Ástin sigraði veirutakmarkanir

Ég skrapp í stutta ferð til Íslands um helgina til vera viðstaddur brúðkaup. Það var hið besta mál að öllu leyti. Þar ræddi ég við einn frænda minn sem á núna von á barni með kærustu sinni og ég spurði hann hvernig hann hefði kynnst henni.

Svarið kom mér skemmtilega á óvart.

Þau höfðu verið, og eru, hluti af stórum vinahópi sem hafði á veirutímum stolist til að hittast og skemmta sér saman á tímum samkomutakmarkana, gjarnan i sumarbústöðum. Skyndilega hafi þau áttað sig á hrifningu til hvors annars og eftir það varð ekki aftur snúið.

Ástin sigraði samkomutakmarkanir.

Ungt fólk hafði gefið skít í slíkar takmarkanir en vitaskuld passað sig á að flagga ekki óhlýðni sinni framan í hrædda fólkið.

Ég hef heyrt alltof fáar slíkar sögur, af fólki sem lét ekki óttann grípa sig og stjórna lífi sínu. Af fólki sem hittist, knúsaðist og kysstist þótt drápsveira væri að stráfella mannkynið, að sögn. 

Það kviknaði í mér von. Sú von, að ef yfirvöld reyna aftur að gera eitthvað svipað að þá gefi venjulegt fólk, án álhatta og samsæriskenninga, skít í það, jafnvel opinskátt og upphátt.

Og leyfi ástinni að sigra óttann.

Er ég of bjartsýnn?


Borgarstjórn dettur óvænt á lausn allra sinna vandamála

Parísarhjól verður sett upp á Miðbakka í sumar. Einkafyrirtæki sér um allt og greiðir borginni fyrir lóðaleigu. Vandamál leyst. Meira að segja borgarfulltrúar Pírata treysta sér ekki til að reisa parísarhjól og er það hressandi hógværð.

Vonandi tekst þetta vel og afhjúpar óvænta lausn hjá borginni: Að sleppa því að klúðra og láta aðra um að gera hlutina rétt. Það eina sem borgin þarf að gera er að koma sér úr veginum og drepa ekki allt í gjöldum og umsóknum og leyfisveitingum.

Svona mætti reka alla leikskóla og grunnskóla líka. Bara láta fé fylgja börnum og skipta sér að öðru leyti ekki af rekstri skóla og öllu sem því fylgir.

Þannig gæti borgin leyst allt klúðrið í kringum sorphirðu. 

Það er kannski von fyrir Reykvíkinga ennþá, en sjáum hvað setur.


mbl.is Parísarhjól á Miðbakka í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað skuldar þú ríkinu?

Ríkisskattstjóri heldur úti tímariti. Það heitir Tíundin og vísar til fyrstu skattheimtu Íslandssögunnar þegar tíund af sérhverjum tekjum eða ákveðinni eignamyndun átti að renna til kirkjunnar.

Með réttu ætti þetta tímarit í dag að heita Helmingurinn, en það er önnur saga.

Skattkerfið er óendanlega flókið og þökk sé tæknivæðingu og sjálfvirkni er hægt að bæta í það flækjustigum. Hið opinbera fær fullt af upplýsingum sjálfkrafa inn í kerfið sitt og getur út frá því reynt að reikna út hvað hver og einn á inni eða skuldar, hvaða frádrættir gilda og svona mætti lengi telja. Í lok uppgjörs er svo ákveðið hvort viðkomandi skuldar meira í skatt eða þarf að borga meira í skatt.

Með réttu ætti tímarit ríkisskattstjóra að heita Völundarhúsið.

Höfum eitt á hreinu: Það er ekki sniðugt að svindla á skatti og brjóta lög. Betri er blankur maður og gjaldþrota en sá í fangaklefa.

Það má samt spyrja sig að því hvert hlutverk skattkerfisins er. Er það að afla hinu opinbera nægra tekna til að standa undir rekstri á þjónustu og framkvæmdum sem allir eru sammála um, eða til að klappa sumum á öxlina og berja á öðrum?

Er hlutverk skattkerfisins að innheimta á fyrirsjáanlegan hátt eða afla fjölda opinberra starfsmanna starfa í að eltast við venjulegt fólk?

Er markmiðið að afla tekna fyrir hið opinbera eða sjá til þess að tæla fólk og fyrirtæki í gildrur?

Mér finnst svörin ekki endilega blasa við. 

Auðvitað eru þeir til sem svindla á kerfinu, hvaða nafni sem það nú nefnist. En er flókið kerfi eða einfalt betra fyrir slíka einstaklinga?

Hérna þarf að innleiða svolitla hreinskilni. Skattkerfið er of flókið og ruglingslegt. Það fælir fólk frá því að afla verðmæta. Það gefur glæpamönnum færi á að misnota kerfið. Það kostar of mikið í framkvæmd af fé sem gæti annars runnið í góð verkefni. Það hefur misst sjónar af markmiði sínu og er orðið pólitískt verkfæri.

Hver er þá lausnin?

Jú, að fækka svokölluðum skattstofnum, fækka undanþágum, lækka skatthlutföll, fækka þrepum og undanþágum, og leyfa samfélaginu að skilja skattkerfið.

Niðurstaðan hlýtur að vera sú sama og samanburður á Svíþjóð og Sviss á sínum tíma: Bæði ríki öfluðu svipað mikilla skatttekna á íbúa, en Sviss gerði það með helmingi lægri skattbyrði en Svíþjóð.

Stundum er minna meira. 


mbl.is 85 milljón króna sekt fyrir skattalagabrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilgangslausar vottanir á kostnað neytenda og skattgreiðenda

„Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekk­ert gera fyrr en öll leyfi eru komin.“

Þetta sagði Helgi Vilhjálmsson, betur þekktur sem Helgi í Góu, í viðtali árið 2011. Óhætt er að fullyrða að þessi þróun hafi haldið áfram á fullri ferð síðan þá. Sífellt er líka bætt við kröfulistann sem endar á að vera fjármagnaður af neytendum og skattgreiðendum.

Ein af nýjustu vitleysunum er svokölluð jafnlaunavottun. Henni er svo lýst:

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. ... Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Jafnlaunastaðalinn ÍST 85 ...

(Ég hætti að lesa þegar ég sá að það er til íslenskur „jafnlaunastaðall“. Hjálpi mér!)

Núna hefur alþingismaður afhjúpað þessa svokölluðu vottun sem gagnslausan pappír og ætlar að berjast fyrir því á þingi að þessi vottun hætti að vera barefli í höndum ríkisins og verði þess í stað að valkvæðri peningasóun fyrir fyrirtæki og opinbera aðila, eða jafnvel afnumin með öllu.

Mikið var hressandi að sjá það!

Það er nefnilega svo að þegar hið opinbera hefur innleitt eitthvað að þá er nánast ómögulegt að losna við það. Herskarar ráðgjafa, opinberra embættismanna og svokallaðra sérfræðinga fá sitt lifibrauð af því að selja þjónustu sína til að uppfylla hinar ónauðsynlegu kröfur, og vitaskuld spyrna þeir við fótum. Þeir sem hafa eytt stórfé í ekki neitt vilja ekki sjá þá eyðslu tapast í klósettið. Hagsmunir hafa myndast sem er auðvitað reynt að halda í.

En minnumst nú orða Helga í Góu. Einu sinni var hægt að opna rekstur og þurfa svo að sæta eftirliti. Núna þarf að vera milljónamæringur til að geta byrjað að steikja kjúkling. Síðan, ef vel gengur, þarf að votta sig hægri og vinstri til að forðast sektir. Loks þarf að þola kvartanir viðskiptavina sem halda að hækkandi verðlag megi skrifa á eitthvað annað en aukinn kostnað og minnkandi samkeppni.

Er ekki bara best að gerast opinber starfsmaður?


Samsæriskenningar fjölmiðla

Það er erfitt að skilja alla umræðu um Rússland. Einn daginn eru þeir að tapa í stríði, þann næsta að sækja fram. Þeir eru ýmist á kúpunni eða að raka inn seðlum. Eina stundina eru þeir óskipulagðir, þann næsta að eyðileggja evrópska innviði án þess að skilja eftir sig nein sönnunargögn. Þeir eru vinalausir en samt í fararbroddi samtaka sem hafa ekki undan að taka við nýjum meðlimum.

Auðvitað fer margt í gegnum fingur forsetans þar í landi, oft vafasamt, glæpsamlegt og hrottafengið, en slíkt er hvorki einsdæmi né í mörgum tilvikum fréttnæmt miðað við margt annað sem fer fram í heiminum. 

En tökum dæmi, sem stendur mér að sumu leyti nærri: Eyðilegging á gasleiðslu á milli Eistlands og Finnlands, hin svokallaða BalticConnector gasleiðsla. Hún var byggð árið 2019 og hleypir svolitlu gasi á milli ríkjanna tveggja. Þegar hún rifnaði vegna akkeris þá slokknaði ekki á einu ljósi í hvorugu landi. Gasverð hækkaði kannski, staðbundið, til skamms tíma. 6 mánuðum seinna var búið að laga leiðsluna.

Myndi Rússland, eða Kína ef því er að skipta, virkilega leggja á sig háleynilega aðgerð til að framkvæma svona algjörlega áhrifalaust skemmdarverk og hætta öllu í leiðinni? Hætta á hefndaraðgerðir? Á fordæmingu?

Miklu líklegra er að skipstjóri hafi klúðrað sínum málum og freistað þess að láta sig hverfa til að lenda ekki í vandræðum, nokkuð sem er vel þekkt (enda slípa menn stundum allar áletranir af akkerum sínum til öryggis ef það veldur einhverjum skaða).

En hvað segir blaðamaður okkur?

Í um­fjöll­un Wall Street Journal er tekið sem dæmi kín­verska skipið New­new Pol­ar Bear, en rann­sak­end­ur töldu skip­verja hafa skorið á gas­leiðsluna Balticconn­ector síðasta haust þar sem hún ligg­ur frá Finn­landi og suður til Eist­lands yfir Kirjála­botn. Skip­inu stýrði rúss­nesk áhöfn.

Kannski má deila um orðið „skorið“ hérna. Akkeri geta krækt sig á rör og ef skipið heldur áfram að sigla þá er hægt að rífa gat á rörið. Oft eru rör grafin í hafsbotninn til að minnka líkur á þessu, en ekki í tilviki BalticConnector. Sennilega var rörið hannað til að standast einhvers konar átök við bæði akkeri og troll fiskiskipa en að skip dragi á eftir sér akkeri án þess að nokkur verði var við það þekkist eins og íbúar Vestmannaeyja fengu að kynnast í vetur.

Svo ég ætla að leyfa mér að blása á þessa samsæriskenningu. Hún er byggð á fjarstæðukenndum forsendum og af töluverðri vanþekkingu. Það er af nægu að taka ef menn vilja skamma Rússa fyrir eitthvað, en verum raunsæ: Rússagrýlan ber ekki ábyrgð á öllu sem aflaga fer. Á sumu, vissulega, en ekki öllu.


mbl.is Rússnesk fingraför sjást víðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipta tónlistarmenn einhverju máli?

Tónlist er góð afþreying. Hún getur róað, hraðað, fengið hugann til að slaka á eða fara á fulla ferð. En skiptir hún einhverju máli nema sem afþreying og mögulega meðal til að hafa áhrif á hugann? 

Hvað með hugsanir? Skoðanir? Hafa tónlistarmenn einhverju hlutverki að gegna þar?

Já, auðvitað, ef þeir vilja.

Margir tónlistarmenn eru raunar mjög stórvirkir greinendur á samfélagið og miðla greiningu sinni með tónlist sem er frábært ef vel tekst til.

En er eitthvað í tónlist dagsins í dag sem býður upp á slíkt?

Ég viðurkenni að hafa frekar staðnaðan tónlistarsmekk. Ég hlusta ennþá á Metallica og The Prodigy. Við slíka hlustun nýlega datt mér í hug að ég væri mögulega undir miklum áhrifum frá þessum tilteknu hljómsveitum.

Tökum sem dæmi lagið The Law frá The Prodigy. Á yfirborðinu er kallað á uppreisn gegn lögum yfirvalda (fuck´em and their law). Lagið kom út á miklum umbrotatímum í bresku samfélagi, en las svo nýlega að þetta var líka tímabil þar sem yfirvöld voru að reyna koma í veg fyrir ákveðnar samkomur ungmenna og lagið beint ákall um að spyrna fótum gegn slíkum tilraunum. Kannski svolítið eins og tónlistarmenn hefðu átt að gera á veirutímum ef þeir væru ekki svona hræddir. 

Annað dæmi er frægt lag Metallica, Master of Puppets. Þetta lag talar um stjórn á öðrum, hvort sem það er fíkn eða valdboð, og ákall um að rífa sig frá slíkri stjórn. Metallica hefur líka ráðist á þörf okkar til að vera í endalausum stríðum og reyna takmarka frelsi annarra til orða og gjörða.

Kannski eru breyttir tímar í dag. Stærstu nöfnin í tónlistinni vilja kannski ekki vera á milli tannanna á fólki (bara í innkaupakerru þess). Er það rangt?


Jaðarinn

Þegar talað er um jaðarflokka er oft hægt að tala um flokka framtíðarinnar. 

Í Danmörku var Danski þjóðarflokkurinn lengi kallaður jaðarflokkur. Hann fékk mikið fylgi og loks völdu Sósíaldemókratar og aðrir að taka upp stefnu hans í útlendingamálum til að minnka fylgishrunið. Danski þjóðarflokkurinn hefur misst nánast allt fylgi sitt síðan, en hann mótaði stefnuna.

Í Svíþjóð eru Svíþjóðardemókratar á svipaðri vegferð en hafa þó ekki enn misst fylgi sitt til eftirherma. Hættan á því er þó til staðar.

Í Hollandi blasir við hvernig jaðarinn var í raun framtíðin.

Á Íslandi fylgist ég aðallega með Miðflokknum og hvernig aðrir flokkar dansa í kringum hann, ennþá smeykir við að afrita stefnu hans í útlendingamálum en enda fyrr eða síðar á að gera það þegar þeir sjá hvernig fylgið færist til.

Svipaðar sögur má segja frá Þýskalandi og Frakklandi, og víðar.

Auðvitað tala fjölmiðlamenn og formenn ríkjandi flokka um jaðarflokka þegar þeir hafa misst sjónar á viðhorfum kjósenda. Þetta er ekki hlutlaust hugtak sem þýðir eitthvað ákveðið. Þetta er tálbeita til að lokka kjósendur frá ljósinu.

Þar með er ekki sagt að allir flokkar sem kallast jaðarflokkar eigi skilið athyglina. En þarna ætti opinber umræða, án stimpla og fordóma, að koma til leiks og sía út hismið frá kjarnanum. Engri slíkri umræðu er hins vegar til að skipta. Við erum með valdið, sem stendur saman, og samkeppnina, sem er alls konar.

Þær eru eitthvað að bresta þessar blessuðu stoðir. Almenningur er smátt og smátt að vakna til meðvitundar. Vonum að það gerist áður en allt lýðræðislegt vald hefur verið gleypt af alþjóðastofnunum með svolítið aðrar áherslur en venjulegt fólk.


mbl.is Geert Wilders tókst að mynda hægristjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk sem er vel menntað

Fólk sem er vel menntað hef­ur aukna lýðræðis­lega vit­und og tek­ur betri ákv­arðanir segir Björn Brynj­úlf­ur Björns­son, fram­kvæmda­stjóri Viðskiptaráðs í nýlegu viðtali.

Sennilega standa margir í sömu trú.

Vel menntað fólk reykir síður en annað, hreyfir sig meira, borða hollar, drekkur rauðvín frekar en bjór, lætur bólusetja sig hiklaust og styður við hvaða þau stríðsátök sem yfirvöld hafa valið að klappa fyrir.

Ég er ekki viss. Auðvitað er ekki hægt að alhæfa um alla sem hafa að baki tiltekinn árafjölda í skóla en skólar geta verið tvíeggja sverð. Þeir geta dregið úr gagnrýnni hugsun, stuðlað að hjarðhegðun, þaggað niður í ákveðnum skoðunum og búið til bergmálshella. Vinnustaðir vel menntaðra taka svo við og stuðla að sama andrúmslofti. Ég finn það mjög vel á mínum vinnustað sem er nær eingöngu með háskólamenntað starfsfólk. Allir sprautaðir, kenna Rússum um allt sem aflaga fer og halda að maðurinn sé að breyta veðrinu með bílanotkun.

Það þaggar svo sem enginn niður í mér en ég hef oftar en einu sinni verið kallaður samsæriskenningasmiður og aldrei er það dregið til baka þegar kenningarnar rætast. Þannig er það bara.

Tilgáta mín er þessi: Fólk sem er vel menntað er að leita að öryggi og fyrirsjáanleika. Það telur að menntun leiði til starfsframa og öruggra tekna. Sama hugarfar fær sama fólk til að forðast að rugga bátnum, skapa úlfúð eða skoða aðrar hliðar mála. Það treystir fjölmiðlum og hlustar þegar stjórnmálamenn tala. Það kýs rétt og varðveitir það sem nú þegar er til staðar. 

Ég tengi alveg við sumt af þessu en ekki annað. 

Um leið þekki ég marga sem fóru aldrei alla leið í gegnum háskólanám og eru meðal frumlegustu og klárustu einstaklinga sem ég þekki, og þeir kunna allir að hugsa gagnrýnið og út fyrir rammann, og svo sannarlega að standa á eigin fótum og jafnvel bera uppi aðra. 

Kannski af því að þeir luku ekki námi, en ekki þrátt fyrir það.

Í mörg ár hefur menntun, þ.e. langt bóknám, verið töluð upp sem einhvers konar gjöf í sjálfu sér, og því meira því betra. Kannski er þetta ekki við hæfi lengur. Kannski þarf að byrja efast um gagn og gildi menntunar og byrja að reisa girðingar í kringum hana svo heilaþvotturinn hægi aðeins á sér.


mbl.is Það eigi að meta verðleika til launa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norska reynslan: Rafmagnsbílar þýða ekki minni eldsneytisnotkun

Ríkisstjórnin hefur sett sér metnaðarfull markmið um að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Þetta stendur á vef Stjórnarráðsins. Meðal aðgerða til að ná þessu markmiði eru rausnarlegir styrkir til kaupenda rafmagnsbíla. Vísað er til reynslu Norðmanna:

Sé litið til Noregs þar sem hraðast hefur gengið að ná upp hlutdeild rafbíla beinast VSK-ívilnanir eingöngu að hreinorkubílum. Í norsku fjárlögunum fyrir árið 2022, sem voru samþykkt í síðasta mánuði, er kveðið á um fjölþættar breytingar til að ljúka orkuskiptunum og auka tekjur ríkisins af ökutækjum á ný. Norsk stjórnvöld stefna að því að allir nýskráðir bílar verði hreinorkubílar árið 2025.

Og vissulega kaupa Norðmenn yfirgnæfandi rafmagnsbíla. 

En vitið þið hvað! Notkun Norðmanna á jarðefnaeldsneyti er óbreytt

Eftirspurn eftir eldsneyti til aksturs á vegum í Noregi hefur haldist tiltölulega stöðug, jafnvel þó að notkun rafbíla hafi aukist, sem vekur upp spurningar um hvort rafbílar hafi raunverulega mikil áhrif á dísil- og bensínsölu, sagði Rystad Energy á síðasta ári.

Skortur á áberandi áhrifum á olíueftirspurn í landi þar sem rafbílar eru 90% af allri sölu nýrra bíla er varúðarsaga fyrir þá sem spá samstundis samdrætti í olíueftirspurn vegna aukinnar sölu rafbíla, samkvæmt UBS.

**********

Road fuel demand in Norway has remained relatively stable even with soaring EV adoption, raising questions about whether EVs really have a material impact on diesel and gasoline sales, Rystad Energy said last year.

The lack of a noticeable dent in oil demand in a country where EVs are 90% of all new car sales is a cautionary tale for those predicting an immediate drop in oil demand due to rising EV sales, according to UBS.

Með öðrum orðum: Miklu fé eytt í ekki neitt. Nákvæmlega. Ekki. Neitt.

En núna vill ég ekki spilla veislunni með staðreyndum. Vissulega eru borgarbúarnir sem keyra styttri vegalengdir ánægðir með sig og rafmagnsbílana sína. En þeir sem þurfa langdræga, trausta, hagkvæma og vel þróaða bíla láta ekki glepjast. 

Um leið má nefna að ef eftirspurn eftir afurðum hráolíu minnkar á einum stað þá þrýstir það verði niður og örvar notkun á öðrum stað. Þannig eru öll kolin sem Vesturlönd þykjast ekki ætla að kaupa lengur einfaldlega að fara til Kína, Indlands og Indónesíu í staðinn, á afslætti. 

Þetta hlýtur að taka á taugar þeirra sem telja brennslu á jarðefnaeldsneyti vera undanfara heimsendis. Það er sama hvað er hert að, skattlagt, niðurgreitt, talað gegn og framleitt af hræðsluáróðri - mannkynið virðist ætla að sækja í sína orku sama hvað! Orku til að dafna, auðgast, hita sér, kæla sig, framleiða rafmagn og knýja verksmiðjur. 

Skammist ykkar, eins og ónefnd stúlka sem hafði flosnað úr námi til að ferðast um heiminn á kostnað milljarðamæringa með einkaþotur í bílskúrnum sagði svo eftirminnilega.


Hver er umdeildur og hver ekki?

Forsætisráðherra Slóvakíu, sem er í lífshættu eftir skotárás fyrr í dag, hefur lengi verið umdeildur stjórnmálamaður. Umdeildur segja blaðamenn. Hvaða stjórnmálamaður er ekki umdeildur? 

Ég veit lítið sem ekkert um forsætisráðherra Slóvakíu. Hann virðist vera vinstrimaður af gamla skólanum, harður í horn að taka, ódrepandi í stjórnmálum. Hvað eftir annað veita kjósendur honum umboð til að halda áfram í stjórnmálum og hann tekur sér ýmislegt fyrir hendur.

Umdeildur, kannski. En er það stimpill sem er sérstaklega hannaður fyrir þá sem dansa ekki í takt við þá sjálfsmorðsvegferð efnahags og samfélagsgerðar sem flest Vesturlönd eru á? 

Blaðamaður DV kemst svona að orði:

Gagnrýnendur hans hafa miklar áhyggjur af því að hann færi Slóvakíu frá vesturs til austurs, líkt og kollegi hans Viktor Orban í Ungverjalandi rær öllum árum að.

Ég skil. Óhlýðni við Evrópusambandið og Bandaríkin, kannski? Er það skilgreiningin á því að vera umdeildur?

Annars blasir við að þetta lýðræði fer í taugarnar á mörgum. Ítrekað eru kjósendur staðnir að því að kjósa vitlaust, og velja vitleysinga. Þeir létu sér meira að segja ekki segjast í Eurovision-símakosningunni. Óþolandi kjósendur sem þarf kannski að taka aðeins á. Leyfa þeim bara að kjósa um eitthvað kjaftæði á meðan raunverulegar ákvarðanir eru teknar af ókjörnum embættismönnum.

Þar með er ekki sagt að forsætisráðherra Slóvakíu sé ekki umdeildur. En hver er það ekki? Katrín Jakobsdóttir, ráðherra stjórnlauss innflutnings hælisleitenda? Bjarni Benediktsson, ráðherra vopnakaupa og skuldasöfnunar? Kannski það séu hin óumdeildu mál sem allir eru sammála um. Þeir sem vilja annað eru hættilegur öfgamenn, og auðvitað umdeildir.


mbl.is Robert Fico: Umdeildur forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband