Þegar tilgangurinn helgar meðalið

Er í lagi að ríkisvaldið kaupi illa fengin gögn til að ljóstra upp um lögbrot? Kannski. Ríkisvaldið getur gert hvað sem því sýnist. Hvorki stjórnarskrá né stjórnarandstaða geta komið í veg fyrir það. Ef ríkisvaldið vill gera eitthvað, en getur það ekki, þá finnur það leiðir. Stjórnarskrá má breyta, dómara má gera sér hliðholla, sáttmálum má segja upp og orðalagi í lögum og reglum má breyta.

Ekki er hægt að takmarka ríkisvald til lengri tíma. Tilhneiging ríkisvalds er alltaf að þenjast út. Tökum Bandaríkin sem dæmi. Ríkisvaldið þar byrjaði agnarsmátt og múlbundið. Stjórnarskrá Bandaríkjanna hefur ekki tekið breytingum síðan þá. Ríkisvaldið í Bandaríkjunum er samt byrjað að taka framúr þeim stærstu í Evrópu í umsvifum og völdum.

Fyrir mitt leyti segi ég samt: Meintur feluleikur auðkýfinga hefur bjargað fé frá glötun. Núna situr það í sjóðum og bíður tækifæra til að leita í arðbærar fjárfestingar. Í höndum ríkisins væri féð glatað. Það væri horfið í blússandi neyslu hins opinbera á verðmætum. Það hefði runnið í einhverja vitleysu. Það hefði slegið yfirvofandi gjaldþroti hins íslenska ríkissjóðs á frest og seinkað hinni óumflýjanlegu tiltekt sem einhver óheppinn stjórnmálamaður þarf að taka á sig (nema gjaldþrotinu verði einfaldlega leyft að eiga sér stað).

Ég fagna ekki lögbrotum. Ég fagna því samt þegar ríkisvaldið missir spena til að sjúga úr.  


mbl.is Ljóstrað upp um leynilega reikninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Finnst þér þá í lagi að þessir aðilar komi til Íslands í boði Seðlabanka Íslands og kaupi upp eignir á sérstökum afslætti....? Kallast víst fjárfestingaleið Seðlabankans ef ég man rétt....

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 13:09

2 identicon

Af hverju eru gögnin illa fengin?

Er ekki í lagi að ná í skattfé sem viðkomandi hata svindlað í skjól ?

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 14:00

3 identicon

þú ert ekki að fagna eða afsaka lögbrot en eyðir 3 málsgreinum í að reyna sýna fram á að féi sé betur komið fyrir ef því er stungið undan en greitt. athyglisleg aðferð.

punktur ólafs er nátturulega mjög góður sérstaklega í ljósi þess að þessir aðilar eru að græða tvöfalt því þegar peningarnir voru fluttir út að þá var krónan alltof "sterk".

svo eiga íslensk stjórnvöld að taka td þau bandarísku til fyrirmyndar og verðlauna þá sem upplýsa um skattalagabrot með % og að mínu mati líka fyrir þá sem hafa upplýst um svindl á tollum.

finnst reyndar alltaf sérstakt að þeir sem vilja engin eða sem minnstu ríkisvöldin kjósi sjaldan að flytja þar sem ástandið er meira við þeirra hæfi.

tryggvi (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 14:10

4 identicon

Það er vel þekkt, og oft notað af stjórnvöldum, að þegar áföll verða er fólk móttækilegra fyrir frelsisskerðingu og krefjast þess jafnframt að lög verði látin víkja fyrir "réttlæti". Þá er gjarnan bent á hvað stjórnvöldum í einhverjum öðrum löndum leyfist að ganga langt í refsingum, rannsóknum og persónunjósnum á þeim sem talið er að geti verið sekir um eitthvað. Þannig hefur mörgum stjórnvöldum á vesturlöndum tekist að fá völd yfir þegnunum og sem áður þekktust aðeins hjá ógnarstjórnum og voru harðlega gagnrýnd.

Afsal frelsis fyrir "öryggi" og strangari reglur og refsingar fyrir brot verða krafa augnabliksins. Allir verða undir eftirliti, börn tilkynna foreldra og nágrannar hverja aðra. Mannréttindabarátta sem hófst með Frönsku byltingunni endar með fjötrum lénsveldisins þar sem yfirvöld hafa alræðisvald og yfirsýn yfir allar gjörðir þegnanna. 

Þegar hræddur almúginn loksins skilur að stjórnvöld eru ekki vinur þá verður það of seint.

Hábeinn (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 15:30

5 identicon

hábeinn gott og blessað en hvað í ósköpum kemur það þessu máli við?

tryggvi (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 15:43

6 identicon

Þessar upplýsingar á alls ekki að kaupa. Þetta fé mun nýtast betur í höndum manna sem kunna með það að fara. Glapræði og sem skattgreiðandi yrði ég svekktur ef svona gögn yrði keypt. Hruninu er lokið, nú er að taka við gott skeið og hefur verið um nokkurn tíma "move on" segi ég við fólk.

Baldur (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 16:07

7 identicon

baldur án þess að hafa hugmynd um innihald listans hvernig geturðu fullyrt að þeir kunni að fara svona vel með peninga.

tryggvi (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 16:18

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Látum okkur sjá:

- Einhverjir menn áttu mikið fé. Ég veit ekki hvernig þeim áskotnaðist það. Ég geri ráð fyrir að lögregla og saksóknari elti uppi þá sem brjóta lögin. Ég hef ekki séð neinn tengja saman fé í "skattaskjólum" og lögbrot. Ég geri því ráð fyrir að féð hafi áskotnast viðkomandi einstaklingum á löglegan hátt.

- Viðkomandi einstaklingar sjá hvert stefnir eða horfa upp á hrun í kringum sig og gjaldþrota ríkissjóð sem þefar uppi hverja féþúfu til að sjúga upp. VIðkomandi einstaklingar koma fé sínu úr landi og í "skattaskjól".

- Viðkomandi einstaklingar hafa kannski og kannski ekki brotið lög. Hafi þeir gert það taka þeir áhættu. Verði lögbrot sannað á þá eiga þeir vitaskuld yfir höfði sér refsingu. Ef þeir komast upp með athæfið er fé þeirra í skjóli og bíður betri tíma.

- Ef ríkisvaldið hefði náð í peningana væru þeir sennilega horfnir í dag, eins og gildir t.d. um hluta af eigum margra aldraðra og annarra sem urðu og verða fyrir hinum svokallaða auðlegðarskatti.

Ég er ekki hlynntur gjaldeyrishöftunum eða einokun íslenska ríkisins á peningaútgáfu á Íslandi. Ég lít á þessi höft sem gróðrarstíu fyrir embættismenn. Hin svokallaða fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands er eins og skömmtunarstofa að hætti Sovétríkjanna. Seðlabanka Íslands má leggja niður. Skatta á að lækka og gera þá bæði fyrirsjáanlega og hóflega. Samkeppni í peningaútgáfu á að koma á. Ríkisábyrgðum á innistæður á að koma fyrir kattarnef. Reglugerðarbákninu á fjármálaviðskipti á Íslandi á að lóga. En allt þetta má rökstyðja í lengra máli auðvitað.

Eftir stendur, að mínu mati, er að menn lögðu á sig mikla vinnu og tóku áhættu til að bjarga fé og verðmætum frá ríkisvaldinu. Sem betur fer!

Geir Ágústsson, 1.10.2014 kl. 16:41

9 identicon

ef þú veist ekki hvernig þeim áskotnaðist það þá geturðu engan veginn fullyrt að þeir hafi átt það né gert ráð fyrir að lög hafi ekki verið brotin.

hvaða embættismenn á íslandi græða svona á þessari fjárfestingarleið seðlabankans?

skömmtunarstofa? eru einhver takmörk fyrir hverjum býðst þessi fjárfestingarleið?

einnig er það augljóst að ef menn "björguðu fé" frá vitleysu ríkisins að þá voru þetta peningar sem átti að skattleggja og því um undanskot og lögbrot að ræða og sá kostnaður (eins og svo margur annar) var og verður samfélagsvæddur og því bölvar þú svo auðvitað.

tryggvi (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 17:16

10 identicon

þegar menn koma með hundruð milljóna inn í landið gegnum svokallaða fjárfestingaleið (og fá í leiðinni 20% afslátt) gefur auga leið að það hlýtur að skekkja samkeppnisstöðu þeirra sem ekki eiga kost á svipuðum afslætti.. Ef þetta er síðan í ofanálag fé sem menn hafa stungið undan skattgreiðslum er þetta löngu hætt að vera fyndið…

Ólafur Guðmundsson (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 17:37

11 Smámynd: Geir Ágústsson

Oft er erfitt að koma auga á kjötbolluna þegar hún er þakin tómatsósu og spaghettiflækjum.

Út af fyrir sig er ekkert siðferðislega rangt við að koma löglega fengnu fé sínu undan skattheimtu. Skattheimta er þjófnaður. Þeir sem efast um það geta prófað að neita að borga skatt og sjá hvað gerist (þótt ekki væri af nema einni skyrtu í Hagkaup).

Út af fyrir sig er ekkert athugavert við að kynna sér kerfið í þaula og reyna að lágmarka eins mikið og hægt er skattgreiðslur af sjálfsafla sé og auðævum sínum. Ég hef a.m.k. aldrei heyrt um neinn ana viljandi út í eitthvað sem beinlínis hámarkar skattheimtu á sjálfum sér.

Síðan kemur löglega hliðin. Hafa lög verið brotin? Mér sýnist menn ekki hafa uppgötvað neitt slíkt. Talað er um að kaupa illa fengin gögn til að athuga það. Talað er um að hleypa ríkisvaldinu að trúnaðarupplýsingum með ólöglegum hætti. 

Að menn geti spilað á kerfið í gegnum svokallaða fjárfestingarleið gefur auðvitað auga leið að er misnotkun á völdum hins opinbera yfir öllu og öllum á umráðasvæði þess. En viti menn - lögleg leið til að féfletta íslenska skattgreiðendur - eru þá ekki allir sem klappa fyrir ríkisvaldinu alveg húrrandi glaðir með það? Jú ef allt ólöglegt skv. lögum ríkisins er slæmt, er þá hið löglega ekki gott?

Ég tel eins lítið fram í skatt og ég get, en ekki nógu hugrakkur til að brjóta lög að vísu. Aðrir þora meiru en ég, og þora á eigin áhættu. Húrra fyrir þeim. Þá getur ríkisvaldið ekki stutt sig við jafnmikinn "skattstofn" þegar það blæs sig út í hið óendanlega og slær á stór lán fyrir brauði og leikum fyrir lýðinn.

Geir Ágústsson, 1.10.2014 kl. 18:41

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Til síðuhöfundar:

Hver segir að þetta séu "illa fengin gögn"?

Ef þeirra hefur verið aflað erlendis þá gildir ekki íslensk lögsaga og þá er ekki hægt að halda því fram að þau séu "illa fengin" samkvæmt íslenskum lögum.

Auk þess er engin regla í íslenskum lögum og dómaframkvæmd sem segir að "illa fengin gögn" séu ótæk fyrir dómi. Þú ert sennilega að hugsa um amerískar reglur sem koma oft fyrir í sjónvarpsþáttum þar sem "illa fengin gögn" eru talin ótæk (non-admissible) en slík regla er ekki fyrir hendi á Íslandi.

Fjöldi fólks hefur fengið dóma hér á landi sér í óhag á grundvelli "illa fenginna" gagna. Ef þér finnst það ekki vera í lagi ættirðu kannski frekar að beita þér fyrir því að þessu verði breytt hér á landi, heldur en að stunda sjónvarpslögfræði.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.10.2014 kl. 18:57

13 identicon

ef það á að greiða skatt af fé á einum stað og því er komið með leiðum til skattaskjóla að þá er það augljóst lögbrot.

þú ert augljóslega að rugla saman þinni skoðun og hvort eitthvað sé siðferðislega rétt eða rangt. það er hins vegar ekkert nema siðferðislega rangt að svíkjast undan því að borga skatta og nýta sér þjónustu sem skattpeningar greiða.

út frá hverju sýnist þér að lög hafi ekki verið brotin? svar bjarna ben fyrir ári síðan?

hverjir eru það sem eru að tala svona mikið um þetta á þessum nótum?

af hverju ertu að skrifa um íslensk mál í danmörku. væri ekki nær að vera búsettur (þó ekki nema í prufu) í td sómalíu. nei fjandinn það er víst búið að taka upp einhverja skatta þar.

tryggvi (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 19:49

14 identicon

Gefum okkur að það sé til tíkall.

Tíkallinn er í vasanum á geir.

Tíkallinn kom sem laun, eða greiðsla fyrir þjónustu.

Ef tíkallinn kom frá einkaaðila, þá var hann "arðbær fjárfesting".

Ef tíkallinn var greiddur af ríkinu sem laun eða greiðsla fyrir þjónustu, þá væri hann "vitleysa".

Flæðandi peningur innan íslensks hagkerfis er verri hlutur en peningur stunginn inn á bók í útlöndum. Út af því að ef ríkið á í hönd þá er það alltaf vitleysa.

Parturinn þar sem ríkið er ekki þáttakandi í markaðsmódelinu, það er það fyndna við röksemdafærsluna ykkar.

Enda er þetta ekkert voða rasjónalt, þetta eru jú trúarbrögð.

Sveinbjorn Palsson (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 22:26

15 identicon

Geir, lestu nú pistilinn eftir Rúnar Kristjánsson. Slóðin fyrir neðan.

http://undirborginni.blog.is/blog/undirborginni/entry/1456778/

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 23:50

16 Smámynd: Geir Ágústsson

Takk allir fyrir athugasemdirnar. Þetta er komið út um víðan völl (sem er ekki síst mér að kenna).

Ég vona að meint skattaundanskot komist aldrei upp. Ég vona að ef umrædd gögn koma fram þá leiði þau til þess að þeir sem ætla að bjarga verðmætum undan skattlagningu verði enn varkárari næst. Ég vona að ríkisvaldið læri að ef það ætlar sér að skattleggja allt sem hreyfist (eða eignir sem sitja kyrrar) þá leiði það til flótta verðmæta frá Íslandi. Ég vona að íslenskt framkvæmdarvald haldi sig innan ramma laganna sem það á að framfylgja og sæki til saka lögbrjóta en láti að öðru leyti handjárnin eiga sig.

Ísland er ennþá í hálfgerðu hrunástandi: Gjaldeyrishöft, gríðarlegar skuldir hins opinbera, reglugerðarbálkar sem vaxa og vaxa, peningaprentun, himinháir skattar. Það er ástand sem má skrifa á yfirvöld sem þora ekki að taka til, draga úr umsvifum hins opinbera og sleppa tökunum á einhverju sem ríkið á einhverjum tímapunkti náði tökum á.

Verði þeim að góðu sem klappa fyrir eltingaleik ríkisvaldsins við fórnarlömb eigin óstjórnar. Ég er ekki í þeim hópi.

Geir Ágústsson, 2.10.2014 kl. 07:14

17 identicon

@GÁ:

Þannig að ef einhver býður mér t.d. iPhone sem stolinn var í Kanada til sölu á Íslandi er allt í lagi fyrir mig að kaupa hann? Ég er ekki að kaupa þýfi?

Það er líka sorglegt, og Geir ýjar að, að dómstólar eru í vaxandi mæli farnir að sleppa því að fara eftir stjórnarskrá. Það er auðvitað ekki séríslenskt vandamál en bendir til þess að laganám, bæði á Íslandi og erlendis, sé komið í öngstræti.

Geir bendir réttilega á að skattheimta sé þjófnaður. Hvaða prinsipp í stjórnarskrá okkar og annarra landa leyfir þriðja aðila að taka hluta tekna fólks eða skipta sér að viðskiptum þess? Er ekki eignarrétturinn friðhelgur? Nei, ekki þegar að hinu opinbera kemur.

Ef ég gengi að Geir og sliti af honum 5000 kr. gegn hans vilja og gæfi það fé til líknarsamtaka, bændasamtakanna eða til LSH er eigi að síður um þjófnað að ræða. Ef hið opinbera gerir slíkt hið sama er það kallað skattheimta. Enginn munur er á þessum athöfnum, munurinn liggur í því hver framkvæmir.

Geir bendir líka réttilega á yfirvofandi gjaldþrot hins opinbera. Það sem þarf líka að ræða, þar sem Íslendingar eru með ríkisrekið heilbrigðiskerfi, er hve margir munu deyja á sjúkrastofnunum vegna þess að ríkið getur ekki borgað það sem það lofaði að borga s.s. laun og lyf?  

Helgi (IP-tala skráð) 3.10.2014 kl. 06:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband