Föstudagur, 6. september 2013
Núverandi kerfi er glatað
Ríkasta kona Ástralíu, Gina Rinehart, hefur lagt til að fangar sem ekki eru ofbeldishneigðir geti borgað sig út úr fangelsi og þannið orðið að skattgreiðendum sem hafi jákvæð áhrif á efnahagslíf landsins.
Þetta er athyglisverð hugmynd. Fyrirsjáanlegt er auðvitað að mótbárur skjóti upp kollinum, svo sem að "þeir ríku sleppa við refsingu" og "sumir geta borgað sig til náðunar en aðrir ekki" og fleira slíkt, en það væri að líta framhjá aðalatriðinu að mér finnst, sem er það að núverandi kerfi er alveg glatað.
Tökum ofbeldisglæpi út fyrir sviga (eins og lagt er upp með í hugmyndinni sem nefnd er í fréttinni) og einblínum á þjófnaði, fjársvik og eignaspjöll. Hvað gerist þegar einhver stelur eignum eða skemmir í dag? Viðkomandi er handtekinn, hann ákærður og honum stungið í steininn, allt á kostnað þess sem varð fyrir þjófnaðinum eða skemmdarverkunum. Það er ekki nóg með að einhver hafi orðið fyrir eignatjóni eða þjófnaði heldur þarf viðkomandi núna að greiða fyrir málsmeðferð og fangelsisvist þess sem skemmdi eða stal.
Er þetta ekki að bæta gráu ofan á svart?
Allt kerfið snýst um að "refsa", "afplána" og "sitja af sér" glæpina. Nákvæmlega engin áhersla er á að bæta upp fyrir það tjón sem viðkomandi olli.
Miklu rökréttara væri því eftirfarandi kerfi:
Sá sem skemmir eða stelur greiðir allan kostnað við handtöku sína og málsmeðferð. Hann bætir eigandanum sem varð fyrir tjóninu upp tjónið, krónu fyrir krónu, en að auki skaðabætur sem nema tjónsandvirðinu. Hann þarf m.ö.o. að greiða jafnmikið í tjónabætur og hann olli, fyrir utan að bæta upp sjálft tjónið. Það er algjörlega hlutfallslega réttlát refsing.
Sá sem olli tjóninu þarf hins vegar ekki að sitja í fangelsi á kostnað tjónþola. Skuldabréf er gefið út á þann sem tjóninu olli, og það þarf að greiða. Sé það hins vegar ekki gert samkvæmt skilmálum skuldabréfsins er komin upp önnur staða. Þá tekur við skuldafangelsi (hvers kostnaður er annaðhvort greiddur með vinnuskyldu innan fangelsins, eða bætt við upphæð skuldabréfsins) eða hálfgerð nauðungarvinna, þar sem hlutfall af launum viðkomandi rennur sjálfkrafa til tjónþola.
Ekkert vit er í núverandi kerfi. Kerfið virkar heldur ekki jafnt. Hvítflibbaglæpir svokallaðir, þar sem milljörðum er stolið eða þeir narraðir af fólki, enda á vægri fangavist í "opnu" fangelsi, enda viðkomandi ekki álitinn hættulegur neinum. Sá sem stelur sjónvarpi úr einbýlishúsi er hins vegar meðhöndlaður sem stórhættulegur ofbeldismaður sem þarf að loka inni í fleiri mánuði eða jafnvel ár, á kostnað tjónþola! Þetta er mismunun. Réttlátara væri að framfylgja þeirri stefnu að allur þjófnaður falli undir sama hatt.
Ég vona að einhver umræða um refsistefnuna sem við búum við í dag sé smátt og smátt að fæðast.
Leggur til að glæpamenn geti borgað sig út úr fangelsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í Finlandi, svo dæmi sé tekið eru umferðarlagasektir reiknaðar út frá skattskýrslum viðkomandi, þannig að sektirnar koma efnahagslega jafnt út fyrir alla, eða eiga alla vega að gera það í teoríunni. Mætti skoða það sem anga af því að borga sig "út"?
Steinarr Kr. , 6.9.2013 kl. 21:45
Nei það sýnist mér ekki. Umferðarlagabrot eru umferðarlagabrot og bera ákveðinn verðmiða eins og perur og epli út í búð og hann er sá sami fyrir alla.
Hvítflibbaglæpi á að meðhöndla með nákvæmlega sama hætti og "götuglæpi". Engu á að skipta ef ég féfletti mann um þúsund kall eða fyrirtæki um hundrað þúsund kall.
Geir Ágústsson, 9.9.2013 kl. 10:22
Þú virðist misskilja mig. Segjum svo að tveir menn séu dæmdir fyrir eins glæpi í mánaðar fangelsi. Ef þeir ættu að fá tækifæri á því að greiða sig frá dómnum væri eðlilegt að miða við eitthvað sem er álíka sársaukafullt fyrir báða, t.d. tvöföld mánaðarlaun. Ef upphæðin væri föst, t.d. 500.000.- væri hún erfið fyrir mann með 250.000.- í laun á mánuði, en vandamálalaus fyrir mann með miljón.
Steinarr Kr. , 10.9.2013 kl. 13:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.