Skiljanlegt hik ríkjandi stjórnvalda

Ríkjandi stjórnvöld í löndum heims eru skiljanlega hikandi við að gera eitthvað til að "sporna við losun" á koltvísýringi vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Ástæðan er sú að ódýr orka er nauðsynleg til að skapa hagvöxt og orka sem fæst með notkun annarra orkugjafa en olíu, kola og gass er víðast hvar dýr. Þetta vita allir, en það eru bara ríkjandi stjórnvöld sem fá refsingu kjósenda þegar hagvöxturinn hefur verið kæfður eða hann minnkaður. Stjórnarandstaða hvers lands á mun auðveldar með að "krefjast aðgerða". Hið sama gildir um samtök sem standa utan við kosningaslagi lýðræðisríkjanna.

Hagvoxtur_vs_CO2 Á myndinni hér til vinstri (heimild) sést (t.d. með því að smella á myndina til að stækka hana) samband tekna á íbúa og losunar hvers íbúa á CO2 í langflestum löndum heims. Stærð punktanna þýðir íbúafjöldi í hverju landi. Þetta er samband sem hefur gilt í a.m.k. 25 ár og Ísland með sín fallvötn og jarðgufu virðist ekki vera nein undantekning á reglunni.

Ef menn vilja stöðva losun á CO2 þá er afleiðingin mjög sennilega sú að auðsköpun stöðvast. Allavega yrði mjög erfitt fyrir nokkurn mann að halda öðru fram þegar gögnin eru til staðar og myndin sem þau gefa svo hrópandi skýr. 

Auðvitað er alltaf að koma fram ný tækni, og auðvitað mun markaðsöflunum á endanum takast að finna upp tækni sem skiptir skítugri og vandmeðfarinni olíu út fyrir eitthvað meðfærilegra. Kannski mun takast að búa til hagkvæmar eldsneytissellur sem byggja á vetnistækni. Kannski mun nýting sólarorkunnar einn daginn verða hagkvæm fyrir aðra en ríka Vesturlandabúa. En þangað til sá dagur rennur upp er ekki skynsamlegt að fórna velferð mannkyns á bál ofstækis í orkumálum.

Ísland fyrir 1000 árum var skógi vaxið frá fjalli til fjöru, korn var ræktað og geitur og uxar voru hluti af húsdýraflóru bænda. Blómaskeið ríkti víða í Evrópu. 500 árum síðar kólnaði, fólki fækkaði og hinar "myrku miðaldir" tóku við. Núna er aftur byrjað að hlýna. Af hverju er þá heimurinn skyndilega að farast? 


mbl.is Ban Ki-moon hvetur til stefnumótunar í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lies, damned lies and statistics. Í fyrsta lagi ertu með lóðrétta ásinn (CO2 per capita) á log, sem hefur þau áhrif að ýkja mjög sýnilegt trend á lágu gildunum (jafn stór eru þá bilin 0,01 - 1 og 1 - 100) og að þjappa saman hæstu gildunum. Í öðru lagi er lárétti ásinn einnig á log, það hefur þau áhrif að lágu gildin (þar sem þú ert búinn að ýkja trendið nú þegar) fá einnig stærra svæði lárétt og háu gildunum er þjappað aftur saman þannig að erfitt er að sjá trendið þar, þ.e. áætla verður trendið hjá ríku löndunum út frá þeim fátækari.

Hér er tengill á tólið uppsett á gáfulegri hátt. Súmmað er á ca. $9200 - $36000 GNP og er grafið línulegt. Sést að líklega er ekkert trend frá um $10400 GNP og upp úr. Svíþjóð og Frakklandi virðist ekki refsað fjárhagslega fyrir þann CO2 sparnað sem kjarnorkuver gefa, sama með Ísland og jarðvarma. Önnur ríki græða ekkert á miklum CO2 útblæstri o.s.frv. Í stuttu máli virðast engin tengsl milli CO2 útblásturs og landsframleiðslu hjá hinum efnameiri löndum.

 Ég er hinsvegar sammála þér að hnatthlýnun gæti komið sér vel fyrir okkur á skerinu en við erum ekki ein í heiminum :)

Bjarni (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 02:17

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég þakka mjög innihaldsríka gagnrýni á framsetningu mína. Þú mátt hins vegar ekki leggja áherslu á "suðið" sem óneitanlega er til staðar í öllum samanburði á milli landa. Tölfræðingar Gapminder hafa valið log-log skalann sem "default" og gera það til að fá skýrari mynd af því sem gögnin reyna að segja.

Þú bendir samt réttilega á að eftir að ákveðnum tekjum er náð er eins og þau lögmál sem gilda um ríki í þróun gildi ekki um ríki sem hafa náð ákveðnum auði. Margir hafa litið á þetta sem merki um að þegar íbúar lands hafa náð ákveðnum lífskjörum og hættir að þurfa berjast við brýnasta brauðstritið, þá muni þeir í auknum mæli krefjast þess að gæði lofts, lands og vatns aukist. Hreint umhverfi sé lúxus, en til að almenningur byrji að krefjast hans þurfi hann fyrst að ná ákveðnum standardi í lífskjörum.

Tölfræðina deili ég ekki um. Framsetninguna getum við endalaust rifist um. Allt ber að sama brunni: Ríkari almenningur er kröfuharðari en fátækur þegar kemur að umhverfismálum. Spurningin um hænuna og eggið þarf því ekki að spyrja: Auður leiðir til kröfuharðari almennings sem krefst hreinni náttúru.

Geir Ágústsson, 5.5.2007 kl. 02:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband