Stjórnmálum og lögfræði hrært saman

Lúðvík Júlíusson moggabloggari með meiru hefur að undanförnu skrifað margar greinar um Icesave og skoðun sína á því máli. Afstaða hans virðist vera sú að við eigum að samþykkja Icesave-lögin ...or else!

Mér finnst afstaða Lúðvíks vera athyglisverðari en margra annarra því hann hefur að mörgu leyti mjög skynsamar skoðanir til gjaldeyris- og peningamála almennt. Hann er á móti gjaldeyrishöftunum, hallast að hinni einu réttu hagfræði (nánast öll önnur hagfræði er Excel-leikfimi án grunnskilnings á gangverki hagkerfisins), og er mjög gagnrýninn á allskyns fikt við frjálst fjármagnsflæði. Allt gott mál.

En í pólitík er hann Samfylkingarmaður. Eða svo sýnist mér.

Grunnstefið í skrifum Lúðvíks um Icesave og innistæðutryggingar almennt er það að ríkið sé í raun ábyrgt fyrir öllum innistæðum, sama hvað, því í fjarveru slíkrar ábyrgðar sé í raun ekki hægt að láta bankakerfið ganga upp. Eða eins og Lúðvík segir á einum stað:

"Ábyrgð, svo lengi sem tryggingasjóðurinn dugir" er sama og engin ábyrgð!  Ef innistæður eru tryggðar, að hluta eða að fullu, þá er nokkuð ljóst að ríkið þarf að grípa inn í með fjármagn ef tryggingasjóðurinn dugir ekki.

Gallinn við "ábyrgð svo lengi sem tryggingasjóðurinn dugir" er að sé dæmið sett upp leikjafræðilega þá er ábyrgðin sama og gagnslaus í bóluhagkerfinu, jafnvel verri en engin ábyrgð.

Takmörkuð ábyrgð þýðir að verði bankaáhlaup á einn banka sem ylli því að innistæðutryggingasjóðurinn tæmdist þá myndu aðrir bankar vera án tryggingar!  Það vilja fáir innistæðueigendur vera án tryggingar og því myndi áhlaup á einn banka leiða til áhlaups á aðra banka. 

Hlutverk innistæðutrygginga er að róa innistæðueigendur og koma í veg fyrir að áhlaup á einn banka leiði til áhlaups á aðra banka.

Þess vegna getur innistæðutrygging í raun aldrei verið takmörkuð við eignir tryggingasjóðsins.

Þessu verður að mótmæla. En til að gera það þarf fyrst þarf að gera sér grein fyrir nokkrum atriðum:

  • Kerfi innistæðu"trygginga" er ætlað að aðskilja rekstur banka og ríkis þannig að skattgreiðendur séu ekki ábyrgir fyrir skuldbindingum banka gagnvart viðskiptavinum sínum.
  • Þetta kerfi var smíðað í trausti þess að kerfið væri nokkurn veginn sjálfbært og að í því félli að jafnaði ekki nema einn og einn banki í einu. 
  • Þetta traust var of mikið og í raun byggt á sandi því bankakerfi "fractional reserve banking" er í raun gjaldþrota um leið og peningamagn er þanið út langt umfram innistæður í bankakerfinu.
  • Til að bjarga innistæðueigendum frá hinu óumflýjanlega hafa ríkisstjórnir í gegnum tíðina því yfirleitt ausið úr vösum skattgreiðenda til að bjarga einhverju og koma í veg fyrir algjört greiðslufall í hagkerfinu. 

Seinasti punkturinn er mikilvægur, því hann felur í sér pólitísk inngrip. Slík inngrip eru ekki bundin í lög - stjórnmálamenn grípa til þeirra eftir dúk og disk. Á Íslandi fólu þau í sér setningu svokallaðra "neyðarlaga" sem fluttu innistæður í skjól og þær síðan greiddar upp með fé skattgreiðenda. Annars staðar, t.d. í ESB þar sem sama tilskipun ESB um innistæðutryggingar gildir, var minna af skattfé notað og þess í stað settur þrýstingur á bankana að bjarga hverjum öðrum með sínu eigin fé, nú eða þeim veitt lán með ströngum skilyrðum. 

Sem sagt: Ekki gekk eitt yfir skattgreiðendur allra landa, þótt bankakerfi allra landa séu í grunnatriðum mjög svipuð.

Það er því ekki rétt að innistæður séu "í raun" á ábyrgð skattgreiðenda. Í flestum löndum olli hrunið miklum pólitískum inngripum í nafni "björgunar" og "greiðslugetu", en ekki öllum. Sum lönd, eins og Eistland, eru ekki einu sinni með innlenda banka, og þarf þá varla að deila mikið um "ábyrgð" skattgreiðenda þar á töpuðum innistæðum.

Menn eru að rugla saman pólitík og lögfræði þegar algengum pólitískum inngripum er ruglað saman við einhvers konar kvöð á skattgreiðendur. Þótt íslenskir stjórnmálamenn láti skattgreiðendur oft byggja tónlistarhús og söfn þá er ekki þar með sagt að skattgreiðendur séu á einhvern hátt skuldbundnir til að byggja slík hús. Stjórnmálamenn tóku ákvarðanir um slíkt án þvingunar og í nafni einhvers annars en lagalegrar skyldurækni.

Hið gallaða kerfi "trygginga" á innistæðum í gölluðu kerfi "fractional reserve banking" veldur óumflýjanlega áhlaupi á bankana, fyrr eða síðar. Í stað þess að sópa pólitískum inngripum af slíku yfir skattgreiðendur í formi lagalega bindnandi skyldu væri miklu nær að hefja ferli aðskilnaðar á ríki og hagkerfi, leyfa tímabundnum sársauka bankaáhlaupa að hreinsa bankakerfið af peningaprentun án innistæða, og þvinga banka í samkeppni um traust, en ekki áhættu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Takk fyrir góða greiningu.

Ég ætla ekki að svara henni að öðru leiti en því að mín afstaða er ekki að við ættum að samþykkja "Icesave or else".  Mín afstaða er sú að við höfum veikar varnir í málinu vegna yfirlýsinga embættismanna sem gáfu í skyn að innistæður væru öruggar (þó það væri ekki lagalega bindandi yfirlýsingar) og einnig vegna uppbyggingar innistæðutryggingakerfisins þar sem óbein(óyfirlýst en raunveruleg) ríkisábyrgð er(eftir því sem ég best sé) á innistæðunum.

Einnig vil ég vekja athygli á því að Seðlabankar hafa heimild í lögum til að veita bönkum lán til þrautavara.  Til þess notar hann peninga skattgreiðenda og gerir þar með skattgreiðendur ábyrga fyrir starfsemi einkabanka.  Veiting þrautavaralána er bæði veitt í þeim tilgangi að koma bönkum í gegnum skammtímalausafjárvanda en einnig til að bjarga innistæðum.  Leiðin í gegnum tryggingasjóðinn er að bjarga bankanum án þess að skattgreiðendur séu gerðir ábyrgir fyrir skuldum bankans til lánadrottna.

Ég bið fólk um að kynna sér málið vel frá báðum hliðum til að taka upplýsta afstöðu 9. apríl.

Þetta er gott innlegg hjá þér í þá umræðu og sérstaklega um það hvernig við viljum sjá "kerfið" í framtíðinni.

Lúðvík Júlíusson, 22.3.2011 kl. 11:17

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Sæll Lúðvík,

Ég held að 99% embættismanna og stjórnmálamanna (og sömuleiðis fæstir hagfræðingar) hafi engan skilning á því hvað felst í "fractional reserve banking" og að slíkt kerfi verður ekki "tryggt" með neinu móti þótt því megi halda á lífi með blóði skattgreiðenda, a.m.k. enn um sinn (þótt slíkt muni taka enda dag einn).

Yfirlýsingar og ummæli þeirra verður því að skrifa á skilningsleysi (og í örfáum tilvikum á blekkingar). Þær voru ekki séríslenskar - Bretar sem neita að greiða innistæður breskra banka á Mön eru sennilega að éta yfirlýsingar um "traust" á breska bankakerfinu, rétt eins og Íslendingar sem héldu svipuðu fram um hina íslensku banka.

Seðlabankinn hefur víðtækar heimildir til að skipta sér af hagkerfinu, nánast ótakmarkaðar ef því er að skipta (eins og hefur komið í ljós með refsiákvæðum í reglugerð Seðlabankans, eitthvað sem margir telja að stangist á við stjórnarskrá).

En já ég hvet fólk til að taka upplýsta afstöðu, og ekki bara á grundvelli þess sem hefur gerst, heldur einnig þess sem þarf að gerast til að forða okkur frá svipuðu hruni í framtíðinni (lagalega bindandi ríkisábyrgð á innistæðum eða aðskilnaður ríkis og hagkerfis).

Geir Ágústsson, 22.3.2011 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband