Hvernig er skaðinn af fíkniefnum lágmarkaður?

Ég geri mér grein fyrir því að ég tilheyri litlum minnihlutahópi sem virðir sjálfseignarrétt einstaklinga og vil ekki hafa nein afskipti af því hvað einstaklingar geri við eigin skrokk, hvort sem það er húðflúrun eða neysla hinna ýmsu efna (á meðan þeir beita ekki aðra beinu ofbeldi við iðju sína). Ég get reynt að sannfæra einstaklinga um að láta fíkniefnaneyslu eiga sig, en hef engan siðferðislegan rétt til að beita þá ofbeldi ef þeir kjósa að sprauta sig eða reykja ýmis efni.

Ég er hins vegar hluti af vaxandi hópi sem sér ekki bann við eiturlyfjum sem lausn á einu né neinu. Margir eru byrjaðir að spyrja sig spurningarinnar: Hvernig er hægt að lágmarka skaðann af fíkniefnum?

Sumir myndu svara með því að boða allsherjar bann við framleiðslu, kaupum og sölu á eiturlyfjum. Þessi hópur á fullt í fangi með að rökstyðja þá afstöðu sína, enda hafa áratugir af slíku fyrirkomulagi ekki gert annað en að gera eiturlyfjasala moldríka og algjörlega löglausa, og eiturlyfjaneytendur bláfátæka og líkamlega sjúka glæpamenn. 

Víða um heim finnst fyrirkomulagið sem Mick Jagger talar um, þar sem eiturlyfjasala og -neysla er umborin undir ströngu eftirliti, og það að stinga öllum sem koma nálægt efnunum í steininn sett mjög neðarlega á forgangslistann. Þar með er ekki sagt að eiturlyf hafi alls staðar verið "lögleidd" þar sem slíkt fyrirkomulag er við lýði, heldur eingöngu færð nær sólarljósinu þar sem hægt er að fylgjast með dreifingu þeirra, gæðum, sölu og neyslu.

Með því að umbera eiturlyfjasölu- og neyslu er hægt að:

  • Draga úr ofbeldi í fíkniefnaheiminum
  • Bæta heilsu fíklanna (efnin verða hreinni og síður blönduð aukaefnum í sveiflukenndu magni) og þannig auka líkur á vel heppnaðri meðferð þeirra
  • Draga úr ofboðslegum hagnaði af fíkniefnasölu
  • Bæta fjárhag fíklanna með lækkun á verði efnanna og þannig minnka líkur á ofurskuldsetningu þeirra á hinum svarta markaði
  • Hafa eftirlit með eiturlyfjaheiminum, og t.d. gera ungum krökkum erfiðar við að komast í tæri við þau
  • Eiga einhver fangelsisrými eftir handa ofbeldismönnum og þjófum

Umræðan um fíkniefni á alls ekki að snúast um hvað okkur finnst sjálfum um efnin sem hugsanlegum neytendum, heldur hvernig má lágmarka skaðann af þeim. Í mínum huga snýst þetta samt fyrst og fremst um sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og ég hef þá bjargföstu skoðun að með því að virða hann, þá sé skaðinn af völdum fíkniefna lágmarkaður.


mbl.is Vill leyfa fíkniefni til reynslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er hjartanlega sammála þér Geir. Þetta er einmitt sú spurning sem við ættum öll að spyrja okkur að. Því miður lifum við nú á tímum þar sem stór hluti þjóðarinnar er að láta tilfinningar brengla dómgreind og lítið verður gert í þessum málum. Vonandi fara menn að vakna. Ég veit um nokkra í Mexíkó sem myndu eflaust gráta af gleði ef fíkniefni yrðu gerð lögleg.

Sjonni G (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband