Keynes er dauður – jörðum hann!

Frá Kreppunni miklu hefur Keynesismi og alls kyns útgáfur af honum tröllriðið hagfræðinni. Nokkurt bakslag varð þó á áttunda áratugnum, en samt var sömu stefnu haldið áfram í grundvallaratriðum. Nú hefur stefna Keynesverja beðið endanlegt skipbrot. Hagfræðingar verða að viðurkenna að grunnforsendur þeirra eru rangar. Hagfræðingar hins blandaða hagkerfis, Keynesverjar, verða að líta í eigin barm. Árið 1989 féll sósíalisminn. Árið 2008 féll hið blandaða hagkerfi. Ef við neitum að læra af því mun það falla aftur og aftur.

Allt fram að hruni fjármálakerfis heimsins haustið 2008 var almenningi talin trú um að allt væri í blóma. Bankarnir skiluðu miklum hagnaði, skatttekjur hins opinbera voru gríðarlegar og vaxandi, og neyslulán fengust án nokkurra veða eða ábyrgða. Hækkandi fasteigna- og hrávöruverð voru talin afleiðing bjartsýni, uppgangs, aukinnar eftirspurnar og jafnvel græðgi. Félagsmálaráðherra þá, sem í dag er forsætisráðherra, hvatti fólk til að fjárfesta í húsnæði á hámarkslánum allt fram að hruni. Allt þetta var blástimplað af eftirlitsstofnunum ríkisins, „óháðum" matsstofnunum, og vitaskuld eftirlætisálitsgjöfum fjölmiðlamanna. Viðvaranir voru fáar, og á þær blásið.

Síðan er liðinn nokkur tími. Skýrslur, rannsóknir, fréttaskýringar, heimildamyndir og ógrynni blaðagreina hafa fjallað um hrunið, ástæður og aðdraganda þess. Því miður ramba fáir á réttar skýringar. Hið eina sem upp úr stendur er að ríkisvaldið, sem blástimplaði gamla kerfið, hrifsar til sín enn meiri völd. Rétt skýring, í stuttu máli, er sú að hið opinbera kom á fót peningaprentun einkaaðila, sem gátu þar með hlaðið skuldum á skuldir ofar, hirt af þeim hagnaðinn og látið aðra um að greiða tapið. En því miður hafa fáir bent á þetta

Ekki batnar ástandið þegar rætt er um leiðir út úr kreppunni. Talið er að ríkið geti skuldsett hagkerfið út úr henni með erlendum lánum, opinberum framkvæmdum og þjóðnýtingu gjaldþrota fyrirtækja, þ.m.t. bankanna, svo ekki komi til margra og stórra gjaldþrota. Jón Daníelsson, prófessor í fjármálum við London School of Economics, sagði t.d. í Silfri Egils á RÚV að vestræn ríki hefðu brugðist „hárrétt" við hruninu haustið 2008 með „stórauknu framboði á lausafé" og með því að koma í veg fyrir gjaldþrot helstu banka. Bætti hann því við að „afskiptaleysi" hins opinbera og peningamálayfirvalda hefði valdið Kreppunni miklu. Nú væri annað uppi á teningnum, og því væri niðursveiflan brátt að baki.

Við þetta er margt að athuga. Með því að stöðva úthreinsun á gjaldþrota fyrirtækjum og niðurfellingu á skuldum þeirra er hruninu breytt í kreppu. Í stað snöggrar tiltektar er boðuð langvarandi björgunaraðgerð. Skuldsetning og neysla fær ekki að dragast saman og verða að sparnaði og verðmætasköpun. Jón Daníelsson og fleiri af hans „skóla" hagfræðinnar hafa gert aðgerðaleysi hins opinbera að blóraböggli Kreppunnar miklu. Þá kenningu má hrekja og sýna fram á að hið gagnstæða er rétt.

Um aldamótin sprakk hin svokallaða „dot com" bóla á hlutabréfamarkaði og henni fylgt eftir með stóraukinni innspýtingu nýrra peninga í hagkerfið. Bólan sem þá varð til á fasteigna- og hlutabréfamarkaði sprakk haustið 2008, og henni hefur einnig verið mætt með stóraukinni peningaprentun. Hvernig getur það endað með öðrum hætti en nýrri bólu sem springur með enn stærri hvelli? Hvenær lærist okkur að Keynes hafði rangt fyrir sér og að meðöl hans voru lítið annað en aukinn skammtur af fíkniefnum fyrir fíkil að jafna sig á seinustu vímu? Keynes er dauður og kominn í gröfina, og kenningar hans eiga að fara sömu leið.  

Grein eftir mig úr Morgunblaðinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þessi greining þín Geir er 100% rétt. Almenningur um allan heim er að vakna upp við þá martröð sem hin torgreinda peningastefna Keynes (discretionary monetray policy) hefur leitt yfir almenning um allan heim. Það verður líka almenningur sem kemur til með að hindra Sossana í að halda áfram “pilsfalda-kapitalismanum” sem einnig gengur undir nafninu “Norræn velferðarstefna”.

 

Þeir sem aðhyllast sjálfstæði einstaklinga og takmarkað ríkisvald munu rísa upp gegn kommúnismanum sem alls staðar stingur nefinu upp úr mykjuhaugnum. Þótt margir bankamenn hafi farið offari og framið lagabrot, þá er orsaka þess óheillvænlega ástands sem ríkir um allan heim að leita í leikreglum efnahagskerfisins. Keynes mun verða dæmdur aðalhöfundur þeirra hrikalegu hamfara sem blasa við heimsbyggðinni, ef ekki er spyrnt við fótum.

 

Geir, ég tek undir herhvöt þína: Keynes er dauður – jörðum hann !

 

 

Loftur Altice Þorsteinsson, 17.5.2010 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband