Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2025

Stækkkunargler á stærri vanda

Ímyndum okkur mann með sjúkdóm. Það sést lítið á honum að hann sé þjakaður af sjúkdómi. Ekkert að litarhaftinu. Hann virðist vera orkumikill. Þegar hann segir læknunum að það sé eitthvað að þá trúa þeir honum ekki og senda hann heim. Á hverjum degi nær sjúkdómurinn til fleiri og fleiri líkamshluta. 

Dag einn fellur hann til jarðar og þarf að fara á sjúkrahús og jafnvel gjörgæslu. Hann tórir en er nú orðinn svo alvarlega veikur að baráttan verður löng.

Ímyndum okkur svo annan mann. Hann fær sama sjúkdóm en bregst öðruvísi við og verður strax mjög lasinn og fær strax þá athygli sem hann þarf á að halda til að komast aftur á rétta braut.

Svona sé ég fyrir mér íslenska hagkerfið þegar ég les um vandræði Landsvirkjunar með að fá nauðsynleg leyfi. Fyrirsagnir taka fyrir vandræðin, ráðherra leggur strax fram frumvarp til að liðka til í reglugerðarfrumskóginum og meira að segja Hæstiréttur sýgur málið beint til sín úr héraðsdómi til að sjá hvað í ósköpunum er á seyði. Þegar sjúkdómurinn sem skrifræðið er fyrir samfélagið nær til Landsvirkjunar verða áhrifin svo stór og augljós að allir stökkva til.

Berum þetta saman við eiganda litla fyrirtækisins. Hann fær líka sínar neitanir, sínar beiðnir um að fylla út og sækja um hitt og þetta og sínar heimsóknir frá yfirvöldum sem rukka hann vel fyrir greiðann. Hann hefur þurft að hætta við áform eða seinka þeim gegn ærnum kostnaði.

En höfum eitt á hreinu. Vandamál hans eru þau sömu og Landsvirkjunar en af því að samfélagið, sem samanstendur aðallega af smærri þátttakendum, virðist vera lifandi og heilbrigt þá gerir enginn neitt. Ekki fyrr en það er orðið of seint auðvitað. 

Það væri óskandi að stjórnmála- og blaðamenn skildu þetta. 


mbl.is Leyfismálin valda orkuskorti á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innblástur frá dönskum fasistum (jafnaðarmönnum)

Íslendingar hafa undanfarin án haldið úti galopnum landamærum þar sem barnaþuklarar og ofbeldismenn fá að hreiðra um sig við strætóskýli og skólalóðir til að fylgjast með ungum stelpum og elta þær heim. 

Ekki slæmt, er það? Íslendingar eru jú umburðalyndir og mannvinir miklir.

En sumum þykir þetta vera orðið gott. Útlendingahatarar, fasistar og rasistar fara þar fremstir í flokki. Þeir vilja ekki opin landamæri og endalaust flæði peninga í þjónustu og uppihald á fólki sem hefur lítið fram að færa og þeim mun meira að taka. Rasistarnir og fasistarnir vilja mögulega frekar huga að gamla fólkinu og þeim sem eiga um sárt að binda meðal félaga sinna í samfélaginu. Fasistinn er alveg úr takt við pólitíska rétthugsun, svo mikið er víst.

En kemur þá til bjargar danski fasistinn! Yfirleitt kallaður jafnaðarmaður og er við völd í fasistaríkinu Danmörku. 

Hann segir:

Danmörk ætti ekki að taka á móti fleiri útlendingum en við getum samþætt. Það er afar mikilvægt að við höfum getu og orku til að samþætta þá mörgu sem hafa komið til Danmerkur frá löndum í Miðausturlöndum og Afríku og hafa enn þörf fyrir samþættingu.

**********

Danmark skal ikke modtage flere udlændinge, end vi kan integrere. For det er helt afgørende for, at vi har evne og overskud til at integrere de mange mennesker, der igennem tiden er kommet til Danmark fra lande i Mellemøsten og Afrika, og som fortsat har et integrationsbehov. 

(Heimild)

Skamm, rasisti! Þú nefnir þarna Miðausturlönd og Afríku sérstaklega! Þarf ekki að samþætta Pólverjana og Indverjana og Bretana og Íslendingana og aðra líka?

Greinilega ekki. Þeir fylla ekki fangelsin. Kannski það sé ágætt viðmið.

En það sem ég vil koma á framfæri hérna er að íslenskir fasistar og rasistar þurfa ekki að leita langt eftir innblæstri. Danskir fasistar og rasistar eru við völd í Danmörku og nokkuð vinsælir þegar kemur að innflytjendamálum. Lykillin er bara að kalla sig jafnaðarmann sem vill verja samfélag sitt.

Auðvelt og skilvirkt og auðskiljanlegt. Og vonandi þverpólitískt, nú þegar er búið að sópa Vinstri-græna og Pírata út úr Alþingishúsinu.


Eru Danir rasistar og fasistar?

Hægri-öfgaflokkar, svokallaðir, vilja takmarka streymi flóttamanna og hælisleitenda inn í velferðarkerfi ríkja sinna. Þeir eru rasistar og fasistar. Lýðskrumarar. Ekki stjórntækir. Þá ber að fordæma og forðast.

Nema auðvitað að þeir kalli sig danska og sósíaldemókrata. 

Blaðamaðurinn Alex Berenson bendir á að danska leiðin undanfarin ár er orðin að fordæmi fyrir flokka víða í Evrópu. Danir hafa séð að sér þegar kemur að því að breyta heilu hverfunum í framandi menningarsvæði, bókstaflega. Þeim er að takast að lokka innflytjendur og afkomendur þeirra af fyrstu og annarri kynslóð inn á vinnumarkaðinn. Þeir sem þáðu bætur borga skatta. Þeir sem brutu lög vinna heiðarlegan vinnudag. 

Öfga-hægrið í Evrópu, á tungutaki blaðamanna, eru danskir sósíaldemókratar. 

Sósíaldemókratar unnu margt með þessu. Þeir útrýmdu vaxandi samkeppni við aðra flokka með því að stilla sig inn á breytingar í vali kjósenda. Þeir tryggja völd sín og áhrif. Þeir halda sínu. Það kæmi mér ekkert á óvart ef næsta ríkisstjórn Þýskalands gerði eitthvað svipað, svona í ljósi þess að allt Austur-Þýskaland og að meðaltali fimmtungur Þjóðverja er að kjósa svokallaða rasista og fasista. 

Svona stefnubreytingu geta jafnaðarmenn gert með einfaldri breytingu í tungutaki. Velferðarkerfi? Já, auðvitað. Fyrir skattgreiðendur og vinnandi fólk fyrst og fremst? Að sjálfsögðu. Fyrir allskonar aðra? Nei, helst ekki. 

Þetta tungutak er aðeins byrjað að sleikja íslensk stjórnmál, en varla samt. Íslendingar þurfa að endurtaka mistök annarra frekar en að læra af þeim. Þá það.


Heimatilbúin vandamál í nafni umhverfisverndar

Vestræn samfélög geta verið lausnamiðuð. Menn geta lagt hausinn í bleyti og lagst á árar saman og leyst alveg ótrúleg vandamál. Þannig tókst Íslendingum að fara í næstum því 100% orkuskipti yfir í endurnýjanlega og umhverfisvæna orku með notkun fallvatna og jarðvarma - hið agnarlitla sem eftir er í formi jarðefnaeldsneytis knýr svo hagkvæman flota af bílum og skipum og er til ráðstöfunar sem varaafl. Í evrópsku samhengi hugsa ég oft til Hollendinga sem tekst með tækni og hugviti að flytja út meira af matvælum en nokkurt annað ríki veraldar ef Bandaríkin eru undanskilin, og þeir sem þekkja Holland á landakorti botna ekkert í því hvernig svona agnarsmátt frímerki getur staðið undir slíkri framleiðslu. Þar hefur mönnum líka tekist vel að halda hafinu frá láglendi sínu með notkun áveituskurða, dælukerfa og annarrar tækni.

Hugvitinu eru nánast engin takmörk sett þegar kemur að því að leysa stór og erfið vandamál og sagan er troðfull af dæmum um slíkt.

En hugvitinu má líka beina í andstæða átt: Því að framleiða vandamál. Heimatilbúin, manngerð vandamál. Slík vandamál auka kostnað, draga úr stöðugleika, valda óþægindum og yfirleitt kosta þau líka fleiri auðlindir en gömlu og hagkvæmu lausnirnar vegna innleiðingar á lélegri endingartíma.

Hérna má nefna sem augljóst dæmi alla sóunina og ringulreiðina í kringum sorphirðu og -förgun, að ónefndum kostnaðinum og óþægindunum, en annað augljóst dæmi er lagning vega. Áður fyrr var hægt að leggja góða og sterka vegi sem entust svo árum skiptir. Í dag grotna vegir niður á nokkrum misserum og viðvörunarskilti sem vara til banvænni hálku nauðsynleg þegar er nýbúið að leggja malbik.

Ég les í skrifum manna sem þekkja til vegamála að hérna séu yfirvöld að búa til stór og mikil vandamál. Ekki má lengur nota steinolíu í malbikið, en hún þornaði hratt og skildi eftir sig sterkt malbik. Þess í stað eru lífolíur notaðar, og þær þorna lítið sem ekkert. Niðurstaðan er lélegur vegur. Er þetta gert í nafni umhverfisverndar og niðurstaðan er sama sóunin og ringulreiðin og gildir í kringum sorphirðu, en að auki er öryggi fólks ógnað. 

Í nánast öllum tilvikum þar sem yfirvöld taka úr sambandi góðar og þaulreyndar lausnir og innleiða í staðinn lélegar og kostnaðarsamar lausnir, gjarnan með stuttan líftíma, þá er hægt að rekja orsökina til umhverfisverndar. Út með góð hráefni, inn með léleg. Út með endingu, inn með grænt bókhald sem segir að loftslaginu sé hlíft. Út með uppbyggingu á innviðum og orkuframleiðslu, inn með hækkandi rafmagnsverð og skerðingar á raforku. 

Menn gera stöku sinnum hlé á þessu rugli, svo sem þegar reisa þarf veggi til að verjast hrauni og halda innviðum í gangi þegar eldsumbrot ganga yfir, en yfirleitt ekki. Óteljandi leyfi þarf frá óteljandi opinberum einingum sem herskáir þrýstihópar geta tafið með endalausum kæruferlum.

Ég velti því fyrir mér hvað þurfi að gerast til að sparka þessa spilaborg niður. Forstjórar og aðrir yfirmenn í atvinnulífinu mættu gjarnan tjá sig meira um raunveruleikann. Kannski vantar frambjóðanda til þings sem kann að halda á vélsög. Eða hvað? Er hið óumflýjanlega gjaldþrot sem er svo sannarlega endastöðin á þessari vegferð eina leiðin út? Vonum ekki.


mbl.is „Þetta er grafalvarleg staða“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átök eru eitt, átök eru annað

Um daginn vogaði íslenskur fjölmiðill sér að birta viðtal við íslenskan mann (með háskólagráðu og prófessoratign, ótrúlegt en satt) sem sagði að átök Rússlands og Úkraínu hafi ekki hafist með innreið rússneskra hermanna inn fyrir landamæri Úkraínu, heldur fyrr!

Hann bendir á að Trump sé væntanlega að vísa til átaka sem voru í Úkraínu áður en innrás Rússa hófst í febrúar 2022. „Þessi átök snérust meðal annars um jafnan rétt rússneskumælandi borgara í Austur-Úkraínu á tungumáli sínu og réttinn til að rækta sína menningu rétt eins og aðrir borgarar Úkraínu, sem hafa úkraínsku að móðurmáli. Mín skoðun hefur alltaf verið sú að vinir Úkraínu í Evrópu og Bandaríkjunum hefðu átt að hjálpa stjórnvöldum í Kiev að skilja þetta til að lægja öldurnar. Eftir að innrás Rússlands hófst í febrúar 2022 var Úkraínumönnum sagt af vestrænum leiðtogum að sigra Rússland á vígvellinum og við sjáum nú afleiðingarnar, sem Trump er að vísa til og hann gagnrýnir nú harðlega.“

Hér er ekki verið að réttlæta innreið rússneskra hermanna inn fyrir landamæri Úkraínu. Hérna er ekki verið að réttlæta sprengjuregn Rússa á innviði og óbreytta borgara í Úkraínu. Hérna er ekki verið að segja að sökin sé öll á Úkraínu og að Rússar séu saklausir baráttumenn fyrir réttindum og frelsi og annað gott.

Nei, hérna er einfaldlega verið að benda á að innreið rússneskra hermanna inn fyrir landamæri Úkraínu hafi haft talsverðan og veigamikinn undanfara.

Ég er ekki að ætlast til mikils af stjórnmálaskýrendum. Alls ekki. Það er bara uppspretta vonbrigða. En þegar rússneskir hermenn árið 2022 gengu yfir landamæri Úkraínu þá var það ekki af því bara, og til að rússnesk yfirvöld gætu borað göt á fjárhag ríkisins til að sjá alla peningana fossa út. Nei, það voru ástæður og undanfarar sem rekja rætur sínar næstum því 10 ár aftur í tímann.

Ég lýsi ekki yfir stuðningi mínu við neinn aðila í átökum Úkraínu og Rússlands. Ég veit að innrás Rússa var viðbragð við einhverju sem var viðbragð við einhverju öðru sem var viðbragð við einhverju öðru, og viðbrögð í báðar áttir. Á einhverjum tímapunkti komu evrópsk ríki að til að stilla til friðar, og á öðrum til að vopna annan aðilann. 

En ég veit að hörmungarnar í Úkraínu, sem eiga sér stað í dag, eru ekki án undanfara.

Þetta sagði loksins einhver á íslensku við íslenskan fjölmiðil sem ákvað að birta slík orð. Það er kannski góð byrjun. Byrjun á ferlinu að friði, eða hvað?


Lög og framkvæmd

„No Eastern European and Middle Eastern Immigrants,“ stóð skýrum stöfum í starfsauglýsingu sem menn nenna að mynda sér skoðun á. Á það er bent í frétt á að ekki megi mismuna eftir þjóðerni eða öðru slíku og óhætt að segja að starfsauglýsingin geri einmitt það. Um leið má benda á að þannig minnkar atvinnurekandinn úrvalið sem úr er að velja og þarf sennilega að borga meira fyrir vikið vegna minni samkeppni, en önnur saga.

Annars er það oft svo að lög eru eitt og framkvæmd annað. Þannig enda yfir 90% skilnaðarbarna inni á heimili móður sinnar og missa jafnvel samband við föður sinn gegn vilja barns og föður - ólöglegt en framkvæmt á þennan hátt af yfirvöldum.

Menn geta líka mismunað án þess að segja frá því - auglýsa eftir umsóknum og finna svo einhvern galla á öllum umsóknum þeirra sem ekki er sóst eftir að ráða. Góð leið til að sóa tíma allra.

Nú vinn ég sjálfur með fólki af öllum stærðum og gerðum og get sagt fyrir mitt leyti að mér finnst allir Austur-Evrópubúar sem ég hef unnið með vera meðal duglegasta, afkastamesta og klárasta fólki sem um getur. Ef eitthvað þá sækist ég í vinnu þessa fólks, bæði hérna á skrifstofunni en líka í hagnýt verkefni, svo sem flutningshjálp og iðnaðarmannavinnu. Í mínum heimi er glapræði að útiloka fyrirfram fólk frá Austur-Evrópu - fjárhagslega heimskulegt.

En ég er ekki forstjóri fiskvinnslu og veit ekki hvaða óheppilegu atvik liggja að baki útilokun (ef einhver), og í raun alveg sama. Aðrir atvinnurekendur njóta bara góðs af því.

Ég hef líka unnið með mikið af fólki frá Miðausturlöndum og hef ekkert nema gott um það að segja. Þar er líka að finna hæfileika sem ég tel að séu verðmætaskapandi og væri kjánalegt að útiloka frá úrvalinu fyrirfram.

En aftur: Ég er ekki forstjóri fiskvinnslu.

Kannski er gott að vita að flest fólk sem hrópar hátt telur sig vera laust við alla fordóma, taki við öllu og öllum opnum örmum, sjái ekkert nema það góða í öllu fólki, alhæfi aldrei um hópa byggt á nokkrum skemmdum eplum og hafi lært það á lífsleiðinni að ekkert annað sé í boði en að vega og meta allt og alla á sama mælikvarða sanngirni og réttlætis. Ranghugmyndirnar finnast þá þar líka, eins og hjá öllum öðrum.


Gott að hafa góða tollverði þegar yfirvöld framleiða glæpafaraldur

„Það er ein­fald­lega mik­il­vægt fyr­ir sam­fé­lagið að toll­verðir og lög­regla standi vakt­ina á landa­mær­um, ekki síst þegar litið er til þró­un­ar mála á vett­vangi skipu­lagðrar glæp­a­starf­semi, hryðju­verka, man­sals og ólög­legra inn­flytj­enda,“ seg­ir Guðbjörn Guðbjörns­son, formaður Toll­v­arðafé­lags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Aðeins fyrr í viðtalinu segir sami maður: „Þar nefni ég til dæm­is leit í pósti sem berst til lands­ins. Toll­gæsl­an á Kefla­vík­ur­flug­velli er með besta ár­ang­ur á Norður­lönd­un­um og nú er ég ekki að tala um miðað við höfðatölu eins og alltaf er gert, held­ur hrein­lega í magni hald­lagðra fíkni­efna.“

Já, svo sannarlega er mikilvægt að gott fólk vakti landamærin og smygl og mansal og annað slíkt. Ísland er með íbúafjölda á við Árósa í Danmörku og tekst samt að sjúga sig sín meira af smygli en öll önnur Norðurlönd, án þess að leiðrétta fyrir höfðatölu.

En datt einhverjum í hug að velta fyrir sér ástæðunum fyrir þessu flæði af allskonar efnum og þrælum til Íslands?

Í boði hvers er það?

Ekki kemur fram að Íslendingar stöðvi stærra hlutfall smyglsins en önnur Norðurlönd, og er sennilega svipað og í öðrum ríkjum nema verðlag á efnum og þrælum sé hærra en í öðrum Norðurlöndum (ákveðið tap í smygli er reiknað inn í verðið af smyglurum og það skilar sér svo í verðlagið).

Er kannski er klapp á axlir íslenskra tollvarða - vafalaust verðskuldað þótt mín persónulega reynsla af þeim sé frekar vafasöm - í raun áfellisdómur fyrir íslensk yfirvöld, þeirra innflytjendastefnu og þeirra löggjafar í efnainnflutningi.

Ég þekki ekki svarið, en ekki hef ég séð tilraun til að útvega það.

Blaðamennska óskast.


mbl.is Grannþjóðir undrast árangurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel á minnst, drengirnir voru af erlendu bergi brotnir

Í frétt sem maður vonaði að væri frá útlöndum en ekki Smáralind í Kópavogi segir að sex drengir hafi rænt þann sjöunda og hirt úlpu og rándýr heyrnatól. Vinur þolandans hafi náð að hlaupa í burtu og hringja á lögregluna. Ekki kemur fram hvort öryggisverðir í verslunarmiðstöðinni hafi komið að gagni en svo virðist ekki vera. 

Í blálokin segir í frétt mbl að gerendur séu af erlendu bergi brotnir. Í endurbirtingu á Vísi er sú setning þurrkuð út á meðan orðalagið er að öðru leyti keimlíkt. Aðrir miðlar virðast ekki sýna þessu máli áhuga, a.m.k. ekki enn sem komið er.

Hér er auðvitað öllu snúið á haus. Uppruni ræningjanna er afskaplega mikilvægur, jafnvel mikilvægari en aldur þolanda og ránsfengurinn. Íslendingar eru að flytja inn siði og háttarlag sem íbúar á meginlandi Evrópu og Skandinavíu hafa flutt inn áratugum saman og kjósendur eru loksins byrjaðir að refsa fyrir. 

Auðvitað ræna Íslendingar líka, en rán af þessu tagi hefur ekki bara þann tilgang að komast yfir eigur annarra heldur að auki að niðurlægja. Rán um hábjartan dag, á svæði þar sem eru öryggisverðir og sægur vitna, er hin stóra niðurlæging á fórnarlambinu. Niðurlægingarrán, sem á sænsku kallast förnedringsrån en Danir kalla ydmygelseskriminalitet og tengja við innflytjendur frá eða með rætur til Arabaríkja.

Úlpan hefur sennilega endað í ruslinu, jafnvel með heyrnatólunum sem ræningjar vissu ekki af á meðan á ráninu stóð. 

Þetta er kjarni málsins og hið fréttnæma en ekki eitthvað aukaatriði sem blaðamaður getur valið að nefna eða sleppa því. Niðurlægingarglæpir eru hluti af glæpaumhverfi ákveðinna borga og borgarhluta þar sem er búið að skipta út innfæddum í stórum stíl fyrir fólk af arabískum uppruna, og hafa nú skotið rótum í íslensku samfélagi, í verslunarmiðstöðvum og skólum, í strætisvögnum Reykjanesbæjar og sennilega mun víðar.

Viðbragðið hingað til hefur verið að láta eins og ekkert sé en ætti í raun að kalla á fleiri öryggisverði, aðgerðaáætlanir yfirvalda og stjórnenda og auðvitað lögreglu sem þarf að vinna markvisst og með réttar upplýsingar til að gera eitthvað gagn. Kannski eitt símtal til danskra yfirvalda gæti verið góð byrjun?


mbl.is Hópur drengja rændi 15 ára pilt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig verða fréttir fjögurra ára gamlar?

Ég skil að sumu leyti hik blaðamanna þegar kemur að því að fjalla um alvarleg mál. Þeir vilja ekki láta kalla sig samsæriskenningasmiði, falsfréttamenn og boðbera rangupplýsinga eða hvað það nú heitir. Þeir vilja ekki velta við steinum yfirvalda sem eru jú lýðræðislega kjörin og stunda gagnsæ og heiðarleg vinnubrögð. Hið sama gildir um aðra blaðamenn og opinberar stofnanir - ekkert að sjá þar og hægt að treysta yfirlýsingum þeirra. 

Nema hvað. Svona virkar raunveruleikinn ekki.

Yfirvöld stunda leynileg samsæri og gera allskonar samninga fyrir hönd almennings sem almenningur fær enga vitneskju um. Opinberir starfsmenn ljúga og reyna að koma höggi á saklausa borgara. Sumir blaðamenn fyrirlíta ákveðna einstaklinga og fyrirtæki þeirra og gera að þeim atlögu. Ef aðhaldið hverfur, svo ekki sé minnst á áhuga yfirvalda og ákæruvalds, þá freistast sumt fólk hvar sem er til að ganga lengra og lengra og valda sífellt alvarlegri skemmdarverkum.

Þegar þetta er sagt er áhugavert að Morgunblaðið hafi nú loks sýnt áhuga á byrlun Páls Steingrímssonar, sem virðist hafa verið liður í atlögu blaðamanna og opinberrar stofnunar að sjálfstæðu fyrirtæki og stjórnendum þess. Lesendur Páls Vilhjálmssonar, fyrrum blaðamanns, og Fréttarinnar og Útvarps Sögu, og að einhverju leyti áskrifendur Brotkast.is, hafa fylgst með þessu byrlunarmáli svo mánuðum og misserum skiptir og væntanlega flestir hrist hausinn ítrekað yfir því að helstu leikarar í því sjónarspili séu enn þann dag í dag í góðum störfum og geta labbað um göturnar eins og heiðvirðir borgarar. 

Kannski hefur Morgunblaðið núna ákveðið að nýta krafta sína sem stærri fjölmiðill til að bora djúpt í þetta mál og moka öllum beinagrindunum úr skápnum, og með sínar ástæður til að gera það. Kannski missir blaðið áhugann. Þetta kemur í ljós. En málið er ekkert einsdæmi. Óteljandi önnur mál, sem stærri fjölmiðlar hafa engan áhuga á en þeir minni hafa fjallað mikið um, bíða álíka athygli. Dettur mér í hug veirusprauturnar og fórnarlömb þeirra sem augljóst mál sem þarf að borga dýpra í, en alls ekki það eina.

Kannski er stóri lærdómurinn hér að varfærni blaðamanna, og hollusta þeirra við yfirvaldið, sé vandamál sem óháðir og oft minni fjölmiðlar leysa, og að við ættum því að endurskoða það alvarlega hvar við sækjum fréttirnar okkar. Þá þurfum við kannski ekki að láta okkur nægja fjögurra ára gamlar fréttir.


mbl.is Játaði byrlun og aðkomu fjölmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægri-vinstri, heldur þá og nú

Um daginn hlustaði ég á áhugaverða stjórnmálaskýringu í bandarísku samhengi. Þar var vitaskuld rætt um Trump, trans-iðnaðinn, loftslagshræðsluna og fleira slíkt, auk skerðinga á málfrelsi og flótta stofnanablaðamanna frá sannindum sem velta nú upp á yfirborðið. Skýrandinn velti því fyrir sér hvort villta vinstrið myndi ekki bara snúa aftur til fyrri tíma ef völd skipta um hendur þar á bæ, en hann hélt ekki.

Af hverju ekki?

Því nú þegar lygarnar afhjúpast hver af annarri, svo sem í kringum USAID (ekkert að sjá hér) en líka allskyns ritskoðun sem er verið að vinda ofan af, þá rís almenningur loks upp og segir: Hingað og ekki lengra! Ég þaggaði niður í sjálfum mér í mörg ár, en ekki lengur! Ég lét blekkja mig, en ekki aftur! Ég lét féfletta mig, en það stoppar núna!

Þetta séu ekki átök hægri og vinstri heldur er heimurinn einfaldlega að hefja nýja vegferð og þú ert annað hvort með og tekur breyttum tímum fagnandi, eða þurrkast út eins og margir fjölmiðlar eru að gera um þessar mundir - þá aðallega þeir sem klöppuðu fyrir yfirvöldum á veirutímum. 

Þetta snúist heldur ekki um Trump. Hann sest í helgan stein eftir fjögur ár og er bara nýjasta dæmið um róttæka stefnubreytingu kjósenda og ekki einu sinni það róttækasta. Nei, þetta er fjöldahreyfing almennings sem verður ekki tröðkuð svo auðveldlega í svaðið. Hún er jafnvel alþjóðleg.

Á þessu nýja sviði eru bæði hægri- og vinstriflokkar en þeir eru sammála um að snúa aftur til heilbrigðrar skynsemi, eða að því marki sem stjórnmálamenn geta það.

Ekki hægri á móti vinstri heldur skynsemi, rökhugsun og vísindi á móti heilaþvotti, lygum og Vísindunum™ (með ákveðnum greini).


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband