Miðvikudagur, 29. júní 2016
Í ESB er kosið aftur ef röng niðurstaða fæst
Evrópusambandið er ekki hrifið af þjóðaratkvæðagreiðslum. Ef niðurstaðan er röng er bara kosið aftur nema einhverjar bakdyr sé að finna. Þetta kannast flestir við.
Kosningin í Bretlandi er samt bara byrjunin á einhverju miklu stærra. Það má vel vera að það sé hægt að finna leiðir til að hunsa þjóðaratkvæðagreiðsluna og tefja úrsögn Breta. Það mun hins vegar engu breyta til lengri tíma. Almenningur í fleiri ríkjum sambandsins er byrjaður að eygja von á sínum eigin kosningum um aðildina að ESB. Rifur eru komnar á múrinn og þær munu breytast í sprungur, kannski hægt og rólega en kannski skyndilega.
Sem betur fer stefnir ekkert í að Ísland sé á leiðinni um borð í hið sökkvandi skip.
Spurningin er svo bara hvað tekur þá við. Geta Evrópuríkin stundað frjáls viðskipti án þess að vera innan ríkjasambands? Munu þau fylgja stefnu verndartolla og viðskiptahafta eða opna á frjáls viðskipti við önnur Evrópuríki og jafnvel heimsbyggðina alla? Tíminn mun leiða í ljós hvort sjónarmiðið verður ofan á - það að menn geti búið á sitthvoru heimilinu en engu að síður átt frjáls samskipti og viðskipti sín á milli, eða hitt að menn stundi sjálfsþurftarbúskap þar sem allir sauma sínar eigin brækur.
Ekki víst að Bretar fari úr ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
ESB er ekki að fara fram á nýja kosningu. Þvert á móti vill það að 50.gr Lissabon-sáttmálans verði virkjuð sem fyrst. Þá myndu Bretar ekki eigi afturkvæmt í ESB nema með því að sækja um aftur.
Forystumenn breskra útgöngusinna virðast hins vegar vera í öngum sínu. Þeir vilja ekki virkja 50.greinina því að þá hafa þeir brotið allar brýr að baki sér. Margir sem greiddu atkvæði með aðild vilja kjósa aftur vegna þess að þeir voru blekktir og hafa forystumenn útgöngusinna viðurkennd það og sagt að það standi alls ekki til að efna loforðin.
Brexit hefur styrkt samstöðuna í ESB. Engin ESB-þjóð vill lenda í sömu vandræðum og Bretar. Hollendingar, sem hafa helst hagsmuna að gæta vegna Brexit, voru því taldir líklegastir til yfirgefa ESB ef Bretar færu út. Þingályktunartillaga þess efnis hefur nú verið hafnað með 84% atkvæða á hollenska þinginu.
Ásmundur (IP-tala skráð) 29.6.2016 kl. 16:44
Sammála þér í því að þetta er byrjunin á einhverju stærra. Fólk er búið að fá nóg af sérklúbbum stjórnmálamanna. Það var engin tilviljun að Andri Snær og Davíð náðu ekki kosningu hér heima, fulltrúar stríðandi fylkinga. Fólk vill bara stunda sín viðskipti í friði.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 29.6.2016 kl. 18:21
Leiðrétting á síðustu setningu innleggs míns:
Þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um brotthvarf Hollendinga úr ESB hefur nú verið hafnað með 84% atkvæða á hollenska þinginu.
Ásmundur (IP-tala skráð) 29.6.2016 kl. 18:29
Það er smá misskilningur á ferð hjá greinarhöfundi.
Í ESB er haldið áfram að kjósa, þagað til röng niðurstaða fæst.
Borgþór Jónsson, 30.6.2016 kl. 08:57
Það mætti e.t.v. bera saman ESB og Rómarveldi. Í fyrstu gengur vel. Síðan er miðstýringin aukin. Síðan er útþensla. Svo koma vandræði. Þá er búin til verðbólga. Skuldirnar aukast og pólitísk óvissa líka. Að lokum koma brestir og að lokum hrynur allt.
Geir Ágústsson, 30.6.2016 kl. 17:54
Kristin trú kom ágætlega út úr því hruni. Spurning hvað gerist núna.
Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.6.2016 kl. 20:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.