Kosningar í niðursveiflu

Kosningar eru í nánd og sitjandi Alþingismenn gera sér vel grein fyrir því. Þingmenn stjórnarflokkanna hafa ákveðið að telja kjósendum í trú um að endurreisn hins íslenska hagkerfis sé hafin og gangi vel. Þingmenn stjórnarandstöðunnar munu keppast við að benda réttilega á að það sé rangt, en án þess að fara nánar út í ástæður þess. Báðir hópar munu svo lofa því að ef þeir komast til valda mun ríkisvaldið hvergi slaka á í að bjarga öllu og öllum.

Kosningar í niðursveiflu eru áhugavert fyrirbæri. Nú er það svo að allir hagvísar eru ennþá að benda niður þótt fjögur ár séu  liðin frá hruni. Til að blása lofti í götótt dekkið hefur almenningur þurfa að tæma sparnaðarreikninga sína og eyða viðbótarlífeyrissparnaði sínum, safna neysluskuldum og draga sig úr fjárfestingu. Fyrirtæki í útflutningi hafa þurft að treysta á að launþegar sínir sætti sig við þá kjaraskerðingu sem fall krónunnar hafði í för með sér. Innflytjendur hafa notið góðs af niðurgreiðslu Seðlabanka Íslands á íslensku krónunni með notkun erlends lánsfjár, hins svokallaða „gjaldeyrisforða". Ríkisvaldið hefur svo barið hverja þá krónu sem það getur úr allri verðmætaskapandi iðju á Íslandi og safnað gríðarlegum skuldum.

Ástandið haustið 2008 fer því að líta betur og betur út í samanburði við þá sviðnu jörð sem núverandi ríkisstjórn skilur eftir sig.

Stjórnarandstaðan hefur ekki nýtt sem skyldi hin fjölmörgu tækifæri sem hafa gefist til að gagnrýna ríkisstjórnina. Hún gerir nánast ráð fyrir því að komast til valda eftir næstu kosningar og sefur á verðinum. Kjósendur hafa ekki fengið mikla vissu fyrir því að tiltekt muni hefjast ef vinstrimönnum og fjölmiðlum þeirra (RÚV, Fréttablaðið og DV) megi á ný koma í stjórnarandstöðu.

Stjórnarliðar ætla að ljúga upp í opið geðið á kjósendum með því að segja, fjórða árið í röð, að núna sé endurreisnin loksins hafin, gjaldeyrishöftin bráðum á bak og burt og tími skuldasöfnunar á enda. Fjölmiðlar vinstrimanna munu aðstoða stjórnarliða við þetta verkefni.

Hinn pólitíski vetur verður spennandi en um leið fyrirsjáanlegur. Sá sem þetta skrifar þykist geta séð margt fyrir, en vonar um leið að honum skjátlist í sem flestu. Ísland á betur skilið en þessa hrægamma sem kroppa núna í seinustu kjöttægjur verðmætasköpunar á Íslandi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Vandinn er fyrst og síðast kjósendur, kjósandi sem lætur ljúga að sér hefur eiginlega ekki mikinn rétt til að væla. Kjósandi sem er illa að sér lætur ljúga að sér og hlustar á það sem stjórnmálamenn segja en lítur ekki til þess sem þeir gera. Á meðan kjósendur eru illa að sér geta stjórnmálamenn komist upp með að segja að allt sé í góðum gír hér og allt að lagast. Ég viðurkenni fúslega að ég lét lengi vel ljúga að mér en fékk nóg fljótlega eftir hrunið og fór að lesa mér til.

Fólk getur auðveldlega valið sig frá hinu og þessu sem er flókið  eins og t.d. burðarþol, eldflaugahreyflar og annað slíkt en fólk velur sig ekki frá og getur ekki flúið efnahagsmál. Ábyrgð skólakerfisins er því nokkuð mikil, sérstaklega framhaldsskólanna.

Nú eru rúm fjögur ár frá hruni og þá er vert að hugsa til þess að það tók Harding bara tæp 2 ár að snúa við ansi slæmu ástandi. Liðið sem nú stjórnar veit ekki hvort það er að koma eða fara og því borin von um að ástandið batni hér í bráð :-(

Helgi (IP-tala skráð) 8.10.2012 kl. 22:30

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Helgi,

Ég deili svartsýni þinni, en ætla samt að berjast. Vitleysunni þarf að svara sem víðast, sem oftast, og af sem flestum. Mér er næstum því farið að langa til að skrifa bréf til allra vænlegra þingmanna og frambjóðenda í kjördæmum. Sem flestir þurfa að lesa Hagfræði í hnotskurn, sem fæst í íslenskri þýðingu í flestum stærri bókabúðum á Íslandi. Það bara hlýtur að vera hægt að brjóta ísinn einhvern veginn!

Geir Ágústsson, 9.10.2012 kl. 07:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband