Um vensl jöfnuðar og velferðar

Þeir finnast enn sem telja að aukinn jöfnuður sé ávísun á aukna velmegun eða meiri velferð. Það er hins vegar orðið ljóst fyrir löngu að þetta er einskonar trúarleg kenning þeirra sem kalla sig gjarnan jafnaðarmenn.

Aukin velmegun og meiri velferð er ekki háð jöfnuði. Til að auka verðmætasköpun og þar með hag fólksins þarf að auka efnahagslegt frelsi. Þetta má vitaskuld rökstyðja án þess að styðjast við tölur og gögn en það er fljótlegra að sýna þrjár myndir og vísa í skýrslu.

Á myndunum hér fyrir neðan er búið að skipta ríkjum heims í fjóra hópa eftir því hversu mikils efnahagslegs frelsis íbúar þeirra njóta skv. mælingum Fraser-stofnunarinnar í Kanada og samstarfsfélaga hennar um allan heim.

Á fyrstu myndinni sjást meðaltekjur íbúanna. Þær eru auðvitað töluvert hærri þar sem efnahagslegt frelsi er mikið. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. 

3

Á næstu mynd sjást tekjur þeirra 10% fátækustu. Þær eru líka töluvert hærri í ríkjum þar sem efnahagslegt frelsi er mikið. Þetta vita líka allir. Sá sem er fátækur á Íslandi á sjónvarp og bíl. Sá sem er fátækur í Nígeríu eða Íran lifir við hungurmörk og á varla föt utan á líkama sinn.

Tekjur fátækustu 10% íbúanna

En er ekki mikill ójöfnuður meðal frjálsustu ríkjanna þar sem allir eru ríkir en sumir ofurríkir? Um það má deila en það virðist litlu máli skipta í hvaða frelsishóp ríki fellur, þeir fátækustu eiga alltaf svipað hlutfall alls eins og sjá má á næstu mynd (og jafnvel ívið stærra hlutfall þar sem mest efnahagslegt frelsi ríkir).

Hlutdeild þeirra fátækustu

Hver er svo boðskapurinn? Hann er eftirfarandi: Jöfnuður er ekki ávísun á verðmætasköpun og bættan hag þeirra fátækustu. Það er efnahagslegt frelsi hins vegar. Í bónusvinning með efnahagslegu frelsi kemur svo pólitískt frelsi því efnaðir íbúar hafa meira þrek og meiri viðspyrnu gegn yfirgangi yfirvalda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Þeir finnast enn sem telja að aukinn jöfnuður sé ávísun á aukna velmegun eða meiri velferð."

Þetta hefur sannað sig að vera rétt. Hin norðurlöndin eru bestu lönd í heimi til að búa í enda hafa jafnaðarmannaflokkar verið þar við völd lengst af. Þar hefur "trúarsetningin" sannað sig.

Þeir sem vinna gegn þessari stefnu eru fyrst og fremst að þjóna eigin græðgi. En jafnvel þeirra hagur er betri þar sem stefnt er að minni ójöfnuði.

Það er athyglisvert að þegar Bandaríkin þóttu fyrirmyndarríki var tekjuskattur á hæstu tekjur yfir 70%. Það var jafnaðarmennska.

Það er ekki síður athyglisvert að skattar á hæstu tekjur voru í lágmarki árin fyrir hrunin 1929 og 2008. Þá ríkti frjálshyggja sem endaði með ósköpum.

Ef ekki er gripið í taumana til að vinna gegn auknum ójöfnuði vex hann stöðugt og endar með hruni. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 12.6.2016 kl. 12:25

2 identicon

Aukinn jöfnuður hefur ekkert með minna frelsi að gera. Þetta er val íbúanna og er tilgangurinn þvert á móti ekki síst að tryggja meira frelsi þegar upp er staðið.

Þetta er spurning um að takmarka frelsi á vissum sviðum til að auka það enn meira á öðrum mikilvægari sviðum. Hin norðurlöndin eru gott dæmi um hvernig þetta virkar. 

Ef menn greiða ekki skatta til að tryggja hag allra mun óánægja stórra hópa brjótast út í ofbeldi sem ógnar öryggi fólks. Það er frelsisskerðing.

Gott dæmi um frelsisskerðingu af völdum frjálshyggju er byssulöggjöf Bandaríkjanna. Hún tryggir hag fárra við sérstakar aðstæður á kostnað öryggis fjöldans með skelfilegum afleiðingum. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 12.6.2016 kl. 13:08

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásmundur,

Þú ferð yfir víðan völl. Eftir stendur samt ekki rökstuðningur fyrir því að jöfnuður í sjálfu sér sé góður nema til að svala öfundsýki þeirra sem geta ekki hugsað sér að sumum gangi betur en öðrum jafnvel þótt sú velgengni komi öðrum vel líka. 

Heimurinn er t.d. ekki verri þótt stofnendur Facebook, Microsoft, Apple, Airbnb og Google eigi miklu meiri peninga en þeir gætu nokkurn tímann eytt. Við hin njótum hins vegar afrakstursins af vinnu þeirra. 

Geir Ágústsson, 13.6.2016 kl. 07:34

4 identicon

Bull er þetta í þér. Eru það ekki rök að þau lönd þar sem mest velmegun ríkir eru þau lönd þar sem jafnaðarstefnan hefur verið ríkjandi?

Eru það ekki rök að þegar Bandaríkin þóttu til fyrirmyndar að þá voru skattar á háar tekjur í hámarki. Eru það ekki rök að þegar sömu skattar voru í lágmarki endaði það með hruni? 

Öfund kemur málinu ekkert við. Sjálfur hef ég það mjög gott þó að ekki sé ég auðmaður. Hef reyndar engan áhuga á að verða það.

Einn kosturinn við meiri jöfnuð er að minna fé mun renna til erlendra skattaskjóla. Það mun í staðinn nýtast til uppbyggingar hér.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.6.2016 kl. 10:25

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Þín grundvallarforsenda byggir á venslum sem eru ekki til staðar, að af því þú sérð að bæði jöfnuður og velmegun falla saman í sumum ríkjum heims þá leiði velmegun af jöfnuði. Það er enginn vandi að rökstyðja hið gangstæða, að velmegun sé mikil þrátt fyrir hina miklu skattheimta en ekki vegna hennar.

Þú nefnir oft skattheimtu í Bandaríkjunum en gleymir þá að það er munur á skattprósentum annars vegar og raunverulegri skattheimtu hins vegar.

Þú hefur ekki nefnt neina aðra ástæðu fyrir efnahagssveiflum en jöfnuð (eða skort þar á) sem er einkennilegur blóraböggull. Ástæður hagsveiflna eru fjölmargar. Spilar þar seðlaprentun ríkisvaldsins stærst hlutverk en hún ýtir undir sveiflur og gerir viðskiptaútreikninga að ágiskunarvinnu. 

Þú nefnir oft Norðurlöndin en gleymir þeim ríkjum sem eru að sigla fram úr þeim, eins og Hong Kong og Singapore. Þú nefnir ekki að það tímabil þar sem Norðurlöndin voru að byggjast upp, t.d. Svíþjóð, voru tímabil lágra skatta og hófsams ríkisvalds sem hafði mun minna á sinni könnu en við upplifum í dag. 

Jöfnuður er svo bara alls ekki eitt af einkennum Norðurlanda heldur virðing fyrir eignarétti og gegnsæi regluverksins sem gerir fyrirtækjum kleift að skipuleggja rekstur sinn og fjárfesta til framtíðar.

Geir Ágústsson, 13.6.2016 kl. 12:48

6 identicon

Skv eftirfarandi ítarlegum samanburði landa heims eru Danmörk, Svíþjóð og Noregur þau lönd sem best er að búa í. Singapore er í sautjánda sæti og Hong Komg er ekki á lista yfir 30 efstu löndin. Það er því undarlegt að halda því fram að Singapore og Hong Kong séu að sigla fram úr Norðurlöndunum. 

https://lifestyle9.org/worlds-best-country-to-live-in-2013/4/

Um og upp úr miðri síðustu öld voru skattar á hæstu tekjur í Skandinavíu mun hærri en síðustu árin. Ég skil því ekki hvernig þú getur haldið því fram að skattar hafi verið lágir þegar velferðarkerfi þessara landa var að byggjast upp. 

Á síðari hluta seinni heimsstyrjaldar og næstu ár á eftir voru skattar á hæstu tekjur í BNA yfir 90% áður en þeir lækkuðu niður í um 70%. Á þessum árum voru Bandaríkin álitin fyrirheitna landið.

Jöfnuður, virðing fyrir eignarrétti og gegnsæi er í raun nátengd og styðja hvert annað. Réttlæti í kjaraskiptingu eykur virðingu fyrir eignarréttinum og gegnsæi tryggir og eykur traust á að allt sé með felldu.

Að sjálfsögðu hafa fleiri atriði áhrif en eftirsókn eftir meiri jöfnuði.En ef ekki er sóst eftir slíkum jöfnuði eykst ójöfnuðurinn stöðugt og endar með hruni.Önnur atriði hafa aðeins áhrif til að flýta eða seinka hruni.

Það er engum vafa undirorpið að skattar þeirra sem hafa hæstu tekjur í BNA hafa stórlækkað undanfarna áratugi. Það er því langsótt að gefa í skyn á þetta sé ekki reyndin þrátt fyrir að skattprósentan hafi stórlækkað.

Heldurðu að það sé tilviljun að 1929 og 2008 voru skattar hæstu tekjur í lágmarki þegar allt hrundi? Sérðu ekki orsakasamhengið?  

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.6.2016 kl. 14:36

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Um Kreppuna miklu sem hófst árið 1929 og var framlengd um mörg ár með ríkisafskiptum má lesa betri greiningar en þá að skattur á lítinn hluta þjóðfélagsins hafi verið of lágur. Sömuleiðis um hrunið 2008. 

Það sem þú gerir líka er að taka stikkprufu af ástandinu eins og það er í dag. Lífsgæði á Norðurlöndum eru að batna hægar en í mörgum öðrum ríkjum. Svíar hafa þurft til dæmis að taka hressilega til í ríkisrekstrinum sínum til að sporna við þessari þróun, og hafa mörg sveitarfélög, t.d. Stokkhólmur, neyðst til að hleypa einkaaðlium í auknum mæli að t.d. heilbrigðisþjónustu til að geta haldið uppi þjónustunni án þess að hækka skatta. 

En hvað sem því líður þá er jöfnuður í sjálfu sér ekki mælikvarði á neitt nema svölun pólitísks þorsta eftir honum. 

Geir Ágústsson, 13.6.2016 kl. 17:55

8 Smámynd: Geir Ágústsson

En annar vinkill á allri umræðu um jöfnuð er að vissulega getur hann aukist í frjálsu markaðshagkerfi þar sem enginn nýtur sérstakrar ívilnunar ríkisvaldsins umfram aðra og verða að byggja upp auð sinn á eigin forsendum.

Dæmi um ívilnanir ríkisvaldsins eru t.d. niðurgreiðslur, tollar og rándýr starfsleyfi (t.d. vegna stofnunar banka, en bankar eru góð dæmi um fyrirtæki sem hafa það aðeins of náðugt við hlið ríkisjötunnar). 

Aukinn jöfnuður getur því verið niðurstaða þess að sjúga saman ríkisvaldið - nokkuð sem sumir ættu að geta fagnað. 

Geir Ágústsson, 13.6.2016 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband