Sósíalismi: Á innleið eða útleið?

Hvort tiltekið land er á leið inn í sósíalisma eða út úr sósíalisma er yfirleitt ekki mjög plássfrekt í umræðunni. Yfirleitt er talað um að tiltekið land sé núna ýmist sósíalískt eða kapítalískt eða eitthvað þar á milli. Hvað er Svíþjóð til dæmis? Er hún ekki frekar sósíalísk? Hvað með Ísland? Er ekki ríkur pilsfaldakapítalismi við lýði og hefur alla tíð verið?

Menn hafa smíðað ýmsar vísitölur, t.d. svokallaðar vísitölur efnahagslegs frelsis, og bera þar saman lönd á milli ára til að sjá hvert þau stefna. Þessar vísitölur eru samt umdeildar. Sósíalistum finnst ósanngjarnt að tengja saman svigrúm einstaklinga og fyrirtækja til að stunda viðskipti við lífskjör almennings í viðkomandi landi. Mörgum frjálshyggjumönnum finnst talnaleikfimin hreinlega vera óþörf: Hagfræðin getur sagt fyrir um þróun lífskjara án þess að safna gögnum.

Ég sting því hérna upp á einfaldari mælikvarða til að sjá hvort land er á leið inn í sósíalisma eða út úr honum: Viðhorfinu til erlendra fjárfestinga.

Dæmi: Á Íslandi er núna stefnt að því að henda útlendingum út af sjálfum fasteignamarkaðinum eða a.m.k. loka á hann fyrir útlendingum. Það er stefna í sósíalíska átt. Ísland er að verða meira og meira sósíalískt.

Dæmi: Í Venesúela er verið að henda erlendum fyrirtækjum úr landi eða þjóðnýta þau (að hluta eða í heild). Það er land á leið í dýpri og dýpri sósíalisma.

Dæmi: Í Kína er núna verið að opna meira og meira á fjárfestingar alþjóðlegra olíufélaga í leit að og vinnslu á náttúruauðlindum landsins. Kína er því að kasta af sér viðjum sósíalismans, þótt sumum finnist það ganga hægt.  

Dæmi: Í Svíþjóð hafa menn haldið sig frá skuldasöfnun á meðan kreppan geisaði yfir landið og lækka núna skatta. Að mér vitandi hafa Svíar í engu látið tortryggni í garð útlenskra fjárfestinga angra sál sína og þar eru raunar einhverjar bestu aðstæður í heimi fyrir útlendinga að fjárfesta. Þar eru menn því á leið frá sósíalisma.

Ísland og Venesúela eru því að stefna í sömu átt þótt löndin séu komin mislangt á leið sinni að drottnun ríkisvaldsins yfir öllum og öllu. Kína og Svíþjóð eru að vinda ofan af sínum sósíalisma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta er náttúrlega ein leið til að sjá þetta - þumalputtaregla, eignilega.

Ásgrímur Hartmannsson, 3.2.2013 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband