Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bákn? Nei, völundarhús

Innan hins opinbera eru margar stoppistöðvar fyrir þá sem þurfa á þjónustu eða áliti þess að halda. Þar er að finna ráðuneyti, eftirlitsstofnanir, nefndir, stofur, stofnanir og skrár af ýmsu tagi. Þetta veldur of vandræðum því ofan á flækjustigið kemur ákvarðanafælni og málum oft vísað hingað og þangað. Ég veit ekki hversu oft ég hef lesið lýsingar eins og þessa, en of oft:

Málinu hafi verið kastað milli ráðuneyta innviðamála, umhverfismála og matvæla, auk þess sem forsætisráðuneytið hefði einnig haft það á sínu borði.

Kostnaðinn bera auðvitað einstaklingar og fyrirtæki.

Stjórnmálamenn gera ekkert í þessu. Þeir þora ekki að rísa upp gegn bákninu og vilja jafnvel ekki gera það. Séu stofnanirnar og embættin nógu andskoti mörg eru meiri líkur á að útbrenndur stjórnmálamaður geti krækt sér í eitthvað tilgangslaust starf á góðum launum þegar kjósendur eru búnir að hrækja honum út. Þau eru fleiri embættin en embætti sendiherra til að koma hlýðnum flokkshundi fyrir við trog í boði skattgreiðenda. 

Ekki eru kjósendur að vakna upp við vondan draum ef marka má skoðanakannanir, en kannski er þeim líka vorkunn í því að fáir stjórnmálamenn þora að taka málstað almennings og fyrirtækja í baráttu þeirra við báknið, eða völundarhúsið réttara sagt. 

Hið opinbera fyrir fólkið? Nei, fólkið fyrir hið opinbera.


Vestrænir blaðamenn í fjáröflun fyrir Trump?

Af hverju eru vestrænir blaðamenn að vinna launalaust við að fylla á kosningasjóði Donald Trump, fráfarandi forseta Bandaríkjanna og frambjóðanda til embættisins?

Er einhver með gott svar við því?

Mér dettur ekkert í hug.

Staðreyndin er samt sú að þeir eru í slíkri vinnu. Þeir eru að láta nafn hans birtast í óteljandi fyrirsögnum. Þeir eru að birta myndbönd af honum að segja það sem sífellt fleiri eru að hugsa - láta hann líta út fyrir að vera mann fólksins.

Ég skil vel að sífellt færri vestrænir blaðamann geti hugsað sér að Biden haldi áfram að vera strengjabrúðu í Hvíta húsinu. En að óbeint spyrða sig saman við Donald Trump? Ég hélt að enginn þeirra þyrði því.

Margt er skrýtið í kýrhausnum.


mbl.is Segir Biden vera gamla niðurbrotna skítahrúgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hási forsetinn

Framundan eru forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þar er í bili í framboði núverandi forseti sem er líklega með Parkinson-sjúkdóminn á háu stigi og hefur ekki ráðið neinu síðan hann var kjörinn í embættið. Núna er hafin einhver áætlun um að losna við hann án þess að þurfa eiga við forval innan flokks hans. Þess í stað verður handvalinn einhver gæðingurinn og honum rúllað inn.

Það er af þessari ástæðu að blásið var til kappræðna í júní frekar en í haust. Vitað var að Biden myndi klúðra þeim og með samstilltu ákalli fjölmiðla, í bland við einhverja áframhaldandi en sífellt minnkandi afneitun á ástandi hans, koma honum frá á einn hátt eða annan nógu seint til að flokksmenn geti ekki komið að tilnefningu staðgengils, en ekki of seint til að staðgengillinn nái nú að kynna sig fyrir kjósendum.

Eða svona hljómar ein samsæriskenningin sem mér finnst vera sannfærandi.

Sé hún rétt þá erum við með öðrum orðum stödd í miðju leikriti, vel skipulögðu, og fóðruð með molum sem eiga að leiða okkur að réttri niðurstöðu: Biden þarf að fara og í staðinn að koma einhver skelfing eins og ríkisstjóri Kaliforníu eða hver það nú er sem flokkseigendavélin er búin að velja. 

Líklega hefur örvæntingin farið af stað í baklandi Biden þegar kom í ljós að sakfelling á Trump fyrir tæknilega gallaðar bókhaldsfærslur hafði öfug tilætluð áhrif: Fylgi Trump hefur haldist hátt og kosningasjóðir hans eru orðnir stærri en hjá Biden. Væri Biden að mælast hár í könnunum væri auðvitað engin ástæða til að skipta honum út sem strengjabrúðu.

Sú samsæriskenning að yfirvöld og valdamenn stundi ekki samsæri er röng. Í gangi er samsæri um að skipta Biden út á þann hátt að þeir sem í raun fara með völdin haldi áfram að fara með völdin. 

Stundum eru leikrit svo vel hönnuð að áhorfendur bókstaflega lifa sig inn í söguþráðinn. Það virðist vera raunin núna. Eða hvenær ætla íslenskir fjölmiðlar að segja það sem allir vita frekar en að tala um hása forsetann?


mbl.is Viðurkennir að fjarað geti undan framboðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægristefnan

Hægristefnan, hvað er það?

Er það stuðningur við að það sé ekki lengur hægt að skilgreina hvað sé kona? 

Er það stuðningur við að ungmenni, sem mega ekki fá sér húðflúr og yfirdrátt, gifta sig og kaupa bjór, séu send í sjálfsmorðshugleiðingar af því þau fá ekki að sneiða af sér kynfærin af því það er búið að telja þeim í trú um að þau séu í röngum líkama?

Er það stuðningur við strengjabrúðustríð Bandaríkjanna við Rússland og fleiri ríki?

Er það stuðningur við að borgaralegt frelsi sé tekið úr sambandi til að berjast við kvefpest? Og þrýsta fólki í lyfjagjöf til að það geti kallað sig heilbrigt?

Er það stuðningur við orkuskort?

Er það stuðningur við tugmilljarða útgjöld til að halda uppi útlendingum og jafnvel að bjóða þeim betra velferðarkerfi en innfæddum?

Er það stuðningur við að hið opinbera blóðmjólki fyrirtæki í sinni eigu um arðgreiðslur til að borga af yfirdrættinum á meðan viðskiptavinir sömu fyrirtækja, sárþjáðir skattgreiðendur, sjá stighækkandi reikninga og jafnvel skerðingu á þjónustu á sama tíma?

Er það stuðningur við stjórnlausa útþenslu opinberrar stjórnsýslu?

Er það stuðningur við yfirgengilega íþyngjandi regluverk, sem er kallað evrópskt og innflutt en er í raun íslenskt og heimatilbúið?

Naflaskoðun Sjálfstæðismanna er bundin við útlendingamálin að því er virðist, sem Samfylkingin hefur svo snyrtilega stolið af þeim.

Það þarf meira til.

Það þarf að gera Sigmund Davíð Gunnlaugsson að forsætisráðherra Íslands á ný til að takast á við skrímslin sem aðrir leggja ekki í, rétt eins og hann gerði eftir að hafa tekið við brunarústum þaraseinustu vinstristjórnar (sú sem nú situr er önnur slík). 

Eða sér það einhver öðruvísi? Af hverju?


Gamalt vín í nýjum belgjum

Um daginn skrifaði ég grein á vefritið Krossgötur um svokallað nýmál (newspeak) hins opinbera. Nýmál er breyting á tungumálinu til að hafa áhrif, vekja hughrif eða jafnvel ná stjórn á hugsunum fólks. Við sjáum í sífellu ný dæmi um slíkt mál. Stríð er friður, lyfjagjöf er heilsa, ritskoðun er fræðsla. 

Úr grein minni:

Okkur er sagt að hið opinbera hafi nú keypt „kynjuð skuldabréf“ eða „sjálfbær skuldabréf“ sem eru bara aðrar leiðir til að segja að ríkisvaldið sé að steypa sér í frekari skuldir, en í meiri mæli að eyrnamerkja þær ákveðinni eyðslu. Þessu má líkja við að á heimili sé sótt um nýtt kreditkort fyrir hverja sólarlandaferð, „sólræn skuldabréf“ á tungutaki hins opinbera.

Blaðamenn taka yfirleitt fullan þátt í svona orðaleikjum og virðast vera ánægðir með hlutskipti sitt sem illa launaðir fjölmiðlafulltrúar. Háskólasamfélagið er himinlifandi enda er því oft falið að smíða orð til að réttlæta ritskoðun, skautun og nýjustu delluna. 

Við hin verðum bara að vera á varðbergi og reyna kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Grænt skuldabréf er nýr yfirdráttur. Sjálfbært skuldabréf er nýtt kreditkort. Sóttvarnaraðgerðir eru smækkuð útgáfa af fasisma. Baráttan gegn mein- og misupplýsingum er ritskoðun. Yfirvöld eru valdhafi, ekki þjónn almennings.


mbl.is Hvernig getur skuldabréf verið kynjað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna hæsis!

Í nótt fóru fram kappræður milli fráfarandi forseta og núverandi forsetaframbjóðanda, Trump, og núverandi forseta, Biden.

Kappræðurnar voru svo mikil skelfing fyrir Biden að allt hans stuðningslið er að míga í brækurnar og jafnvel að þrýsta á að Biden verði látinn víkja fyrir öðrum. Biden stamaði, fraus, muldraði og ruglaðist á milljón og billjón, svo eitthvað sé nefnt. Maðurinn er jú búinn á því í hausnum, sem er sorglegt en satt.

Mætir þá RÚV til leiks:

... átti Biden oft erfitt með að gera sig skiljanlegan vegna hæsis.

Vegna hæsis!

Ég skil vel að menn vilji reyna að verja sinn mann. Sumir gera það með því að benda á rangar fullyrðingar Trump og reyna þannig að draga athyglina frá hinu raunverulegu vandamáli (því að Bandaríkjaforseti er andlega úr leik). En RÚV skýtur vel yfir markið. Hæsi kom því ekkert við að Biden var óskiljanlegur. Rödd hans var í alveg sæmilegu lagi.

En þetta fá íslenskir skattgreiðendur að borga fyrir: Hreinar og klárar lygar, vafðar inn í áróður.


Evrópska veikin

Ég les í tölvupósti sem ég bað ekki um en las engu að síður:

At the start of the 21st century, 41 of the world’s 100 most valuable companies were based in Europe. Today that number has dropped to 19, with Novo Nordisk the only European firm represented in the top 20.

Og spurningu er beint að mér: Hvernig stendur á þessu? Hvernig getur Evrópa aftur orðið að heimavelli stórra og sterkra fyrirtækja?

Lifa menn í svona algjörri afneitun? Svarið er augljóst. Menn þurfa einfaldlega að hætta að grýta höfnina sína og þá geta skipin áfram lagt að bryggju. 


Til hvers?

Senn líður að forsetakosningum í Bandaríkjunum. Í boði er óheflaður dóni og elliært gamalmenni. Menn geta haft þær skoðanir sem þeir vilja á pólitík þeirra en þetta er valið þegar kemur að persónum. 

Á meðan vestrænir blaðamenn átta sig á því að Trump er óheflaður dóni, og segja frá því við hvert tækifæri, þá reyna þeir eins og þeir geta að slá ryki í augu okkar þegar kemur að elliæra gamalmenninu sem er núna í páfagaukaþjálfun og verður svo sannarlega á örvandi efnum í komandi kappræðum. Til hvers? Af hverju að leggja á sig langar krókaleiðir til að afneita því að Biden eigi að vera á hjúkrunarheimili, ekki í Hvíta húsinu? 

Hvað rekur vestrænan blaðamann að lyklaborðinu til að gera það?

Ekki eru það launin, svo mikið er víst.

Sennilega bölvar vestræni blaðamaðurinn bandarískum kjósendum fyrir að ætla sér að kjósa óheflaðan dóna en ekki elliært gamalmenni. Þetta lýðræði er ekki alltaf gott, er það?

Mikið væri hressandi að fá góða greiningu af viðhorfum bandarísks almennings til núverandi forseta, sem er eins fjarri því að vera við stjórnvölinn og hægt er að hugsa sér og allir sjá það, og þess fráfarandi sem á það afrek á afreksskránni að hafa ekki stofnað til nýrra stríðsátaka - fyrsta Bandaríkjaforsetanum til að takast slíkt í áratugi.

En bjartsýni mín er hófleg. 

Þess í stað fáum við að lesa langa frétt sem segir allt nema það sem blasir við: Komandi kappræður verða sviðsettar að eins miklu leyti og hægt er, og munu þar mætast einn sem er málglaður og annar sem er páfagaukur.


mbl.is Biden æfir sig í flugskýli fyrir kappræðurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð sem miðill, orð sem blekking

Í dag birtist eftir mig grein á vefritinu Krossgötum með sömu fyrirsögn og þessi færsla: Orð sem miðill, orð sem blekking.

Mér finnst boðskapurinn þar mikilvægur. Við búum ekki í harðstjórnarríki sem myrðir fólk og dæmir í fangelsi án dóms og laga (hins opinbera), enda myndi það (vonandi) vekja upp neikvæðar tilfinningar í hugum okkar og sumum gæti jafnvel dottið í hug að andmæla.

Nei, þess í stað er okkur stjórnað með orðum og nýjum skilgreiningum á þeim. Það er til dæmis erfitt að henda tölu á orðsmíðar sem þýða í raun að ritskoðun sé alveg frábær, án þess að segja það beint. 

Ég vil hvetja alla til að passa sig á þessum leik yfirvalda og strengjabrúða þeirra meðal háskóla, fyrirtækja og blaðamanna. Allir þessir fjölmiðlafulltrúar hins opinbera eru um leið á launaskrá þess í síauknum mæli.

Í dag er okkur til dæmis sagt að stríð sé friður, og að sprautur séu heilbrigði.

Veirutímar voru hræðilegir fyrir samfélag og hagkerfi manna en afhjúpuðu um leið vopnabúr yfirvalda til að ná á þér fullum tökum. 

Vaknaðir þú við það?


Blórabögglarnir

Ímyndum okkur veitingastað hvers eigandi ákveður af hjartagæsku sinni að bjóði upp á niðurgreiddar barnamáltíðir. Þetta gæti eigandinn gert af mannúðarástæðum - börn þurfa að borða - en einnig viðskiptaástæðum - foreldrar koma með börn sín og borga fullt verð fyrir sjálfa sig sem borgar upp niðurgreiddu barnamáltíðirnar. 

Á þessum afslætti fyrir barnamáltíðir eru engin sérstök takmörk og skyndilega fer fullorðið fólk að panta þær. Fullorðinn maður pantar jafnvel tvær barnamáltíðir til að verða mettur. Starfsmenn staðarins benda eigandanum á hvað er að gerast en hann heldur fast í afsláttinn og innleiðir engin sérstök takmörk. Hann var jú búinn að lofa einhverju! Hann er skuldbundinn!

Fyrr en varir sjást engin börn á staðnum, allir panta barnamáltíðir og veitingastaðurinn fer að tapa stórfé og fer á endanum í gjaldþrot.

Nú gæti einhver sagt að þessi eigandi hafi ekki verið starfi sínu vaxinn. Hann hefði átt að takmarka aðgengi að barnamáltíðunum við eitthvað sjálfbært: Bjóða börnum upp á lægra verð en loka á misnotkun fullorðinna.

Einhver annar segir hins vegar sagt að þetta fullorðna fólk ætti að vita betur og vera ekki að misnota sér svona gott boð.

Persónulega finnst mér bæði vera rétt: Eigandinn bjó til ómótstæðilega freistingu og fólk freistaðist.

Er ekki vandamál hælisleitenda á Íslandi og mun víðar af nákvæmlega sama tagi?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband