Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2025

Ráfað um án mælikvarða

Í sérhverri starfsemi er stuðst við mælikvarða. Fyrirtæki reyna að skila hagnaði, heimili reyna að eiga afgang þegar allir reikningar hafa verið greiddir. Verslanir reyna að fjölga viðskiptavinum og opinberar stofnanir reyna að vera röngu megin við núllið í lok fjárlagaársins til að missa ekki af fé við næstu úthlutun.

Mælikvarðar, mælingar, gagnasöfnun og eftirfylgni þegar tölurnar þróast í ranga átt.

Með því móti þarf ekki að treysta á stöðupróf frá útlöndum til að sjá að allt er komið í kalda kol.

Nema í grunnskólum Reykjavíkur auðvitað.

Þar þykir of dýrt og tilgangslaust að prenta út nokkur skrifleg próf til að meta stöðu menntunar. Fyrirtæki sem væri svona rekið væri komið á hausinn ansi fljótt eftir að hafa eytt um efni fram í yfirbyggingu og stjórnendastöður í stað viðskiptaþróunar og aðlögunar á úrvali vöru og þjónustu að síbreytilegum markaði. 

Sonur minn er í gagnfræðiskóla í Kaupmannahöfn. Hann var í stöðuprófi í nokkrum fögum um daginn. Í kjölfarið fer fram mat á því hvar hann er sterkur og hvar þarf að bæta aðeins í. Í lok næsta vetrar, eftir nokkur stöðupróf í viðbót, er úr því skorið hvort hann sé tilbúinn í framhaldsskóla eða þurfi að endurtaka eitthvað á grunnskólastigi. Allt er þetta tekið mjög alvarlega og byggt á ítrekuðum mælingum. Í þessu er engin nýlunda því svona man ég líka eftir mínum grunnskólaárum í Árbæjarskóla þar sem voru tvö próftímabil á ári og meira að segja hægt að velja hægfærð, miðferð og hraðferð í helstu fögum eftir því hvað maður sjálfur taldi við hæfi. Þetta endaði svo á samræmdum prófum sem var mikil stemming í kringum og framhaldsskólar gátu svo nýtt sér einkunnir til að vega og meta hvaða nemendur voru taldir líklegir til að komast í gegnum námsefni þeirra (nema í tilviki þeirra sem gátu kallað þann framhaldsskóla hverfisskóla sinn, en þeir voru flestir dottnir út eftir fyrsta árið og var sennilega ekki gerður neinn greiði með þeim vonbrigðum og sóun á tíma). 

Einfalt, gegnsætt, vel prófað, skilvirkt og - vil ég leyfa mér að fullyrða - hagkvæmt. Gott ef gervigreindin geti ekki séð um megnið af yfirferðinni í dag!

En í Reykjavík verður mats­fer­ill­inn, nýtt sam­ræmt náms­mat, prufu­keyrður í 26 skól­um - einhvers konar hringrás með gátlistum sem ofkeyrðir kennarar eiga nú að bæta á sig ofan á allt annað, gegn því að fá óbreytt laun en kannski aðeins lengri vinnutíma.

Góður maður sagði mér einu sinni frá X-grafinu svokallaða sem sýndi annars vegar einkunnir á stígandi uppleið en námsárangur samkvæmt PISA-prófum á sígandi niðurleið. Það segir ýmislegt um þá blindu vegferð sem grunnskólakerfið hefur verið sett á: Eyðsla upp, laun niður. Einkunnir upp, námsárangur niður. Kennsla aukin, menntun minnkar. Námsskrá lengd, nám minnkað. Samræmd próf tekin út, samræmd rýrnun á grunnskólagöngunni innleidd.


mbl.is Dýr og flókin framkvæmd með „lítinn tilgang“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru það Trump-áhrifin, eða Trump sem afleiðingin?

Mikið er talað um Trump-áhrifin: Það að Trump sé núna að taka á hallarekstri ríkis og skuldsetningu skattgreiðenda, ná stjórn á landamærum, stöðva eiturlyfjasmygl, endurheimta búningsherbergi kvenna, stíga á loftslagshræðsluna ef hún þýðir hærra orkuverð fyrir almenning, veifa tollahamrinum og vona að allir hlýði, og svona mætti lengi telja.

En er Trump ekki miklu frekar afleiðing frekar en drifkraftur? Var hann ekki kosinn af því fólk var orðið þreytt á þvælunni frekar en að vera einhver sem kallaði loksins að keisarinn væri nakinn?

Afurð kjósenda, frekar en frumkvöðull?

Forstjóri sem var ráðinn af starfsmönnum til að leysa ákveðin vandamál frekar en forstjóri sem var ráðinn til að finna upp á einhverjum lausnum?

Ekki töluðu menn um Trump-áhrifin í Hollandi þegar kjósendur þar snéru öllum valdablokkum á hvolf. Eða í Ítalíu, Bretlandi og víðar í Evrópu. Eða þegar kjósendur verðlaunuðu gömlu góðu jafnaðarmannaflokkana á Norðurlöndunum þegar þeir vildu stíga á bremsuna í innflytjendamálum. 

Menn tala stundum eins og að það séu stjórnmálamenn frekar en kjósendur sem ráða ferðinni. Það er kannski rétt í sumum tilvikum - þegar almenningur er svo innilokaður í rétthugsun og ást á eigin siðfræði að það þarf sterka leiðtoga til að stíga fram og skora þá á hólm - en almennt held ég að kjósendur séu nokkurn veginn við stjórnvölinn. Þeir geta ráðið örlögum sínum. Í Reykjavík velja þeir að lifa á lánum og borga fyrir það vexti, en í Argentínu velja þeir að herða beltið í eitt ár eða tvö til að losna við slíkt. Í Kanada velja þeir að láta taka af sér málfrelsið, í Bandaríkjunum velja þeir að endurheimta það.

Ég veit að á Íslandi, þar sem yfir 90% fólks vill alltaf eins vinstrisinnaðan forseta Bandaríkjanna og hægt er, óháð því hver er í framboði, er mikil óánægja með Trump. En kannski er Trump bara afurð frekar en fyrirbæri í sjálfu sér. Afurð sem kjósendur bjuggu til svo leysa mætti vandamál sem plöguðu þá sífellt meira. Nokkuð sem er erfitt fyrir þegna annarra ríkja að setja sig inn í.

Það held ég. Trump-áhrif? Nei. Trump til að leysa vandamál kjósenda, að beiðni þeirra? Já. 


Nýja gaseldavélin

Alltaf þegar ég held að hið opinbera geti ekki lengur komið mér á óvart með botnlausri sóun á almannafé þá afsannar það þá hugsun.

Núna er okkur sagt frá því að endurbætur á íbúðarhúsi forseta Íslands kostuðu rúmar 120 milljónir. Í upphaflegri kostnaðaráætlun var gert ráð fyrir 86 milljónum.

Ekki kemur fram hvort krossinn hafi fengið að snúa aftur á kirkju Bessastaða, en látum það eiga sig í bili.

Hluti kostnaðarins fólst í því að breyta barnaherbergjum í herbergi fyrir uppkomin börn milljónamærings sem virðast ekki geta flutt að heiman. Látum það líka eiga sig.

Rúm­ar 12 millj­ón­ir fóru í lýs­ing­ar, gard­ín­ur og raf­magns­vinnu. Magnað.

Ný gaselda­vél var keypt fyr­ir tæpa hálfa millj­ón króna og ís­skáp­ur og fryst­ir kostuðu um 780 þúsund. Dýrasta gaseldavélin hjá Heimilistækjum kostar 350 þúsund krónur og dýrasti ísskápurinn kostar 600 þúsund krónur, svo menn hafa leitað lengra eftir tækjum sem voru nógu góð fyrir forsetann, forsetamakann og uppkomnu börnin. Með öðrum orðum: Bara allradýrustu tækin eru nógu góð fyrir forseta Íslands, sem hefur það að aðalstarfi að skrifa langar en innihaldsrýrar ræður og klippa á borða.

Ég veit að allir vita að hið opinbera fer alltaf vel fram úr öllum kostnaðaráætlunum svo nemur tugum prósenta. En að uppfæra heimili ætti nú að vera létt verk að áætla og jafnvel standa við þá áætlun, jafnvel þótt lagnavinna reynist erfið. Ef það er ekki hægt að skipta um lagnir og rafmagn og endurnýja nokkur heimilistæki, húsgögn og gardínur án þess að fara 40% yfir kostnaðaráætlun, sem var vægast sagt rífleg til að byrja með, þá hefur hið opinbera í eitt skipti fyrir öll sýnt og sannað að því er skítsama um nýtingu á launafé þínu.

Og þér jafnvel líka, en það kemur í ljós.


mbl.is Framkvæmdir á Bessastöðum kostuðu um 120 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski best að gera ekkert

Borgarstjórnarmeirihlutinn er sprunginn og mikið er rætt um að mynda nýjan meirihluta sem fyrst. Ekki gangi að borgin sé án borgarstjórnar. 

Eða hvað?

Halda skattgreiðslur ekki áfram að berast og starfsmenn borgarinnar að fá laun? Halda tannhjólin ekki áfram að snúast?

Það er a.m.k. reynsla Belga sem voru án ríkisstjórnar í nálægt því 600 daga fyrir ekki mörgum árum síðan. Ekki var blásið í ný gæluverkefni á þeim tíma og mig minnir að ég hafi lesið grein um að ástand efnahagsins hafi hreinlega batnað á þessu tímabili. 

Kannski myndun nýs meirihluta sé óþarfi. Það blasir við að afstaða kjósenda í borginni til flokkanna í ráðhúsinu hefur gjörbreyst á þremur árum. Borgarfulltrúar eru vissulega í umboði kjósenda en þessir kjósendur hafa skipt um skoðun.

Kannski menn geti hreinlega róað sig. Að vísu vofir stanslaust greiðsluþrot yfir borginni sem þarf í sífellu að skvetta nýjum lántökum á, á yfirdráttavaxtakjörum, en það getur þá bara haldið aðeins áfram. Það er ekki eins og ný borgarstjórn sé að fara gera nokkuð af viti til að laga það ástand á einu ári.

Þetta er a.m.k. hugmynd á borðinu: Að mynda ekki nýjan borgarstjórnarmeirihluta sem hvort eð er afspeglar ekki afstöðu kjósenda enda þeir tilbúnir að breyta atkvæðum sínum í stórum stíl við næsta tækifæri.


mbl.is Skoða meirihlutasamstarf með öðrum flokkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin reynir að fela brunarústir sínar

Ekki vantar stjórnmálaskýrendur í íslenskri umræðu og eru sumir betri en aðrir. Ég gæti nefnt nokkra mjög góða en ætla þess í stað að ræða einn vondan: Pistlahöfund pistla sem birtast nafnlaust undir heitinu Orðið á götunni, á DV. 

Þar heldur á penna stækur andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og á meðan það er í sjálfu sér allt í lagi þá er verra hvernig viðkomandi reynir að skrifa eins og hann sé að fjalla um raunverulegt spjall manna á milli, sem er í raun bara hugrenningar eins manns. 

Tökum dæmi þessa tilvitnun úr pistli sem fjallar um endalok meirihlutasamstarfs R-listaflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur (í bili):

Orðið á götunni er að í raun sé verið að veiða Sjálfstæðisflokkinn í gildru og ef um hannaða atburðarás sé að ræða sé allsendis óvíst að sú hönnun komi úr ranni Framsóknar. Í Samfylkingunni brosi fólk yfir þeirri tilhugsun að Sjálfstæðismenn verði dregnir til ábyrgðar fyrir stjórnartíð Samfylkingarinnar í kosningunum að ári.

Það kæmi mér mjög á óvart ef einhver innan Samfylkingarinnar hugsaði með sér að Samfylkingin hefði staðið sig svo illa í borgarstjórn að það væri gott að Sjálfstæðisflokkurinn tæki á sig allar sakir fyrir stjórnarglöp í borginni - flokkur sem hefur verið við stjórnvölinn í borginni í 2-3 ár af seinustu 30 árum.

Kannski er það rétt. Kannski skammast Samfylkingarfólk sín fyrir 30 ára hnignun borgarinnar, óendanlegar skuldirnar, yfirdráttinn sem vex í sífellu, skatta í hámarki, innviði í molum og borgarfyrirtæki sem hafa ekki efni á fjárfestingum vegna kostnaðar við öll gæluverkefnin. 

Kannski Samfylkingarfólk andi í raun léttar.

En er ekki ólíklegt að nokkur Samfylkingarmaður myndi viðurkenna það fyrir öðrum eða jafnvel bara sjálfum sér? Og hvað þá við pistlahöfund sem finnur upp á orðrómum!

Ég útiloka nú samt ekki að menn viðurkenni það opinskátt innan Samfylkingarinnar að það er mikill léttir að þurfa ekki að svara fyrir neitt í næstu kosningum í Reykjavík - að geta bent á borgarstjórn sem hefur starfað í eitt ár af þrjátíu ára óstjórn og hreinsað ónýtt mannorðið með því.

Kjósendur í Reykjavík gætu jafnvel fallið fyrir slíku.

Ef svo fer þá er ekki annað hægt að segja við Samfylkinguna: Vel spilað!


Meirihluti um nákvæmlega hvað?

Meirihlutinn í Reykjavík hefur liðast í sundur og þótt fyrr hefði verið. Þeir sem telja 7 ára samstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri-grænna í Stjórnarráðinu hafa varað of lengi og ekki verið um ekki neitt nema halda völdum hafa væntanlega mikla samúð með þeim sem finnst R-listaáratugirnir hafa verið orðnir alltof margir, og þá sérstaklega Dagsárin þar sem borgin keyrði sig viljandi ofan í skurð (þótt sú vegferð hafi hafist mun fyrr).

Endalok R-listans vara vonandi lengur í þetta sinn en þau stuttu hlé sem R-listinn fékk árin 2006-2007 og 2008-2010. Ekkert er samt öruggt í þeim efnum. Kjósendur borgarinnar láta ítrekað lokka sig með gylliboðum og telja sig vera að kjósa breytingar en það er sama hvernig innihaldslýsingunni er breytt, bragðið breytist ekkert. R-listaflokkarnir tala sig saman í valdastöður óháð því hvort þeir eru sammála um grunnatriðin eða ekki, eða eins og borgarstjóri lýsir því:

Ein­ar seg­ir í sam­tali við blaðið að á ýmsu hafi strandað í gamla meiri­hlut­an­um og nefn­ir til dæm­is skipu­lags­mál, Reykja­vík­ur­flug­völl, leik­skóla- og dag­gæslu­mál og ákv­arðanir varðandi rekst­ur. 

Um hvað voru flokkarnir eiginlega sammála? Mér sýnist ekki vera neitt eftir. Samt sátu þessir flokkar saman (með einhverjum nafnabreytingum en óbreyttu innræti), fund eftir fund, ár eftir ár, áratug eftir áratug, og þóttust vera að stjórna á meðan skólpið flæddi í sjóinn, bílar sprengdu dekk í holum á götunum og myglan breiddi úr sér eins og farsótt.

Farið hefur fé betra en R-listinn, en vissara að stilla bjartsýninni í algjört hóf. Vonandi myndast ný borgarstjórn sem getur unnið saman að skipulags- og rekstrarmálum, er sammála um nauðsyn Reykjavíkurflugvallar og þorir að líta yfir grindverkið, til nágrannasveitarfélaga, eftir innblæstri í dagggæslu- og leikskólamálum.


mbl.is Lofaði kjósendum að knýja fram breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á þróunaraðstoð að þróa?

Þróunaraðstoð: Framlag ríks lands til vanþróaðs ríkis t.d. með fjárhagsaðstoð eða sérfræðiþjónustu, þróunarhjálp, samkvæmt íslenskri orðabók. Einfalt, ekki satt? 

Í hvað rennur þróunaraðstoð? Í lyf, flóttamannabúðir, bólusetningar, flugnanet, vegagerð, orkuver, klæðnað og mataraðstoð, meðal annars. Upphæðirnar eru ekkert grín. 224 milljarðar Bandaríkjadollara árið 2023, hvorki meira né minna. Það er hægt að kaupa margar vítamínpillur og kennslubækur og annað slíkt fyrir slíkar fjárhæðir!

En það er því miður ekki svo að öllu þessi þróunaraðstoð renni í aðstoð fyrir stríðsþjáða, flóttamenn, sjúka og ólæsa. Þetta er að koma sífellt betur í ljós núna eftir að bandarísk yfirvöld bremsuðu allar greiðslur til slíkrar aðstoðar í 90 daga. Jú, vissulega stöðvuðust við það einhverjar lyfjasendingar en nokkuð annað gerðist í miklu meiri mæli. Bankareikningar „óháðra“ fjölmiðla í Bandaríkjunum, manneskjusmyglara í Mexíkó og rannsóknarstofa að stunda ólöglegar rannsóknir tæmdust eins og á einni nóttu. Tilviljun? Kannski. En líklegra er að stórar fjárhæðir eyrnamerktar þróunaraðstoð hafi verið að renna í gæluverkefni ráðandi afla - til samtaka sem sögðu og gerðu það sem var yfirvöldum að skapi en yfirvöld gátu ekki sagt eða framkvæmt beint.

Ég ætla ekki að leiða lesendur hérna ofan í kanínuholuna enda óþarfi. Svindlið og sukkið er að afhjúpa sig dag frá degi og verður að lokum gert upp. Eftir það verður þróunaraðstoð áfram veitt samkvæmt laganna bókstaf í Bandaríkjunum, en ekki lengur til smyglara og áróðursfjölmiðla eða í eflingu á hættulegum veirum.

Eitthvað svipað mætti kannski gera víðar, svo sem í tilviki evrópskrar eða íslenskar þróunaraðstoðar. Hvað ætli mörg svokölluð „óháð“ grasrótar- eða hagsmunasamtök yrðu að segja upp starfsfólki sínu? Hvað yrði um mútugreiðslur íslenskra aktívista til hryðjuverkamanna á landamærum Palestínu og Egyptalands? Maður spyr sig þegar vafi leikur á um gegnsæið.

En er Trump ekki bara genginn af göflunum? Eða hægri hönd hans, Elon Musk? Menn gætu alveg haldið því fram en mega um leið hafa í huga að fyrirtæki endurskoða reglulega hverja krónu og hvert hún fer, og væntanlega þú líka þegar þú skoðar heimilisbókhaldið þitt. Er einhver áskrift stanslaust í gangi sem þú færð ekkert út úr? Lokum henni! Lekur stanslaust úr heitavatnskrananum? Lokum á það! Ertu að borga fyrir líkamsrækt sem þú stundar ekki? Byrjaðu að mæta, eða segðu upp áskriftinni!

Það er kominn tími til að taka heimilisbókhaldið á ríkiskassann.


Guðrún Asp­e­lund sótt­varna­lækn­ir seg­ir ...

Ennþá nenna blaðamenn að birta fréttir sem innihalda orðaröðina Guðrún Asp­e­lund sótt­varna­lækn­ir seg­ir ...“, og lengi skal þann spámann prófa á meðan spádómarnir rætast ekki.

Beljur prumpa og breyta loftslagi Jarðar, og ber að aflífa.

Kjúklingar sjúga í sig allar heimsins veirur og bera í menn og drepa, og ber að aflífa.

Við drepum samt ekki villt dýr sem prumpa jafnvel svipað mikið og beljur og fá sömu veirur og kjúklingar. Loftslagið skynjar kannski muninn, og bóluefnin svokölluðu.

En óháð því þá finnst mér eitt blasa við: Þessir spekingar sem eiga að vera fylgjast með raunveruleikanum, og vísindum sem reyna í raun að rannsaka raunveruleikann, eru sofandi í tíma. Þeir tala í fyrirsögnum. Það er óaðgreinanlegt að lesa svokölluðu sérfræðingaálit embættismannanna og fyrirsagnir æsifréttamiðla eins og DV, CNN, RÚV og BBC. 

Það er því nothæft að fylgja svolítilli þumalputtareglu. Hún er sú að ef Guðrún Asp­e­lund sótt­varna­lækn­ir seg­ir“ eitthvað, að þá er jafnvel hægt að reikna með að andstæðan sé gott viðmið til að athafna sig í heiminum.

Því miður, en góð regla.


mbl.is Smit í spendýrum eykur líkur á að fólk smitist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða tollar hafa hækkað?

Spekingar í hagfræði tjá sig nú mikið um slæm áhrif tolla. Já, tollar eru slæmir, hækka vöruverð, skekkja samkeppni og draga úr henni, leiða til hærra verðlags (verðbólga - verðhækkanir sem afleiðing á auknu peningamagni í umferð - er nokkuð annað), auka á togstreitu og fita ríkissjóði sem þurfa frekar á megrun að halda en hitt.

En skattar hafa sömu áhrif. Virðisaukaskattur er skattur sem eykur verð, eins og nafnið gefur til kynna. Skattar á fyrirtæki leiða til hærra verðlags. Skattar á laun draga úr kaupmætti. Skattar á fjármagnstekjur hækka húsaleigu. Geta spekingarnir ekki tjáð sig um það líka?

Annars er allt þetta tal um slæm áhrif tolla auðveldlega rakið til þess að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, veifar tollum eins og hamri til að berja ríki til hlýðni, og ef Kína er undan skilin hefur hann fengið sínu fram. Landamæraverðir eru mættir og ólöglegir innflytjendur fá nýja áfangastaði. Menn geta deilt um markmiðin, en Trump er að fá sínu framgengt. 

Niðurstaðan er sú að tollar hafa mjög lítið og í fáum tilvikum hækkað.

Áhyggjur spekinganna eru skiljanlegar og góðra gjalda verðar, en þeir eru að tala um eitthvað sem er ekki að eiga sér stað. 

Það sem er hinsvegar að eiga sér stað er að skattheimta er of mikil og að valda nánast öllum sömu neikvæðu afleiðingunum og tollar. Kannski vilja spekingarnir skatta, því þeir borga launin þeirra, en ekki tolla, því þeir hækka verðlagið á jakkafötum og rafmagnsbílum.

Maður spyr sig.


mbl.is Lífskjör munu versna ef tollar verða lagðir á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða gata?

Ég ætti kannski að breyta nafninu á þessari síðu. Hún kallast í dag Sjálfkrýndi samfélagssérfræðingurinn, sem er svolítið skot á sjálfan mig fyrir að telja mig vita allt mögulegt um samfélagið. Ég veit sumt, en ekki allt. Ég get ekki kallast sérfræðingur, en kalla sjálfan mig það, og það er líka til gamans gert.

En hvað ef ég kallaði þessa síðu: Það sem fólk segir? Eða: Orðrómar við kaffivél valdsins? Væri það ekki mjög sannfærandi? Lesendur fengju það á tilfinninguna að ég væri ekki að rembast við að sinna launavinnu, börnum og öllu sem tengist því heldur væri viðstaddur kaffivélar yfirboðara okkar, eða á stanslausu flakki á milli kaffihúsa að hlusta á fólk af ýmsu tagi segja mér trúnaðarmál.

Kynnum þá til leiks pistlaflokk DV: Orðið á götunni!

Væntanlega pistlaflokkur þar sem orð fólks á götunni er skolað upp á yfirborðið! Orðin sem fólkið vill raunverulega segja en þorir ekki! Orðanna sem skilja á milli þess sem okkur er sagt frá og þeirra sem eru raunverulega sögð!

Eða bara fín fyrirsögn fyrir skoðanapistla manns með ákveðinn pólitískan boðskap sem hann mótaði heima hjá sér, eftir lestur á samfélagsmiðlum, án þess að fara nokkurn tímann á götuna.

Kannski. Hver veit. Það eru engin augljós merki um að mín túlkun sé röng, en kannski er hún það.

Að þessu sögðu hef ég ákveðið að breyta ekki heiti þessarar síðu í „Sannar sögur úr Stjórnarráðinu“ eða „Væflast á Kaffi Vest“ eða „Úr bóli Brussel“ eða neitt slíkt. Ég krýndi mig sjálfur, þú þarft ekki að beygja þig fyrir því.

Eftir stendur að því er ekki svarað frá hvaða götu „Orðið á götunni“ kemur frá. En sennilega frá heimaskrifstofu manns sem fer lítið út á götu, a.m.k. ekki til að labba. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband