Könnun Neytendastofu: Sóun á tíma og fé

Könnun Neytendastofu á vínmálum, sem eiga að vera löggild eins og sjússamælar og vínskammtarar eða sérmerkt glös, á 91 veitingahúsi á landinu nýverið. Af þeim veitingastöðum sem kannaðir voru reyndist enginn í lagi. 

Þegar ég les svona fréttir veit ég með algjörri vissu að íslensk yfirvöld sóa gríðarlegu fé í tilgangslausar kannanir og svokallað eftirlit sem á að uppfylla kröfur tilgangslausrar löggjafar.

Segjum sem svo að veitingastaður bjóði upp á hálfan lítir af bjór á krana á 1000 krónur. Glösin eru hins vegar of lítil, og taka bara 400 ml. Viðskiptavinirnir drekka úr glasinu í góðri trú eða þar til einn viðskiptavinur tekur sig til og mælir innihald glassins. Hann bendir eigandanum á þetta misræmi. 

Eigandi veitingastaðarins getur hafa verið óaðvitandi af þessu misræmi í verðskrá og stærð glasa sinna og breytir orðalagi verðskráarinnar (núna fást 400 ml á 1000 krónur, nema hann lækki verðið um 20%) eða skiptir út glösunum.

Eigandi veitingastaðarins gæti líka haldið áfram að láta eins og ekkert sé. Viðskiptavinurinn sér að það er raunin og lætur alla vita af misræminu og viðskiptavinir flýja til keppinauta sem taka glaðir við þeim.

Viðskiptavinurinn gæti verið eigandi annars veitingastaðar og notar uppgötvun sína til að laða að sér viðskiptavini á kostnað orðspors hins ónákvæma eiganda. (Í raun er eitt virkasta eftirlitið á frjálsum markaði það frá keppinautum í leit að viðskiptavinum.)

Hvað sem öllu líður mun allt hugsanlegt ranglæti verða leiðrétt og það án þess að einn einasti eftirlitsmaður hins opinbera komi að málinu.

Eða á ríkið kannski að reka eftirlit með því að fatahreinsanir nái í raun og veru öllum blettum af hvítum skyrtum?

Eða á ríkið kannski að reka eftirlit með því að allir 200 gramma hamborgarar vegi í raun það við afhendingu til viðskiptavina?

Eða á ríkið kannski að reka eftirlit með því að laxáreigandi mokveiði ekki hvern einasta sporð úr ánni sinni?

Eða eigum við kannski að leyfa fólki að bera ábyrgð á eigum sínum, fylgjast sjálft með viðskiptum sínum og stunda virkt aðhald á alla sem selja vöru og þjónustu án þeirrar fölsku trúar á að allt sem sé í ólagi hljóti að vera bannað af yfirvöldum?


mbl.is Vínmál hvergi í lagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Fann þetta í tilkynningu Neytendastofu á heimasíðu hennar:

"Neytendastofa mun áfram vinna að því að söluaðilar áfengis noti mælibúnað sem uppfyllir lög og reglur. Þetta verður gert í samráði við hagsmunaaðila og eins með heimsóknum á sölustaði þar sem vínmál verða skoðuð."

Neytendastofa ætti frekar að ganga úr skugga um það að innihaldið í flöskunum sé það sem það er sagt vera og alkóhólstyrkleikinn óumdeilanlega réttur. Skiptir neytendur mun meira máli! En nei, gáum frekar hvort að það sé mælistrik á glasinu!

Erlingur Alfreð Jónsson, 10.7.2014 kl. 11:56

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Þeir velja sér nú bara verkefni sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

- Eru auðveld í framkvæmd.

- Er auðvelt að skrifa fréttatilkynningar úr.

- Er nokkuð víst að leiði til margra merkilegra uppgötvana en án þess að nokkurn hafi borið skaða af.

- Muni gefa af sér mikla vinnu við endurtekningar og eftirfylgni.

- Vekja athygli á starfsemi eftirlitsaðilans svo stjórnmálamenn gleymi honum ekki við næstu fjárlagagerð.

Geir Ágústsson, 10.7.2014 kl. 12:03

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fær einhver borgað fyrir að heimsækja bari og prófa sjússa?

Hvar getur maður sótt um þetta starf???

Guðmundur Ásgeirsson, 10.7.2014 kl. 12:17

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Þú getur prófað hérna:

Geir Ágústsson, 10.7.2014 kl. 12:38

5 Smámynd: Geir Ágústsson

http://www.starfatorg.is/

Geir Ágústsson, 10.7.2014 kl. 12:38

6 identicon

Vá...er ykkur semsagt alveg sama þótt kannski sé verið að svindla á ykkur ?

Ef 500 ml eru auglýstir á 1000 kr þá ÁTTU að fá 500 ml.

Ekki þegðiru ef þú ætlaðir að kaupa 1 kg af nautalundum og fengir bara 800 gr.

Og Neytendastofa er bara að fara eftir þeim lögum og vinnureglum sem hún á að gera. Ekki við hana að sakast.

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 10.7.2014 kl. 12:52

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Mér er vitaskuld ekki sama. Ég vil fá það sem mér er lofað. En á hinn bóginn:

- Það er á milli mín og seljenda að eiga viðskipti eða ekki, og undir mér komið hvort ég held þeim viðskiptum áfram eða ekki ef ég er ósáttur.

- Allt eftirlit heimsins kemur ekki í stað aðhalds þeirra sem eru beinir þátttakendur í viðskiptunum. Ef eitthvað þá getur opinbert eftirlit slævt neytendur og fengið þá til að slaka á aðhaldi sínu, og auðvelda þannig að á þeim sé svindlað.

- Og ekki er þá nóg með að hið opinbera eftirlit leiði til minna aðhalds heldur er þá kostnaðurinn vegna þess orðinn enn meiri en bara þau útgjöld sem eftirlitið kostaði.

- Og það sem verra er, með því að umbera opinbert eftirlit er verið að gefa hinu opinbera grænt ljós á að hafa vit fyrir okkur. Eftirlit fer fram eftir reglum, sem eru settar af stjórnlyndum opinberum starfsmönnum sem geta með þeim gert hitt og þetta leyfilegt eða bannað. Það er forræðishyggja að styðja slíkt fyrirkomulag.

- Svo að hugsa sér, að ætlast til þess að Birgir Guðjónsson geti haft eftirlit með viðskiptum Birgis Guðjónssonar - er það alveg fáránleg krafa?

Geir Ágústsson, 10.7.2014 kl. 13:03

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Hitt er rétt að embættismennirnir eru bara að vinna starf sitt og fylgja eftir lögum. Ábyrgðin er á öxlum löggjafans fyrst og fremst. Þó vil ég ekki alveg alveg firra embættismennina af allri ábyrgð. Þeir gætu t.d. fundið eitthvað annað við tíma sinn að gera og látið annað fólk í friði á meðan. Hættan er sú að fjárframlög til þeirra lækka vegna þess hversu hljóðlátt er í kringum þá, en það væri nú þrátt fyrir allt gott fyrir skattgreiðendur og ábyrgðartilfinningu okkar allra.

Dæmi: Í Danmörku er ekki heimilt með lögum að selja nikótínblandaðan vökva í svokallaðar rafsígarettur. Engu að síður eru ótalmörg fyrirtæki skráð löglega í Danmörku sem gera fátt annað en selja slíkan vökva (bæði við afgreiðsluborð og á netinu). Hérna er hið opinbera eftirlit því "passívt" og leyfir fólki að stunda sín viðskipti þrátt fyrir lögin. Maður þarf því ekki að leita langt eftir innblæstri til "passívra" eftirlitsmanna. Meira af slíku, takk!

Geir Ágústsson, 10.7.2014 kl. 13:08

9 identicon

Sorglegt hvað mikil vitleysa vellur upp úr ykkur, jafnvel verkfræðingi! Neytendastofa hefur stóru hlutverki að gegna í öllum löndum, á þýsku; "Eichamt", á ensku; "Weights and Measures Office", "Bureau of Standards." 

Löggilding á öllum lóðum er framkvæmd í þessum stofnunum, s.s. löggilding á vogum. Einnig öllum tækjum sem mæla rennsli, t.d. á eldsneyti eða heita vatninu sem rennur inn í húsin okkar.

Einnig í lyfja framleiðslu hafa neytendastofur veigamiklu hlutverki að gegna varðandi "quality control", á ótal sviðum. 

En þið einblínið bara á snaps-mæla. Engin er að hafa vit fyrir ykkur, þó mér sýnist að þörf væri á, í það minnsta hvað standards varðar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.7.2014 kl. 20:41

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Haukur,

Ríkisvaldið hvorki fann upp staðla né eftirlit með þeim til að byrja með. Að það hafi tekið eftirlitshlutverkið að sér, og margir telji að þar með sé nauðsynlegt að ríkið hafi þetta hlutverk með höndum, er lítið annað en gott "move" hjá ríkinu til að virðast mikilvægara en það er.

Líttu nú til dæmis á tölvuna sem þú ert að skrifa í. Í henni eru hundruðir íhluta sem má skipta út fyrir íhluti frá mýgrút af framleiðendum frá öllum heimshornum sem hafa ekki gert annað en að fylgja eftir sömu "arkitektúrum" í uppbyggingu tölva, sem standa ekki í regluverki neins ríkisvalds í heiminum.

Annað dæmi (úr því þú nefnir titil minn): Ég vinn í "offshore" olíu- og gasvinnslubransanum (að mestu leyti). Ég tek við verklýsingum frá olíufyrirtækjum um allan heim, sem lúta valdi hinna ýmsu ríkisstjórna. Staðallinn sem oftast er vísað í er frá hagsmunasamtökum bandarískra olíufyrirtækja (American Petroleum Institute: API). Eftirlitið borga fyrirtækin úr eigin vasa, þar með talið eftirlit óháðra eftirlitsaðila, auk sinna eigin. Gæðastjórnun er lykilorðið í öllu (rekjanleiki, að hlutir séu skjalfestir, rækilega prófaðir og hafi hlotið rýni). Ég man ekki eftir tilvísun í eina einustu löggjöf í minni vinnu í hart nær áratug (nema þá að flutningsleiðslur á botni Norðursjávar eigi að vera niðurkrafnar). Og nei, slysið í Mexíkóflóa var ekki vegna skorts á reglum, heldur of margra slíkra!

http://bastiat.mises.org/2014/07/walter-block-regulations-contributed-to-and-worsened-the-bp-oil-spill/

Goðsögnin um ágæti hins opinbera eftirlits er lífsseig, en ef það er eitthvað sem bankahrunið ætti að kenna okkur þá er það að opinbert eftirlit slævir ábyrgðartilfinningu okkar og veitir falskt öryggi, svo fátt eitt sé nefnt..

Geir Ágústsson, 11.7.2014 kl. 04:54

11 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Til þess að einstaklingar geti veitt það aðhald sem er nauðsynlegt til að að bæði þeir séu ábyrgir neytendur og að minni þörf sé á opinberu eftirliti, er lykilatriði að þeir fái fræðslu um rétt sinn og leiðir til úrlausnar um ágreining. Þar væri kröftum ríkisvaldsins kannski betur varið en að búa til risaeftirlitsbatterí. Við höfum nú þegar opinbert menntakerfi og slík fræðsla ætti vel heima þar.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.7.2014 kl. 14:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband