Laugardagur, 18. febrúar 2012
Hinn 'þröngi markaður' eða sósíalismi?
Nánast undantekningarlaust þegar menn tjá sig á neikvæðum nótum um "markaðslögmálin" er hægt að sýna fram á að þeir hinir sömu vita ekkert hvað þeir eru að tala um (hafa t.d. ranghugmyndir eða hafa hlotið menntun í einhverri vitleysu), eða eru að boða sósíalisma, eða bæði.
Hvað er "hinn þröngi markaður"? Hann er samfélag einstaklinga sem eiga frjáls viðskipti og samskipti sín á milli. Þessi viðskipti hafa það markmið að hámarka hag allra sem að þeim koma (ef þátttakendur héldu að það væri niðurstaðan þá mundu þeir láta viðskiptin eiga sig). Stundum eru þau fjárhagslegs eðlis, en stundum sálræns, en oftar bæði í senn. Stundum eiga viðskiptin sér stað með því að einn maður afhentir öðrum manni fé og fær í staðinn epli. Stundum eiga þau sér stað þannig að maður gefur fé til góðgerðarmála og ætlast ekki til að fá neitt í staðinn nema vellíðan.
Sumir skilja andstæðu hins "þrönga markaðar" sem öll þau viðskipti sem fara fram án þess að einhver fái ávöxtun fjár eða varning í skiptum fyrir fé, t.d. gjafir til góðgerðarmála eða faðmlög til heimilislausra. En þetta eru viðskipti. Þau lúta sömu lögmálum og viðskipti með fé, góðmálma og nuddþjónustu. Flutningur á fé úr vösum þeirra sem þess afla og í vasa einhverra annarra hættir fyrst að vera viðskipti þegar ríkisvaldið tekur að sér þennan tilflutning fjár og fer að ákveða hversu mikið á að flytja til og til hverra og hvenær, með hótun um fangelsisvist eða ofbeldi ef eigandi fjárins sleppir því ekki.
Hver er svo raunveruleg andstæða hins "þrönga markaðar" og valkosturinn við hann? Það er hinn víðfeðmi faðmur ríkisvaldsins. Í stað þess að einstaklingur skipti á vinnu og fé og noti þetta fé til að kaupa sér varning og þjónustu, þá hrifsar ríkisvaldið eignir hans úr höndum hans og notar í hvað sem því sýnist.
Þeir sem tala gegn hinum frjálsa og "þrönga" markaði eru meðvitað eða ómeðvitað að boða sósíalisma.
Forsetinn: Ísland land tækifæranna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.