Mánudagur, 7. maí 2007
Það sem er EKKI kosið um
Á laugardaginn verður kosið um ýmislegt og auðvitað er aðaláherslan mismunandi milli kjósenda. Sumir vilja t.d. halda áfram að njóta skattalækkana, en aðrir hafa meira áhuga á skattahækkunum (settar fram í formi útgjaldatillaga fyrir ríkisvaldið). Það sem er ekki kosið um er ansi uppörvandi listi, sem gæti e.t.v. litið svona út:
- Atvinnuleysi.
- Skuldir ríkissjóðs.
- Dræmt útlit í efnahagsmálum.
- Rekstrarvandræði t.d. sjávarútvegs og annarra atvinnugreina.
- Samdrátt í tekjum heimila.
- Hækkandi skatta.
- Fjölgun skatta.
- Samdrátt í þeirri þjónustu sem ríkið krefst þess að viðhalda einokun sinni á.
- Fækkun nemenda á framhalds- og háskólastigi.
- Dræmt og hrörnandi úrval vöru og þjónustu.
- Samdrátt kaupmáttar almennings og þá sérstaklega þeirra tekjulægstu.
- Samdrátt á kaupmætti bóta- og ellilífeyrisþega.
- Staðnaðan hlutabréfamarkað.
- Versnandi samkeppnisstöðu Íslands.
Svona má eflaust halda áfram lengi. Þess í stað er, að mati margra, kosið um eftirfarandi atriði:
- Meiri innflutningsútgjöld en útflutningstekjur allra Íslendinga (vöruskiptahalli).
- Meiri fjárfestingar Íslendinga erlendis en útlendinga innlendis (viðskiptahalli).
- Tannheilsu barna (sem versnaði skyndilega þegar ný og fullkomnari tækni var tekin í notkun til að finna skemmdir).
- Hvernig tekjur sumra hafa hækkað hraðar en annarra.
- Misræmi í hlutfalli kynfæra í þægilegum skrifstofustörfum hjá ríki og einkafyrirtækjum.
- Ráðstöfun ríkisvaldsins á landi sínu og fyrirtækjum, t.d. að láta ríkisorkufyrirtækin virkja á landi sem ríkið gaf sjálfu sér.
- Ekki nægilega hraða aukningu á fjármunum til skóla og spítala.
- Jónínu Bjartmarz.
- Ekki nægilega hraðar skattalækkanir á tekjur og varning til að koma í veg fyrir að hækkun launa og aukin sala á hásköttuðum varning leiði til hækkandi skattbyrði.
- Stýrivexti og tímabundin verðbólguskot.
Uppáhaldið mitt á þessum lista eru tveir síðustu punktarnir. Skattar eiga að sjálfsögðu að lækka svo hratt að aukin velta og breyttar neysluvenjur leiði ekki til hækkandi reiknaðrar skattbyrðar eða aukinnar innheimtu ríkisins í krónum talið. Ríkið á einnig að koma sér af gjaldmiðlamarkaðinum, leggja niður Seðlabankann og einkavæða krónuna svo þessar eilífu upp- og niðursveiflur gengis geti heyrt sögunni til.
Á heildina litið samt frekar óspennandi kosningar því öll gömlu klassísku krísumálin eru orðin að mikilli leit að kosningamálsnál í góðærisheystakk.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.5.2007 kl. 06:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.