Í átt að smærri stjórneiningum

Á meðan ríkisstjórnir og önnur yfirvöld leiðast stöðugt í átt til aukinnar miðstýringar og sókn í meiri völd þá hefur almenningur yfirleitt endað á því að spyrna við fótum og krefjast aukins forræðis yfir sjálfum sér. Rómarveldi hrundi þegar valdataumarnir voru orðnir of teygðir. Í Bandaríkjunum eru margir að hugleiða leiðir til að takmarka völd alríkisins, m.a. með sjálfstæðisyfirlýsingum. Sovétríkin og Júgóslavía brotnuðu í marga mola um leið og miðstjórnin missti máttinn að hluta. Tíbet vill út úr Kína, Baskar út úr Spáni, Skotar vilja margir hverjir út úr Bretlandi og núna er sjálfsstæðishreyfing Katalóníu komin á gott skrið. 

Miðstjórnin, hver sem hún er, lítur auðvitað tortryggnum augum á svona tilhneigingu og prófar allt sem hún getur til að dempa hana: Hræðsluáróður, hótanir, mútur og sérmeðferðir. Hinir stóru undirliggjandi straumar verða samt ekki auðveldlega stöðvaðir þegar þeir eru komnir á skrið. 

Lönd eins og Ísland þjóna hér hlutverki fordæmis fyrir margar sjálfstæðishreyfingar. Íslendingar eru mjög fámenn þjóð en engu að síður sjálfsstæð, með eigin utanríkisstefnu, fiskimið, auðlindir, fríverslunarsamninga og stjórnkerfi. Íslendingar hafa að vísu oft notað sjálfsstæði sitt til að apa upp vitleysuna frá öðrum, en sá möguleiki er a.m.k. til staðar að læra af reynslunni og gera eitthvað skynsamlegra næst. Sá möguleiki er varla til staðar þegar þarf að sannfæra fjarlæga miðstjórn um að gera róttækar breytingar.

Sjálfur hef ég talað fyrir því að á Íslandi verði það gert auðveldara að kljúfa upp sveitarfélög og færa þannig valdið úr miðlægum ráðhúsum og í nærumhverfið. Ef stjórnmálamenn geta gengið að skattgreiðendum sínum vísum er alltaf hætt við að þeir fái fáránlegar hugmyndir sem enda oftar en ekki á að kosta þegna þeirra stórfé

Á miðöldum var Evrópa einn stór hrærigrautur af litlum borgríkjum, sjálfstjórnarsvæðum og stærri ríkjum. Fólk gat ferðast frjáls ferða sinna og kosið með fótunum. Þetta veitti pólitískt aðhald en líka góðar aðstæður fyrir tilraunastarfsemi. Þau ríki sem vörðu eignir þegna sinna og tryggðu friðinn blómstruðu. Þau sem gleyptu stór svæði undir sig og lögðu hömlur á ferðalög og viðskipti stóðu eftir, a.m.k. efnahagslega. Pólitísk sundurleitni Evrópu stuðlaði í raun að velgengni hennar. Kannski eru slíkir tímar aftur handan við hornið. 


mbl.is Sjálfstæðissinnar lýsa yfir sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband