Spennandi tímar, en eitt skref í einu

Olíu er að finna á ótrúlegustu stöðum. Þökk sé tækniþróun og mikilli fjárfestingu stærstu olíuvinnslufyrirtækja heims er hægt að bora á dýpra og dýpra vatni, og lengra og lengra undir yfirborð jarðar, og í raun fyrirséð að enginn skortur verði á jarðefnaeldsneyti næstu áratugina, hvað sem líður spám um annað. Olíuvinnsla er nú stunduð á um 2,5 km vatnsdýpi og stefnan er víða sett á vinnslu á ennþá meira dýpi. Sjálfar borholurnar teygja sífellt lengra niður undir jarðskorpuna og í gegnum erfiðari og erfiðari jarðlög undir meiri og meiri þrýstingi og hita.

Mér er málið örlítið skylt sem starfsmaður fyrirtækis sem framleiðir varning fyrir svona sjávarvinnslu á olíu og gasi.  

Ekkert er öruggt í þessum heimi. Norðmenn hafa gatað botn Norðursjávar í fleiri áratugi og kortlagt jarðlögin í bak og fyrir, en samt tekst þeim reglulega að bora "þurrt", þ.e. bora án þess að rekast á olíu. Áhættan er mikil. Ég geng jafnvel svo langt að segja að stærsta áhættan við olíuvinnslu á íslensku landgrunni sé íslensk stjórnmál. Á einum degi gæti íslenskum stjórnmálamönnum dottið í hug að henda öllum lögum og reglum og skattprósentum út um gluggann og "semja" upp á nýtt. Þessu hafa íslensk iðnfyrirtæki þurft að kynnast. Í Noregi og víðar er mikil áhersla lögð á stöðug starfsskilyrði olíuvinnslunnar og fyrirfram þekkta opinbera álagningu. Fjárfestar í olíuleit og -vinnslu á Íslandi eru hugrakkar sálir sem eru vonandi með góða lögfræðinga á sínum snærum ef stjórnvöld ætla sér að svíkja alla samninga. 

Ég hlakka til að fylgjast með framvindu hins íslenska olíu"ævintýris". Sem verkfræðingur í "bransanum" eru allar mínar taugar þandar af spenningi. Sem áhugamaður um stjórnmál óttast ég hið versta fyrir hönd íslenskrar olíuvinnslu, sem er ekki fyrr búin að fá starfsleyfi fyrr en stjórnmálamenn byrja að draga í land.  


mbl.is 80% styðja olíuvinnslu á Drekasvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verður þetta ekki olía án hirðirs?

GB (IP-tala skráð) 20.1.2013 kl. 10:21

2 Smámynd: Geir Ágústsson

GB,

Hættan er sú að þeir sem fá og hafa leyfi til olíuvinnslu á íslensku landgrunni séu sífelldur skotspónn stjórnmálamanna, rétt eins og þeir sem hafa undir höndum veiðiheimildir í sama landgrunni. Ef einhverjum tekst að græða vel fara stjórnmálamenn að tala um sértækar skattahækkanir á þá. Hættan er sú að þeir sem hafa slík leyfi fái ekki að kaupa eða selja að vild til að ná fram hagræðingu. Ríkisvaldið á Íslandi mun eiga mjög, mjög erfitt með að stilla sig í að skipta sér af, ítrekað og mikið.

Sennilega verður þetta ekki olía án hirðis, en hirðarnir verða sífellt undir smásjá ríkisins og þurfa að þola eilíf afskipti og jafnvel síbreytilega skattheimtu. Þetta verður sennilega hálfgerður fasismi: Einkaaðilar eiga leyfi að nafninu til, en leyfin verða í raun ríkiseign vegna smásmugulegra ríkisafskiptanna.

Geir Ágústsson, 20.1.2013 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband