Mánudagur, 19. september 2011
Fatahreinsanir þurfa að auka hagnað sinn
Að mati "sérfræðinga" þurfa bankar í Evrópu og Bandaríkjunum að auka hagnað sinn. Af hverju? Af því bankar taka við sparifé og lána það áfram. Ef þeir eru á vonarvöl og á leið í gjaldþrot, þá þurfa skattgreiðendur að borga brúsann. Þannig virkar kerfi ríkisrekinna seðlabanka, og opinberra "innistæðutrygginga".
Þetta er fáránlegt kerfi, og það verður ágætlega útskýrt með dæmi.
Segjum sem svo að fatnaður allra landsmanna sem færi inn í fatahreinsanir væri "tryggður", t.d. með "fatahreinsunartryggingu ríkisins".
Fólk færi áhyggjulaust með fötin sín í hreinsun, en ekki af því fatahreinsanir hefðu sýnt fram á að þær væru traustsins verðar, heldur af því ríkið hefði sagt að það væri óhætt að láta aðra hreinsa fötin sín (sumar lána jafnvel föt skjólstæðinga sína áfram til annarra skjólstæðinga gegn gjaldi, eða láta aðrar flíkur frá sér í stað þeirra sem kæmu inn, t.d. flíkur úr ódýrara efni eða verri saumaskap).
Fólk væri áhyggjulaust, því ef upp kæmist um eitthvað misferli hjá fatahreinsununum, þá kæmi ríkið til bjargar og greiddi fyrir allar flíkur upp að ákveðnu hámarksverði, til dæmis 200 þúsund kr. á flík eða hámark milljón fyrir öll föt sem viðkomandi væri með í hreinsun. Um þessi hámörk væri samt alltaf verið að deila á Alþingi Íslendinga.
Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér að fatahreinsanir sem þyrftu ekki að hafa neinar áhyggjur af orðspori sínu eða sýna fram á að vera traustsins verðar yrðu fljótar að misnota sér aðstöðu sína. Fólk léti þær fá jakkaföt frá Armani en fengi til baka jakkaföt frá Dressmann, en léti sér fátt um finnast því fötin hlytu að vera jafnverðmæt því það væri jú reglugerð í gangi sem "merkjatryggði" fötin sem fætu inn í fatahreinsanir ("verðtryggði" á peningamáli).
Teymi sérfræðinga gæfi svo reglulega út yfirlýsingar um nauðsynlegan hagnað fatahreinsana, því ella væri hætta á að þær stælu fötum skjólstæðinga sinna og lánuðu út til vafasamra en efnaðra skjólstæðinga til að auka hagnað sinn. Í staðinn fengju svo aðrir skjólstæðingar verri en keimlík föt.
Teymi tuðandi frjálshyggjumanna myndi svo benda á að þetta samkrull einkafyrirtækja og opinberra "trygginga" (sem skattgreiðendur fjármagna á endanum) væri vafasamt. Betra væri að láta fatahreinsanir starfa án slíkra opinberra trygginga, og keppa í trausti en ekki áhættu.
Ráðstefnur um fatahreinsanir væru haldnar. Frá þeim kæmu loðnar yfirlýsingar um að hið blandaða kerfi einkafyrirtækja og opinberra trygginga hefði bæði kosti og galla. Þann kost að fólk gæti óhult látið föt sín af hendi til fatahreinsana því þau væru tryggð, en þann ókost að fatahreinsanir freistuðust til að keppa í áhættu og hagnaði frekar en góðri og traustri þjónustu.
Segir banka þurfa að auka hagnað sinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.