Litið á afleiðingar verðbólgu, en ekki orsök

"Verðbólga" er ranglega skilgreind sem hækkun á "almennu verðlagi". Með réttu væri verðbólga skilgreind sem aukning á peningamagni í umferð, sem leiðir til hækkandi verðlags. Menn eru því að skoða afleiðingar verðbólgu en ekki orsök hennar.

Það að "vísitala neysluverðs" sé að hækka eða lækka segir líka mjög lítið til um ástand hagkerfisins. Ef tölvur helmingast í verði (t.d. af því birgðastaða er mjög há vegna minnkandi eftirspurnar) en mjólkurvörur tvöfaldast í verði, þá getur jafnvel mælst "hlutlaust" með vísitölu verðlags. Engu að síður mun slík núll-mæling á "verðbólgu" valda því að bankamenn streyma glaðir út á götu og fagna góðu ástandi hagkerfisins. Undirliggjandi er samt mikil kjaraskerðing hjá mjólkurvöruneytandi almenningi sem fer sér hægt í kaup á tölvum.

Fréttir eins og þessar segja okkur miklu meira um hvað er í gangi og hvaða fikt er verið að stunda með peningana okkar:

Þá er athyglisvert að samkvæmt hagtölunum hefur peningamagn í umferð aukist gífurlega frá árinu 2006 en í desember það ár var peningamagn í umferð rúmlega 211 milljarðar kr. Í apríl í fyrra var sú tala orðin tvöföld eða um 420 milljarða kr.

Einnig þessi frétt:

Rétt eins og efnahagsreikningur Seðlabankans stækkaði, jókst peningamagn í umferð mikið í aðdraganda hruns bankanna og enn frekar í kjölfar þess. Fór hlutfall víðs peningamagns af landsframleiðslu úr 55% í lok ársins 2003 í 116% þegar það náði hámarki í nóvember 2008, segir í nýútgefnum Peningamála Seðlabanka Íslands.

Það er ekki auðvelt að átta sig á því hvað er í raun og veru að gerast í hagkerfinu, en kannski má draga það saman með nokkrum orðum:

  • Peningamagn í umferð er að dragast nokkuð saman, t.d. af því fólk er að tæma skattskylda bankareikninga sína og koma sparnaði sínum í seðla og annað sem verður ekki svo auðveldlega gert upptækt
  • Á Íslandi eru gjaldeyrishöft sem binda sennilega þónokkuð af þeim krónum sem urðu til fyrir bankahrun fasta og þeim peningum er því haldið frá því að sleppa úr hagkerfinu og stuðla að enn frekari minnkun á peningamagni í umferð
  • Seðlabankinn heldur uppi gengi krónunnar með því að kaupa erlendan gjaldeyri með lánuðu fé
  • Engu að síður eru menn að "mæla" einhverjar verðhækkanir. Þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin (sennilega í kringum næstu kosningar, til að lágmarka pólitískan skaða á núverandi ríkisstjórn) munu hundruðir milljarðar af íslenskum krónum flýja land
  • Hagfræðingar halda, af nánast trúarlegum ástæðum, að verðhjöðnun sé slæm og munu því seint umbera hana, þótt hún sé í raun leið markaðarins til að sjúga loft úr peningaprentuðum blöðrum

Það er engin leið að sjá fyrir sér nákvæmlega hvað gerist og hvenær, en eitthvað mun gerast til að hreinsa hrunið úr hagkerfinu - nokkuð sem núverandi ríkisstjórn ætlar að slá á frest þar til hún verður hvort eð er kosin frá í næstu kosningum.


mbl.is Verðbólgan í samræmi við markmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband