Bloggfærslur mánaðarins, júní 2024

Gamalt vín í nýjum belgjum

Um daginn skrifaði ég grein á vefritið Krossgötur um svokallað nýmál (newspeak) hins opinbera. Nýmál er breyting á tungumálinu til að hafa áhrif, vekja hughrif eða jafnvel ná stjórn á hugsunum fólks. Við sjáum í sífellu ný dæmi um slíkt mál. Stríð er friður, lyfjagjöf er heilsa, ritskoðun er fræðsla. 

Úr grein minni:

Okkur er sagt að hið opinbera hafi nú keypt „kynjuð skuldabréf“ eða „sjálfbær skuldabréf“ sem eru bara aðrar leiðir til að segja að ríkisvaldið sé að steypa sér í frekari skuldir, en í meiri mæli að eyrnamerkja þær ákveðinni eyðslu. Þessu má líkja við að á heimili sé sótt um nýtt kreditkort fyrir hverja sólarlandaferð, „sólræn skuldabréf“ á tungutaki hins opinbera.

Blaðamenn taka yfirleitt fullan þátt í svona orðaleikjum og virðast vera ánægðir með hlutskipti sitt sem illa launaðir fjölmiðlafulltrúar. Háskólasamfélagið er himinlifandi enda er því oft falið að smíða orð til að réttlæta ritskoðun, skautun og nýjustu delluna. 

Við hin verðum bara að vera á varðbergi og reyna kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Grænt skuldabréf er nýr yfirdráttur. Sjálfbært skuldabréf er nýtt kreditkort. Sóttvarnaraðgerðir eru smækkuð útgáfa af fasisma. Baráttan gegn mein- og misupplýsingum er ritskoðun. Yfirvöld eru valdhafi, ekki þjónn almennings.


mbl.is Hvernig getur skuldabréf verið kynjað?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegna hæsis!

Í nótt fóru fram kappræður milli fráfarandi forseta og núverandi forsetaframbjóðanda, Trump, og núverandi forseta, Biden.

Kappræðurnar voru svo mikil skelfing fyrir Biden að allt hans stuðningslið er að míga í brækurnar og jafnvel að þrýsta á að Biden verði látinn víkja fyrir öðrum. Biden stamaði, fraus, muldraði og ruglaðist á milljón og billjón, svo eitthvað sé nefnt. Maðurinn er jú búinn á því í hausnum, sem er sorglegt en satt.

Mætir þá RÚV til leiks:

... átti Biden oft erfitt með að gera sig skiljanlegan vegna hæsis.

Vegna hæsis!

Ég skil vel að menn vilji reyna að verja sinn mann. Sumir gera það með því að benda á rangar fullyrðingar Trump og reyna þannig að draga athyglina frá hinu raunverulegu vandamáli (því að Bandaríkjaforseti er andlega úr leik). En RÚV skýtur vel yfir markið. Hæsi kom því ekkert við að Biden var óskiljanlegur. Rödd hans var í alveg sæmilegu lagi.

En þetta fá íslenskir skattgreiðendur að borga fyrir: Hreinar og klárar lygar, vafðar inn í áróður.


Evrópska veikin

Ég les í tölvupósti sem ég bað ekki um en las engu að síður:

At the start of the 21st century, 41 of the world’s 100 most valuable companies were based in Europe. Today that number has dropped to 19, with Novo Nordisk the only European firm represented in the top 20.

Og spurningu er beint að mér: Hvernig stendur á þessu? Hvernig getur Evrópa aftur orðið að heimavelli stórra og sterkra fyrirtækja?

Lifa menn í svona algjörri afneitun? Svarið er augljóst. Menn þurfa einfaldlega að hætta að grýta höfnina sína og þá geta skipin áfram lagt að bryggju. 


Til hvers?

Senn líður að forsetakosningum í Bandaríkjunum. Í boði er óheflaður dóni og elliært gamalmenni. Menn geta haft þær skoðanir sem þeir vilja á pólitík þeirra en þetta er valið þegar kemur að persónum. 

Á meðan vestrænir blaðamenn átta sig á því að Trump er óheflaður dóni, og segja frá því við hvert tækifæri, þá reyna þeir eins og þeir geta að slá ryki í augu okkar þegar kemur að elliæra gamalmenninu sem er núna í páfagaukaþjálfun og verður svo sannarlega á örvandi efnum í komandi kappræðum. Til hvers? Af hverju að leggja á sig langar krókaleiðir til að afneita því að Biden eigi að vera á hjúkrunarheimili, ekki í Hvíta húsinu? 

Hvað rekur vestrænan blaðamann að lyklaborðinu til að gera það?

Ekki eru það launin, svo mikið er víst.

Sennilega bölvar vestræni blaðamaðurinn bandarískum kjósendum fyrir að ætla sér að kjósa óheflaðan dóna en ekki elliært gamalmenni. Þetta lýðræði er ekki alltaf gott, er það?

Mikið væri hressandi að fá góða greiningu af viðhorfum bandarísks almennings til núverandi forseta, sem er eins fjarri því að vera við stjórnvölinn og hægt er að hugsa sér og allir sjá það, og þess fráfarandi sem á það afrek á afreksskránni að hafa ekki stofnað til nýrra stríðsátaka - fyrsta Bandaríkjaforsetanum til að takast slíkt í áratugi.

En bjartsýni mín er hófleg. 

Þess í stað fáum við að lesa langa frétt sem segir allt nema það sem blasir við: Komandi kappræður verða sviðsettar að eins miklu leyti og hægt er, og munu þar mætast einn sem er málglaður og annar sem er páfagaukur.


mbl.is Biden æfir sig í flugskýli fyrir kappræðurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð sem miðill, orð sem blekking

Í dag birtist eftir mig grein á vefritinu Krossgötum með sömu fyrirsögn og þessi færsla: Orð sem miðill, orð sem blekking.

Mér finnst boðskapurinn þar mikilvægur. Við búum ekki í harðstjórnarríki sem myrðir fólk og dæmir í fangelsi án dóms og laga (hins opinbera), enda myndi það (vonandi) vekja upp neikvæðar tilfinningar í hugum okkar og sumum gæti jafnvel dottið í hug að andmæla.

Nei, þess í stað er okkur stjórnað með orðum og nýjum skilgreiningum á þeim. Það er til dæmis erfitt að henda tölu á orðsmíðar sem þýða í raun að ritskoðun sé alveg frábær, án þess að segja það beint. 

Ég vil hvetja alla til að passa sig á þessum leik yfirvalda og strengjabrúða þeirra meðal háskóla, fyrirtækja og blaðamanna. Allir þessir fjölmiðlafulltrúar hins opinbera eru um leið á launaskrá þess í síauknum mæli.

Í dag er okkur til dæmis sagt að stríð sé friður, og að sprautur séu heilbrigði.

Veirutímar voru hræðilegir fyrir samfélag og hagkerfi manna en afhjúpuðu um leið vopnabúr yfirvalda til að ná á þér fullum tökum. 

Vaknaðir þú við það?


Blórabögglarnir

Ímyndum okkur veitingastað hvers eigandi ákveður af hjartagæsku sinni að bjóði upp á niðurgreiddar barnamáltíðir. Þetta gæti eigandinn gert af mannúðarástæðum - börn þurfa að borða - en einnig viðskiptaástæðum - foreldrar koma með börn sín og borga fullt verð fyrir sjálfa sig sem borgar upp niðurgreiddu barnamáltíðirnar. 

Á þessum afslætti fyrir barnamáltíðir eru engin sérstök takmörk og skyndilega fer fullorðið fólk að panta þær. Fullorðinn maður pantar jafnvel tvær barnamáltíðir til að verða mettur. Starfsmenn staðarins benda eigandanum á hvað er að gerast en hann heldur fast í afsláttinn og innleiðir engin sérstök takmörk. Hann var jú búinn að lofa einhverju! Hann er skuldbundinn!

Fyrr en varir sjást engin börn á staðnum, allir panta barnamáltíðir og veitingastaðurinn fer að tapa stórfé og fer á endanum í gjaldþrot.

Nú gæti einhver sagt að þessi eigandi hafi ekki verið starfi sínu vaxinn. Hann hefði átt að takmarka aðgengi að barnamáltíðunum við eitthvað sjálfbært: Bjóða börnum upp á lægra verð en loka á misnotkun fullorðinna.

Einhver annar segir hins vegar sagt að þetta fullorðna fólk ætti að vita betur og vera ekki að misnota sér svona gott boð.

Persónulega finnst mér bæði vera rétt: Eigandinn bjó til ómótstæðilega freistingu og fólk freistaðist.

Er ekki vandamál hælisleitenda á Íslandi og mun víðar af nákvæmlega sama tagi?


Bandarískir hagsmunir ofar öðrum

Senn líður (vonandi!) að því að Julian Assange sleppi loksins úr frelsissviptingu.

Senn líður (því miður!) að því að hermenn NATO-ríkja labbi yfir landamæri Úkraínu til að hefja beint þar stríð við Rússa. Hver veit, kannski tortímist í kjölfarið heimurinn.

Það er alveg hreint magnað hvað hagsmunir bandarískra yfirvalda (ekki almennings!) ráða oft mikið för í Evrópu og víðar. Ef bandarísk yfirvöld vilja tortíma bændum og hirðingjum einhvers staðar í heiminum þá hlaupum við á eftir slíkum markmiðum. Ef þau vilja stöðva vinnu einhvers blaðamanns eða grafa í djúpan kjallara uppljóstrara sem deilir ólöglegum njósnaverkefnum þá hjálpar heimurinn þeim að elta uppi fólk og loka inni. Tefur það kannski aðeins að framselja, en samt.

Nú má vel vera að okkur líði vel undir pilsfaldi Bandaríkjanna. Þau hafa jú vissulega verið skárri herra en margir aðrir. En er það að breytast, eða er löngu breytt? Eftir stanslaus stríð í áratugi er Bandaríkjunum að takast óþarflega vel að kljúfa einn heim upp í tvo og horfa svo upp á hinn helminginn þétta raðirnar. Markmið bandarískra yfirvalda eru kannski ekki lengur okkar markmið.

Kannski mun frelsun Assange breyta einhverju. Efla kjark einhverra. Það á eftir að koma í ljós. En honum tókst að sleppa úr klóm bandarískra yfirvalda. Á meðan stefnir í að ungir karlmenn í Evrópu endi sem lík á sléttum Úkraínu. Getur Evrópa gert það sama og Assange?


mbl.is 14 ára frelsissviptingu ljúki á næstu 24 klst.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýmarkaðsríki, hvað?

Sjóðstjóri sem sérhæfir sig í fjárfestingum í nýmarkaðsríkjum segir að finna megi marga spennandi fjárfestingakosti í þeim löndum. Nefnir hann í því samhengi Kína, Ind­land, Bras­il­íu og Suður-Afr­íku. Hagvöxtur sé mikill í þessum ríkjum og gjarnan vel yfir hagvexti í þróaðri hagkerfum.

Þá höfum við það. 

En það er mögulega svolítill vandi á ferðinni hér fyrir fjárfesta á Vesturlöndum. Nú vill svo til að Kína, Indland, Brasilía og Suður-Afríka eru aðilar að samstarfi með engum öðrum en Rússum, og kallast það í bili BRICS (Brazil, Russia, India, China, South-Africa), en nýir meðlimir hafa streymt að á seinustu misserum og margir umsækjendur bíða eftir inngöngu. 

Aðilar BRICS vilja minnka vægi dollarans í alþjóðaviðskiptum og lágmarka skaðann af stjórn Vesturlanda á fjármálakerfi heimsins sem hefur núna verið vopnavætt til að styðja við herskáa utanríkisstefnu Bandaríkjanna, svo sem með því að stela eignum, frysta peninga og hindra flutninga á fjármagni. Það þarf engan sérfræðing með doktorsgráðu til að sjá að slíkar aðgerðir hafi afleiðingar og ekki endilega á þann hátt sem menn sáu fyrir.

Það sem við köllum nýmarkaðsríki eru hagkerfin sem í fyrirsjáanlegri framtíð munu standa undir megninu af verðmætasköpun heimsins. Í þeim er ekki verið að stöðva orkuöflun heldur hraða á henni. Í stað viðskiptahindrana eru viðskipti að aukast. Í stað fólksfækkunar er fólksfjölgun.

Auðvitað er staða mannréttindamála oft slæm og lýðræði vart að finna í sumum ríkjanna sem við köllum nýmarkaðsríki. En þetta er víða á réttri leið. Með auðsköpun verður til millistétt og með millistétt myndast krafa á yfirvöld að dreifa völdunum, hreinsa umhverfið, byggja innviði og bæta mannréttindi, og á meðan þetta getur tekið lengri tíma en við kærum okkur um þá er enginn valkostur við auðsköpun til að auka völd borgaranna. 

Það sem við köllum nýmarkaðsríki eru ríki sem eru að hefja flugið á meðan Vesturlönd þurfa að undirbúa brotlendingu.

Það er alls ekki víst að þau hreinlega kæri sig um peninga okkar og hvað þá stjórn okkar. Sjóðsstjórar á Vesturlöndum þurfa mögulega að smakka sama meðal og Vesturlönd hafa reynt að gefa nýmarkaðsríkjunum.

Það má bara vona að Vesturlönd hætti fljótlega að reyna koma á heimsstyrjöld sem tortímir okkur öllum og fari í staðinn að taka þátt í samstarfi við aðra heimshluta. En bjartsýni mín er hófsöm.


mbl.is Tækifæri liggi í nýmarkaðsríkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá þér til þín

Núna stendur yfir dreifing á bók sem ríkisvaldið hefur látið útbúa fyrir peningana þína í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins Íslands og hægt er að fá endurgjaldslaust. Gjöf til landsmanna. Frá landsmönnum. Efni bókarinnar er svo lýst:

Í þessari bók er rakin saga af ímynd fjallkonunnar, sagt frá því hvenær hún verður til í orði, hvenær og hvernig hún tekur á sig mynd, hvenær hún tekur til máls og hvað hún hefur haft að segja okkur á liðnum áratugum og allt til samtímans.

Mikilvægara lesefni er erfitt að ímynda sér. Fyrir allar milljónirnar sem fóru í að framleiða lesefni fyrir landsmenn er varla hægt að fá meira fyrir peninginn. 

Með tíð og tíma munu þessar bækur enda á bóka- og nytjamörkuðum og vera þar í stórum stæðum við hliðina á gömlum Andrésblöðum og þýddum ástarsögum. Þessar bækur gætu líka endað í sumarbústöðum sem eldsmatur í arininn. Þær má nota til að þurrka laufblöð. Svo má auðvitað nota þær til að drepa flugur sem sleppa inn um gluggann.

Gjöf, frá þér til þín, nothæf til margra hluta en sennilega síst til að afla sér nothæfrar þekkingar.

Takk fyrir, ríkisvald!


mbl.is Fjallkonunni dreift í 28.500 eintökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópska lýðræðið

Um daginn kusu íbúar Evrópusambandsins til Evrópuþingsins. Það má miklu frekar kalla þær kosningar eina stóra skoðanakönnun enda breyta niðurstöðurnar í engu því hverjir ráða í raun þar á bæ. Óformlegir kvöldverðir forsætisráðherra Evrópusambandsins eru í staðinn sá vettvangur þar sem völdunum er skipt, eða eins og segir í frétt DW:

Scholz, Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu og endurnýjaður frambjóðandi von der Leyen, hittust á hliðarlínunni á G7 leiðtogafundinum í Apúlíu á Ítalíu í síðustu viku til bráðabirgðaviðræðna um æðstu störf ESB.

Nú á mánudaginn „lögðu allir 27 leiðtogarnir spilin sín á borðið“ við óformlegan kvöldverð í byggingu Evrópuráðsins í Brussel, að sögn diplómata ESB. Fljótlega bárust fréttir af því að búist væri við að Antonio Costa, fyrrverandi forsætisráðherra Portúgals, yrði næsti leiðtogi leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Costa, sem er mið-vinstri sósíalisti, er fulltrúi suðurríkja sambandsins.

Kaja Kallas, frjálslyndi forsætisráðherra Eistlands, gæti á sama tíma orðið nýr utanríkismálastjóri ESB, sem fulltrúi austurhluta aðildarríkja sambandsins. Kristilegi demókratinn Roberta Metsola, sem gegnir nú embætti forseta Evrópuþingsins, gæti setið áfram í tvö og hálft ár í viðbót, fulltrúi smærri suðurríkja ESB.

**********

Scholz, French President Emmanuel Macron, Italian Prime Minister Giorgia Meloni and renewed candidate von der Leyen met on the sidelines of the G7 summit in Apulia, Italy, last week for preliminary talks to discuss EU top jobs.

This Monday, all 27 leaders "put their cards on the table" at an informal dinner at the European Council building in Brussels, according to EU diplomats. News soon emerged that Portugal's former prime minister Antonio Costa was expected to become the next head of the European Council. Costa, a center-left Socialist, represents the bloc's southern countries.

Estonia's liberal Prime Minister Kaja Kallas, meanwhile, could become the new EU foreign policy chief, representing the bloc's eastern member states. Christian Democratic Roberta Metsola, who currently serves as President of the European Parliament, could remain in office for another two-and-a-half years, representing smaller southern states in the EU.

Þá vitum við það. Völdunum er skipt yfir steik og rauðsvínsglasi í góðra vina hópi þar sem allir fá eitthvað fyrir sinn snúð, enda nóg af embættum til skiptanna. 

Nema auðvitað þessir öfgahægrimenn sem röskuðu nætursvefni margra í smástund eða þar til menn áttuðu sig á því að kosningar til þings voru í raun skoðanakönnun án áhrifa. Nema auðvitað að það takist að rugga bátnum, en sjáum hvað setur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband