Miðvikudagur, 16. apríl 2014
Nútímabankar eru svikamyllur
Bankar eru umluktir dulúð og margar ranghugmyndir um þá lifa góðu lífi.
Ein ranghugmynd er sú að þegar við leggjum fé inn á bankabók þá séu þeir fjármunir öruggir í hirslu bankans og bíði þess eins að verða sóttir, auk vaxta, seinna. Ekkert slíkt á sér stað. Um leið og peningur er lagður inn á bankabók drífur viðkomandi banki sig út á markaðinn og lánar þá fjárhæð 9 sinnum út (miðað við 10% bindiskyldu; þú leggur 1000 kr. inn, og bankinn lánar 9000 kr. út, þannig að efnahagsreikningur bankans sýnir samtals 10.000 kr.). Ef meira en 10% viðskiptavina bankans vilja sækja fé sitt í hann á sama degi þá tæmast hirslur hans og hann er þannig séð gjaldþrota (ef ekki kæmu til afskipti hins opinbera).
Önnur ranghugmynd er sú að bankar séu "traustir", eða a.m.k. innistæður okkar í þeim. Þær eru jú "tryggðar". Ekkert slíkt á sér stað. Ríkisvaldið getur auðvitað borgað út innistæður gjaldþrota banka með notkun skattfjár, og kannski eru einhverjar krónur til í sjóði sem ná yfir innistæður einhvers lítils banka eða tveggja. Betra er ástandið samt ekki. Þú, kæri skattgreiðandi, ert innistæðutrygging þíns gjaldþrota banka.
Ónefnd er svo sú ranghugmynd að bankar taki við innistæðum og láni út til arðbærra verkefna, græði á vaxtamismuninum og að þess vegna skila bankar svona miklum hagnaði. Bankar hafa fyrir löngu hætt að byggja hagnað sinn á vaxtamismuni innistæða almennings og útlána til arðbærra framkvæmda. Uppistaðan í hagnaði banka eru hækkanir og lækkanir á hinum ýmsu vísitölum, "eignasöfnum" og hlutabréfum og gjaldmiðlum, útlán á fé sem er ekki til (fé umfram bindiskylduna), vextir á lánum til einstaklinga (sem fæstir eiga innistæður), þjónustugjöld á viðskiptavini, og fleira af þessu tagi. Ég segi ekki að bankar þjóni ekki hlutverki milliliðs fyrir þá sem spara og þá sem lána, en sú starfsemi hefur lítið vægi miðað við allt hitt. Bankar leika sér með stórar fjárhæðir sem eru ekki til - innistæður á bankabókum sinnum tíu.
Almenningur var á sínum tíma mjög tortrygginn á banka og peningaseðla almennt. Sú tíð er liðin. Tortryggni okkar er lítil sem engin. Við höldum að bankar séu traustir geymslustaðir fyrir fé en þeir eru í besta falli svokallaðar Ponzi-prettir eins og lífeyrissjóðir okkar og atvinnuleysistryggingar hins opinbera, svo fátt eitt sé nefnt.
Gagnrýnir hertar eiginfjárkröfur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Geir, eflaust minnkar það ekki darraðardansinn að peningar skipta sjaldan um hendur, oftast bara tölur í gagnagrunnum bankanna.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 16.4.2014 kl. 07:19
Sæll.
Mikið til í þessu og ekki má gleyma hlutverki banka í efnahagssveiflum.
Svo leiða afskipti hins opinbera af starfsemi banka til þess að bankar taka meiri áhættu en ella vegna þess að ef allt fer í steik hjá þeim bjargar hið opinbera þeim. Skammtíma áhættusækni skilar bankamönnum sjálfsagt einhverjum góðum bónusum en til lengri tíma stofnar það bankanum í hættu. Ef menn eru á móti háum bónusum hjá bankamönnum eiga þeir að beita sér fyrir því að seðlabankar heimsins séu lagðir niður.
Svo gerir hið opinbera líka nokkuð sem þú nefnir ekki: Í gegnum FME (hérlendis) er almenningur látin halda að passað sé upp á bankana og að allt sé í lagi vegna þess að sérfræðingar hins opinbera passi upp á þá. Sérfræðingar FME sáu ekkert athugavert við íslensku bankana rétt fyrir hrun þeirra. Með þessu kerfi er almenningur firrtur ábyrgð - einstaklingar velja ekki banka með tilliti til þess hvernig hann er rekinn vegna þess að hið opinbera "passar" það. Að velta ábyrgð yfir á aðra er voðalega þægilegt en til lengri tíma veldur það miklum vandræðum (heilbrigðiskerfið er dæmi þess).
Eðlilegra væri að bankar lokkuðu til sín viðskiptavini t.d. á þeim forsendum að þeir væru með svo og svo mikið eiginfjárhlutfall og því öruggari en samkeppnisaðilinn.
Á það hefur verið bent að með því að bjarga illa reknum bönkum frá hruni sé hið opinbera í reynd að veikja bankakerfið að innan því þeir sem ekki kunna þar til verka fá að gera það áfram í stað þess að fara á hausinn vegna þess að þeir kunna ekki nægjanlega vel til bankareksturs. Þetta ágæta lögmál virkar prýðilega í öðrum geirum en ekki má "hreinsa til" í bankageiranum. Hvað veldur þessari mótsögn? Af hverju er t.d. bifreiðaverkstæðum ekki bjargað frá gjaldþroti? Ætlar einhver að segja að þau séu ekki mikilvæg?
Svo er skortur á samkeppni á fjármálamarkaði alveg sérkapítuli :-( sem þakka má hinu opinbera. Ég skil engan veginn af hverju það mál er ekki rætt og hvað það kostar almenning.
Helgi (IP-tala skráð) 19.4.2014 kl. 07:20
Ég hef verið að reyna að halda á lofti "Kreppufléttunni" hana tómasar Jefferssonar.
Þar segir Tómas Jeffersson að fjármálastofnuninn hirði allt af einstaklingunum, fyrst með verðbólgu og síðan með verðhjöðnun.
Ef að fólkið nennir nað kynna sér fléttuna, þá er hún mjög auð skilin.
Egilsstaðir, 24.04.2014 Jónas Gunnlaugsson
http://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/1339799/
Jónas gunnlaugsson (IP-tala skráð) 24.4.2014 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.