Bólan blásin upp á ný

Nú er blásið sem aldrei fyrr í nýja bólu á Íslandi. Fasteignaverð er á rjúkandi uppleið, enda vill enginn hafa íslenskar krónur í reiðufé. Rolex-úr seljast eins og heitar lummur til eldri borgara sem vilja koma ævisparnaði sínum úr íslenskum krónum. Hús eru byggð fyrir lánsfé enda sitja þrotabú og aðrir lánveitendur á tómu húsnæði til að halda uppi virði eignasafna sinna, og því virðist sem eftirspurn sé eftir nýbyggingum. Skuldir hins opinbera og almennings eru í himinhæðum. Hagfræðingar tala um að "einkaneysla" þurfi að aukast, enda skilja Excel-skjöl þeirra ekki heilbrigða skynsemi.

En hvernig á að verja sig fyrir því þegar þessi bóla springur?

Í fyrsta lagi er gott að skulda lítið. Verðbólguskotið sem kemur næst verður stórt og mikið og á eftir að þenja út verðtryggð lán eða vexti á óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum.

Í öðru lagi er gott að leita leiða til að koma öllum sparnaði úr íslenskum krónum, og jafnvel reyna að afla sér einhverra tekna í erlendum gjaldeyri sem fer beint undir koddann eða í bankahólf.

Í þriðja lagi á að koma sér úr öllu sem heitir ríkisskuldabréf og hlutabréf. Ríkisskuldabréf veita falskt öryggi, og hlutabréfaverðið er of hátt og bara hátt af því fjárfestar eru að koma sér úr reiðufé og veðja á að það hækki hraðar en verðbólgan.

Í fjórða lagi á að nýta allar glufur í kerfinu til að ná í fé sitt úr lífeyrissjóðunum. Þar er því engan veginn óhætt. Því fé á svo að koma í reiðufé í erlendum gjaldeyri eða verðmæti sem er auðvelt að koma í verð (góðmálmar, listaverk eftir alþjóðlega þekkta listamenn, osfrv.).

Í fimmta lagi að vera raunsær og átta sig á að góðæri er ekki framundan heldur bóla. Skattar eru himinháir, sem og skuldir hins opinbera, og ekkert stefnir í að það sé að fara lagast. Íslenska krónan er á gjörgæslu og deyr um leið og rafmagnið er tekið af öndunarvélinni. Verðlag á fasteignum, hlutabréfum og eignasöfnum banka og lífeyrissjóða er of hátt og mikið til haldið uppi af verðbólgunni, sem mun fara vaxandi.

Í sjötta lagi er svo gott að afla sér frekari verðmætaskapandi þjálfunar og búa sig undir að vera á vinnumarkaðinum til dauðadags. Taktu námskeið eða æfðu þig í einhverju sem þú telur að sé alltaf eftirspurn eftir (pípulögnum, gólfslípun, ráðgjafarstarfsemi sem er hægt að veita útlendingum, nýju forriti, eða hvað sem hentar hverjum og einum).  

Og fleiri verða þau orð ekki. 


mbl.is Skortur á starfsfólki úti á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Já, það er svo sannarlega verið að blása í nýja bólu þessa dagana. Sem flestir ættu að prenta ofangreindar leiðbeiningar og hengja upp á vegg. Tek undir með síðuhafa um flest og verð barasta að segja, að ég hef verulegar áhyggjur af þessu. Góðar stundir.

Halldór Egill Guðnason, 18.7.2014 kl. 10:14

2 identicon

100% sammala þer Geir eg myndi lika raðleggja fólki að fá sér hænur og setja niður kartöflur. það er furðulegt að stjórnvöld eru að keyra alt upp rétt firrir næsta hrun

 http://www.lindseywilliams.net/

Helgi Armannsson (IP-tala skráð) 18.7.2014 kl. 10:21

3 identicon

Sæll.

Ég veit ekki hvort íslensk stjórnvöld eru stærsti vandinn - við erum efnahagslega svo lítil.

Þú gleymdir einu mikilvægu atriði: Sjá til þess, að svo miklu leyti sem það er hægt, að heilsa manns sé í lagi.

Helgi (IP-tala skráð) 22.7.2014 kl. 07:22

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Lítil já en sjáum til:

- Íslendingar veiða mikinn fisk. Allir borða fisk.

- Ekki eru allir í heiminum að grýta höfnina sína á sama tíma. Ef Bandaríkin sökkva munu aðrir taka við verðmætaskapandi verkefnum hennar og blómstra. Víða er blússandi góðæri í gangi, og meira að segja af réttum ástæðum!

- Íslendingar velja sjálfir hvaða höft þeir leggja á viðskipti við útlendinga. Þeir geta því valið að liðka fyrir viðskiptum við allan heiminn og versla svo við þá sem hafa efni á viðskiptunum.

- Eða líttu nú t.d. á Suður- og Norður-Kóreu: Sama fólk, svipað loftslag á sama bletti á Jörðinni. Lengra nær samanburðurinn ekki því annað landið hefur grýtt höfnina sína í áratugi en hitt síður.

Hvað með að leyfa Íslendingum að kaupa góðmálma fyrir lífeyrissparnað sinn? Nú eða bara afnema skyldusparnað algjörlega og leyfa fólki að fá öll launin sín útgreidd, vitaskuld eftir miklu, miklu lægri tekjuskattsálagningu en nú tíðkast? Það eitt og sér gæti aukið möguleika íslensks almennings töluvert til að standa á eigin fótum seinna, t.d. í ellinni.

En nei, þá segir einhver; "Einhverjir munu ekki leggja fyrir, eða veðja rangt, eða tapa öllu, og því þarf að skylda alla til að borga í lífeyrissjóði." Betra að lífeyrissjóðirnir og ríkisvaldið tapi öllu fé fólks í staðinn? Á að hlekkja alla af því einhver einn hljóp fram af bjargbrúninni?

Afsakið langlokuna, en mér verður svolítið heitt í hamsi.

Geir Ágústsson, 22.7.2014 kl. 08:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband