Þriðjudagur, 10. janúar 2017
Minnst menntaðir en hugsanlega sveigjanlegastir allra
Íslendingar ættu að taka alla minnimáttarkennd vegna menntastigs og grafa ofan í djúpa gröf. Slík minnimáttarkennd er óþarfi og getur raunar verið skaðleg.
Að ætla sér að mennta svo og svo stóran hluta þjóðar í háskóla er glapræði og fyrir því eru mjög margar ástæður.
Í fyrsta lagi er með slíku markmiði óbeint gert lítið úr annars konar menntun og e.t.v. mikilvægari, svo sem iðnmenntun eða hreinlega "skóla lífsins". Ég þekki ekki bara einn heldur tvo einstaklinga sem skara fram úr á sínu sviði án þess að hafa lokið háskólagráðu og gera það í blússandi samkeppni við sprenglærða einstaklinga með gráður frá öllum heimshornum. Menntakerfið hélt aftur af þeim svo þeir rifu sig lausa og tóku sprettinn á eigin forsendum.
Íslandi vantar núna iðnaðarmenn en fá ekkert nema kynjafræðinga og sérfræðinga í útlendum bókmenntun. Hver græðir á því?
Í öðru lagi hentar háskólanám ekki öllum. Þannig er það bara. Fjölmargir einstaklingar láta lokka sig inn í háskólana og þeir upplifa þar bara vanmáttarkennd og uppgjöf og sóa bæði eigin tíma og fé sem og annarra. Til eru frábærir læknaritarar sem hefðu orðið ömurlegir viðskiptafræðingar en það eru líka til ömurlegir viðskiptafræðingar sem hefðu orðið frábærir smiðir.
Í þriðja lagi er háskólanám oftar en ekki ofmetið. Ekki allt nám skilar nothæfri þekkingu inn á atvinnumarkaðinn. Fólk með slíkt nám á bakinu lendir í atvinnuleysi eða störfum sem tengjast náminu ekkert og það fer illa með sálina á því. Sumt háskólanám má hreinlega flokka sem afþreyingu eða áhugamál og ætti bara að vera sjálfsnám í eigin frítíma en ekki háskólanám á kostnað annarra.
Í fjórða lagi er menntakerfið þannig skrúfað saman að tengsl ávinnings af menntun og kostnaði af menntun eru rofin. Sá sem fer í háskólanám getur sent megnið af reikningum á aðra. Hér er framboðið niðurgreitt og eftirspurnin því mikil - miklu meiri en ef hver og einn þyrfti að reikna út hvað menntunin skilar viðkomandi (t.d. í formi hærri launa eða þægilegri vinnu). Þannig má segja að læknanám skili það mikilli verðmætasköpun fyrir viðkomandi að hann eigi að geta fjármagnað frekar dýrt nám. Á hinum pólnum er kynjafræðingurinn sem hefur ekkert að gera nema það sé vinstrisinnaður ráðherra í stjórnkerfinu sem deilir út fé annarra.
Íslendingum er hrósað um allan heim fyrir að vera góðir starfskraftar: Ábyrgir, samviskusamir, duglegir og allt þetta. Ekki skemmir fyrir að Íslendingar hafa flestir vinnureynslu sem nær niður til unglingsáranna og jafnvel fyrr. Háskólanám bætir litlu við þessa eiginleika.
Íslendingar minnst menntaðir Norðurlandabúa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.