Hvað með að einfalda regluverkið í staðinn?

Íslensku bankarnir eiga mikið fé og þetta hefur nú runnið upp fyrir stjórnmálamönnum. Þeir vilja krækja í þetta fé og eyða í kosningaloforð.

Sé það svo að íslenskir bankar eiga meira fé en sambærileg fyrirtæki í sambærilegum hagkerfum er hagfræðin með auðskiljanlega útskýringu: Það er erfitt eða ómögulegt að stofna til samkeppni við bankana.

Því hvað gerist þegar það blasir við að Jói skósali græðir meira en aðrir? Jú, fleiri skósalar opna! Hvað gerist ef einhver græðir fúlgur á sölu tannbursta? Fleiri byrja að selja tannbursta!

En bankarnir græða og græða og nýir bankar eru hvergi sjáanlegir. Hvernig stendur á því?

Bankar víða um heim hafa komið sér mjög þægilega fyrir innan hins hlýja faðms ríkisvaldsins. Bankarnir stinga upp á reglum fyrir eigin starfsemi sem ríkið tekur upp. Reglurnar eiga að nafninu til að tryggja stönduga banka sem falla ekki og fara vel með fé annarra. Raunin er auðvitað önnur í mörgum tilvikum. Niðurstaðan er svo, fyrirsjáanlega, að það er erfitt og allt að því ómögulegt að stofna til samkeppni við bankana sem fyrir eru.

Á Íslandi virðist regluverkið vera óvenjulega strangt. Í Danmörku er til að mynda að finna ógrynnin öll af agnarsmáum bönkum sem stóðust fjármálakreppuna árið 2008 með glæsibrag á meðan sá stærsti þeirra, Danske Bank, þurfti ítrekaða aðstoð yfirvalda (sem að nafninu til stóð öllum bönkum til boða en allir vissu í raun að var ætluð einum banka). Margir bankar sáu líka í gegnum grímu yfirvalda - sem bjóða jú aldrei neitt nema fá eitthvað í staðinn - og sögðu nei takk við opinberri aðstoð

Svo já, fyrst kvarta menn yfir vaxtaokri á Íslandi, svo kvarta menn yfir því að bankarnir séu of veikir og eigi á hættu að lenda á skattgreiðendum, og svo á bara að blóðmjólka þá ofan í ríkishirslurnar, á kostnað viðskiptavinanna auðvitað. 

Er ekki hreinlegra að leyfa bara samkeppni í staðinn með því að einfalda regluverkið og jafnvel afnema að mestu leyti? Og auðvitað leggja niður Seðlabanka Íslands. 


mbl.is 240 milljarða arðgreiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðirnir til bjargar! En á kostnað hvers?

Það vantar ekki hugmyndirnar til að koma fjármagni lífeyrissjóðanna í umferð.

Þeir eiga að fjármagna innviði. Þeir eiga að fjárfesta í hlutabréfum fyrirtækja. Þeir eiga að fjármagna skuldir hins opinbera - bæði ríkis og sveitarfélaga. Nú er lagt til að þeir fjármagni nýsköpun sem er vægast sagt áhættusamur rekstur.

Afsakið orðalagið en þetta er fáránlegt tal.

Það væri annað ef menn gætu hreinlega tekið út fé sitt í lífeyrissjóðunum og notað t.d. til að greiða niður skuldir eða fjárfesta eftir eigin höfði. Það er ekki hægt. Þetta er bundið fé frá sjónarhóli þeirra sem greiða í sjóðina. Þetta er skyldusparnaður sem ríkið beinir í ákveðinn farveg. Þetta er fé sem er tekið af fólki og því lofað að það verði endurgreitt - seinna. 

Lífeyrissjóðir eiga fyrst og fremst að reyna varðveita kaupmátt peninganna. Stundum er það best gert með því að fjárfesta í stöndugum fyrirtækjum eða kaupa opinberar skuldir en stundum með því að einfaldlega kaupa gullstangir sem standa óhreyfðar í öruggri geymslu.

Lífeyrissjóðina á að láta alveg í friði og sveigjanleika sjóðsfélaga gagnvart þeim á að auka. Þeir eiga að vera í samkeppni við allar aðrar mögulegar leiðir til að ávaxta eða varðveita sparnað fólks í stað þess að vera áskrifendur að peningum launþega. 

Vissulega munu sumir sleppa því að spara upp til efri áranna sé gefinn kostur á því, en hvað með það? 

Vissulega munu sumir keppast við að koma sér upp skuldlausu húsnæði og losna undan oki bankanna og eiga í staðinn lítinn sparnað, en er eitthvað að því?

Vissulega munu sumir fjárfesta á þann hátt að allt fé þurrkast upp. Aðrir munu svo fjárfesta þannig að sparnaðurinn margfaldast. Er ekki í lagi að leyfa slíka tilraunastarfsemi og gefa svo fólki kost á því að læra af reynslunni og finna nýjar leiðir til að ávaxta peninga?

Sumu munu einfaldlega fjárfesta í góðmálmum og treysta á að þeir varðveiti kaupmátt sparnaðarins eins og þeir hafa alltaf gert, alla tíð. 

Stjórnmálamenn: Látið lífeyrissjóðina í friði, og skerið í leiðinni á áskrifendastöðu launþega gagnvart þeim.


mbl.is Vill lífeyrissjóðina í nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hagnast mest á íslenskri vinstristefnu?

Eftir mikla umhugsun hef ég komist að því hver græðir mest á íslenskri vinstristefnu.

Það er: Ríki reykingamaðurinn!

Hver er ríki reykingamaðurinn?

Jú hann er í fyrsta lagi efnaður maður og með áhugamál sem falla að slíkri stöðu. Hann vill fara í leikhús og hlusta á sinfóníutónleika. Hvoru tveggja er rækilega niðurgreitt af ríkinu, meðal annars af fátækari gestum hinna einkareknu kvikmyndahúsa. 

Í öðru lagi ferðast hann mikið, bæði vegna vinnu og af persónulegum ástæðum. Hann kaupir sitt vín og tóbak í fríhöfninni og borgar því ekki hin himinháu áfengis- og tóbaksgjöld pöpulsins. Hann sleppur því við þá skattheimtu. Það gera hinir efnaminni ekki.

Í þriðja lagi er hann, sem reykingamaður, lasnari en aðrir á svipuðum aldri sem reykja ekki. Hann hefur samt greiðan aðgang að heilbrigðiskerfinu þótt hann borgi sjaldan tóbaksgjöldin. Lágtekjufólk sem reykir sér um að fjármagna hans reykingasjúkdóma.

En auðvitað borgar hann alveg nógu mikið í skatta. Ríkustu 10% Íslendinga greiða rúmlega 60% af tekjusköttum Íslendinga. Samt tala menn um að þeir ríku eigi að borga meira. Furðulegri verður málflutningur fólks varla.

Besti vinur vinstristefnunnar íslensku, ríki reykingamaðurinn, kýs sennilega ekki til vinstri en hann græðir á hinum sem gera það. 


Örtröð til vinstri

Mikið framboð er af framboðum fyrir kosningar til Alþingis. Miðað við skoðanakannanir er framboðið miklu meira en eftirspurnin. 

Lengst til vinstri er mikil örtröð af flokkum. Þá manna einstaklingar sem telja að ríkið megi, eigi og geti lagað það sem er að. Ríkið á að lækna, útrýma fátækt, mennta unga sem gamla, stuðla að góðri andlegri heilsu, laga illa burstaðar tennur, reisa brýr og grafa göng. Og reka sinfóníuhljómsveit. Er þá bara fátt eitt nefnt.

Hvers vegna ríkir þessi gríðarlega tortryggni á frjálst framtak? Hvaðan kemur þessi ofurtrú á ríkisvaldið?

Þessu er vandsvarað. Allt í kringum okkur eru einkafyrirtæki að keppast við að veita betri og betri þjónustu á betra og betra verði. Þetta fer ekki framhjá neinum. Tökum farsímaþjónustu sem dæmi. Hún kostar neytandann í dag bara brot af því sem hún gerði fyrir örfáum árum, og er orðin miklu, miklu, miklu betri. Við getum horft á bíómyndir á meðan við sitjum á hlaupahjóli í ræktinni og borgað nánast ekkert fyrir það. Að hugsa sér!

Örtröðin til vinstri er einkennileg. Frjálshyggjumenn þurfa að hugsa sinn gang. Þegar eini svokallaði hægriflokkur Íslands líkist miklu frekar dönskum jafnaðarmönnum en raunverulegum hægrimönnum er illt í efni. 


mbl.is Búast við að samþykkja 10 framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð ráð frá netkosningaflokknum

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar, segir að markmið stjórnmálanna sé ekki síst að reyna að tryggja það að framtíðin verði björt.

Svona talar formaður flokksins sem ákvað að slíta stjórnarsamstarfi með netkosningu að næturlagi af því skoðanakannanir voru eitthvað óhagstæðar.

Björt framtíð sem stjórnmálaflokkur þurrkast nú út. Lengri verður framtíð flokksins ekki. 

Annars eru orð formannsins ágætt umhugsunarefni.

Hvernig byggir maður upp til framtíðar?

Oftar en ekki felst slík uppbygging í að taka á sig erfið, krefjandi og jafnvel slítandi verkefni og harka af sér á meðan þeim er lokið. Þessu má líkja við að byggja múrsteinahús. Lengi vel virðist ekkert vera að gera. Múrsteinarnir raðast niður en alltaf virðist jafnlangt í að það sé hægt að flytja inn. Allt í einu, dag einn, fer svo að koma mynd á húsið og hvatningin til að ljúka verkinu eykst. Þegar húsið er tilbúið eru svo allar þjáningar gleymdar.

Íslensk stjórnmál hafa ekki sýnt sömu þrautseigju. Menn örvænta þegar skoðanakannanir birtast. Það er ekki hugsað til framtíðar heldur næstu kosninga. Menn veigra sér við að taka að sér erfið verkefni sem er viðbúið að lendi í miklum mótbyr. Í stað þess að framkvæma skurðaðgerð og fjarlægja æxlið er bara plástrað yfir einkennin. 

Formaður Bjartrar framtíðar mælir viturlega en flokkur hans er e.t.v. versta fyrirmyndin og besta dæmið í íslenskri pólitík um skammtímahugsun, örvæntingu og skort á framtíðarsýn. 


mbl.is Verðum að hugsa til framtíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um mikilvægi fríverslunar

Í frétt á Viðskiptablaðinu segir

Embættismenn segja ekkert leyndarmál að íslensk stjórnvöld vilji algera fríverslun eftir útgöngu Breta úr ESB.

Þetta eru góðar fréttir. Bretar kaupa mikið af íslenskri framleiðslu og borga sennilega ágætlega fyrir hana líka. Íslendingar geta líka keypt mikið af Bretum. Frjáls samskipti, án heimatilbúinna hindrana í formi tolla og annarra hafta, eru arðbær öllum sem að þeim koma. 

En hafa Íslendingar raunverulega skilið hagfræðina á bak við frjáls viðskipti?

Það held ég ekki.

Þeir skilja hana í tilviki Bretlands því þar hafa Íslendingar í gegnum árin lært að stunda viðskipti og hagnast vel á þeim.

Þeir skilja hana hins vegar ekki í tilviki erlendra fjárfestinga. Íslendingar tala jafnvel um að erlendir fjárfestar séu að mjólka hagkerfið. Það eru jú þeir sem fá hagnaðinn þegar vel gengur. Útlendingar byggja verksmiðju, verksmiðjan skilar gróða og gróðinn er svo tekinn úr landi! Hræðilegt! Væri ekki betra ef útlendingarnir hefðu haldið sig fjarri? Hefði ekki átt að leggja fé lífeyrissjóðanna undir í staðinn? 

Útlendingar mega ekki eiga neitt að ráði í sjávarútvegsfyrirtækjunum. Þar hafa fyrirtæki því neyðst til að treysta á innlent fjármagn og eigið rekstrarfé. Það hefur e.t.v. verið sjávarútvegsfyrirtækjunum til happs að sjávarútvegur víðsvegar erlendis er blússandi taprekstur bundinn í viðjum ríkisafskipta og að það sé því e.t.v. ekki sama pressa á að standa sig vel í alþjóðlegri samkeppni. Íslendingar hafa svo getað fjárfest í sjávarútvegi erlendis - orðið þessir "erlendu fjárfestar" sem margir bölva - og geta þannig dreift rekstraráhættu sinni.

Franski hagfræðingurinn og stjórnmálaheimspekingurinn Frederic Bastitat skrifaði á sínum tíma litla hugleiðingu um viðskiptahindranir sem ég vil hvetja alla til að lesa. Hana má lesa hér á ensku og í sumarhefti Þjóðmála í íslenskri þýðingu minni. 

Að öðru: Í dag tókst mér ekki að finna neina áhugaverða frétt á mbl.is til að hugleiða út frá. Þá kom Viðskiptablaðið til bjargar eins og oft áður. Viðskiptablaðið er besti fjölmiðill Íslands. Það er bara það sem ég vildi segja. 


Svona, svona ekki þessa viðkvæmni

Svartur maður er ekki svertingi. Hann er þeldökkur eða af afrískum uppruna. 

Þeir sem eru fatlaðir eru ekki fatlaðir. Þeir eru fatlað fólk

Ég er ekki gleraugnaglámur lengur. Ég er maður með gleraugu. Eða hvað?

Steingrímur vildi koma því áleiðis að vinstrimenn væru betri í að skattleggja en þeir hjá Sjálfstæðisflokknum. Sem maður með alla útlimi í lagi er hann ekki fatlaður. Hann er því betur undir það búinn að taka að sér fjölbreytt störf og afla tekna fyrir ríkið á kostnað fólks og fyrirtækja. Hann vildi því meina að hann væri heilbrigður en að Sjálfstæðismenn, sem kunna ekki að hækka skatta að hans mati, séu fatlaðir.

Er eitthvað að þessari samlíkingu?

Auðvitað er það rangt að Sjálfstæðismenn kunni ekki að mjólka hagkerfið ofan í ríkiskassann. Það veit meira að segja Katrín Jakobsdóttir sem nýlega kallaði flokkinn skattahækkunarflokk. Þeir gera það bara á annan hátt en Skattmann. En í huga Steingríms er hann sá sem er stór og sterkur og hraustur og getur sveiflað hinni stóru öxi og skorið þykkar sneiðar út úr hagkerfinu og troðið í ríkishirslurnar. Aðrir, sem skera minna eða nota minni öxi, eru fatlaðir. Í hugarheimi Steingríms er samlíkingin því alveg eðlileg. Eða hvað?


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn „fatlaður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já en ...

Tóbaksreykingar eru hættulegur ávani sem tekur mikinn toll á heilsu allra sem verða fyrir beinum og óbeinum áhrifum þeirra. 

En það er óþarfi að vera alltof neikvæður út í tóbaksreykingar. Þær hafa sína kosti!

Þær fækka til dæmis í hópi ellilífeyrisþega. Klappstýrur velferðarkerfisins anda því léttar, ef svo má að orði komast.

Fólk sem deyr fyrr nær síður að þróa með sér erfiða og ólæknandi sjúkdóma eins og Parkinsons. Það þarf því ekki að byggja hjúkrunarheimili fyrir það fólk. Nú fyrir utan að nikótín á víst að draga úr líkunum á sjúkdómum eins og Parksons og Alzheimer. Reykingafólkið deyr því með heilann í lagi en lungun í rúst.

Skatttekjurnar af tóbakssölu eru hærri en sem nemur þeim aukna heilbrigðiskostnaði sem reykingarnar sjálfar valda. 

Fleiri pælingar í þessa áttina má lesa hér.

Svo já, ef þú vilt velferðar- og heilbrigðiskerfi sem ríkisvaldið sér um að fjármagna með sköttum og reka í umhverfi ríkiseinokunar og er þannig hannað að það eru engar kostnaðarafleiðingar fyrir þá sem skerða meðvitað og markvisst eigin heilsu þá ættir þú að hugleiða leiðir til að fjölga reykingarfólki.

Nei ég segi svona. 


mbl.is Þjóðhagsleg áhrif reykinga veruleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VEA = Vandamál Einhverra Annarra

Offita barna og unglinga hefur aukist gríðarlega í heiminum undanfarna fjóra áratugi. Þetta eru slæmar fréttir. Offita hefur óteljandi fylgifiska í för með sér og þeir eru allir slæmir.

En er þetta vandamál einhvers?

Foreldrar segja að krakkar fái ekki næga hreyfingu í skólanum. Þau séu bara látin sitja við skjái og geta sleppt því að fara út í frímínútum. Þannig var það ekki í gamla daga!

Skólarnir segja að börnin fái ekki næga hreyfingu utan skólatíma. Þau eru hætt að stunda íþróttir og hanga bara í símum og tölvum allan liðlangan daginn. 

Þingmenn og læknar segja að fitan og sykurinn sé of ódýr. Foreldrar séu nánast táldregnir að nammibarnum og kaupi þar alltof mikið fyrir sig og aðra á heimilinu. 

Foreldrar segja að aðgengið sé of gott. Það er einfaldlega ekki hægt að segja nei við börnin þegar þau sníkja. Þessar magnumbúðir eru líka miklu hagstæðari en þær smærri. 

Hvar liggur vandamálið?

Nammi hefur alltaf verið til í miklu magni á hagstæðu verði. Þar sem menn setja á sykurskatt sparar fólk bara við sig í einhverju öðru eða verslanir fara hreinlega að niðurgreiða nammið með dýrari eplum og öðru hollu. 

Nammi hefur alltaf verið gott.

Börn hafa alltaf geta hangið inni. Þau teiknuðu, horfðu á sjónvarp eða spiluðu Nintendo í gamla daga. Núna eiga þau snjallsíma og tölvu.

Foreldrar hafa alltaf þurft að eiga við sníkjandi börn í búðum þar sem namminu er stillt upp við búðarkassann þar sem flóttaleiðirnar eru lokaðar. 

Vandamálið er að enginn tekur ábyrgð. Hér er ég fyrst og fremst að tala um foreldra. Það er á þeirra ábyrgð að ala upp börn sín, setja þeim reglur og kenna þeim á orsakasamhengi mataræðis, hreyfingar og heilsufars.

Vandamálið við offituvandamálið er að foreldrum hefur verið talin trú um að þetta sé vandamál einhverra annarra en þeirra. Þeir komast upp með að benda á skólann, þingmennina, læknana og matvöruverslanirnar. Enginn segir neitt við því, og það er vandamál.

Foreldrar, takið ábyrgð! Eða til hvers voruð þið annars að eignast börn ef þið ætlið svo að hlaupa frá ábyrgðinni?


mbl.is Börn blása út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birgitta hefur ekki verið kveðin niður

Birgitta Jónsdóttir er eftirlæti blaðamanna. Hún getur verið kjaftfor, frek og óþolinmóð. Þessi blanda er eins og fyrirsagnaverksmiðja sem framleiðir fréttir fyrir blaðamenn í hvert skipti sem hún kemur nálægt hljóðnema.

Hún ætlaði að hætta á þingi en hætti svo við og ætlaði svo að hætta og er núna ekki í framboði en segist vera opin fyrir ráðherrastól svo hver veit hvað hún hefur raunverulega í hyggju?

Hún nýtur sviðsljóssins og þess að standa í ræðustól á Alþingi og koma fram í þáttum. Auðvitað er hún því ekki hætt í stjórnmálum. 

Ég legg til að sama hvers konar ríkisstjórn kemur saman eftir kosningar þá verði Birgitta Jónsdóttir gerð að utanríkisráðherra. 

Það yrði eitthvað!

Hún gæti keppt við Donald Trump í kjánalegum ummælum eða móðgunum við erlenda stjórnmálamenn. 

Hún gæti á einu bretti þurrkað út allskyns stjórnmálasambönd og viðskiptasamninga.

Hún gæti lýst opinberlega yfir stuðningi íslenska ríkisins við allskyns samtök sem hakka sig inn í tölvur eða standa í skæruliðaárásum. 

Hvað finnst ykkur?


mbl.is Sækist ekki eftir ráðherrastól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband