Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2025

Skattar og fleiri skattar

Á Íslandi er rekið mikið opinbert bákn sem heimtar mikla skatta.

Eða í nútímalegra orðalagi: Á Íslandi er veitt mikil opinber þjónusta sem er fjármögnuð með ýmsum gjöldum og framkvæmd af stofum og embættum.

Skattar eru nefnilega ekki alltaf skattar. Þeir geta líka kallast gjöld og fá þá á sig blæ frjálsra viðskipta þar sem gjald er greitt og í staðinn veittur aðgangur, svona eins og í leikhúsi.

Opinberar stofnanir geta líka kallast stofur og fá þá á sig blæ biðstofunnar þar sem fólk sest þægilega niður og fær afgreiðslu á erindi sínu. Stofa þar sem fólk ekki bara númer í kerfinu eða skjal í skúffunni heldur verðmætir skjólstæðingar.

Þessi leikur að orðum er auðvitað til þess gerður að slá vopnin úr höndum hins frjálsa framtaks. Hver neitar að borga gjöldin sín? Það er eitt að reyna forðast skattheimtuna með ýmsum aðferðum - íþrótt sem menn hafa stundað í árþúsundir - en að vilja ekki borga gjaldið? Það er bara dónaskapur!

Íslensk yfirvöld vilja núna leggja á „auðlindagjöld“ en á meðan þau eru útfærð að leggja á „komugjöld“. Allt eru þetta bara skattar. Skattar ofan á alla hina skattana - gistináttaskattinn, virðisaukaskatt af öllum vörukaupum og þjónustu, tekju- og launaskattar þeirra sem selja þá vörur og þjónustu, allskyns skattar á landeigendur, fjármagnstekjuskattur á þá sem tekst að nurla út smávegis hagnaði og svona mætti lengi telja. Auðlindagjöldin munu renna ofan í hítina eða fara í að fjármagna starfsemi þjóðgarða sem telja það vera hlutverk sitt að halda fólki frá þeim.

Það verður bráðum upplifun þeirra sem heimsækja Ísland að landið sé orðið að jarðsprengjusvæði þar sem hvert skref getur leyst úr læðingi einhverja gjaldtöku eða skattheimtu. Er þá hætt við að þeir sem vilja sjá fjöll og eyðifirði velji einhvern annan áfangastað. Eða er það markmiðið?


mbl.is Fáránlegt að setja fyrst á komugjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Danska innflytjendastefnan er öfga-hægri utan Danmerkur

Hvað er öfga-hægri?

Svörin við þeirri spurningu eru mörg, en eitt svar er: Stefna danskra jafnaðarmanna í málefnum innflytjenda hjá flokkum utan Danmerkur.

Í mörgum ríkjum Evrópu eru þeir flokkar kallaðir öfga-hægriflokkar sem benda á Danmörku sem viðmið í innflytjendamálum.

Danir brosa aðeins að þessu. Þeir spyrja sig: Erum við öfga-hægrimenn? Auðvitað ekki. Af hverju er þá franskur stjórnmálamaður, sem bendir á Danmörku sem fyrirmynd, kallaður öfga-hægrimaður? Daninn hefur hérna engin svör, og er í raun alveg sama. 

Blaðamenn ættu að vita betur, auðvitað, en vita ekki betur. Þeir elska litlu stimplana sína. Við hin gætum kannski vitað betur í staðinn, ef við nennum, en við nennum ekki.

Eftir stendur að til nasistaríkisins Danmerkur streyma Íslendingar í mörgum flugvélum á dag í leit að hakakrossum, eiturgasi og myndastyttum af Hitler. Góða skemmtun!


mbl.is Mótmæltu rofi CDU á „eldveggnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trump-áhrifin

Ég ætla að gera nokkuð sem ég geri mjög sjaldan og það er að taka undir orð íslensks prófessors. Hressandi undantekning, ef eitthvað.

Svolítið viðtal við Gylfa Zoëga hagfræðiprófessor er um margt skynsamlegt. Það má draga úr því þann lærdóm að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, er enginn hagfræðingur en telur sig geta notað verkfæri hagfræðinnar sem einhvers konar samningatól til að ná fram öðrum markmiðum. Gylfi talar um einvald sem er ekki skrýtið en embætti Bandaríkjaforseta er mjög valdamikið, óháð því hver mannar það, og má teljast furðulegt í ríkinu sem var búið til svo völd hins opinbera yrðu sem takmörkuðust, ekki mest. 

Trump ætlaði að enda eitt af mörgum stríðum heimsins á sólarhring en núna á það að taka 100 daga og ég er ekki að sjá hvað er í raun að gerast til að ná því markmiði.

Það er gott að hann setti bremsu á stjórnlaust flæðið úr bandaríska alríkiskassanum og strokaði út allskyns áherslu á kynhneigð og húðlit þegar á að manna stöður. En það er slæmt að vera hjakkast í nánustu bandamönnum og raunverulegum vinum Bandaríkjanna með látum.

Hvað sem því líður þá var kjör Trump ekki eitthvað einsdæmi á vestrænan mælikvarða þótt það hafi nánast verið fordæmalaust í bandarískum stjórnmálum. Í mörgum ríkjum eru kjósendur að hafna þeirri hugmyndafræði sem hefur verið keyrð af miklu offorsi á okkur seinustu ár. Þjóðverjar munu gera það sama á næstu dögum, rétt eins og Danir, Hollendingar, Svíar, Norðmenn og Ítalir á undan, svo eitthvað sé nefnt.

Trump-áhrifin eru þannig bland í poka - bland af frekjuköstum og skynsemi, árásargirni og friðarviðræðum, klappi á rass og atlögu að nauðgurum, aðhaldi og eyðslu. Yfir það heila samt skárri blanda en það sem áður var við lýði og ég held að við munum sjá það fyrr en síðar ef þá ekki hreinlega nú þegar, óháð magni heilaþvottar.


mbl.is Trump-áhrifin: Minni alþjóðaviðskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband