Eftirlit í stað ábyrgðar

Íslendingar virðast hafa óendanlega þolinmæði gagnvart opinberu eftirliti.

Ég þekki mann sem var að reyna koma upp fiskbúð í Reykjavík á sínum tíma. Hann lenti á milli margra eftirlitsstofnana, frá sveitarfélaginu til MAST. Ekki gat hann fengið þessar eftirlitsstofnanir til að tala saman eða verða sammála. Hann var beðinn um að setja niðurfall á ákveðinn stað af einni stofnun en að fjarlægja það af annarri. Ferlið dróst um marga mánuði og kostaði hann fúlgur fjár. 

Á endanum opnaði samt fiskbúð. Stuttu seinna þurfti að selja hana eftir mikla baráttu. Stofnféð var einfaldlega farið út í buskann.

En gott og vel, kannski eiga ekki allir skilið að spreyta sig í rekstri. Kannski er allt í lagi að sumum viðskiptahugmyndum sé sturtað í klósettið strax af eftirlitsiðnaðinum því ef menn geta ekki þrætt þröng einstigi eftirlitsins hvernig eiga þeir þá að geta fótað sig á markaðinum?

Mín skoðun er samt sú að opinbert eftirlit slævi alla ábyrgðartilfinningu okkar og á bak við hana geti ýmislegt skotið rótum sem má telja óæskilegt. Opinbert eftirlit er líka einokunaraðili og bolar sem slíkur öðrum eftirlitsaðilum af markaðinum. Þar sem frjálst eftirlit er að finna er það knúið áfram af gagnrýnum neytendum og óháðum fyrirtækjum sem keppa í trausti um að votta fyrirtæki og framleiðslu rétt. Ekki er heldur víst að opinbert eftirlit sé í stöðu til að framfylgja bestu kröfunum. Það framfylgir bara reglunum og þær reglur eru oft í engri snertingu við raunveruleikann. 

Leggjum niður eftirlitsstofnanir matvælaiðnaðar á Íslandi. Niðurstaðan verður hreinni og öruggari og betur merkt matvæli fyrir minni tilkostnað þar sem eftirspurn er eftir slíku. Þeir sem vilja ekkert eftirlit, t.d. þeir fjölmörgu Íslendingar sem hafa borðað "street food" í fjarlægum löndum, geta svo notið þess eins og þeir vilja. 


mbl.is Óþolandi að menn hagi sér svona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband