Er þetta atvinnugreinin sem á að ríkisvæða?

Sjávarútvegurinn er baðaður í svo mörgum óvissu- og áhættuþáttum að það er engu lagi líkt. Ákvarðanir einhvers valdasjúks forsætisráðherra í fjarlægu landi geta haft stór áhrif á afkomuna. Ef eitthvað stórt ríki ákveður að rýra kaupmátt gjaldmiðils síns hefur það áhrif. Ef einhver hitastigsbreyting á sér stað í hafinu hefur það áhrif. Ef veður til veiða er slæmt lengi hefur það áhrif. Ef einhver arabinn ákveður að draga úr olíuframleiðslu sinni hefur það áhrif. 

Mannlegir þættir eins og kjaradeilur hafa áhrif. Rangar ákvarðanir um hvar á að veiða hvað og hvenær og hvernig hafa áhrif. 

Er þetta virkilega atvinnugreinin sem margir Íslendingar vilja ríkisvæða með því að sjúga út hagnaðinn þegar hann er til staðar og hlaupa til með björgunaraðgerðir þegar eitthvað bjátar á?

Er ekki betra að atvinnugreinin sjálf taki á sig sveiflurnar og borgi venjulegan skatt af hagnaði þegar vel árar en taki á sig niðurskurðinn þegar illa árar?

Íslenska ríkið var nátengt rekstri bankanna þegar allt fór á hliðina haustið 2008. Innlánstryggingar, lánveitandi til þrautavara og umsvifamikið regluverk - allt átti þetta að tryggja stöðugt rekstrarumhverfi þar sem ekkert átti að geta komið upp á. Síðan kom hið ófyrirséða og dró ríkissjóð með sér í hítina. 

Er reynsla Íslendinga sú að íslenska ríkið eigi að blanda sér enn frekar inn í áhættusaman og óvissan rekstur?

Þá hafa Íslendingar ekki lært mikið af hruninu. 


mbl.is 3% samdráttur vegna viðskiptabanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Hruninu?  ísleningar hafa lítið lært af árunum 1944-2016.  Svona almennt talað.

Ásgrímur Hartmannsson, 23.11.2016 kl. 09:37

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég vil ekki vera alveg svo svartsýnn. Í fiskveiðistjórnun lærðu Íslendingar að það er betra að úthluta veiðiheimildum og leyfa þeim að ganga göngum og sölum en að skipta sér of mikið af því hver veiðir hvað og hvar og hvenær og með hvers konar skipi og allt þetta. Síðan þá hefur ekki verið talað um að gengisfella krónuna til að bjarga útgerðinni. 

Geir Ágústsson, 23.11.2016 kl. 11:14

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Veiðiheimildir urðu þannig til að ríkið afnam 1000 ára almannarétt til veiða í íslenskri lögsögu. Vegna þess að heimildirnar eru takmarkaðar eru þær verðmætar. Þegar ríkið býr til verðmæti með þessum hætti og skerðir með því réttindi almennings er augljóst að það er almenningur sem á tilkall til verðmætanna, ekki aðrir.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.11.2016 kl. 12:19

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Ætli Bretari hafi sagt eitthvað svipað þegar Íslendingar hentu þeim út úr landhelginni á sínum tíma?

Ég sé fyrir mér mann sem reisir litla girðingu á Mýrdalssandi þar sem í dag er autt hraun. Fólk brosir að þessu uppátæki. Hann færi leyfi og heimildir og alla pappíra upp á að hann megi setja upp þessa girðingu og afnotarétt af landinu. Hann fær öll leyfi. Enginn spáir í því - hvað er hann að eyða púðrinu í svona ónýtt land?

30 ára líða.

Síðan kemur í ljós að stór gullnáma er undir jörðinni nákvæmlega á þessum stað.

Menn brjálast og heimta að fá að vaða um nákvæmlega þetta land. Ekki annað. Menn tala um almannarétt til að ganga um allan Mýrdalssand en vísa auðvitað sérstaklega til litla afgirta hlutans með gullnámunni.

Greyið maðurinn að hafa lagt allt undir til þess eins að sjá það hirt af honum af æstum múg með heykvíslar. 

Geir Ágústsson, 23.11.2016 kl. 13:34

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er engan veginn sambærilegt. Fyrir það fyrsta hefur fiskurinn í sjónum aldrei verið verðlaus. Það er nú ástæðan fyrir því að menn veiða hann, líka áður en kvótakerfið var sett á. Í öðru lagi uppgötvaðist engin gullnáma á fiskimiðunum, gullnáman var búin til af ríkisvaldinu með aðgangstakmörkunum.

Sambærilegra dæmi er ef settar yrðu fjöldatakmarkanir á gesti til Þingvalla, aðgangskvótarnir afhentir fáeinum ferðaskrifstofum og öllum Íslendingum sem fram til þessa hafa haft frjálsan aðgang svæðinu yrði skyndilega gert að greiða ferðaskrifstofunum fyrir aðganginn.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.11.2016 kl. 14:22

6 identicon

Geir, þú þarft að kynna þér hvað ríkisvæðing þýðir. Ég hélt að það væri öllum ljóst en svo er greinilega ekki.

Verðmæti, sem meiri eftirspurn er eftir en framboð, þarf að sjálfsögðu að greiða sannvirði fyrir. Það er auðvitað fráleitt að þjóðin gefi ríkustu þegnunum þessi verðmæti á meðan aðrir hafa enga möguleika á að notfæra sér þau.

Flokkar sem meirihluti þjóðarinnar aðhyllst eru sammála um þetta. Vonandi munu önnur mál ekki koma í veg fyrir að þetta verði niðurstaðan.

Ásmundur (IP-tala skráð) 23.11.2016 kl. 14:26

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Hér þurfa menn að svara fyrir það hvers vegna sjávarútvegur víðast hvar í heiminum er niðurgreiddur taprekstur. Þó eru takmarkanir á þeim veiðum. Menn nota svipuð skip, mannskap með svipaða þjálfun og sækja fisk sem er svipaður þeim sem syndir við Ísland.

Er þetta einhvers konar kraftaverk?

Menn þurfa líka að svara fyrir þau vandræði sem sjávarútvegurinn var í áður en veiðiheimildir urðu að verðmætum atvinnutækjum sem eru verðlagðar sem slík. Menn gleyma því e.t.v. að verð á atvinnutækjum og fjármunaeignum er háð verðmætasköpun þeirra. Ef enginn væri fiskurinn við Ísland eða ef tap væri af því að sækja hann þá væri kvótinn sennilega hræódýr. Eftir því sem betur gengur að sækja verðmæti í sjó, þeim mun dýrari er kvótinn. Hátt kvótaverð er merki um velgengni kvótakerfisins. 

Geir Ágústsson, 23.11.2016 kl. 15:32

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Svarið við þessari spurningu er einfalt Geir: Kvótakerfi er einfaldlega afar hagkvæm leið til þess að stýra veiðum. Það breytir hins vegar engu um að ókeypis úthlutun til valinna aðila er ekki réttlát leið til að útdeila þeim verðmætum sem urðu til með upptöku kerfisins.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.11.2016 kl. 19:13

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Hverjir eru það í dag sem sitja á "ókeypis" kvóta? Meirihluti kvótans hefur skipt um hendur á seinustu áratugum. Á að féfletta alla vegna þeirra fáu sem framkvæmdu þann óvinsæla leik með eigur sínar að selja þær ekki? 

Á sínum tíma var úthlutað eftir veiðireynslu, þ.e. til þeirra sem voru á sjó og höfðu lifibrauð sitt af sjómennsku. Ef ekki þeir, þá hverjir?

Segjum að árið sé 2050. Allir sem fengu kvóta byggðan á veiðireynslu á sínum tíma eru dauðir. Breytast þá forsendur andstæðinga kvótakerfisins? Skiptir það máli? 

Hver er þá næstur í röðinni? Afkomandi Ingólfs Arnarssonar sem á enn eins og einn hektara í landi Reykjavíkur sem hefur erfst í 1000 ár og má líta á sem "gjafaland"?

Hver gaf ríkinu fiskinn í sjónum til að byrja með? 

Annars sýnist mér nýr framkvæmdastjóri SFS ætla sér að uppræta goðsagnirnar í kringum kvótakerfið á Íslandi eina af annarri og því fagna ég:
http://www.sfs.is/um-sfs/nanar/tilraunir-eru-ekki-avisun-a-arangur

Geir Ágústsson, 23.11.2016 kl. 19:55

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hvað viðskipti með kvótann á undanförnum áratugum áhrærir breyta þau engu um hvað rétt er og rangt. Eftir valdarán kommúnista í Austur-Evrópu í kjölfar seinni heimstyrjaldar voru eigur hirtar af fólki og afhentar þeim sem stjórnvöldum voru þóknanlegir. Þær gengu vissulega kaupum og sölum eftir það. En fyrsta verk nýrra stjórnvalda eftir fall kúgunarstjórnanna var að afhenda réttmætum eigendum þessar eignir eða erfingjum þeirra, að nýju.

Úthlutun kvótans var reyndar ekki til þeirra sem höfðu lifibrauð sitt af sjómennsku, enda fengu sjómenn engu úthlutað. Eðlilegt hefði verið, þá strax, að selja veiðiheimildirnar, sem ríkið hafði búið til, á markaði. Það er augljóst.

Þú mátt ekki rugla saman andstöðu við kvótakerfið og gagnrýni á úthlutun kvótans. Og ef stjórnvöld hafa af fólki eignir eða réttindi á óréttmætan hátt er það óréttmætt, sama hversu langt er um liðið.

Ekki rugla heldur saman verðmætum sem verða til vegna ríkisafskipta og eignum sem menn helga sér við landnám. Þar er ekkert sambærilegt.

Að lokum snýst málið ekki um eignarhald á fiski í sjónum heldur réttindi til að veiða þennan fisk. Hann tilheyrði landsmönnum öllum allt þar til réttindin voru afnumin og þeim úthlutað til sumra landsmanna án þess að aðrir fengju bætur fyrir missi þeirra.

Prófaðu að setja málið í samhengi við dæmið sem ég nefni um Þingvelli. Þá áttar þú þig kannski á hvar villan í málflutningi þínum liggur.

Þorsteinn Siglaugsson, 24.11.2016 kl. 00:00

11 identicon

"Svarið við þessari spurningu er einfalt Geir: Kvótakerfi er einfaldlega afar hagkvæm leið til þess að stýra veiðum. Það breytir hins vegar engu um að ókeypis úthlutun til valinna aðila er ekki réttlát leið til að útdeila þeim verðmætum sem urðu til með upptöku kerfisins."

Þetta er hárrétt en verðum við ekki að skoða hvernig aðstæðurnar voru þá. Miðað við það sem ég hef lesið átti engin von á því að ríkið myndi þurfa hætta að styrkja sjávarútvegin en þetta var leið sem lofaði góðu og sem betur fer heppnaðist hún vel.

"Úthlutun kvótans var reyndar ekki til þeirra sem höfðu lifibrauð sitt af sjómennsku, enda fengu sjómenn engu úthlutað. Eðlilegt hefði verið, þá strax, að selja veiðiheimildirnar, sem ríkið hafði búið til, á markaði. Það er augljóst." 

Já það hefði verið best að selja þær á markaði, það er auðvitað augljóst en það var ekki gert á þeim tíma en núna er þannig háttur komin á. Ég verð samt að vera ósáttur við að þú segir að rétturin til að veiða þennan fisk hafi verið afnumin ég og þú höfum en rétt til að fara veiða í soðið, en ef þú meinar að setja af stað útgerð þar sem við vinnum afurð úr fisknum í miklu magni til að selja á markað þá er það rétt á þeim tíma. Það er ekkert sem stoppar okkur í því núna nema að fjármagna kvóta- og tækjakaup.  Annars mjög áhugaverð skrif hjá þér. 

Axel (IP-tala skráð) 24.11.2016 kl. 06:03

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Nú vill svo til að ég þekki a.m.k. tvo einstaklinga sem fiskuðu eins og vindurinn í þau 3 ár sem veiðireynslan var undir til að eignast veiðiheimildir að úthlutun lokinni. 

Sem sagt, menn sem veiddu með eigin höndum og fengu svo leyfi til að halda því áfram eftir tilkomu kvótakerfisins.

Átti að láta einhverja aðra en þá fá veiðiheimildirnar? Hverja? Hvernig hefðu þeir þá átt að gera áætlanir til framtíðar í þau 3 ár sem þeir stunduðu veiðar? Með því að veðsetja hús og konu og börn og slást við ríka fjárfesta í Reykjavík um veiðiheimildirnar?

Varanlegar veiðiheimildir á fiskveiðiheimildum aðskilja ríkisvald og útgerð. Heildarmagn er ákveðið með sem vísindalegustum hætti. Sjómenn hafa tekið á sig óteljandi skerðingar hér og ekki beðið um aðstoð hins opinbera. Útgerðin hefur lifað af alltof sterka íslenska krónu og í staðinn notið góðs af tímabilum veikrar krónu. 

Það eina sem ég sé menn hérna stinga upp á er að ríkisvæða hagnaðinn og einkavæða tapið. 

Geir Ágústsson, 24.11.2016 kl. 08:11

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Því áttum okkur á einu: Umræðan um afnám núverandi kerfis varanlegra veiðiheimilda í umsjón einkaaðila var ekki svona hávær þegar útgerðin var ennþá að berjast við að skila hagnaði og var raunar víða dragbítur á skattgreiðendum. Það er fyrst að dollaramerkin komu í augu fólks að menn fóru að finna upp á allskyns heimspekilegum ástæðum til að taka atvinnutækin af útgerðinni. 

Geir Ágústsson, 24.11.2016 kl. 08:14

14 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er enginn að tala um að taka atvinnutæki af einum eða neinum Geir. Aðeins að menn greiði eðlilegt verð fyrir hráefnið.

Þorsteinn Siglaugsson, 24.11.2016 kl. 10:57

15 Smámynd: Geir Ágústsson

"Eðlilegt verð" má greinilega skilgreina á alla vegu. Ég vil aftur benda á að kvóti er verðlagður eftir væntanlegri verðmætasköpun hans til framtíðar og að það er í flestum afkimum hagkerfisins talið eðlilegt verð. 

Geir Ágústsson, 24.11.2016 kl. 11:36

16 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Eðlilegt verð er markaðsverð.

Þorsteinn Siglaugsson, 24.11.2016 kl. 14:36

17 Smámynd: Geir Ágústsson

"Áhrif uppboðs dregur úr því fé sem fyrirtæki geta nýtt til fjárfestinga og því þurfa þau að treysta á lánsfé. Lánsfé mun þó að öllum líkindum vera dýrara vegna óvissu í greininni. Uppboð sem endurtekin eru reglulega ýta auk þess undir skammtíma hagnaðarhámörkun sem hefur það í för með sér að fjárfesting í fiskistofnum minnkar og framleiðsla eykst. Fyrningar- og uppboðsleið leiðir því til minni og óhagkvæmari fjárfestinga en væru við óbreyttar aðstæður."

http://skemman.is/item/view/1946/8219

Geir Ágústsson, 24.11.2016 kl. 14:58

18 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Auðvitað veldur það óvissu ef menn þurfa að greiða fyrir hráefnið í stað þess að fá það frítt. Viltu þá ekki líka að ríkið kaupi hráefnið fyrir aðrar atvinnugreinar, að ríkið úthluti kvótum til verslunarrekstrar svo kaupmenn þurfi ekki að búa við óvissu markaðarins? Þá geta þeir auðvitað fjárfest meira.

Þorsteinn Siglaugsson, 24.11.2016 kl. 20:15

19 identicon

Þorsteinn ég held að skilji hvert þú ert að fara með þetta, þú vilt að útgerðir greiði gjald fyrir að fá að veiða fiskin. Afhverju segiru það ekki frekar en að vera blanda öðru inní þetta? 

Axel (IP-tala skráð) 24.11.2016 kl. 21:03

20 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég er nú búinn að segja það margoft Axel.

Þorsteinn Siglaugsson, 24.11.2016 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband