Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 19. júlí 2024
Óupplýsingaröld og samsæriskenningar
Í lipurlega skrifaðri grein í Morgunblaðinu skrifar höfundur meðal annars:
Sjálfstæð hugsun krefst orðaforða og hugtakaskilnings sem gerir manni kleift að gagnrýna hlutina; að innbyrða upplýsingar án þess að gleypa þær sem heilagan sannleik. Án slíkrar greindar er samansafn einstaklinga ekki samfélag heldur heilalaus hjörð. Með því að brúa ekki bilið milli ungmenna og tungumálsins erum við að framleiða óvirka borgara sem í ólæsi sínu standa máttlausir gagnvart upplýsingaflæði nútímans.
Þetta tek ég undir. Þess vegna er áhyggjuefni að íslenskir grunnskólar eru hættir að kenna krökkum að lesa sér til gagns.
Í kjölfarið skrifar höfundur:
Á tímum sítengingar streyma upplýsingar að okkur úr öllum áttum og setjast að án okkar vitundar. Leiðandi tildrög þess að fólk greini ekki á milli frétta og falsfrétta og aðhyllist samsæriskenningar er lágt menntastig og því ólæsari sem samfélög verða á sannleiksgildi upplýsinga því hraðar afkynjast lýðræðisríki í varhugaverðara stjórnarfar.
Þessu á ég aðeins erfiðara með að kyngja, og sérstaklega orðalaginu lágt menntastig. Eru það ekki háskólamenntuðu blaðamennirnir, stjórnmálamennirnir, prófessorarnir og fólkið með stóru titlana hjá hinu opinbera og jafnvel víðar sem hraðast kyngja samsæriskenningum og boða eins og hinn heilaga sannleika?
Er það ekki fólkið með gráðurnar og peningana sem spýr úr sér óþoli á niðurstöðum kosninga ef þær eru ekki eftir uppskriftinni?
Er það ekki millistéttin, með sína menntun og stöðu í samfélaginu, sem hleypur fremst í raðirnar þegar lyfjafyrirtækin segjast hafa lausn allra vandamála?
Að kenna fólki með lágt menntastig um rotnun lýðræðisins er stór stimpill. Á meðan ég er sammála því að ónýtt menntakerfi sé slæmt fyrir samfélagið og lýðræðið þá sé ég ekkert nema jákvætt við að efast um upplýsingaóreiðu yfirvalda, háskóla og lyfjafyrirtækja, svo eitthvað sé nefnt. Fólk með lágt menntastig er kannski fyrsta varnarlínan sem ætti að taka meira mark á ef eitthvað er. Læsir, vonandi, en án gráðunnar. Hugsandi, frekar en að forðast óánægju yfirvalda. Forvitnir, en ekki að gleypa allt sem þeim er sagt.
Það mætti jafnvel snúa dæminu alveg við. Margir með háskólagráður í dag eru með gagnslausar gráður sem benda beint á atvinnuleysisskrá. Hið opinbera bregst við með því að setja í lög allskyns kvaðir og kröfur sem kalla á notkun gagnslauss vinnuafls með gagnslausar gráður. Þetta fólk er háð hinu opinbera að öllu leyti, trúir öllu sem því er sagt og kýs eftir uppskrift.
Og er um leið fólkið sem við eigum að taka mark á.
Ég hika, og hika lengi. Megi þeir sem kyngja hægast fá sem mesta áheyrn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Miðvikudagur, 17. júlí 2024
Um pólitísk áhrif þess að gefa stefnuljós
Stefnuljós eru á öllum bílum og lög og reglur kveða svo á um að þau eigi að virka. Fyrir því eru margar góðar ástæður. Stefnuljós og önnur stefnumerki eins og handabendingar hjólreiðamanna stuðla að bættu flæði og auknu öryggi. Þau senda skilaboð til annarra sem vita þá hvort þeir eigi að hægja á sér, geti beygt eða megi reikna með því að geta haldið áfram á sama hraða. Stefnuljós og -merki segja: Ég ætla mér að breyta frá núverandi stefnu minni, eða ekki, og þú getur aðlagað þína vegferð að þeim upplýsingum.
Á sama hátt og stefnuljós og -merki veita upplýsingar þá er það að beygja án þess að gefa stefnuljós líka ákveðin upplýsingagjöf. Rangupplýsingar á tungutaki nútímans, og ígildi þess að segja: Þú þarft að bíða eftir því að sjá hvað ég geri áður en þú veist hvað þú getur gert. Þannig upplýsingar halda öðrum í gíslingu. Þeir þurfa að bíða aðeins lengur til að sjá hvað þú gerir frekar en að sjá áætlanir þínar og geta brugðist við þeim.
Í íslenskri umferð er mjög ríkt að gefa ekki stefnuljós, jafnvel ekki í þéttri umferð. Bílar hægja fyrirvaralaust á sér til að beygja. Þeir skipta um akreinar af miklum ákafa, án upplýsingagjafar til umhverfisins. Þeir sem ætla sér yfir gatnamót við hringtorg þurfa að bíða eftir því að hringtorgið tæmist til að vera vissir um að geta komist yfir enda engin merki gefin um hvort bílar ætli út eða að halda áfram. Hjólreiðamaður á Íslandi gefur aldrei stefnumerki. Umferðin er stefnumerkjalaus, nánast með öllu.
Það er í þessu samhengi að val íslenskra kjósenda, sem um leið eru ökumennirnir sem sleppa stefnuljósunum, verður skiljanlegt.
Það er enginn að leita að áætlunum til lengri tíma, eða einhverri stefnu annarri en hentistefnu. Stjórnmálamenn stinga upp á sköttum og stofnunum í gríð og erg án þess að neinn sjái heildarmyndina eða leiti að henni engin stefnuljós, bara fyrirvaralausar breytingar á akreinum. Stjórnmálamenn lesa skoðanakannanir til að móta stefnu sína. Fyrirtæki vita ekki hvort hið opinbera muni valta yfir hugmyndir þeirra eða hleypa þeim yfir gatnamótin við hringtorgið. Þau þurfa að taka áhættuna því streymi stjórnmálamanna og stofnana stöðvast aldrei. Og þetta er einfaldlega talið eðlilegt.
Þjóð sem gefur ekki stefnuljós þarf ekki stefnumörkun og spáir ekki í flæðinu í umferðinni eða öryggi vegfarenda. Þeir sem voga sér í umferðina og treysta á stefnuljósin eru í stórhættu telja að það gildi skrifuð og óskrifuð lög sem má treysta á til að komast áleiðis en engin slík lög eru að lokum í framkvæmd.
Ég legg til að íslenskir öku- og hjólreiðamenn þrói með sér þann góða, auðvelda og sjálfsagða vana að gefa stefnumerki af öllu tagi í sem víðustu samhengi. Mögulega hefur það þau áhrif að þeir fari að krefjast þess sama af yfirvöldum. Þá geta menn á ný farið yfir gatnamót hagkerfisins og samfélagsins án þess að þurfa bíða eftir sumarleyfi hins opinbera og tómum hringtorgum í kerfinu.
Þessi grein birtist áður í Morgunblaðinu.
Miðvikudagur, 17. júlí 2024
Hrós til starfsmanna Hallgrímskirkju
Palestínskir fánar voru bundnir í turnklukku Hallgrímskirkju og gerðir sýnilegir þeim sem áttu leið hjá. Starfsmaður Hallgrímskirkju segir fánana ekki hafa verið hengda upp í samráði við kirkjuna. Þeir voru fjarlægðir.
Voru viðbrögð starfsmanna Hallgrímskirkju rétt? Já, auðvitað. Þeir eru jú að starfa við kristna, íslenska kirkju. Hún verður ekki skreytt með öðru en kristilegum táknum og íslenska fánanum. Skiljanlega. Eðlilega. Að sjálfsögðu.
En þeir hefðu líka getað guggnað af ótta við pólitískan rétttrúnað. Sagt að þeir vilji ekki raska friðsömum mótmælum gegn mannréttindabrotum. Óttast að minnsta rask á fánum og merkjum háværra mótmælenda muni valda hefndarárásum og eyðileggingu, eins og dæmin sýna.
Þeir guggnuðu ekki. Þeir stóðu fastir á sínu, ólíkt lögreglu sem hefur séð í gegnum fingur sér á fjölda skemmdarverka af hendi sama hóps mótmælenda.
Kannski starfsmenn Hallgrímskirkju eigi að fá umboð til að verja fleiri verðmæti og minnismerki? Þeir virðast taka umboð sitt alvarlega. Þeir þora þegar aðrir bogna.
Hrós til þeirra.
![]() |
Palestínskir fánar hengdir upp í óþökk kirkjunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 16. júlí 2024
Best að enginn fari neitt
Þýska járnbrautakerfið er úr fornöld. Þessu kynntist ég þegar ég þurfti að nýta það undir íslenska öskuskýinu til að komast frá Frakklandi til Danmerkur á sínum tíma. Ég komst, en þetta var óþægilegt ferðalag þótt fyrirtækjakortið hefði borgað fyrir eins þægilegt ferðalag og kostur var á, í fjarveru flugferða.
Þeir sem þurfa og vilja eiga og nota bíl vita að það er að verða sífellt dýrara, bæði tækin og eldsneytið, fyrir utan að bílastæðin í rými hins opinbera eru að gufa upp. Einn daginn er það bensín, þann næsta dísill, þann næsta rafmagn. Ef þú veðjar á rangar lottótölur þá bíða þín svimandi skattar.
Flugferða bíða sömu örlög. Takmarkið er að koma venjulegu fólki úr þeim og á jörðina. Einkaþoturnar halda sínum undanþágum.
Því hefur lengi verið haldið að Evrópubúum að flugferðir séu vondar og lestarferðir góðar. Samt hefur lestarkerfið haldið áfram að lifa í fornöld. Ætlunin var aldrei að fjölga lestarferðum. Ætlunin var að fækka ferðalögum.
Ferðalög almennings eru almennt til ama og óþæginda fyrir yfirvöld. Slíkum ferðalögum hefur jafnvel verið kennt um afleiðingar misheppnaðrar peningastefnu íslenskra yfirvalda (peningaprentun til að borga undir árásir ríkisvaldsins á hagkerfið í nafni veiruvarna).
Fyrir utan að vilja halda fólki innan lands og landshluta bætist svo auðvitað við viljinn til að halda fólki innan hverfa, hinna svokölluðu 15 mínútna hverfa. Ljómandi samantekt um þau, og bæði yfirlýst og óyfirlýst markmið að baki þeim, er að finna hér.
Það er einfaldlega best að enginn, nema útvaldir, fari neitt. Þar á meðal þú, að sjálfsögðu. Og þú ert alveg til í þá vegferð þótt þú vitir ekki endilega af endamörkum hennar, ekki satt?
![]() |
Járnbrautarkerfið í Þýskalandi alþjóðlegur brandari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 15. júlí 2024
Skattgreiðendur og hið opinbera: Andstæðingar
Hvenær kemur að því að það megi með réttu segja að hið opinbera sé orðið að andstæðingi skattgreiðenda?
Stundum er sagt að hið opinbera eigi að þjóna almenningi. Veita, styðja, bæta, tryggja. Að reka þjónustu og velferðarkerfi í skiptum fyrir skattgreiðslurnar.
Svo kemur annað í ljós. Það er til nóg fyrir alla nema skattgreiðendur: Vopn í erlend stríð, peningar fyrir útlendinga gegn því að þeir finni sér ekki vinnu, kynjuð fjárlög og nýjar opinberar stofnanir sem flækja lífið. Listinn er miklu lengri.
Á meðan ekki er til fé til að koma öldruðu fólki í sómasamlega hjúkrun eru til milljarðar til að kaupa sprengjur í fjarlæg átök sem koma Íslandi nákvæmlega ekkert við, bókstaflega.
Hið opinbera er ekki að þjóna fólkinu. Fólkið er að þjóna hinu opinbera. Fólk er að fjármagna dellu sem fæðist í hugum útlendinga sem hata samfélagið. Hata gildi þín og markmið. Hata lífsstíl þinn og venjur.
Í stað þess að hafna þvælunni, því þvæla er það, þá látum við strengjabrúður sem kalla sig stjórnmálamenn, prófessora og blaðamenn mata okkur með hatursumræðunni gegn okkur sjálfum.
Og við samþykkjum, borgum og tileinkum sífellt meira af fé okkar og tíma til að tryggja tortímingu okkar.
Skrýtið, en samt ekki. Margar bækur - yfirleitt skáldsögur - hafa séð þessa þróun fyrir. Við leikum bara okkar hlutverk í því leikriti. Sjálfviljug.
En kannski er kominn tími til að staldra við og hugsa málið.
Kannski þurfum við ekki að hata okkur sjálf. Við getum auðvitað valið að gera það, en gætum mögulega hætt því.
Stjórnmálin eru mögulega ekki leiðin út úr sjálfstortímingu okkar. Kannski þarf meira til.
Fyrsta skrefið er að læra að efast. Að efast um að við, sem höfum aflað okkur sæmilegra lífskjara í náttúru sem vill fyrst og fremst drepa okkur, séum hið stóra vandamál heimsins.
Næsta skref er að hugleiða allt það sem okkur er ekki sagt frekar en að einblína á það sem okkur er sagt. Hvaða álitsgjafi var valinn í viðtal? Hvaða myndskeið var sýnt, og hverju var sleppt?
Þetta krefst vinnu en er þess virði.
Sjálfur lét ég plata mig til að klappa fyrir tortímingu Bandaríkjanna og bandamanna, þar á meðal Íslendinga, á samfélagi Íraks á sínum tíma. Aldrei aftur, vona ég.
![]() |
Kourani áfrýjar dómnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.7.2024 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 13. júlí 2024
Heilbrigði er að vera háður lyfjum
Við lærðum það á veirutímum að til að geta talist heilbrigður er nauðsynlegt að láta sprauta efnum inn í líkama sinn til að tækla veiru sem er fyrir flesta engu verri en hin árlega flensa eða jafnvel kvefpest.
Við lærum að mörg börn þurfi að fá lyf til að geta talist heilbrigð og lifað af staðnað umhverfi skólastofunnar. Þau geta mögulega verið heilbrigð án lyfja á sumrin, þegar þau fá að vera úti að læra á lífið á eigin forsendum, en verða svo veik á haustin og þurfa lyf.
Við lærum að það er ekki hægt að breyta mataræði, umhverfi og venjum til að komast hjá lyfjagjöf. Heilbrigði fæst bara í pilluglasinu. Nema um sé að ræða fæðubótarefni, þau eru gagnslaus, sérstaklega í heimsfaraldri.
Þarf ekki aðeins að spyrna við fótum hérna? Eða eru allir bara hamingjusamir að vera í áskrift hjá fyrirtækjum sem vilja gera okkur veik svo þau geti læknað okkur?
![]() |
Missti sköpunargleðina á geðlyfjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 11. júlí 2024
Ekki í mínum bakgarði (NIMBY)
Aðspurðir segja Íslendingar, og Evrópubúar flestir, að það sé mikilvægt að takmarka og jafnvel stöðva losun á koltvísýring í andrúmsloftið til að breyta veðrinu. Þetta segja þeir um leið og þeir vilja hagkvæma orku, hagkvæmar og nothæfar umbúðir, hagkvæmt eldsneyti, ódýr föt, ódýr ferðalög og matvæli sem fólk hefur efni á að kaupa, og hafa helst svolítið næringargildi.
En hvað þýðir það að játast þeirri kirkju sem boðar útrýmingu eða verulega skerðingu á koltvísýringslosun manna? Þessari kirkju sem flestir segjast tilheyra.
Dauði mannkyns? Kannski, en ekki endilega.
En tvímælalaust að stór flæmi af landi og sjó þurfi að tileinka orkuframleiðslu, svo dæmi sé tekið. Eitt kolaorkuver, sem fyllir nokkra hektara, er ígildi vindmyllugarðs sem fyllir fleiri hundruð hektara.
Það blasir líka við að ekki verður öll losun stöðvuð ef við viljum halda í lífskjör okkar og nothæfa hluti. Við viljum til dæmis nota sement, sem er framleitt með ferlum sem losa mjög mikinn koltvísýring.
Hvað er þá til ráða?
Eitt ráð er að fanga losunina á koltvísýringnum og farga með því að dæla honum ofan í jörðina.
Farga, hvar?
Ýmsar lausnir eru í deiglunni, sumar nýstárlegri en aðrar. Ein er sú að dæla koltvísýring í tómar gas- og olíulindir, eða önnur svæði neðanjarðar sem gætu haldið í koltvísýringinn. CarbFix býður upp á mjög aðlaðandi lausn, að mati iðnaðarins, þar sem koltvísýringurinn breytist fljótlega í grjót. Það útrýmir lekahættu sem er annars mikið rætt um í þessu samhengi.
Allir fylgismenn kolefniskirkjunnar hljóta að styðja þessa vegferð, ekki satt?
Nei, aldeilis ekki.
Kynnum til leiks hugtakið Not in My Backyard, eða NIMBY. Á íslensku: Ekki í mínum bakgarði.
Þar kvarta fylgismenn kolefniskirkjunnar yfir öllum þeim úrræðum sem þarf til að koma á boðskap hennar ef þau eru í bakgarði þeirra. Minnkun á losun? Já, frábært! Með notkun á bakgarði mínum? Nei takk!
Þeir vilja ekki búa við hliðina á vindmyllu eða svæði þar sem koltvísýring er dælt niður í jörðina. En þeir játast samt kolefniskirkjunni.
Út úr þessari holu eru tvær leiðir: Að yfirgefa kolefniskirkjuna eða sætta sig við að kirkjan þarf á bakgarði þínum að halda. Hún þarf mikið af plássi, bæði ofan- og neðanjarðar. Hún þarf stór flæmi lands fyrir stór mannvirki.
NIMBY er vel þekkt hugtak í áhættugreiningu á verkefnum. Á Íslandi hefur lítið farið fyrir því enda fer orkuöflunin aðallega fram úti á landi, fjarri mannabyggðum. En kolefniskirkjan þarf bakgarð þinn. Hvað viltu gera í því?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 9. júlí 2024
Kannski er það líknameðferð
Eins og blaðamaðurinn Alex Berenson greindi fyrstur frá (ekki New York Times, sem stal einfaldlega fréttinni án þess að vísa í heimildir) þá hefur læknir sem sérhæfir sig í Parkinsons-sjúkdómum heimsótt Hvíta húsið nokkrum sinnum seinustu misseri. Það kemur ekki á óvart. Lygar talsmanna Hvíta hússins breyta þar engu. Nema Hvíta húsið sé ekki að ljúga. Þá er Biden í líknameðferð. Það þarf að losna við hann að mati þeirra sem óska Demókrataflokknum velgengni.
En það eru ekki lygar Hvíta hússins í nákvæmlega þessu máli sem eru áhugaverðar, heldur að Hvíta húsið haldi áfram að halda úti lygi sem allir sjá svo augljóslega í gegnum. Þetta er mögulega nýtt. Á veirutímum var a.m.k. reynt að gefa lygunum einhvern trúverðugleika - einhverjir rykfallnir prófessorar og menn í læknasloppum dregnir fram til að segja ákveðna hluti. Núna er eins og yfirvöldum sé skítsama um slíkan trúverðugleika - að það sé ennþá nóg að segja eitthvað úr ræðupúlti Hvíta hússins til að allir trúi.
Það eru sem betur fer breyttir tímar. Traustið er á undanhaldi. Þetta hefur margar afleiðingar. Við hættum að trúa á hlýnun Jarðar af mannavöldum. Við hættum að trúa á ágæti þess að flokka í fimm ruslafötur. Við viljum áfram að landbúnaður sé stundaður. Við látum ekki bjóða okkur pöddur í matinn. Við hættum að styðja við þau stríð sem falla að utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Þetta tekur tíma en dropinn holar steininn, og holan fer ört stækkandi.
![]() |
Snörp orðaskipti: Biden ekki í parkinsonsmeðferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 8. júlí 2024
Kosningasvindl undirbúið
Kosningar til forseta Bandaríkjanna nálgast óðfluga. Þar munu takast á Trump fyrir hönd Repúblikana og fyrir Demókrata einhver sem tekur við af Biden þegar er búið að ýta honum til hliðar.
Undanfarnar margar kosningar hefur aðilinn sem tapar ásakað aðilann sem vinnur um kosningasvindl. Þegar Trump var fyrst kjörinn forseti áttu Rússar á einhvern undraverðan hátt að hafa staðið þar að baki. Þegar Biden var kjörinn var töluvert rætt um atkvæði sem bárust í pósti á seinustu stundu og mjög yfirgnæfandi á einn veg. Víða eru notaðar sérstakar kosningavélar sem er auðvelt að eiga við. Og svo er víða hægt að kjósa í Bandaríkjunum án þess að sýna svo mikið sem skilríki, hvað þá skilríki með mynd, sem býður upp á ýmsa möguleika.
Núna, og í auknum mæli, verður farið að undirbúa okkur til að samþykkja niðurstöður kosninganna án þess að spá mikið í kosningasvindli. Svolítil grein á Deutsche Welle er dæmi um slíkan undirbúning. Þar er farið yfir allar ásakanirnar og þær hraktar, þannig séð. Ekki mjög sannfærandi samt. Til dæmis er okkur sagt að í ríkjum sem krefjast engra skilríkja frá kjósendum séu mjög hörð viðurlög við því að villa á sér heimildir, og þetta kort sýnt.
Ljósbláu svæðin sýna ríki í Bandaríkjunum þar sem menn geta sem sagt labbað á kjörstað, sagt nafn og kannski einhvers konar kennitölu, fengið kjörseðil og kosið. Að þurfa sýna skilríki (jafnvel eitthvað með engri mynd) er talið óþarfi. Það eru jú ströng viðurlög!
En auðvitað er allt svona tal, nema ásakanir um að Rússar hafi aðstoðað Trump, bara bull og þvæla. Þessi boðskapur mun sennilega heyrast oftar og víðar eftir því sem nær dregur. Ef valdastéttinni, sem ræður í raun á bak við tjöldin, tekst að koma sínum manni í stór forseta þá má ekki efast um slíkt í augnablik. Meira spennandi verður að sjá hvað verður sagt ef Trump tekst að sigra, eins og allt stefnir í.
Verður það þá Kínverjum að kenna?
Sunnudagur, 7. júlí 2024
Bákn? Nei, völundarhús
Innan hins opinbera eru margar stoppistöðvar fyrir þá sem þurfa á þjónustu eða áliti þess að halda. Þar er að finna ráðuneyti, eftirlitsstofnanir, nefndir, stofur, stofnanir og skrár af ýmsu tagi. Þetta veldur of vandræðum því ofan á flækjustigið kemur ákvarðanafælni og málum oft vísað hingað og þangað. Ég veit ekki hversu oft ég hef lesið lýsingar eins og þessa, en of oft:
Málinu hafi verið kastað milli ráðuneyta innviðamála, umhverfismála og matvæla, auk þess sem forsætisráðuneytið hefði einnig haft það á sínu borði.
Kostnaðinn bera auðvitað einstaklingar og fyrirtæki.
Stjórnmálamenn gera ekkert í þessu. Þeir þora ekki að rísa upp gegn bákninu og vilja jafnvel ekki gera það. Séu stofnanirnar og embættin nógu andskoti mörg eru meiri líkur á að útbrenndur stjórnmálamaður geti krækt sér í eitthvað tilgangslaust starf á góðum launum þegar kjósendur eru búnir að hrækja honum út. Þau eru fleiri embættin en embætti sendiherra til að koma hlýðnum flokkshundi fyrir við trog í boði skattgreiðenda.
Ekki eru kjósendur að vakna upp við vondan draum ef marka má skoðanakannanir, en kannski er þeim líka vorkunn í því að fáir stjórnmálamenn þora að taka málstað almennings og fyrirtækja í baráttu þeirra við báknið, eða völundarhúsið réttara sagt.
Hið opinbera fyrir fólkið? Nei, fólkið fyrir hið opinbera.