Mánudagur, 14. maí 2012
Stóru fyrirtækin styðja aðgangshindranir á markaði (samkeppnislög)
Samkeppnisreglur eru að hluta til fundnar upp af einkafyrirtækjum. Það er bara alls ekki skrýtið að stór fyrirtæki á markaði styðji eindregið regluverk ríkisvaldsins og hin svokölluðu samkeppnislög.
Hvers vegna?
Jú, samkeppnislög eru dýr fyrir fyrirtæki. Þau eru flókin. Í þeim eru allskyns ákvæði sem kveða á um hver megi fjárfesta í hverju, og hvers vegna.
Gefum okkur að stórfyrirtækið GOLÍAT sé á markaði. Fyrirtækið er með marga viðskiptavini. Það hefur stóra hlutdeild á þeim mörkuðum sem það er á. Ríkisvaldið setur nú samkeppnislög. Þau lög eru að mörgu leyti sniðin að þeim fyrirtækjum sem fyrir eru á markaði því ríkisvaldið setur sjaldan afturvirk lög sem gera starfsemi, sem nú þegar er í gangi, ólöglega. GOLÍAT er því löglegt, sem og starfsemi þess.
Segjum svo að nokkrir fjárfestar vilji stofna til samkeppni við GOLÍAT, því þeir sjá að hagnaður GOLÍAT er mikill, og hlutfallslega hærra hlutfall af veltu en gengur og gerist hjá öðrum fyrirtækjum. Fjárfestarnir stofna fyrirtækið DAVÍÐ. Til að uppfylla allar kröfur löggjafans um innra eftirlit, kynjakvóta, eiginfjárhlutfall, tilkynningaskyldu til eftirlitsaðila hins opinbera og hvaðeina, þá þurfa fjárfestarnir að setja gríðarlegt fé í reksturinn áður en hann getur byrjað að selja þjónustu í samkeppni við GOLÍAT (jafnvel þótt reksturinn snúist bara um að djúpsteikja kjúklinga).
Fjárfestarnir hætta við og finna aðrar leiðir til að fjárfesta. GOLÍAT brosir. DAVÍÐ var drepinn áður en hann komst á vígvöllinn.
Framkvæmdastjórn Íslandsbanka sendir nú þau skilaboð að hún taki samkeppnislög mjög alvarlega og fyrirskipar mikil fjárútlát til að sannfæra yfirvöld og viðskiptavini sína um að þar á bæ sé samkeppni talin mikilvæg. Veiking á samkeppni er samt aðalmarkmið bankans, rétt eins og allra annarra fyrirtækja. Stjórnendur Íslandsbanka vita að samkeppnislög eru góð, fyrir þá. Þeim er því umhugað um að þau séu sem flest og umfangsmest og sem mest í umræðunni sem eitthvað jákvætt. Því þannig geta stjórnendur Íslandsbanka dregið úr samkeppni. Skiljanlega.
Íslandsbanki innleiðir samkeppnisstefnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll.
Flottur pistill.
Mér skilst að EES reglur séu þannig að til þess að geta stofnað banka þurfi menn fyrst að eiga 800 milljónir og svo geti menn farið að moka pappir í 1-2 ár áður en hægt er að koma banka á koppinn. Þetta verndar auðvitað bara þá sem fyrir eru á fleti sem er ekki gott fyrir neytendur.
Af hverju skyldu t.d. bankar vanda sig í framkomu við viðskiptavini þegar þeir vita að þeir þurfa afar litlar áhyggjur að hafa af samkeppni?
Svo ætla menn fyrir vestan að fara að setja reglur vegna þess að banki tapaði 2 milljörðum dollara á afleiðuviðskiptum. Af hverju má banki ekki tapa fé? 2-3 toppar þar voru látnir fara og þar með ætti málið að vera búið. Hvers langt ætla menn að ganga í að stýra öllu?
Helgi (IP-tala skráð) 17.5.2012 kl. 11:43
Sæll Helgi og takk fyrir innlit þitt og innlegg,
Reglur EES/ESB fyrir fjármálastarfsemi eru gríðarlega umfangsmiklar. Þær leyfa til dæmis bönkum að bjóða "langtíma"kúnnum sínum lægri vexti en öðrum, með þeim rökum að fjármálasaga þeirra sé "þekkt" og þeir geti því kallast öruggari fyrir vikið. En hvað með banka í samkeppni, sem langar í hinn nýja kúnna? Hann má hreinlega ekki bjóða betur í vaxtasamkeppninni, því hinn tilvonandi kúnni er ekki "langtíma"kúnni hins nýja banka. Hinn gamli banki getur því svo gott sem litið á kúnnann sem eign sína (því kúnnanum má ekki bjóða betri kjör í öðrum bönkum).
Fjármálastarfsemin býr við einhvern þann stærsta og þéttasta reglugerðafrumskóg sem um getur, og sífellt í spennitreyju til að fara ekki með of mikið af fé skattgreiðenda á bálið. Í mínum huga er þetta tvennt náskylt.
Geir Ágústsson, 22.5.2012 kl. 06:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.