Bloggfærslur mánaðarins, júní 2024

Svarthvíti ráðherrann og það sem er rétt

Utanríkisráðherra skrifaði grein sem birtist í dag þar sem segir meðal annars:

Í flókn­um heimi eru fá mál­efni al­gjör­lega svart­hvít; en land­vinn­inga­stríð Rúss­lands í Úkraínu er eitt af þeim. Rúss­land hef­ur al­gjör­lega á röngu að standa með inn­rás sinni. 

Af þessu leiðir að íslenskir skattgreiðendur þurfa að moka hergögnum í átök Rússa og Úkraínu.

En varla er þetta eina stríðið í heiminum þar sem málið er alveg svarthvítt, er það? Utanríkisráðherra hlýtur að upplýsa okkar hvaða önnur átök eru svarthvít og hvaða átök hafa að baki sér flókinn aðdraganda yfir mörg ár.

Hver er til dæmis skúrkurinn í skylmingum Asera og Armena? Er það kannski eitthvað flóknara mál? Svo flókið að Íslendingar eru ekki látnir taka sér svarthvíta afstöðu og opna veskið í kjölfarið?

Telur forsætisráðherra að aðfarir Ísraela í Gasa þessa mánuðina vera aðra hlið í svarthvítu máli, sem verðskuldar fjárútlát úr vösum íslenskra skattgreiðenda, eða flókið mál þar sem báðir aðilar hafa ýtt við hinum í ár og áratugi og núna gengu hlutir bara of langt? Og þar með ekki hæft til að njóta stuðnings íslenskra launamanna?

En hvað með yfirgang Sádi-Arabíu á Jemen og slátrun á afrískum flóttamönnum? Er það flókið mál sem má alveg færa rök fyrir að sé svolítið báðum aðilum að kenna og því ekki tekið í mál að senda peninga Íslendinga til annars hvors þeirra? Það hlýtur að vera því ekki hefur utanríkisráðherra lýst yfir svarthvítum átökum þar sem þurfi að fóðra með byssukúlum.

Úkraína er ekki í NATO og ætti ekki að vera það og Íslendingar eiga ekki að fjármagna átök þeirra og Rússa - gefa ungum mönnum byssukúlur svo þeir geti látið stráfella sig á vígvellinum (enda eru Rússar með fimm stórskotabyssur á móti hverri einni í höndum Úkraínumanna, að sögn úkraínskra hermanna).

Innganga Úkraínu í NATO er að öllu leyti sambærileg við að Kanada eða Mexíkó gengi í rússneska sambandsríkið og hæfi að setja upp rússnesk flugskeyti við landamæri Bandaríkjanna. Er erfitt að ímynda sér að slíkt geti valdið togstreitu? Auðvitað ekki. Nú fyrir utan aðgerðir til skautunar í samfélaginu, stolnum kosningum og sviknum friðarsamningum

Svarthvíta stríð utanríkisráðherra er það ekki. Íslendingar eru einfaldlega að framfylgja utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem er síður en svo fagur ferill, sama hvað þeir telja sér í trú um annað.


Úthlutanir eru eftirlætið

Ég fæ það á tilfinninguna að fátt veiti stjórnmálamönnum meiri ánægju og jafnvel nautn en að „úthluta“ fé skattgreiðenda í hin og þessi mál, og fá í staðinn mikla fjölmiðlaumfjöllun. Um leið fá þeir tækifæri til að hnykkja á algjörlega glórulausum „markmiðum“ sínum í stjórnmálum, eða svo ég vitni í orð matvælaráðherra Vinstri-grænna:

Hún seg­ir það gleðiefni að út­hlut­an­ir dreif­ist nokkuð jafnt á milli kynja og að skipt­ing milli höfuðborg­ar­svæðis og lands­byggðar sé í jafn­vægi.

Það skiptir sem sagt máli að góð hugmynd komi úr legi en ekki typpi, og frá fámennri sveit frekar en þéttbýli.

Af hverju er ríkið að veita styrki?

Jú, af því það kæfir allar góðar hugmyndir í fæðingu með skattlagningu og skrifræði. Styrkir eru hreinlega forsenda þess að komast í gegnum kerfið. Kerfið þarf því að veita styrki.

Skattgreiðendur: Takk fyrir að fjármagna kosningabaráttu einhvers ráðherra.

Styrkumsækjendur sem fengu ekkert: Megið þið éta það sem úti frýs.

Styrkumsækjendur sem fengu eitthvað: Gangi ykkur vel að eyða tíma ykkar í skýrslur til hins opinbera frekar en lausnir á vandamálum.


mbl.is Úthlutar 491 milljón úr Matvælasjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægris­innaður po­púl­ista­flokk­ur

Þegar ég sé blaðamenn kalla einhverja hægrisinnaða popúlista þá staldra ég aðeins við. Þetta er einhvers konar skammaryrði sem á að búa til hugrenningatengsl hjá fólki. Mögulega að mynda einhvers konar neikvæða tengingu við Donald Trump í Bandaríkjunum eða Geert Wilders í Hollandi. Einhvers konar fýlusprengja. 

Hægris­innaður po­púl­ista­flokk­ur, oj bara!

En þessi aðferðafræði - að reyna mynda neikvæð hugrenningatengsl við meinta popúlista - virkar ekki lengur. Geert Wilders er sennilega valdamesti þingmaður Hollands. Donald Trump er sigurstranglegastur í forsetakosningum Bandaríkjanna í nóvember. Kjósendur eru að breyta um stefnu. Þeir eru að hafna óheftu flæði innflytjenda, glórulausri sóun á fé til að breyta veðrinu og orkuskorti. Evrópusambandið á ekki framtíðina fyrir sér, NATO hefur verið afhjúpað sem árásarbandalag, Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin eru tæki í höndum stjórnlyndra milljarðamæringa, og við ætlum ekki að borða pöddurnar.

Kallaðu þetta hægri popúlisma eða hvað sem er. Að mínu mati er þetta viðspyrna. Kannski hittir hún ekki í mark að öllu leyti, og getur auðvitað sveiflast of langt til baka, en merki um að stjórnmálastéttin hefur aftengst venjulegu fólki, og í lýðræði þýðir það að valkostir myndist við meginstefið.

Tungutak blaðamanna er ekki saklaust val á vel skilgreindum orðum. Nei, því er ætlað að hafa áhrif á okkur, og vera skoðanamyndandi. Þetta gekk vel lengi vel, en ekki lengur.


mbl.is Nigel Farage gefur kost á sér og leiðir flokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Guðni góður forseti?

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er frekar óumdeildur. Hann fær að yfirgefa embætti forseta án gagnrýni og taka alla skrýtnu sokkana með frá Bessastöðum án athugasemda.

En hann var lélegur forseti. Mögulega eins lélegur og þeir gerast.

Hann tók fullan þátt í aðförum yfirvalda að réttindum fólks á veirutímum. Ekki stakt varnaðarorð, að því er ég veit, til framkvæmdavaldsins um að fara varlega með valdheimildir - löglegar og aðrar - og ekki stakt orð til varnar ungum börnum sem voru meðhöndluð eins og holdsveikissjúklingar. Auðvitað voru fjarlægðarmörk lítill vandi fyrir Bessastaði, vel utan við tveggja metra fjarlægðina frá mannlegu samfélagi, en forseti hefði átt að sjá stærri mynd en það.

Hann sagði ekki orð þegar íslenskir skattgreiðendur fengu það verkefni að fjármagna stríð Bandaríkjamanna við Rússa í gegnum strengjabrúðustríðið í Úkraínu. Hann hefur raunar ekki haft neina skoðun á neinum stórum málum.

Hann er sennilega frægustur fyrir sokkaval sitt. Á legsteininn mætti skrifa: Guðni sokkaforseti. Allir myndu skilja það. Það var ekkert annað.

Ég skil vel að hlédrægur fræðimaður hafi átt erfitt með sviðsljósið sem hann bauð sig þó fram í, af einhverjum ástæðum. En þótt enginn hafi búist við miklu þá fengu þeir enn minna en það.

Vonandi er nýr forseti af allt öðru tagi: Opinskár, drífandi og með áhuga á að töluð orð hans fái meiri athygli en val á sokkum.

Það er gott að Guðni ákvað að láta sig hverfa. Það er gott að í staðinn hafi valist andstæða hans.


mbl.is „Þú verður góður forseti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tókst loksins að losna við Katrínu Jakobsdóttur

Halla Tómasdóttir verður sjöundi forseti lýðveldisins Íslands. Kjósendur náðu á seinasta augnabliki að forða Íslendingum frá því að Katrín Jakobsdóttir yrði kjörin. Stuðningsfólk annarra frambjóðenda sem höfðu mælst háir í könnunum völdu í kjörklefanum að styðja frekar við Höllu til að koma loksins Katrínu Jakobsdóttur af sviðinu. Það tókst sem betur fer.

Ekki að Katrín hefði endilega þýtt einhverjar hörmungar fyrir Íslendinga. Völd forseta felast aðallega í því að hleypa kjósendum stöku sinnum að ákvarðanatöku þingsins. Kannski of oft, kannski of sjaldan. Sem talsmaður Íslendinga erlendis myndi fátt breytast frá því sem nú er: Talað um að skipta frá olíu í rafmagn en í framkvæmd að láta hið gagnstæða gerast. 

Núna er leitin hafin að einhverju feitu starfi fyrir Katrínu í útlöndum, á kostnað skattgreiðenda, en skattfrjálst. Kannski Sameinuðu þjóðirnar geti tekið við henni, eða Evrópusambandið ef því er að skipta. Kannski NATO, til að fullkomna kaldhæðnina. 

Ég held að Halla Tómasdóttir muni ekki halda kjafti í embættinu, sem er gott. Hún ætlar að vísu ekki að vera öryggisventill en hún segist munu tjá sig um umdeild mál þegar þannig liggur á henni og er opin fyrir því að hleypa landsmönnum að ákvarðanatöku þingsins. Þetta verður engin skelfing. Henni óska ég til hamingju með kjörið.


mbl.is Halla Tómasdóttir kjörin forseti Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband