Gott framtak, en ekki nóg

Ég dáist að þeim sem leggja mikið á sig til að skapa öðrum svigrúm til að lifa og dafna og ná markmiðum sínum í lífinu. Þetta má gera með ýmsum hætti. Algengast er að menn reyni að vinna innan þeirra ramma sem yfirvöld á hverjum stað hafa skapað fólki. Í sumum ríkjum er nokkurn veginn málfrelsi þar sem menn geta boðað hugmyndir sínar án þess að vera handteknir. Annars staðar má varla segja neitt né gera og þá er auðvitað erfiðara að boða hugmyndir sínar og oft nauðsynlegt að grípa til ólöglegra aðferða (gefa út nafnlaust lesefni og dreifa um göturnar, halda leynifundi osfrv.).

Nú hefur fundist lítill blettur á landakorti Evrópu sem enginn virðist gera tilkall til. Gott og vel. Segjum sem svo að það takist að stofna lítið fríríki. Um leið og það fer að dafna munu hættur steðja að því. Hið hefðbundna mun reyna að kæfa hið óhefðbundna. Sá stóri og sterki reynir að traðka á nýjabruminu. Og þegar búið er að innlima hvern einasta skika plánetunnar inn í eitthvert umráðasvæði ríkisvalds verður ekki rými fyrir fleiri tilraunir með fríríki.

Þeir sem vilja meira frelsi synda nú með straumnum og láta hann bera sig hvert sem hann vill. Á þessu eru samt undantekningar. Um víða veröld eru til hreyfingar sem berjast fyrir sjálfstæði frá ríkisvaldi sem þær kæra sig ekki um að tilheyra. Stundum njóta slíkar hreyfingar samúðar, t.d. aðskilnaðarhreyfing Tíbeta sem vill ekki tilheyra Kína lengur. En stundum er samúðin ekki til staðar. 

Mér þætti alveg sjálfsagt ef aðskilnaður frá einhverju ríkisvaldi hlyti meiri almennan stuðning. Af hverju þarf eitthvað ríki að vera nákvæmlega af þeirri stærð sem það er í dag? Af því yfirvöld þar eiga rétt á völdunum, eða hvað? Af því breytingar leiða til óvissu í framtíðinni? Af því menn sem hafa gjörólíka hagsmuni verða bara að læra að búa  undir sama þaki? 

Ég segi: Vilji Vestmannaeyjar, Akureyri eða Vestfirðir kljúfa sig frá miðstjórninni í Reykjavík þá á það að vera sjálfsagt mál, gefið að fyrir slíku sé vilji. Vilji Árbæjarhverfi Reykjavíkur kljúfa sig frá Reykjavík á það heldur ekki að vera neitt stórmál.

Sum trúarbrögð banna hjónaskilnaði og þvinga raunar oft konuna upp á karlinn. Engin leið er að skipta um skoðun eða prófa annars konar pörun. Að mörgu leyti gilda sömu lögmál í "hjónaböndum" einstaklinga og hópa sem búa innan sömu landamæra í dag. Þar er þvingað hjónaband á ferðinni. Kannski eru aðilar þess sáttir, en séu þeir ósáttir eru þeir samt neyddir til að búa saman. 

Heimur aðskilnaðar frá borði og sæng er heimur friðsældar, þar sem allir geta spreytt sig á annars konar sambúð eða fjarbúð um leið og við reynum öll að vinna saman í samfélagi ríkjanna.


mbl.is Stofnaði „Frjálsland“ í einskismannslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband