Frjálshyggjumenn eiga að kjósa frjálshyggjumenn

Svo virðist sem spennandi kosningar séu framundan. Yfirboðin eru gríðarleg, og frambjóðendur skjóta fast á hverja aðra. Hvað eiga frjálshyggjumenn að gera í svona stöðu?

Frjálshyggjumenn eiga að kjósa frjálshyggjumenn. Fyrirkomulag kosninga á Íslandi í dag er því miður þannig að það þýðir atkvæði til einhvers flokks eða einhverra flokka sem innihelda blöndu af allskyns frambjóðendum, yfirleitt róttækum sósíalistum í bland við hófsamari sósíalista.

Innan Sjálfstæðisflokksins eru sennilega flestir frjálshyggjumenn af öllum flokkum í framboði. Það liggur því beinast við að mæla með því að frjálshyggjumenn kjósi Sjálfstæðisflokkinn. Það er samt ekkert augljóst. Hann gæti kallast minnst lélegi kosturinn af mörgum lélegum.

En sama hvaða flokk frjálshyggjumenn ákveða að kjósa (kjósi þeir yfirleitt) þá eiga þeir ekki að láta kosningar duga til að berjast fyrir hugsjónum sínum, og það er aðalatriðið (hvort sem menn kjósa eða ekki). Þegar nýtt þing er sest eiga frjálshyggjumenn að herja á alla þingmenn með opin eyru, og hætta því aldrei. Það skiptir nefnilega ekki öllu máli hverju menn lofa fyrir kosningar. Það er vinna þeirra á þingi sem skiptir máli. Sjái frjálshyggjumenn t.d. von í einhverjum vinstrimanninum, og sjá að hann er opinn fyrir rökum og umræðu, þá eiga þeir að herja á hann í ræðu og riti. Honum má jafnvel gefa bækur eða bjóða á málfundi. Hver veit, kannski ljær hann þá atkvæði sitt einhverri minnkun ríkisvaldsins!

Yfirlýstir frjálshyggjumenn til framboðs til Alþingis eru fáir, en þeir finnast. Komist þeir á þing má heldur ekki gleyma að halda þeim á mottunni.

Kosningaloforðin verða meira og minna öll svikin. Þannig virkar einfaldlega fulltrúalýðræðið. Allt er málamiðlun. Enginn einn ræður öllu. Þess vegna þarf að herja á alla sem einhver von er í að hlusti, og herja á þá alla daga kjörtímabilsins.

Að þessu sögðu vona ég að eftir kosningar verði mynduð stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og að styrkur Sjálfstæðisflokks verði nægur til að hindra Framsóknarflokkinn í að mynda stjórn með vinstrimönnum. Það er að mínu mati það stjórnarmynstur sem er vænlegast að herja á til að knýja á um minnkun ríkisvaldsins og losun á kæfandi taki hins opinbera á samfélaginu og hagkerfinu. Að Sjálfstæðisflokkurinn hafi áður staðið að stórkostlegri stækkun ríkisvaldsins á hinum svokölluðu "frjálshyggjuárum" er áminning til frjálshyggjumanna um að standa sig betur næst í að veita stjórnvöldum málefnalegt aðhald. Frjálshyggjumenn urðu latir. Það er þeim (okkur) að kenna að yfirgangur hins opinbera náði þeim hæðum sem hann náði, og sér ekki enn fyrir endann á. 


mbl.is Fylgi stóru flokkanna minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Kjósendur ættu ekki að kjósa óháð stefnumálum og tillögum stjórnmálaflokka til úrlausnar á aðsteðjandi vanda.

Kristinn Snævar Jónsson, 24.4.2013 kl. 09:40

2 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Ég mundi kjósa XD ef hann væri ekki svo flæktur í LÍÚ klíkuna.

kv

sl

Sleggjan og Hvellurinn, 24.4.2013 kl. 11:24

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Kristinn,

Sammála. Sumir eru beinlínis að lofa skattahækkunum og þá kýs ég ekki. Aðrir lofa því að lægri skattar auki tekjur ríkissjóðs til lengri tíma, sem er heldur ekkert sem ég vil stefna að, en skal samt styðja skattalækkanarnir, lækkananna vegna.

Sleggja,

Þegar þú velur þér flokk þá velur þú þér "klíku", sama hvaða flokkur það er. Kannski er það LÍÚ, hagsmunasamtök útgerðarfyrirtækja (þeirra sem eru mjólkuð ofan í ríkissjóð en fá ekkert nema skammir fyrir). Kannski er það klíka vinstrisinnaðra afæta á skattgreiðendum. Kannski er það klíka þeirra sem langar í vel launuð störf í Brussel.

Geir Ágústsson, 24.4.2013 kl. 13:03

4 Smámynd: Sleggjan og Hvellurinn

Ég sem hægri frjálshyggjumaður vill kvótann á frjálsan markað.

Er það óeðlileg skoðun hjá frjálshyggjumanni?

kv

sl

Sleggjan og Hvellurinn, 24.4.2013 kl. 16:33

5 identicon

Jú innan xD eru margir frjálshyggjumenn, en ef þú bara skoðar flokkinn á pólítíska litrófinu þá sérðu að eini raunverulegi frjálshyggjuflokkur Íslands eru Píratar, meðan Sjálfstæðisflokkur er talsvert nálægt miðlínu. VG er mesti forræðishyggjuflokkur Íslands. Þeir sem eru verr að sér í stjórnmálum rugla oft saman frjálshyggju og markaðshyggju. Maður getur verið markaðshyggjumaður en þó forræðishyggjumaður. Mussolini og Pinochet voru ágætis dæmi. Það er líka hægt að vera vinstra megin við miðju þegar kemur að hvort maður er markaðs eða samfélagsmegin, og þó frjálshyggjumaður. Píratar ná næstum upp í þak í frjálshyggju og aðeins örfáir Sjálfstæðismenn nálgast þá í frjálslyndi meðan flokkurinn sem slíkur myndi heita "miðjuflokkur" í öllum öðrum löndum og ekki teljast alvöru markaðshyggjuflokkur heldur. Píratar eru eiginlega utan við vinstra-hægri litrófið. Þeir styðja meira einstaklingsframtak og frelsi einstaklingsins en þó stuðning við þá sem eiga erfiðast. Fyrirtækin í landinu myndu græða á slíkri stjórn. Það verður þá auðvitað engin klámsía á netinu og allt hitt svo VG, svo og Samfylkingin(sem er eigandi Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og félaga eru í logandi ófrægingarherferð) til að reyna að koma í veg fyrir píratar nái fylgi. Akkurat í miðjunni eru Björt Framtíð, og vægari í forræðishyggjunni en Samfó, en þó studd af sömu öflum.

Leggjum út netin og fiskum (IP-tala skráð) 24.4.2013 kl. 18:28

6 identicon

Drauma stjórnarsamsteypa mín er Sjálfstæðisflokkurinn, Píratar og Hægri Grænir í einni stjórn. Píratar myndi tryggja nýjungar, nýsköpun, kraft og þor og nútímalega, frumlega og djarfa nálgun í leitun lausna. Þeir myndu líka færa landinu umtalsverða frægð og virðingu fyrir að vera áhugavert land þar sem eitthvað er í alvörunni að gerast. Sjálfstæðisflokkurinn myndi tryggja að þeir færu ekki út af sporinu í ákveðnum hlutum og því lengja þessa vegferð og gera árangur þessa brautryðjendastarfs margfallt meiri en hann annars hefði verið. Innan xD er fólk sem þekkir nógu vel hið pólítíska landslag til að vita hvar hengiflugin eru, bermúdahringarnir og allt hitt, og hvað þarf að forðast til að eyðileggja ekki allt starf sitt svo ekkert verði úr því og það góða sem maður gerir leiði bara til ills. Þetta fólk er því miður ónýttur mannauður undir metnaðarlausir forystu sem þorir ekki að ráðast í breytingar og sýna frumkvæði. Hægri Grænir hafa áhugaverðar og öðruvísi lausnir í ýmsum málum og væru fínt innlegg. Líka til að forða Sjálfstæðisflokknum frá miðjumoði sem hann á til og forræðishyggju þeirra sem einkennir hann í of ríkum mæli miðað við það sem á að prýða hægriflokk. Úr þessu öllu yrði fínasta blanda. Miðjustjórn í bestu merkingu þess orðs, en þó frjálslyndasta stjórn sem Ísland hefði eignast hingað til og mun frjálslyndari en þær sem "hægri sinnaðri" voru í íhaldsamari merkingu þess orðs.

Leggjum út netin og fiskum (IP-tala skráð) 24.4.2013 kl. 18:33

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Sleggja,

Kvótinn fór á frjálsan markað á sínum tíma, árið 1984 nánar tiltekið. Það fór þannig fram að þeir sem höfðu veitt svo og svo lengi, höfðu lifibrauð sitt af fiskveiðum og höfðu áhuga á að halda þeim áfram án sífelldra inngripa ríkisvaldsins fengu að veiða svipað hlutfall af leyfilegu magni áfram. Síðan þá hafa um 90% kvótans skipt um hendur, og leyfilegt magn af fiski sem má veiða verið minnkað margfalt. Þögulasta eignaupptaka Íslands eins og einhver sagði. En það er víst hagnaður af útgerð hjá flestum sem stunda veiðar. Þá þarf auðvitað að "endurhluthluta" eða þvinga núverandi handhafa veiðiheimilda til að láta þær af hendi, þótt skuldir og rekstraráætlanir verði ekki bættar.

Skynsamlegra væri kannski að festa eignarétt á veiðiheimildum enn betur í sessi og láta ákvarðanir á leyfilegu magni veiða vera í höndum útgerða. "Einkavæða sjóinn" eins og einhver gæti komist að orði. Koma ríkisvaldinu úr þessari atvinnugrein eins og öðrum.

Pírati,

Þetta eru áhugaverður hugleiðingar. En hvort heldur þú að komi fyrst: Pólitískt frelsi, eða markaðsfrelsi?

Geir Ágústsson, 25.4.2013 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband