Mánudagur, 3. október 2016
Lofað fyrir annarra manna fé
Vinstrimenn eru sjálfum sér líkir í aðdraganda kosninga. Þeir vilja byggja, veita og styrkja fyrir annarra manna fé. Þegar þeir eru spurðir hver eigi að borga byrjar sami gamli og þreytti söngurinn um að skatta megi hækka á hina tekjuháu. Raunin verður öll önnur.
Óli Björn Kárason segir á einum stað:
"Loforð vinstri manna er að innleiða stjórnsýslu og hugmyndafræði meirihluta borgarstjórnar yfir á landið allt. Reykvíkingar þekkja af eigin raun hvernig útgjöldum er forgangsraðað. Þjónusta við eldri borgara er skorin niður og leik- og grunnskólar sitja á hakanum. Borgarfulltrúar ferðast um heiminn til að kynna sér lestarsamgöngur og innheimtur bílastæðagjalda í stórborgum. Í Reykjavík grotna götur niður en hundruðum milljóna er varið í að þrengja meginæðar gatnakerfisins. Reykjavík hefur verið gerð að höfuðborg holunnar. Kvörtunum um lélegan kost í skólum er mætt með því að hækka álögur á barnafjölskyldur. Borgarsjóður er ekki lengur sjálfbær þrátt fyrir að álögur og gjöld á íbúana séu í hæstu hæðum.
Kjósendur geta gert sér sæmilega grein fyrir því hvað bíður handan við hornið, taki vinstri stjórn við völdum að loknum kosningum. Verkin tala og fyrirmyndin liggur fyrir."
Þessu mótmælir varla nokkur nema sá allraóheiðarlegasti. Eða hvers vegna ættu vinstrimenn á Alþingi að stunda önnur stjórnmál en vinstrimenn í Reykjavík?
Raunar hefur vinstristjórn í Reykjavík reynst ágætlega áreiðanleg vísbending um afleiðingar vinstristjórnar á landsvísu eins og menn sjá væntanlega við lestur á þessari grein minni frá 2007. Það sem ég sá ekki árið 2007 var að peningaprentun hafði gengið af göflunum í aðdraganda ársins 2008. Nú eru hættumerkin önnur en vinstrimenn eru ekki að fara bregðast við þeim.
Það er ekki hægt að fjármagna stóraukin ríkisútgjöld með því að skattleggja tekjuháa einstaklinga enn frekar. Tekjuháir eru ekki þeir sem standa undir skattkerfinu. Það gerir meirihluti launafólks - fólk með miðtekjur, þeir sem kaupa sér pulsu, þeir sem kaupa sér bíl, þeir sem standa upp á morgnana til að mæta í vinnuna. Aukin ríkisútgjöld bitna fyrst og fremst á þessum hópi.
Eru menn tilbúnir í slíkt?
Tekjuháir leggi meira til samfélagsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta var góð greining hjá Óla Birni. Auðvitað verður ríkisbáknið ekki rekið með auknum sköttum á þá sem hafa lagt til hliðar og myndað eignir eins og var gert 2008. Við sáum eignaupptökuna þá og sami tónn er slegin núna.
Það virðist vera eina leiðin að markinu að halda fast í þá hugmyndafræði að skattleggja þá sem eiga 100 milljónir plús. Það á öllum að líða jafn illa. Ég varð veikur af því að hlusta á fagurgalan í sjónvarpinu. Ríkið á að greiða fyrir allt og yfirbygginguna í embættismannakerfinu líka.
Guðmundur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 3.10.2016 kl. 04:11
Auðvitað lofa þessir guðsvoluðu þurfalingar öllu á kostnað annara. Ég man aldrei eftir neinu öðru en að meðajóninn borgi skatta á Íslandi og beri uppi alla þurfalinganna í stjórnsíslunni og embættismannakerfinu. Þá skiptir engu máli hvort ríkisstjórnin er sögð vera til vinstri eða hægri. En auðvitað eru ekki til peningar til að gefa börnunum á leikskólunum mat að borða, þegar stjórnvöld eru á fullu í að stela bestu og arðbærustu ríkisfyrirtækjunum. Og það er það eina sem er á stefnuskrá framsjallanna. Svo að það er tvennt í boði. Hvort viljum við kúk eða skít. Það er enginn að fara að minnka þurfalingakerfið. En ég sé mörg teikn á lofti um að það sé verið að þenja út báknið. Þannig að það er í raun ekkert í boði, annað en að horfa uppá kerfið versna og versna þangað til allt fer á hausinn. Því við meðaljónarnir höldum þessu ekki uppi endalaust.
Steindór Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.10.2016 kl. 11:12
Steindór,
Þegar þú talar um kúk og skít þá er ég ekki ósammála. Mín nálgun er því að óska eftir hægri/miðjustjórn og veita henni aðhald frá hægri eða sem frjálshyggjumaður og tel það vænlegra til árangurs en að fá miðju/vinstristjórn og þurfa að veita henni aðhald frá hægri, því það hefur minna upp á sig.
Það mætti segja að fyrirtæki sem ríkið á EKKI sé minna líklegt til að komast í vasa skattgreiðenda en fyrirtæki sem ríkið á. Ergo, ríkið á að selja fyrirtæki sín.
Opinber stofnun sem er lögð niður veldur engum skaða og er því skárri en stofnun sem enn er starfrækt. Opinberar stofnanir á því að leggja niður.
Milljarður sem ríkið tekur ekki er milljarður sem ríkið getur ekki notað til að þenja út báknið. Skatta á því að lækka.
Allt tal um að auka eftirlit með skattsvikum, bæta hagstjórn hins opinbera og auka gegnsæið á spillingunni er innantómt hjal sem refurinn í hænsnabúrinu tekur ekkert mark á. Hann heldur áfram að slátra hænunum á meðan hann hefur tækifæri til þess.
Geir Ágústsson, 3.10.2016 kl. 12:05
Ég hef aldrei skilið þessi rök hjá þessu vinstra batterýi, tekjuháir eru nú þegar að leggja miklu meira til samfélagsins heldur en tekjulágir, það gefur auga leið, þó að prósentan sé sú sama þá er upphæðin allt önnur, þetta er eitthvað sem fólk vinstra megin bara vill ekki skilja, þetta er svo mikil öfundsýki að hið hálfa væri meira en nóg.
Hér er reikningsdæmi sem jafnvel Kata hlýtur að skilja, geri mér samt ekki miklar vonir hún hefur sýnt það ítrekað að hún á alls ekki heima í stjórnmálum.
40% skattur af 200.000 er 80.000
40% skattur af 1.000.000 er 400.000
Hvor borgar meira til samfélagsins??
Halldór (IP-tala skráð) 3.10.2016 kl. 12:41
Halldór,
Svona reiknisdæmi rugla bara vinstrimenn í ríminu.
Nú fyrir utan að tekjulágir njóta persónuafsláttar af staðgreiðslu skatta til ríkisins (útsvarið stendur samt óhaggað). Margir njóta líka ýmissa bóta. Margir eru raunar nettóþiggjendur nú þegar og vita af ef tekjurnar hækka þá hrynja bæturnar af þeim, skatturinn hækkar og ráðstöfunartekjurnar standa í stað eða falla. So, why bother?
Geir Ágústsson, 3.10.2016 kl. 13:47
Það á ekki að leggja niður eða selja ALLAR opinberar stofnanir, bara þær sem eru óþarfar. Byrja á RÚV.
Hins vegar mæli ég með (eins og ég hef gert svo oft áður) að allar pólítískar stöður verði lagðar niður og allir yfirmenn sem hafa fengið stöðu gegnum kunningsskap eða með óeðlilegum hætti, verði reknir. Samtímis að gera það að reglu, að:
a) opinberum starfsmönnum sem hætta svo og uppgjafaþingmönnum verði ekki garanterað annað starf eða í stjórnum hjá hinu opinbera. Þeir geta sótt um jafnfætis öllum öðrum sem hafa engin sambönd.
b) yfirmenn sem hafa sýnt af sér dugleysi í starfi verði ekki ráðnir í störf eða stjórnir hjá hinu opinbera
c) að öll opinber störf verði auglýst og umsækjendur metnir eftir hæfni af óháðum valnefndum
d) biðlaun embættismanna (bæjarstjóra, ráðherra, osv. verði afnumin svo og bónusar, og starfslokasamningar gerðir ólöglegir.
e) ráðherrar megi ekki ráða aðstoðarmenn, enda þurfti þess ekki í gamla daga, og öllu óþarfa starfsfólki ráðuneytanna verði sparkað.
Ef þannig tekst að minnka hið opinbera um 12.000 stöðugildi meðan bezta fólkið sé ráðið í allar nauðsynlegar stöður, þá gæti sparazt mikið. Athugið, að hér er ég aðallega að mæla með að fólk í óþarfa eða illa fengnum yfirmannastöðum o.s.frv. verði reknir, en hvorki heilbrigðisstarfsmenn, né allir kennarar né þjónustufulltrúar hjá almannatryggingum og þvíumlíkt. Auðvitað þarf að gera úttekt á því hverjir verði skornir burt og hversu mikið sparast. Það er augljóst, ef þrír menn vinna vinnu eins, þá geta tveir verið látnir fara.
Vinsamlegast bætið við listann, ef ég hef gleymt einhverju.
Pétur D. (IP-tala skráð) 4.10.2016 kl. 00:38
Margt býr í mannfólkinu og það er eins og Vinstri grænir sjái bara eitt: Tekjujöfnuður sem kostaður er með tilfærslu frá einum hóp til annars. Ég sé þetta ekki ganga upp. Menn voru hissa að landinn flúði með eignir sínar í aðrar paradísir.
Við getum séð fyrir okkur ráðdeildasamt fólk sem að erfði kannski 50 milljónir og sparaði 50 milljónir og á svo fasteign upp á 70 milljónir. Þetta kann að vera skuldlaust en ef hugmyndir Vg ná fram að ganga þá munu þeir skattleggja fólk sem að hefur unnið fyrir sínu alla ævi og náð að neita sér um lífsgæði því það vildi spara. Þessu fólki er refsað. Það voru mýmörg dæmi um eldra fólk sem að bjó í dýrum fasteignum sem að sveið undan skattpíningu Vg. Þeir virtust ekkert hafa lært.
Ef við höfum efni á að marg skattleggja fólk getum við þá ekki sett lög á ríkisstarfsmenn um að þeir fái ekki nema hæstu laun x og byrja þannig að taka inn í kerfið aftur. Þess utan þá væri hægt að fella niður fasta yfirvinnu og svo má líka jafna lífeyrisréttindi þingmanna þannig að réttindi þeirra séu þau sömu og hinna vinnandi stétta. Ef þetta fólk vill breyta þá ætti það að byrja á sjálfu sér.
Hrokinn og hræsnin er yfirgengileg. Væri ekki nær að allir greiddu sanngjarna skattprósentu sem að myndi skila meiru til hins opinbera heldur en að vera að standa í þessum leikjum sem að skilu litlu til samfélagsins, nema að refsa þeim sem að hafa unnið vel úr sínum málum. Það er verið að segja að fólk eigi að skulda og leyfa sér allt.
Guðmundur (IP-tala skráð) 4.10.2016 kl. 02:45
Pétur D.
Ég dáist að viðleitni til að reyna bæta opinbera stjórnsýslu en deili því miður ekki bjartsýni þinn á að það sé hægt. Á meðan viðskiptavinir geta ekki flúið með fótunum í faðm samkeppnisaðila sem fær að starfa er ég hræddur um að ríkiseinokunin haldi áfram að hegða sér eins og hver önnur lögvarin einokun.
Geir Ágústsson, 4.10.2016 kl. 06:50
Það er ekkert hægt ef viljinn er ekki til staðar. Ef stjórnvöld sjálf og alþingismenn eru spillt og duglaus þá vex spillingin í þjóðfélaginu eins og krabbameinsæxli.
Pétur D. (IP-tala skráð) 4.10.2016 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.