. Bílaframleiðslur unnu hylli neytenda á kostnað hestvagnaframleiðenda og það reyndist gott fyrir alla til lengri tíma.

Íslendingar eiga að sýna fordæmi hérna og einfaldlega afnema allar hömlur á verslun við öll erlend ríki. Mörg þessara ríkja munu svara í sömu mynt fyrr eða síðar og afnema öll höft á viðskipti við Ísland. Það þarf enga samninga hér fulla af undantekningum, eftirlitsapparötum og skilyrðum. 

Nú er reyndar búið að afnema flesta tolla á Íslandi síðan 1. janúar í ár og það var þrekvirki sem ber að hrósa fyrir. Það má samt ganga lengra. Enn þarf að tollmeðhöndla allt með tilheyrandi töfum og kostnaði og enn finnast útgjaldaliðir á innflutning eins og "úrvinnslugjald á hjólbarða" og "úrvinnslugjald á plastumbúðir". Virðisaukaskatturinn flækist líka fyrir frjálsum viðskiptum en það er víst lítil von til þess að ríkisvaldið sleppi þeirri leið til að mjólka hagkerfið.

Að kaupa af pólskum bónda eða tælenskum vefara á að vera jafnauðvelt og að panta hangikjöt frá Akureyri. Eini munurinn er þá tíminn sem tekur fyrir sendinguna að berast að dyrum. 


mbl.is Brexit er í forgangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband