Hagfræðin til hjálpar

1. maí er dagur slagorða og heimtinga. Krafist er "hærri launa", "hækkun lágmarkslauna", "betri kjara" og fleira í þeim dúr. Verkalýðsfélög vita nákvæmlega hvað þau vilja. Þau vita hins vegar minna um hvernig á að koma til móts við óskir þeirra.

Verkamaður á Íslandi þénar margfalt á við verkamann í t.d. Afríku eða Kína. Af hverju ætli það sé? Verkamaður sem býr til bursta á Íslandi er með margföld laun kínverska verkamannsins sem býr til samskonar bursta eða svipaða. Hvernig stendur á því? Verkamaður í fiskverkun á Íslandi þénar margfalt á við verkamann í fiskverkun í Víetnam. Hvernig stendur á því? Hvað útskýrir hinn mikla mun á launum verkamanna um víða veröld?

Munurinn liggur í þeim tækjum og tólum sem verkamenn hafa til afnota. Vegna sjálfvirkni og tækni þá getur verkamaður á Íslandi skapað margföld verðmæti miðað við verkamanninn sem vinnur við frumstæðari aðstæður. En sjálfvirkni og tækni er ekki ókeypis. Hana þarf að fjármagna, og þar kemur fjárfestirinn til sögunnar - sá sem hefur safnað fé eða tengt saman sparnað margra einstaklinga og fyrirtækja til að leggja fé til fjárfestingar í tækni. Það er því fjárfestirinn sem tryggir bætt kjör verkamannsins, með því að veita aðgang að tækni sem eykur verðmætasköpun verkamannsins.

En hvar finnast fjárfestar? Þeir finnast þar sem eignarétturinn er varinn, og stjórnvöld leyfa auðsöfnun og sparnað. Þeir finnast þar sem kapítalisminn er ekki álitinn óvinur verkamannsins, heldur vinur. 

Slagorð verkalýðsfélaganna, "bætt kjör hinna lægst launuðu", gæti því umorðast á eftirfarandi hátt á tungutaki hagfræðinnar: "Fleiri kapítalista - meiri verðmætasköpun verkamanna!"


mbl.is Hækkun lágmarkslauna í forgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband