Miðvikudagur, 3. júní 2015
Bandalag atvinnulausra menntamanna
Bandalag háskólamanna, BHM, verður bráðum bandalag atvinnulausra menntamanna - BAM. Nú hljóta yfirvöld að vera skoða hvar starfsmenn á vegum BHM leynast í kerfinu og hugleiða hvernig má koma þeim stöðugildum út á hinn frjálsa markað.
Þeir sjá t.d. um að þinglýsa húsnæði en svoleiðis verkefni má leysa með tölvum í dag. Þeir sjá um að votta ýmislegt í tengslum við húsdýrahald en það er bara eftirlit sem hinn frjálsi markaður getur alveg sinnt og gerir raunar á mörgum sviðum nú þegar. Þeir sýsla með allskyns opinbera pappíra, eins og vegabréf og ökuskírteini, sem eru í 99% tilvikum bara formsatriði sem faglært skrifstofufólk getur alveg séð um.
BHM er að berjast fyrir því að launabilið á milli þeirra og ómenntaðra sé áfram mikið svo þeim líði eins og menntun þeirra hafa skilað þeim miklum ábata. Gott og vel. Ekki einu sinni svokallaðir jafnaðarmenn hafa neitt út á þessa baráttu fyrir auknum ójöfnuði að setja. Meðlimir BHM hætta hins vegar á að mála sig út í horn og sjá hlýju og þægilegu innivinnuna hjá ríkinu færast út á hinn kappsama og frjálsa samkeppnismarkað þar sem greitt er fyrir árangur og verðmætasköpun en ekki fyrir að líta vel út með skólaplaggið hangandi upp á vegg í ramma.
Ríkið á í sýndarviðræðum við BHM | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ef menntun er áskilin í starfi á að sjálfsögðu að meta hana til launa. Það er jafnaðarmennska.
Nútíma jafnaðarmennska gengur ekki út á að allir fái sömu laun heldur að launin endurspegli áskilda þjálfun, hæfni, ábyrgð og hve slítandi starfið er.
Jafnaðarstefnan berst hins vegar gegn tekjumismuni vegna spillingar og misnotkunar á kerfinu vegna aðstöðu. Það er meðal annars gert með því að hafa stighækkandi skattþrep eftir því sem launin hækka.
Ríkisstjórn auðmanna, sem nú stjórnar Íslandi, hefur náð ótrúlegum árangri í að bæta hag hinna ríku á kostnað hinna verr settu.
Er langlundargeði Íslendinga engin takmörk sett? Eða fylgjast þeir fæstir með því sem yfirvöldin aðhafast?
Ásmundur (IP-tala skráð) 4.6.2015 kl. 08:19
Ásmundur,
Takk fyrir innlegg þitt.
Menntað fólk fær að jafnaði hærri laun en ómenntað nú þegar. Það hefur t.d. verið ítrekað notað til að "sanna" hvað fjárausturinn í menntun er góð fjárfesting. Það sem BHM vill er að munurinn á milli menntaðra og ómenntaðra verði stærri. Ef ómenntaður maður á að hafa 300 þús í dagvinnulaun þá vill menntamaðurinn einhverjum tugum prósentum meira.
Ég sé á innleggi þínu að þú ert ekki að reka fyrirtæki eða vinna fyrir einkafyrirtæki.
Geir Ágústsson, 4.6.2015 kl. 11:15
Fyrir utan að hafa unnið hjá einni stofnun borgarinnar í sumarfríum með námi hef ég aðeins starfað fyrir einkafyrirtæki og rekið einkafyrirtæki þar sem krafist hefur verið starfsmenntunar meðal annars á háskólastigi.
Þar hafa háskólamenntaðir fengið laun sem eru miklu hærri en tvöföld lægstu laun. Það er því fáránlegt að td kennarar í fullri vinnu fái vel innan við 300.000 í mánaðarlaun. 450.000 í lok samningstímans væri algjört lágmark.
Ásmundur (IP-tala skráð) 4.6.2015 kl. 21:55
Þú sérð að þú hefur þurft að borga tvöföld "lægstu laun" til að fá starfsfólk, og hefðir borgað minna ef framboð af hæfu starfsfólki hefði verið meira, en borgað meira ef framboðið hefði verið minna.
Maður spyr sig: Hvað á brauðrist að kosta?
Svarið er: Það sem neytandinn er tilbúinn að borga fyrir hana.
Hvað á starfsmaður að kosta?
Hann á að kosta jafnmikið og þarf til að manna stöðuna með hæfum starfsmanni.
Vandamálið verður fyrst að hápólitísku deilumáli þegar ríkisvaldið einokar ákveðna starfsemi og getur svo að segja setið eitt við samningaborðið. Það er greinilega mikið vandamál því kennarar, hjúkkur og læknar, svo dæmi séu tekin, hafa ekki í önnur hús að venda. Þeirra samningavopn eru læti og ofbeldi en ekki friðsælar samningaviðræður hvers og eins sem hann tekur hiklaust við aðra aðila ef þeir eru tilbúnir að borga betur.
Verkalýðsfélög og ríkisrekstur: Eins og að setja dínamít í kappakstursbíl á malarvegi.
Geir Ágústsson, 5.6.2015 kl. 07:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.